< Punktar um passíu

 

 

 

Endir?

 

Eftir glas og aftur glas og glas?

 


Myrkrið var of svart að hún greindi einn hlut frá öðrum; hún svipaðist um, þreifandi fyrir sér, ef vera kynni að enn einn stiginn lægi upp. En svo var ekki. Hún var komin upp undir rjáfur. Loftið titraði fyrir voldugum hljómi klukknanna sem enn glumdu án afláts, nú í mikilli nánd einhvers staðar enn ofar höfði hennar, en langt neðan greindi hún enn lágan óm af kórbræðranna og kórsystranna náttsöng. Hún eigraði um nokkra hríð og hugsaði hvort hið næsta væri þá að leita sér næturbælis. Eða hvers leitaði hún annars hér? Hana bar að dyrum, fann hún þegar hún þreifaði fyrir sér. Eftir nokkurt hik áræddi hún að berja að dyrum, bankaði í hurðina með hamrinum.

Fitlað var við dyrnar innanverðar, opnuð dálítil lúka ofan til á hurðinni og rekið út nef. Í næstu andrá voru dyrnar opnaðar, en kona nunnu líkust í bleikum kufli, með hettu dregna yfir höfuð fram, lét skriðbyttu kasta glampa út um gættina.

Glampinn féll á hana guðsvolaða í nýju dragtinni sinni, á að líta sem hún hefði sloppið úr klóm ræningja á leiðinni frá Paradoxa til Omdúrman. Hún stóð þarna við þröskuldinn öll útötuð eins og úr mógröfum, með hamarinn milli handanna, hendurnar líkastar sem blóðugar glæpamannshendur, og enn verkjaði hana í kjúkur allar og bein. Hún var gegndrepa eins og kjöldregið afhrak; dropar seytluðu niður eftir andlitinu eins og tóbakstaumar, það voru tár í bland við vín, sem enn draup henni úr hári.

Nunnan leit á hana hvössum augum en virtist þó sem ekkert fyndist henni sjálfsagðara en að hún liti út fyrir að vera nýsloppin af vitfirringarhæli, ansaði engum kveðjum, en spurði formálalaust:

Kannt þú á lyftur, hróið mitt?

Lyftur? Málmur klukknanna umdi og umdi höfðum þeirra ofar og þó sem heldur væri ymurinn að fjara út.

Gamli ratatoskur stendur eitthvað á sér, hélt nunnan áfram og leiddi hana inn fyrir þröskuldinn.

Ratatoskur?

Já, ratatoskur. Gamla lyftan, svaraði nunnan og brosti þurru brosi. Hún heitir það.

Það stóð heima, fyrir innan stóðu lyftudyr opnar en inni í lyftunni sat einhver í hjólastól, krúnurakaður og í mjallhvítum dándifötum. Hann sneri í þær baki.

Completorium er að ljúka, sagði nunnan áhyggjufull. Hann kemst ekki til að veita sakramentin, og að byrja magnum silentium.

Magnum silentium?

Já, magnum silentium.

Henni varð litið á fornfálegt hnappaborðið. Það stóð heima — Ratatosk® var grafið í verksmiðjuplötuna. Sem sagt skráð vörumerki einhvers lyftuframleiðandans. Líklega framliðins, eftir fornfáleikanum að dæma. Og sá þá sér til undrunar að stanstippið var niðri. Varla von að hún hreyfðist úr stað!

Stanstippið er niðri, benti hún nunnunni á og ýtti því upp með hamrinum. Sá hún þá sér til enn meiri undrunar að það var hennar fyrrum og ástkær sem í stólnum sat, sem honum í sömu mund varð litið á hana yfir öxl sér, svo gapandi af undrun að hann missir út sér pípuna.

Færð þú að ganga! sagði hann furðulostinn og tók af henni hamarinn eins og hann ætti hann, eins og væri honum jafn náinn og pípan, sem hann jafnframt stakk aftur upp í sig. Om maní padmí húm. Sésésé þökk sé!

Virtist þó sem undrun hans og bænheit orðin stöfuðu af því einu að hún upprétt gengi en ekki af því að hún væri hún eða af því að hún hefði komið með hamarinn.

Gamli prakkarinn að verki, ætli ekki það, sagði nunnan og andvarpaði. Líkt gamla fólinu. Gott hún kann á lyftur, þú kemst þá á vaktina þína. Löngu komið glas.

Og umsvifalaust lagði hún aftur hurðina og ljós yfir dyrum sýndu að gamli ratatoskur var lagður af stað niður.

Eins og þau væru í boðhlaupi. Með þennan gamla, ryðbrunna hamar fyrir kefli!

Mætti ég þá biðja þig að koma með mér, sagði konan og vísaði henni inn í snoturt biðherbergi, hvar yfir dyrum var letrað Tíminn og hvolfið um kring, en herbergið virtist liggja að sal einhverjum meiri; hún kveikti ljós og hvarf síðan á sínum bleika kjól.

Það leið drjúg stund, og hún beið. Allt var hljótt, klukkur og söngur þagnaður, nema að innan úr salnum heyrðist hvinur líkast sem einhverju væri ekið fram og aftur eftir gólfinu.

Á veggnum hékk náðarmynd af guðsmóður með angann sinn, ásýndum eins og uppdubbuð hafgúa, í bosmamikilli krínólínu innan í dragsíðum kjól lifrauðum og gullsaumuðum, með kórónu á pínulitlum kollinum. Undir myndinni var grafið í lítinn silfurskjöld: Consolatrix afflictorium. Það var næsta kátlegt trix, fannst henni, að frú þessi skyldi eiga að vera huggun sorgmæddra. Eins og hallærisleg fjallkona með gullfrosk í fanginu. Skyldi hann hafa skriðið úr hrafns eða dúfu eggi? Yfir salardyrunum hékk ein átakanlegust krossfestingarmynd hún gat ímyndað sér að til væri í heimi, því að svitinn, tárin og blóðið sem seytlaði niður á brjóstið var ekki eins og mynd af svita, tárum og blóði, heldur var sviti, tár og blóð. Og augun hvarfla til og frá í dauðastríðinu, líta stundum til hennar, áminnandi eins og þau vildu segja eitt sinn skal hver deyja, en stundum til guðs hrópandi faðir, faðir!

Skyldi líkamningur þessi gefa upp andann í nótt? Því kallaði hann ekki á mömmu sína líka, þessa fósturlandsins freyju?

 

Pax

Hann lýkur snögglega upp hurðinni, staðnæmist í dyrunum, afar lágvaxinn skapnaður ásýndum, klæddur hrafnsvartri kápu skósíðri, hendur hans faldar í kápuermunum, spenntum greipum. Hann er þó ekki svo lágvaxinn sem henni virðist í fyrstu, því að hann situr í hjólastól, sér hún þegar betur er að gáð.

Hún þekkir hann varla, eða er þetta benediktsmunkurinn? Hvað er hann að gera í hjólastól? Hefur hann orðið fyrir slysi?

Rammgert svipmikið höfuð hans er óskýlt nema á krúnunni situr svört hvirfilkolla. Hann er fölur á vangann en augnsvipurinn því máttugri, munnurinn lokaður; frá honum stafar krafti og köldum strangleik. En þegar hann sér hana fer ótrúlega þýtt bros um andlit hans, og í einu vetfangi hefur strangleikurinn breyst í mildi. Hann hringsnýr sér kampakátur í stólnum og hjólar sér inn salinn, raunar spíttar eftir gólfinu endilöngu, snýr sér þá enn og hjólar til móts við hana, breiðandi út faðminn, að bjóða henni að ganga í bæinn.

Pax. Friður sé með yður. Ut in omnibus glorificetur deus. Drottins dýrð sé með oss öllum.

Fyrirgefið, faðir, að ég ónáða yður, stumraði hún upp, steig inn fyrir þröskuldinn og kraup á kné við fætur hans. Ef guð er til þá er allt hégómi nema hann. Þjáningar mínar hafa yfirstigið öll takmörk. Segið mér, haldið þér að guð sé til? Og hvað heimtar þessi guð? Að ég fingurbrjóti mig?

Barlómur er þetta! Rísið heldur á fætur, góða mín, og verum hugrökk! svaraði faðirinn. Það er guð sjálfur sem hefur vísað yður veginn hingað, og yðar bíður mikil hátíð. Hvað guð heimtar, spyrjið þér. Hann heimtar aldrei nema eitt: að þér komið til hans eins og lítið barn. Þegar Kristur skorar á nútímamanninn til fylgdar við sig skipar hann honum ekki að yfirgefa föður og móður, systur og bræður, maka, börn og heimili, því nútíminn hefur fyrir löngu snúið baki við þessu öllu, og það er honum lítils virði. Þess vegna segir Kristur við nútímamanneskjuna: Yfirgef skoðanir þínar, áhugamál, hugsjónir, sannfæringu og þekkingu; hætt að berja lóminn, tak kross þinn á herðar og fylg mér. Nema þér snúið við og verðið eins og börnin komist þér alls ekki inn í himnaríki —.

Og hann rétti henni hjálparhönd úr stólnum, að hún mætti rísa á fætur. Brosti í augu hennar af djúpri mildi.

Rúllaðu mér nú aðeins áður en þú ferð að lúlla þér, sagði hann. Mér leiðist svo magnum silentium, þessi mikla og langa, óbærilega þögn.

Hún gekk af stað með hann á undan sér en hann hló eins og lítið barn. Einn, tveir, þrír, hlaupa, hló hann. Hraðar, miklu hraðar, einn, tveir, þrír. Magnum festinum! Syngjum og kætumst í drottni! Magnum sonitus! Einn tveir, þrír!

 

Ég þekkti einu sinni fatlafól

sem flakkaði um í hjólastól

með bros á vör og berjandi þó lóminn

hann ók loks í veg fyrir valtara

og varð að klessu – ojbara

þeir tóku hann upp með kíttisspaða

og settu hann beint á sjónminjasafnið

 

Hún hljóp og hljóp með hann fram og til baka eftir salnum. Bæði sungu hástöfum, hann skríkti af kátínu. Je suis le fou de bon dieu!

Jesús hvað?

Drottins fól, mín kæra. Je suis. Það er ég. Bjáni drottins. Einn, tveir, þrír! Maximum sonitus! Miklu hærra! Hærra! Saman nú! Einn, tveir, þrír!

 

Fatlafól fatlafól

flakkandi um á tíu-gíra-spítthjólastól

ók loks í veg fyrir valtara

og varð að klessu – ojbara

þeir tóku hann upp með kíttisspaða

og settu hann beint á sjónminjasafnið

 

Hann ætlaði aldrei að geta hætt. Hærra, hærra! Hraðar, hraðar! skríkti hann og lét hana snúast með sig líkast sem hún ætti að heita dansherra en hann daman. Á eftir gripu bæði andann á lofti, hún uppgefin, lafmóð eftir öll hlaupin og snúningana, en hann lengi skríkjandi eins og ómálga barn, brosandi út að eyrum.

Pax, sagði hann loks þegar hann mátti aftur mæla. Mikið var þetta gaman. En mikil firn er að sjá útganginn á yður, góðan mín — og öll blóðug eða hvað! Þér hafið þó ekki staðið í áflogum? Ut in omnibus glorificetur deus. Og ekki með neitt koffort með yður? Hvað um það, ég læt útvega yður að minnsta kosti hrein nærföt, þér eruð öll blaut. Og látum okkur sjá hvort við finnum ekki á yður hreina dragt fyrir vaktaskiptin. Hvernig skiptið þið annars tíðum, abbadís mín góð? Ein ein eða tvær tvær? Ef ábóti litli tekur completorium og matutinum, þá eigið þér laudes og prima, ábóti síðan tertia og sexta, og þér nona og vesperae. Þá veit hvort hvað til síns friðar heyrir. Eða er það ekki betra svo heldur en ein ein, vera þá ræst til skiptis á hverri tíð, á þriggja tíma fresti! Þið yrðuð úrvinda. Pax nihili! Friðurinn úti.

Hann lét klingja í litilli bjöllu og opnuð var þung eikarhurð svört, þar sem orðið clausura stóð málað fyrir ofan rauðum stöfum. Nunnan birtist í dyrunum, ábúðarmikil á kjól sínum bleika, náttserk eða hvort var hefðbundinn kvöldklæðnaður.

Settir þú ratatosk á stans, góði minn? spurði hún hann formálalaust, áminnandi augum .

Hann einungis leit til hennar með stríðnisbros leikandi á vörum.

Áttu ekki einhvern bita handa henni, Lína mín?

Hún hvarf en faðirinn rúllaði sér að dyrum öðrum fyrir enda salarins, en yfir þeim var ritað abbadís litla með bleiku letri. Hann hvarf þar inn að snúast í einhverju.

Alls voru fjórar dyr á salarkynnum þessum, einar á hverja hlið. Fyrir hinum enda salarins var ritað ábóti litli yfir dyrum með bláu letri, en yfir dyrunum hvar hún hafði komið inn stóð einfaldlega ratatosk® með svörtu letri, andspænis dyrunum clausura. Annars var ekkert að sjá í salnum. Alls ekkert nema þakglugga þar sem blasti við stjörnubjartur himinn og kaðalspotti sem hékk einhvers staðar ofan úr rjáfri. Gólfið var mjög máð og slitið, hafði auðsjáanlega verið mikið spíttað eftir því í hjólastólnum.

Var spottinn freisting fyrir hana lögð? Var henni boðið að hengja sig?

Stundarkorni síðar, þegar nunnan birtist aftur, hékk hún þó hvergi, og var nunnan nú öllu altillegri en í fyrstu, setti fyrir hana bakka á gólfið með þykkum graut í skál og steiktum eggjum á fati, jarðarberjum, salati og brauði, skenkti henni súru víni á glas. Þá uppgötvaði hún með sjálfri sér að hún var hungraðri en útigangshestur, minntist þess að hún hafði ekki nærst síðan um morguninn áður en hún lenti á sjónminjasafninu. Hún settist með krosslagða fætur og hrauð öllu í sig í einu vetfangi. Að því loknu var hún mett og reis á fætur.

Nunnan hinkraði um stund eftir því að hún gæfi guði þakkir að loknum snæðingi, en þegar það brást bað hún hana að fylgja sér inn í herbergið abbadísar litlu. Einungis skóhljóðið eitt truflaði djúpa næturþögn hússins.

Furðulegt með þennan föður eða munk eða hver hann var. Hans gætti hvergi þar inni, hafði enn gufað upp. Hjólastóllinn einn var til merkis um síðustu spor hans. En nunnan óskaði henni blessunar og góðrar nætur. Við vonum að ekki slái að þér. Nú sefurðu mikið og vel. Guð láti engla sína vaka yfir þér, hróið mitt. Ég ræsi þig í fyrramálið fyrir óttusöng efri, eða standiði ekki annars vaktir sex sex? Guð gefi þér heilaga drauma.

Nunnan hvarf síðan og lokaði hljóðlega. Þetta háaloft var eins og hjarta samlyndra hjóna. Hvílík kyrrð, hvílíkur friður! Skyldi þetta vera gamalt barnaherbergi þeirra, en fuglarnir flognir úr hreiðrinu? Og hún grét eins og lítil stúlka og grillti þá gegnum tárin að þetta var herbergið hennar, íbúðin hennar litla með öllu ömmudótinu. Meira að segja Skjaldar leygur stóð úti í glugga! Eins og heimspekingur að telja stjörnurnar. Eða að huga að einhverjum náttúrunnar nývirkjum. Það guð mátti vita. Og með engu skarði í horni og með gullhettunni á sínum stað á stút!

Herbergið virtist hafa verið útbúið í snatri; sópur stóð við dyrnar, vottur þess að bjáni drottins hefði nýlokið að sópa, sængurklæðin drifhvít í rúminu með hreinum nærfötum. Vinnuborðið hennar stóð út frá glugganum og á borðinu tölvan hennar snotra. Gamli leðurstóllinn ömmu hennar tók sig ágætlega út inni í horni. Og gamli glerbókaskápurinn hennar við einn vegginn og skattholið við næsta vegg og geymdi það sem eftir var af gamla langbylgjutækinu hennar ömmu hennar. Varla myndi þó heyrast hljóð neitt úr því horni, varla einu sinni gömlu gufunnar dáinna orð, heilajúnitið nú einhvers staðar týnt og tröllum gefið.

Hún fékk sér aðeins í nefið og undraðist að engin voru merki þess að geymt hefði mjólk. Núna hefði hún þó vel getað hugsað sér smá mjólkursopa. Gott í magann fyrir svefninn. Og þó, varla ofan í súrt vínið. En guð, hve hún þráði að komast í bað. Og hún lét renna á meðan hún afklæddist dragtómyndinni.

 

Lyftubilun nr. 2

Hún vaknaði við klukknahljóm snemma morguns. Fiðrildi kitlar hana í nefið. Í sömu mund var klappað á dyr. Ræs, ræs! Að koma glas! Upp! Vak! gall rödd við fyrir handan og hún heyrði að það var nunnan. Já, já! kallaði hún á móti. Hún var aum um allan skrokkinn. Gat verið! Hún hefði ekki átt að hlaupa svo mikið í gærkveldi. Fyrst upp alla stigana og svo hlaupin með munkskepnuna í stólnum. Bakslag, það fór ekki á milli mála! Hún var þó heldur skárri orðin í fingrunum.

Tandurhrein, mjallahvít dragt hafði verið lögð yfir bakið á hjólastólnum hjá rúminu. Nýr hálsklútur lá hjá og hrein blússa, á gólfinu dándiskórnir nýburstaðir, angandi af ilmandi leðurfeiti. Það var rétt með erfiðismunum að hún gat klæðst en treysti sér engan veginn til að ganga. Hún mjakaði sér yfir í stólinn og snyrti sig sitjandi í stólnum inni í baðherberginu, furðandi sig á því hver væri í speglinum fyrir handan. Hún var öll svo tekin í andliti að það var með naumindum að hún þekkti sjálfa sig fyrr en hún hafði frískað upp á skinnið með smá farða og lit. Henni fannst núna að demantsróðan yki sér mátt, sjálfstraust allavega hið innra. Upp, upp, niður, niður, sagði hún sem hún vóg sig upp og tók upp um sig og niður um sig og yfir á klósettskálina og aftur til baka að unninni skák, og þakkaði svo róðunni, farðanum, dragtinni, hálsklútnum, silkiblússunni, armlíninu, gullhnöppunum, dándifótabúnaðinum, öll herlegheitanna kraftaverkin. Amen.

Aðeins var farið að birta. Ymur klukknanna fór stígandi, boðaði laudes, að brátt byrjaði óttusöngur hinn efri. Hún rúllaði sér að glugganum Skjaldar leygs þaðan sem ofan sá yfir hálfan heiminn eins og dúkkuhúsabyggð undir rísandi dagsbrún, en hálft um kring Boulevard périphérique í firðinni, blikandi ljósum mót dvínandi himins stjörnum. Næst sér litið sá hún niður á Boulevard du Montparnasse líkast le temps diamétrique þvert á périphérique. Eins og gjá skammtímans milli dúkkuhúsanna glaums og gleði hvar hratt líður stund um rauðanótt út í hyldjúpt haf óvissunnar allt um kring. En núna voru aðeins fáein leikföng á ferli og fiðrildi örfá, sóparabíll siglir inn eins og rauðagult hnoða að hreinsa upp leifar næturglaums götunnar, stöku bifreiðar eins og bláfextir dílar þumlungasti niður stíginn í skugga dökkbrýndra þakanna, en brátt sólvængjaðra. Yfir öllu vokir stjarnhvelfingin rennandi veglaus til þurrðar, líkt og tímaglas tómt að verða ou un dôme. Heimurinn er að rumska, en dúkkur og dáðadrengir þó varla enn vöknuð.

 

Fljúga hvítu fiðrildin

fyrir utan glugga,

þarna siglir einhver inn

ofurlítil dugga.

 

Og mun sofa eins og skata ofurlítil á vegg daglangt. Þau eru þarna nokkur komin í örugga höfn, hanga líkt og við festar, eins og krossfest lítil angaskinn komin í ró ró dillindó; eru þau ekki því vönust að hanga svo allan liðlangan daginn, þessi haustdægrin, náttsiglararnir? Eða haustfetar, sem svo eru víst nefndir. Hafa runnið á ljósið frá náttlampanum, sem hún hafði sofnað út frá, hafa ef til vill haldið að lampinn væri innsiglingarviti drottins.

Undarleg hugmynd, sem hún hafði einhvern tímann heyrt fleygt, að faðir ljóðsins sæti með dóttur sína á hnjánum á björtu sumarkvöldi, fiðrildin fljúga fyrir utan glugga og eitt siglir inn eins og ofurlítil dugga. Dugga nihili, jarðepli, hefði stúlkan hennar, ljóðaskurðlæknirinn, vísast ályktað. Því að kerlingar verpa eggjum á haust, á trjágrein eftir trjágrein. Vorið eftir klekjast lirfur úr eggjum. Og lirfur naga lauf snemmsumars. Yndi í görðum. Fara svo niður í moldina eins og jarðeplin. Umbreytast í púpur síðsumars. Skríða sem fiðrildi úr púpum á haust. Karlar gera sig gilda, kerlingar gildna. Kerlingar verpa eggjum en fá sig hvergi hafið til flugs. Gott og vel. Þá haust. Eða vetur. Það gilti einu. Faðirinn allavega í sessi sínum í hlýrri stofunni með dóttur sína á hnjánum. Þau horfa heilluð á hundslappadrífuna fyrir utan. Fljúga hvítu fiðrildin fyrir utan glugga, segir stúlkan hugfangin. Þarna siglir einhver inn ofurlítil dugga, svarar faðirinn ekki síður hugfanginn. Dugga? spyr stúlkan forviða, en löpp ein sem snjóað hefur inn bráðnar í glugganum.

Ljúga hvítu lappirnar fyrir utan glugga? Eða siglir einhver inn ofurlítil dugga? Úti á spegilsléttri vík í hundslappadrífunni?

Spegilmyndin brotnar upp sem löppin bráðnar. Myndhverfingin leysist upp í muggunni. Paradoxa. Tunglið dottið ofan í fljótið. Eða í sjóinn eins og Ikarus. Sama á hvern veg er litið, inn périphérique eða út í hvíta mugguna — hvar er duggan? Sjálft Rínargullið! Gangverk gullinsniðsins! Sjálf dagshríðarsporin!

Holur í gráðosti á himnum?

Samt sem áður! Kerlingar verpa eggjum á haust og lirfur naga lauf snemmsumars. Fara niður í moldina og púpa sig síðsumars. Skríða svo fiðrildi úr púpum á haust. Eitt og eitt siglir inn um glugga. Annars karlar gera sig gilda á greinum og kerlingar gildna. Kerlingar verpa gulleggjum. Á grein eftir grein. Le temps, périphérique. Lirfur klekjast á vor. Lirfur éta lauf. Pasta. Af moldu er komið, að moldu skal aftur verða. Magnum curriculum vitae. Innblásið. Magnað lífshlaup.

Nema að hafi verið flækingar, líkt og lævirkinn. En fiðrildin þau eru sjaldnast hvít heldur litskrúðug. Haustfetar þó gráir séu fljúga aftur á móti mjallahvítir fyrir utan gluggann af því að ljósið leggur frá lampa í hausthúminu. Sigla svo inn mót vitanum, og sjá: undir grámyglulegum seglum, og enda segl sjaldan hvít. Og kitla kannski nef stúlkunnar, hvort sem hún er lítið náttúrubarn vísdómsmanns eða ljóðadísin sjálf. Því að ekki er víst að þeir hengi sig eins og skötur ofurlitlar á vegg fyrr en að slökkt hefur verið á lampanum.

Þegar hún fer út úr herberginu má engu muna að munkskepnan lendi ekki á henni í rökkurglennunni, hvar sveiflar sér í kaðalspottanum á talsverðu fari fram og aftur eftir salnum, skellihlæjandi. Þetta var þá klukknastrengurinn, áttaði hún sig á. Gott að hún hafði ekki hengt sig. Hann væri þá núna með kíttisspaða — nei, ojbara.

Hann hló og hló og enn mátti hún vara sig, sá næstum undir hann ilbleikan og nærbuxnahvítan undir flaksandi pilsinu þegar hann hófst í strengnum upp af gólfinu miðju í átt til hennar, en sveif svo til baka eins og skuggi rétt tipplandi tánum niður á gólfmiðjuna og tókst enn á loft yfir í hinn enda salarins.

Loftið titraði, klukkurnar umdu undir með hlátri hans. Hún brosti kurteislega til hans og forðaði sér svo hratt sem stóllinn bar hana út í gegnum biðstofuna, bauð líkamningnum á krossinum góðan dag, hann virtist enn hvarfla augunum til og frá, hafði þá varla enn gefið upp öndina; og kastaði eins kveðju á hafgúuna með litla angaskinnið, halakörtuna eða hvað það var. Gamli ratatoskur var uppi, guði sé lof, hugsaði hún.

Hún hjólaði inn í lyftuna, lokaði á eftir sér, ýtti á neðsta hnapp en ekkert gerðist. Það var ekki heldur von. Stanstippið var niðri. Og nú lá hún í því, það var brotið og engin leið að ýta því upp. Æ, að hún hefði haft hamarinn eða eitthvert verkfæri. Hún reyndi með róðunni, en það sem eftir var af tippinu lá of djúpt inni í hnappaborðinu. Hafði hún ýtt of snarpt við tippinu í gær? Eða fólið verið verki? Hvar var nunnan? Lína, hafði hann ekki kallað hana það?

Það hlaut rétt að vera komið glas. Beljandi klukknaómurinn dundi á henni líkast sem holir sjóir. Hún púðraði sig snöggvast smá og tók sig aðeins betur til í andlitinu í lyftuspeglinum, fór svo aftur fram á ganginn.

Hún hrópaði: Lína, Lína! Ég kemst ekki niður! Hvað á ég að gera?

En vitanlega heyrði Lína ekkert til hennar fyrir klukknayminum. Og hún kunni heldur ekkert á lyftur. Í skímunni sem lagði inn um smáa ganggluggana grillti hún í skjöldinn yfir dyrunum að biðstofunni, sem hún hafði veitt athygli í gær: Tíminn og hvolfið um kring. Fram undan var stigahúsið, með smáum gluggum niður með hringlaga stiganum hvar smá skímu lagði einnig inn.

Ætti hún? Byggi hún yfir mætti nægum? Hún studdi sig við handriðið, steig úr stólnum, en logastrengur fór um líkama hennar og hún lyppaðist niður.

Upp, upp, mín sál! Upp, upp!

En ekkert gerðist. Og varla von, hún var á leiðinni niður núna! Í stigahúsinu glottu til hennar kristsmeyjar á veggjum niður með skrúfulaga þrepunum. Það gátu þær, löngu farnar til himna, unandi sér þar uppi í sælu og svíma, eigandi ekkert erindi lengur niður eins og hún. Teprulegar dúkkur. Andvana eftirmyndir, merktar með litlum silfurskjöldum — Geirþrúður hér og Valborg þar, Hildigerður og Matthildur, náði hún að lesa með því að píra augun, vafalaust nöfn einhverra kristsmeyja. Nema að þetta væru fjallkonur liðinna alda?

Þessar freyjur dyggðanna voru svo síðklæddar að ekkert sást í þær nema tærnar; hettur skýldu hári þeirra, hálsar og brjóst vafið ljósum tröfum, en andlitunum björtum og sælum stungu þær fram úr höfuðdúknum, og löngum mjóum puttunum fram úr ermunum. Eiginlega var hún stolt af dragtinni sinni. Og af hálsklútnum, og meira að segja af dándiskónum. Og fannst hún núna geta lagt allt sitt traust á róðuna, hvar hún hafði spennt hana í klútinn yfir barmi sér sem væri hennar þriðja auga, brjóstvitið. Hún var þó lifandi en ekki einhver dúkka í stiga. Hún skyldi niður!

 

Sésésé þökk sé

Hún lagði allan mátt sinn í orðið, hrópaði:

 

Upp, upp, mín sál!

Dúkkur í stiga

Nú niður ég fer

 

Einn, tveir, þrír! Niður, niður! Á yfirnáttúrulegan hátt vóg hún sig upp á handriðið. Og rann af stað. Niður, niður! Kraftaverk! Hún var lögð af stað! Niður! Á hverri hæð brá fyrir englum eða verum einhverjum á skuggsýnum göngunum. Hún þorði varla að ávarpa neinn, eða því skyldi hún vera að vekja athygli á sér eða fötlun sinni? Nei, engan barlóm! Hún áræddi þó að kalla upp að lyftan væri biluð, því að flestir voru að bíða eftir lyftunni. Þá skunduðu flest hljóðlaust hjá, hurfu geispandi niður stigann blakandi vængjum sínum undir voldugum ómi klukknanna, mælandi eitthvað fyrir munni sér eða tuldrandi bænir; það var erfitt að greina nema stöku orð og setningarbrot fyrir ymi klukknanna. Sésésé þökk sé, var þó þráfaldlega þulið. Sésésé þökk sé.

Semsé þökk hverjum hvað? Þökk henni fyrir ábendinguna? Eða kristsmeyjunum teprulegu sem héngu á veggjum niður með öllum stiganum, með sínum andvana andlitum björtum og sælum stingandist út úr ljósum tröfunum?

Hæð eftir hæð lét hún sig renna niður handriðið eins og ugla eða valur hnitandi hringana í aðflugi, nema að hún vissi ekki til að hún væri á eftir neinni bráð. Hver hæð var kennd við eitthvað viðvíkjandi tímanum, líkt og Tíminn og hvolfið um kring efst uppi: Tíminn og ég stóð skrifað á næst efstu hæð, svo Tíminn og við, Tíminn og tungumálið, Handan tímans, Tími hinna.

Á hverri hæð tíndust verur ofan stigann, boðin frá henni berandist frá einum til annars, upp og niður stigahúsið, að lyftan væri biluð. Hún þekkti sum í svip frá kvöldinu áður þegar glæta féll á andlit frá glugga. Þau bjuggu þá hér? Að sjá inn gangana var líkast sem á gistiheimili. Fatnaður sums staðar í hrúgum og aflóga dýnur á göngum, sýndist henni, og alls kyns moð, skinnbleðlar og pjötlur í hringlaga stiganum, sérstaklega eftir því sem neðar dró, jafnvel kálbögglar og maurildi allskyns. Og ein og ein veran enn að haska sér með stírur í augum út af herbergjum, tautandi þetta sésésé þökk sé. Voru þau að þakka fyrir næturgreiðann? Semsé kristsmeyjunum, eða hverjum?

Einni verður hált á slepjulegu gólfinu og munar engu að renni ofan stigann á rassinum muldrandi bænir sínar. Sésésé þökk sé! Sésésé þökk sé! Jæja, sésésé lof og dýrð að ekki rennur alla leið ofan. Sjálf hægir hún á sér á handriðinu en getur eðlilega litla björg veitt frekar en hvert annað fatlafól. En engillinn nær með naumindum jafnvægi, sésésé þökk sé, og hækkar þá róminn, titrandi röddu engu líkara en kveðandi þakkarbæn.

 

Centre of equal daughters, equal sons,

All, all alike endear'd, grown, ungrown, young or old,

Strong, ample, fair, enduring, capable, rich,

Perennial with the Earth, with Freedom, Law and Love,

A grand, sane, towering, seated Mother,

Chair'd in the adamant of Time

 

Var þetta alþjóðlegt farfuglaheimili? Bræðralag, systralag jafningja? Eða samfélag hverra? Hárra sem lágra, ungra sem aldinna? Regla frelsis, réttlætis, ástríkis? Regla móður jarðar? Í miðju öndvegi tímans?

Ugglaust einhver útlendingur að fara með morgunbænina sína. En sem glæta úr glugga fellur á andlitið, þegar veran í einni hending snýr sér örsnöggt að henni í stiganum, hneigjandi sig fyrir henni afar þakklátsamlega, kyrjandi sésésé þökk sé, sésésé þökk sé, þá sér hún að þetta er alls enginn útlendingur. Höfuðið kemur henni kunnuglega fyrir sjónir; skallinn sá er þá farinn að safna hári á ný, því að ekki var hann nauðrakaður, svo sem verið hafði um hríð, nema hvirfillinn. Krúnurakaður, sem kallað er, eins og mest allt karlkyns hér.

Annars virtist varla nokkur gefa henni gaum eða kippa sér upp við það að hún renndi sér þannig niður handriðið. Varla von heldur, flest að líkindum lítið sofin eftir nóttina, eigandi nóg með sjálf sig og ef til vill andvökudrauma, niðursokkin í bænamuldrið. Sésésé þökk sé. Sésésé þökk sé. Eða skyldu þau ekki hafa verið ræst líka á fyrri óttutíð, hvað aftur morgunsöngurinn sá var kallaður á útlensku? Hlutu að vera mjög vansvefta.

Hún er löngu hætt að telja hringina, en þótti því forvitnilegri allar hinar ýmsu kenndir tímans, sem hæðirnar voru kenndar við, hæð niður eftir hæð. Tímatalið flaug hjá, þá Tímans mæling, því næst Vinnutíminn, Frítíminn, Minningamörk tímans, Tímaflakk og flutningar. Engu líkara en einhvers konar stjórnarráðsdeildir! Dúkkurnar þá ef til vill einhvers konar minningamörk um framliðna stjórnspekinga? Einhverjar miklar dragdrottningar fyrri tíðar? Hjartaprúðir riddarar hringstigans dubbaðir upp í kjól og hvítt? Kristsmenn og krossmeyjar stjórnvisku liðinna alda?

Bjöllurnar glumdu voldugum ómi hæðunum mörgu ofar. Nú hlaut að vera komið glas. Ómur af hörpum er tekinn að berast að neðan og skærir lúðrar gjalla. Enn eru örfáir að tínast niður og hraða sér mjög. Sésésé þökk sé. Sésésé þökk sé. Nútíminn, stendur ritað á hæðinni þeirri er hún rennur nú hjá, því næst Fortíðin á hæðinni þar fyrir neðan. Kemur þar þá enn einn fram af gangi, einna síðastur allra, hann vaggar til og frá og virðist ekki liggja neitt mjög á, hálf slagar að stiganum, sésésé þökk sé að ekki dettur, syngjandi alls ófeiminn bænir sínar fullum hálsi.

 

Pákur og bumbur,

básúnur, trumbur

boða að runninn sé dagur á ný.

Fögrum með frösum,

fínum úr glösum

full okkar drukkið með kurt og með pí.

Þér til, mín þekka,

þá skyldi eg drekka.

Svo líður dagur í glaumi og gný.

 

Þau eru komin niður á hæðina næstu fyrir neðan, framtíðinni kennd, þegar hann lýkur við erindi þetta glúntanna undir bjöllunum glymjandi og lúðraþyt; hann með athygli alla bundna við að halda lagi og fóta sig í stiganum, hún við að halda jafnvægi á handriðinu — að hann þá snarsnýr sér þar við á stigapalli framtíðarinnar, vart trúandi sínum eigin augum, að þetta sé sjálf hún! Sésésé þökk sé!

Mín þekka! Má ég þig snerta?

Og hann snertir klæði hennar eitt andartak, afar laust með fingurgómunum, snýst enn einn hring í kringum sjálfan sig afar þakklátsamlegur, líkast sem höndlað hafi hamingju alla, nær þó enn jafnvægi og skýst svo stórum hugumstærri úr augsýn á sínum almúga adamsklæðum baðandi vængjum ótt og títt niður stigann, líkastur flugvél að búast til lendingar, með öll hjól úti, syngjandi hástöfum:

 

Stolt siglir fleyið mitt stórsjónum á

sterklegur skrokkurinn vaggar til og frá.

Sésésé þökk sé að upp rís á ný

stolt vort sem kennt er við pí.

 

Hún heyrir ekki af honum meir og veit svo ekki fyrr til en að hún er lent hún sjálf þá hún skýst fram af handriðinu hvar það endar; lendir í fangi einhvers sem þar er fyrir, engu líkara en sjálf væri hún vél að lenda á flugmóðurskipi, en hún raunar á fart meiri en að stöðvuð verði á punktinum, raunar hvolfir skipinu undir henni, ef svo má segja, og lenda bæði tvö kylliflöt á gólfinu þar sem þau eru stödd fyrir neðan neðsta stigaþrep á hæð grundvallarins, jarðhæðinni.

Fyrsta sem hún rekur augun í er hún rankar við sér er heitið sem hæðin sú neðsta er kennd við: Tíminn og vatnið. Það hafði farið fram hjá henni í gær. Sér því næst hjólastól á hvolfi og mannveru við hliðina á henni í hvítum dándiklæðum. Bæði eru sem hálflömuð og eru það raunar hálft í hvoru. Loks reisir hann sig upp til hálfs við neðstu handriðsrimina í stiganum en hún upp við hjólastólinn, einnig rétt til hálfs, máttur leyfir ekki meira. Þau eru eins og fiskar á þurru landi — eða skyldi segja eins og hafmey og marbendill? — ekki vantar að minnsta kosti vökvunina allt um kring, gólfið rennblautt af miði allskyns, og þang út um allan gang líkast sem á sölvafjöru.

Ekki vænti ég þú sjáir einhvers staðar pípuna mína? spyr hann.

Klukkurnar ymja og ymja eins og geigþungt brim og inni í salnum englakórinn.

Glas! er kallað upp inni í salnum.

Fyrirgefðu, segir hún. Ég vona að ég hafi ekki slasað þig.

Sésésé þökk sé svo sé ekki, tautar hann en hún heyrir varla til hans. — Sé þökk sé..?

Sésésé þökk sé að svo sé ekki, hrópar hann hástöfum.

Guði sé lof, ég held ég sé það ekki heldur, kallar hún til hans á móti.

Sésésé þökk sé. Þú kemst þó leiðar þinnar í hjólastólnum. Sjálfur kemst ég hvorki lönd né strönd. En hvað hefur orðið af pípunni minn?

Glas, glas! er enn kallað hástöfum. Henni hefur tekist að koma stólnum á réttan kjöl og hún sér þá hvar pípan hans liggur í bleytunni og tekur hana upp.

Mér þykir þetta svo leitt, stynur hún upp og réttir honum hana rennblauta. Ertu ekki með aðra á þér til að kveikja í? Og hún áttar sig allt í einu á því að sjálf er hún ekki með neitt tóbak á sér til að bjóða honum, hvað þá til að kveikja sér sjálfri í. Guð, hve hún hefði getað hugað sér að splæsa á þau sitthvorri rettunni núna. En hvort eð var komið glas og tjóaði ekki um að tala.

Hann ýtir til hennar hamrinum sem liggur á milli þeirra á blautu gólfinu eins og rekaviðarbútur í fjöru í kross við gamalt dengt járn.

Hafðu engar áhyggjur af pípunni, hrópar hann, ég er hættur að reykja. Sésésé þökk sé. Finnst ég samt verða að hafa eitthvað milli handanna. Það linar pínu mína.

Le temps, vite! rymur hástemmd röddin inni í salnum. Hratt flýgur stund! Komin tími morgunbæna! Om maní óttutíð efri húm.

Ég semsé missti af lyftunni, hrópar hann til hennar, en kórinn syngur tíðina inn: Sésésé þökk sé! Þökk hraða hrings! Þökk gangverki tímans! Þökk gullinsniði tímans!

Bjöllurnar glymja beljandi óminum undir.

OM! Laudes in solidum, in solidum húm.

OM! Lofum og vegsömum! tónar hann undir með kór og bjöllum hvar hann með erfiðismunum hefur hann náð að mjaka sér upp um tvö þrep með stuðningi af handriðsrimunum, situr þar uppgefinn í sínum dándiklæðum, sem harla þó lítt dándimannsleg lengur eru eftir vaktina, og varla á bætandi að hafa dregist upp úr þangblautu gólfinu. Andlitið er markað dráttum líkast sem píslarvottur væri að því kominn upp að stynja: Ég get ekki meir, get ekki meir. En stynur, með kalda pípuna milli tanna: Om maní padmí húm. Lofum, vegsömum, verum þrautseig!

Hún stynur einnig undir með honum og kór þetta mikla sáluhjálparatriði omaní eða oman eða amen eða hvernig annars á að bera það fram. Dragtin hennar, sem hún hafði klætt sig í svo tandurhreina og fína, er öll orðin móbrún eða svört á framanverðunni eftir að hafa núist við handriðið alla leiðina niður. Og rassblaut í þokkabót af þangslepjunni, nú sem hún reynir að hefja sig af gólfinu upp í stólinn, en englakórinn syngur inn morgunbænina.

 

Bræðralag, systralag jafningja

Samfélag hárra sem lágra, ungra sem aldinna

Öll sömul sömu brjóstgæðum gædd

Stælt, sannferðug, þrautseig, mikils megnug, auðsæl

Bræðraregla og systra um gegnheilan trúnað

Við lög og rétt, ástríki, frelsi

Við reglu móður jarðar

Grundvallaðri á bjargi traustu, í öndvegi tímans

 

OM! Om maní padmí húm! In solidum húm!

 

Concreta creditum curriculum

Kristsmeyjarnar, krossmennirnir, dragdrottningarnar, eða hvað dúkkur þær annars standa eða hanga fyrir, glotta í stiganum, sem hann mjakar sér upp eitt þrepið enn, þá kominn upp í þriðja.

Lyftan er biluð, útskýrir hún. Stanstippið er brotið, ekkert hægt að gera í því. Raunar kraftaverk að ég skyldi komast niður.

Miraculum in solidum. Sésésé þökk sé. Kraftaverk padmí húm.

Af hverju er allt á floti hérna? hrópar hún til hans undir syngjandi niðinum og reynir allt hvað hún getur að hefja sig upp úr bleytunni.

Kammerráðið hefur gleymt að skrúfa fyrir, stynur hann í uppgjafatón. Eða kjölsvínið bilað. Varla þó komin áramótin — eða hefur tíminn alveg runnið okkur úr greipum? Ég bað kennslufulltrúann um, núna þegar hann kom niður á vaktina, að fara og gæta að svíninu. Varla kæmist ég sjálfur niður nema fyrir hreint kraftaverk.

Svín hvað? Niður? Hélt þú værir á leiðinni upp?

Kjölsvínið er bilað, hrópaði hann. Skilurðu ekki? Skil ekki hvað kammerráðið er að hugsa. Engin alminnileg stjórn á neinu hér síðan þau voru útnefnd prókúruráð. Og tíminn að renna okkur úr greipum.

Ég skil ekki neitt, stynur hún, móð og másandi. Hún hefur með naumindum náð að hefja sig upp í stólinn.

Miraculum, tautar hann. Sésésé, hví hefur þú yfirgefið mig? Sésésé! Væri kraftaverk að við klárum þessa skýrslu. Erum uppiskroppa með skinn. Bóndinn austur í sveitum harðneitar að afhenda fleiri nema gegn tryggingu. Og heimildin fullnýtt!

Berjum ekki lóminn! hrópar hún.

Berja! gellur við í honum. Hver er að berja? Okkur vantar skinn, skilurðu það ekki!

Nei, ég skil þetta ekki alveg allt, hrópar hún.

Skinn, skinn, skinn! Það er algjört frumskilyrði að hafa skinn. Skýrt kveðið á um það í samningnum. Allt í uppnámi. Allt út af einni einustu veilu.

Nei, hún skildi ekki alveg. Samningur? Heimild? Veila hvað?

Hefurðu ekki lesið samninginn, manneskja?

Hún hafði ekki hugmynd um hvað hann var að tala um, hvaða barlómur þetta væri í honum.

Skinnskjalið, sem er grundvöllur alls, hrópaði hann upp. Sjálfur samningurinn við kompaníið, sem hangir uppi fyrir miðjum barnum, með undirritunum forstjóra og stjórnarformanns samsteypunnar. Concreta creditum curriculum! Ertu að segja mér að þú hafir ekki lesið hann?

Nei, hún kom af fjöllum, hafði ekki hugmynd um hvað hann var að fara. Forstjóri hvað? Stjórnarformaður?

Þeir sem höfðu brugðist svo skjótt við tilboði þeirra og gestaboði. Var hún að látast? Ætlaði hún að segja honum að hún vissi ekki neitt um hver væri innsti kjarni alls!

Ertu algjör hvítvoðungur! hrópaði hann upp, örvona ásýndum með kalda, blauta pípuna milli nístandi tanna. Eilíflega sama sakleysið uppmálað? Æ! Sésésé, hví hefur þú yfirgefið mig? Sésésé!

Víst hún varð að játa það, að ekki væri hún alveg viss um hver væri sekt sín í þessu máli, eða hver hefði yfirgefið hvern. Eða hvað? leyfði hún sér að spyrja. Hver yfirgefið hvað?

Hann hristi höfuðið örvinglaður. Þeir sem brugðust svo skjótt við, komu eins og kallaðir, alveg um hæl, hrópaði hann, — meira að segja í einkaþotunni sinni. Og við sem kynntum þeim menningu okkar alla, jafnt til forna sem að nýju, þjóðmenninguna alla í hnotskurn jafnt sem síkvika deiglu okkar ungu borgmenningar. Að næturlífinu ógleymdu. Bárum þá á höndum vorum alla helgina, allt frá því þeir lentu. Fórum með þá á laugardagskveldinu upp og niður allan búlluvarðinn með viðkomu á næstum hverri einustu búllu og krá, og vorum að fram á rauðamorgun, að þeir mættu fá glögga viðmiðun, að þeir mættu meta því meir sönglist okkar, dráttlist, ritlist, að ekki sé um að tala alla leðuriðjuna og handverksmenninguna, þegar þeir kæmu í okkar góða samastað. Og eftir að hafa verið með okkur allan sunnudaginn í þjómenningarhúsinu, dvöldu þeir með okkur hér í afar góðu yfirlæti, allt frá sunnudagskveldi til mánudagsmorguns, að við bárum þessar hölda kindur á höndum vorum í draumarúmi gulls og svíma undir magnþrungnum söng og kveðandi, allar götur suður með tjörn, allt suður á völl, út í vél, þar sem þeir skrifuðu undir með svo glöðu geði og kvöddu okkur loks með tárum, syngjandi glaðir allt til hins síðasta það eina þeir þó námu í voru ylhýrasta:

 

Oh town, Oh town, we lofa ljóst þín stræti,

thín lágu hús og allt sem fyrir ber.

And though svo teardrops our vanga væti

our hope sé sé, sé einatt bundin þér.

 

Meira var það nú ekki. Nei, því miður máttu þeir ekki vera að því að læra það allt til enda, þetta fallega kvæði sem þeir tóku svo miklu ástfóstri við, næstum því eins og við við þá. En drukku vínið og tárið af vitum vorum eins og af lifandi uppsprettum, æ andvarpandi með oss hina tíbesku bæn eins og fiðlur með slökknuðum strengjum: om maní padmí húm. Og svo strandar allt á einni einustu veilu!

Afar strangt prógramm, vissulega, en líka árangursríkt, fékk hún skilið af orðum hans, sem hann hélt áfram að opna fyrir henni skilningarvitin, klökkur í bragði, svo augljóslega mjög tók á hann að rifja þeta upp fyrir sér.

Þessir gestir þeirra höfðu þó heim komnir virst gera sér harla annarlegar hugmyndir um alvöru málsins ef marka mátti þakkarbréf er þeir hefðu sent fáeinum dögum síðar þar sem varla var minnst á samninginn einu orði. Og þegar ekkert bólaði á stofnun hlaupareiknings eða öðrum efndum að hálfu CCC, höfðu þau séð sig tilknúin að senda þessum virktarvinum sínum lögformlega túlkun á sáttmálanum. Að skýrt væri innsiglað með vottfestum undirritunum þeirra forstjóra og stjórnarformanns reittum á skinn ákvæði um margvíslegar skyldur sem CCC hefði tekist á herðar. Ekki einungis að opnað skyldi fyrir næsta ótakmarkaðan yfirdrátt credit in solidum og að samsteypan félli frá öllum kröfum um steinsteypuveð og uppáskriftir eða ábyrgðir þriðja aðila, heldur kvæði samningurinn á um margvíslegan annan stuðning samsteypunnar við söfnuðinn og kostun verkefnisins.

Þannig skyldi fegurðardísinn fá frí á fullum launum og lausn undan forstöðumannsskyldum sínum hjá hinni nýstofnuðu greiningardeild samsteypunnar hér á landi, gegn því meðal annars að hún ynni að undirbúningi hlutafjárútboðsins, sem hún vissulega samviskusamlega rækti, en samt hefði verið tekið fyrir greiðslur inn á launareikning hennar, var hinum háu herrum bent á. Þá fól samningurinn einnig í sér stuðning við háskólann, nokkuð sem CCC mátti vera ljóst að mynda skila sér margfaldlega til baka í uppbyggilegri ímynd samsteypunnar. Því var það að þegar stuðningurinn skilaði sér ekki þá máttu lektorinn og sagnfræðiprófessorinn sæta því að vera reknir frá skólanum fyrir vanrækslu sakir og áttu þó varla kost á atvinnuleysisbótum, hvað þá biðlaunum. Voru þeir þó ásamt fegurðardísinni beinlínis aðalhöfundar að öllu samningsferlinu, allt frá því að CCC var sent tilboðið þar til að skrifað var undir samninga alla.

Þetta höfðu þó aðeins verið tímabundnir erfiðleikar sem leystust um leið og CCC-samsteypan gerði sér ljóst að hún átti yfir höfði sér málsókn og gríðarlegar skaðabótakröfur fyrir vanefndir, svo tryggilega hafði verið bundið um hnúta alla við samningsgerðina. Varð þá atburðarás mjög hröð, CCC sendi háloflega afsökunarbeiðni og var öllu strax kippt í liðinn. Hlaupareikningurinn opnaður og háskólanum heitið ótímabundnum stuðningi gegn því að uppsagnir yrðu dregnar til baka og hinir brottreknu leystir undan öllum starfsskyldum við skólann á meðan þeir sinntu verkefnum sínum fyrir söfnuðinn. Á líkan veg var launareikningur fegurðardísarinnar leiðréttur og henni meira að segja boðnar árangurstengdar greiðslur að auki ef hún stæði sig vel, þó að samsteypunni bæri alls engin skylda til þess samkvæmt samningnum.

Hann var kominn upp í fjórða þrep og stundi þungan undir með ymi klukknanna, hægt og sígandi dvínandi. Svo strandar allt á einni einustu veilu! Hvað verður um okkur ... sésésé!

Og sjálfur lögfræðingurinn, okkar aðal samningamaður, lektor í lögum, lætur síðan eins og ábyrgðin sé öll okkar; einn fyrir alla og allir fyrir einn, klifar hann á, lómurinn. In solidum húm. Sjálfur í fríi á fullum starfslaunum, svo lengi sem honum þóknast. Ekki á neinum aumum tímanlegum biðlaunum eins og til dæmis ég og fulltrúinn hinn megum láta bjóða okkur. Sem fara brátt að verða uppurin. Eða segðu hinn fuglinn, prófessor Epíkúr, eða hvað á að kalla kauða, eða þá fegurðardrottningin. Öll á fullum launum! Hún þarf ekki einu sinni að mæta í greiningardeildinni sinni! Ekki frekar en að útibúið ræki sig sjálft. Nei, nei, allt in solidum, sésésé þökk sé, klifa þau á.

Hann fórnaði höndum en inni í salnum var engu líkara en kór allur tæki undir: Sésésé þökk sé! Concreta creditum curriculum. In solidum padmí húm.

Ymur klukknanna er að smá fjara út. Slögin hljóma líkt og máttvana bárur gjálfri við mjúkan fjörusand, og það hljóðnar í salnum.

Berjum ekki lóminn! hrópar hún enn, handfjatlandi spýtuna með járnklumpnum í kjöltu sér.

Þú getur trútt um talað. Kemur þér beint að efninu að vanda, eða hvað? Allt að sigla í strand og þú prédikandi um lóm einhvern!

Ég að prédika? hváði hún.

Já, að prédika, ég sagði það. Þýðir sama og halda ræðu, halda fyrirlestur. Greina efnið, skilurðu?

Greina efnið! tekur einhver undir, lágri en eftirvæntingarfullri röddu, inni í hljóðum salnum.

Greining! hvíslar hálfur salurinn í kór, fullur eftirvæntingar. Prédikun! Greining! OM! Sésésé þökk sé.

Hver er að prédika? spyr hún.

Þú getur trútt um talað, hrópar hann. Sakleysið sjálft uppmálað. Prédikar um lóm einhvern og aftur lóm á sama tíma og heimildin er í uppnámi. Sjálfur hlaupareikningurinn curriculum! Eða af hverju geturðu aldrei talað skýrt? Annað hvort einungis eitt, tvö eða þrjú orð út í bláinn eða að öðrum kosti heil prédikun! Það er þá greining, eða hitt þó heldur! Nema að þú eigir við sjálfan lektorinn? Svo sannarlega ætti lómurinn það skilið að vera kitlað vel um kjamma og koll. Eða hverslags trúnaður er það við lög og rétt að steinsofa á verðinum þegar mest ríður á? Því þá að vera að prédika um ástríki, frelsi, brjóstgæði. Það var þá til einhvers að vera að stofna bræðralag og systralag jafningja!

Allar ræður byrja á einu orði, leyfði hún sér að svara, — og rís ekki turn hver af lágum velli? Eða segir ekki svo einhvers staðar?

Og stærstu trén vaxa af litlum kvisti og fullnýttar heimildir beint upp af núllinu, eða ætlaðirðu líka að segja það? hálf hvæsti hann. Það breytir þó ekki því að heimildin fæst ekki hækkuð nema að verkið sé fyrst tekið út. Svo kveður sáttmálinn á um. Þar liggur hundurinn grafinn. Sjálf lektors veilan! Að við verðum að sýna fram á lánshæfi afurðanna. Hvernig í ósköpunum við annars eigum að koma öllu heim og saman og kynna þeim verk vort einhvers staðar lengst úti í löndum. Allt út um allt á haus eða á hvolfi út um allan sal. Og inni á klóseti líka. Því tíma þeir ekki að fljúga hingað þennan smáspöl í þotunni sinni, líkt og þegar þeir skrifuðu undir? Eða þá að minnsta kosti að senda þotuna eftir allri ritningunni? Nei, nei, af því að hvergi sé kveðið á um það í samningnum! Allt bara in solidum, solidum húm. Hreint kraftaverk að við náum að ljúka þessu.

Miraculum! hvíslar salurinn. Greining! Fyrirlestur! Sésésé þökk sé. In solidum prédikum húm.

Hann hristir höfuðið í örvilnan. Allt út af einni einustu veilu. Sésésé hjálpi mér!

Berjum samt ekki lóminn! hrópar hún og vegur hamarinn í höndum sér.

Svo sannarlega, ef þetta væru ekki allt englar, þá skyldi ég lúskra á þessum nískupúkum! nístir hann tönnum um pípuna. Á fullum launum en tíma samt ekki að borga undir sig sjálf.

Smám saman, eftir því sem á ræðu hans leið, skýrðist fyrir henni alvara málsins. Samsteypan neitaði að senda fulltrúa sinn á þeirra fund að kanna afrakstur erfiðis þeirra nema á þeirra eigin kostnað. Þar stóð hnífurinn í kúnni og þau því orðin uppiskroppa með kálfskinn. Samsteypan hefði borgað undir sig síðast, voru meginrök CCC, því væri eðlilegt að þau greiddu farareyrinn að þessu sinni. Hvort samsteypan vildi þá leggja út fyrir ferðakostnaðinum hafnaði CCC alfarið, það væri andstætt góðum viðskiptavenjum, og stór spurning gagnvart skattinum. Hvort samsteypan kynni að fallast á að útnefna til dæmis fegurðardísina sem fulltrúa sinn, að hún einfaldlega tæki út og greindi verkið og gæfi síðan skýrslu, því var einnig alfarið hafnað, á þeirri forsendu að of sterk hagsmunatengsl hennar við hópinn myndu rýra trúverðugleika hennar.

Þá hafði verið tekið til athugunar innan safnaðarins að fegurðardísin og Baddi, hið nýkjörna prókúruráð, færu utan og kynntu stjórn CCC afrakstur erfiðis þeirra, þrátt fyrir tröllaukið fyrirtækið að pakka saman öllum skinnunum, fyrir utan hve áhættusamt það væri að senda slíkt dýrmæti milli landa; eða hver gæti tryggt að þau fengju handritin aftur heim?

Hvað um það, þá hafði samkomulag ekki náðst innan hópsins, hvernig ætti að kosta för þeirra og greiða rándýran flutninginn og öll tryggingargjöldin, á meðan ekki fengist hlaupareikningsheimildin hækkuð. Þau sem voru á biðlaunum eða á sæmilegum listamannalaunum, eða höfðu tímabundið fengið góðviljaða lausn frá störfum á fullum launum í þágu verkefnisins, líkt og fegurðardísin, lektorinn og prófessor Epíkúr, töldu að það stangaðist á við jafnræðissjónarmið að þau leggðu hlutfallslega meira fram til fararinnar en hin. Eins og engu máli skipti að væru á rýrum atvinnuleysisbótum einum eða lifðu lífinu jafnvel alls bótalaust; sum jafnvel alveg upp á söfnuðinn komin og hefðu enga möguleika á að taka þátt í ferðakostnaðinum, hvað þá að gætu goldið söfnuðinum tíund launa sem aðrir, eða Línu sængurgjöldin og Badda fyrir beinann.

Nei, nei! Tíma ekki að borga undir sig sjálf! Ef ég væri ekki bundinn við hjólastólinn hefði ég auðvitað boðist til að fara. Jafnvel að kosta mig sjálfur af bágum biðlaununum, ef því væri að skipta. Og væri áreiðanlega fyrir löngu kominn til baka og málið í höfn. En ég kemst hvorki lönd né strönd. Ekki einu sinni upp til að sofa frívaktina mína!

Ekki, ekki, samt ekki berja lóminn! hrópar hún enn og hefur hamarinn á loft. Kraftaverkin kunna að gerast enn. Eða vilt þú ekki upp?

Vil ég! Eitt er að vilja og annað að geta. Ég er sem borinn af bylgjum hafsins og virðist hvergi eiga búna hvíld.

Hann var kominn upp í fimmtu tröppu, neyðin uppmáluð, holdi klædd.

Allt rekur að ströndu, mælti hún spekingslega. Úr furutré sem fann ég út við sjó ég fugla skar og líka úr smiðjumó. Í huganum til himins oft ég svíf upp, upp, mín sál, einn, tveir, þrír...

 

Upp, upp, mín sál!

Dúkkur í stiga

nú niður ég fer

 

Miraculum in solidum! Kemst þú niður? Kannt þú á kjölsvínið? Væri pottþétt kraftaverk húm!

Teprulegar dúkkurnar glottu enn freðnum brosum sínum.

Nei annars, fyrirgefðu, ég ruglaðist aðeins í passíum. Þú ert á leið upp, ekki satt? Hvernig er það rím nú aftur? Úr furutré sem fann ég út við sjó ég fugla skar og líka úr smiðjumó. Í huganum til himins oft ég svíf — og allir saman nú, Andríkar allir, elsku peyjar, og Andríkur allar, elsku meyjar — upp, upp, einn fyrir alla, öll syngjum saman öll fyrir einn, tveir, þrír...

Og var sem við manninn mælt — jafnskjótt tók salur allur hástöfum undir:

 

Upp, upp, mín sál og allt mitt geð,

upp mitt hjarta og rómur með,

hugur og tunga hjálpi til.

Herrans pínu ég minnast vil.

 

Hún fylgdi honum eftir með augunum upp, hvar hann stökk af stað upp stigann og hvarf sjónum. Sat lémagna eftir, hreyfingarlaus í stólnum, en allur kór enn sálminn söng:

 

Sankti Páll skipar skyldu þá,

skulum vér allir jörðu á

kunngjöra þá kvöl og dapran deyð,

sem drottinn fyrir oss auma leið.

 

Það var sem allur máttur væri úr henni dreginn. Guð, nú hefði henni ekki veitt af smá morgunstrammarasnabbara, hugsaði hún, og hugsaði til hans á sínu harðastökki upp stigann, upp undir dynjandi söngnum, upp móti veikum bjölluóminum alveg í fjörbrotum, enn þó fagnandi morgninum. Og eftir því sem lengra á sálminn leið og æ færri þær morgunbænir kunnu, þá nokkuð skjótt dvínaði kveðandin, en sjálf hún söng með sjálfri sér:

 

Ég heyri álengdar hófadyninn,

ég horfi langt á eftir þér.

Og bjart er alltaf um besta vininn

og blítt er nafn hans á vörum mér.

 

 

Heilsteyptur trúnaður ævinlega

Í húmsins hvolfskál rumskar morgunn nýr. Brátt björt og hæfin hönd um háturn vað úr geislum snýr. Þá röðulgljáin baðar sund og bláan fjörð og sameinar um hríð með töfrum loft og jörð. En þó um stund sé gefið gull í mund mun stjörnuhvirfing húmköld hvolfast yfir sund. Enn myrkrið biðlar, biður um ljósa hönd. Býður í píslargöngu að dimmu fjarðar strönd.

 

Þó líði dagar og líði nætur,

má lengi rekja gömul spor.

Þó kuldinn næði um daladætur,

þá dreymir allar um sól og vor.

 

Sól og vor, hugsar hún og mætir í sömu andrá djúpbláum augum ljóðadísinnar, sem er komin að sækja hana, hvar hún mænir enn upp stigann.

Okkur dreymir allar um sól og vor, segir dísin feimnislega og blakar vængjum hæglátlega sem hún hjólar með hana af stað í stólnum á undan sér inn í salinn hvar söngur var nú í fjörbrotum. — En dagur reikningsskila er risinn og skýrslan verður að hafa forgang og hlaupareikningurinn. Lífshlaupið vort í kringum sannindamálin. Annars heldur sólin áfram að myrkvast og björgin gætu klofnað alveg.

Concreta creditum curriculum! tók þá salur allur undir í einum kór. OM! Heilsteyptur trúnaður ævinlega. In solidum prédikum húm. OM! Sésésé lofum og vegsömum.

Morgunstrammarasnabbara? spurði barþernan hana, brosmild að vanda, með hönd á munki uppi í hillu, sem þær hjóluðu fram hjá barnum.

Guð, le dôme!

Laukorpinn in solidum? Eða með káldífu curriculi?

Nei, takk fyrir, hvorugt. En gjarnan fá flöskuna á borðið. Og kaffi expresso og vindla, takk.

Hver talaði? Hún þekkti vart sína eigin rödd. Hvaðan kom henni þvílíkur myndugleiki? Hún var ekki vön því að reykja vindla! Og síst með morgunkaffinu. Þá minntist hún þess að hún var klædd samkvæmt nýjustu tísku eins og ung menntakona; og hún fann straum fara um sig alla þegar ljóðadísin fór fingrum um ofurmjúkt silkið í blússunni hennar og lagaði til klútinn með demantsróðunni, slétti úr jakkaboðungunum og strauk yfir brotin í dragtpilsinu sem höfðu verið svo vendilega pressuð en voru nú öll aflöguð, mósvört eftir handriðið, hvar hamarinn á sömu stundu var hrifinn úr kjöltu hennar, en hún lét sig það einu gilda. Þær voru komnar að borðinu.

Om maní padmí húm! ómaði um allan salinn sem þær voru að koma sér fyrir. In solidum prédikum húm! En stúlkan strauk fingurgómunum niður með votum sokkunum og spurði hana með bliki meðlíðunar í augum hvort henni þætti ekki slæmt að vera blaut að neðan; en eiginlega var henni alveg sama. Henni hafði fundist það óþægilegt fyrst í stað að setjast rassblaut í hjólastólinn en núna þegar líkami hennar hafði iljað sessuna varð hún þess ósköp lítið vör. Fannst hún fremur vera eins og eðlileg innsetning í rými, óaðskiljanlegur hluti af heild, engill eins og allir hinir kropparnir; hún einungis fórnaði nekt sinni á altari nýjustu tísku — en þeirra vegna. Eða það fannst henni hljóta að vera, annars hefði hún ekki hikað við að svipta sig klæðum og jafnvel lofað þeim að bítast um róðuna ef þau vildu svo hafa. Var ekki örbirgðin hvort eð var löngu hætt að teljast til dyggða? Fyrst þau vildu endilega hafa hana í þessum sessi, þá gott og vel; því skyldi hún þá ekki gangast undir okið og fórna sér á altari dyggðanna, hætta að berja lóminn, taka kross sinn á herðar og fylgja tískunni?

Barþernan birtist brosmild með hlaðinn bakka svífandi yfir höfði sér, óhagganleg líkt og frelsisstyttan holdinu einu klædd með kyndil sinn á lofti, en fegurðardísin ryður henni braut baðandi hveljum öllum frá sér, marbendlum og glóandi maurildunum, ávallt eins og selur syndandi. Ljóðastúlkan er sest við hlið á henni og er að laga til handlínið á henni og gullhnappana. Klukkur höfðu alveg hljóðnað en að baki sér heyrir hún að drottningarnar, gjörningalistamennirnir, byrja að berja. Berja lóminn?

Om maní padmí húm! hugsaði hún. Jesús Kristur! Nei, ekki núna —.

Pax! hrópaði hún upp yfir sig og um leið féll í dúnalogn í öllum salnum. — Fær maður að ekki drekka morgunkaffið sitt í friði, eða hvað!

Hver talaði? Hún enn? Af þvílíkum myndugleika!

Pax maní benedictina? hvíslaði ljóðastúlkan með spurn í svip og tók hendur hennar róandi í hendur sínar, en barþernan tíndi af bakkanum og lagði hljóðlátlega frá sér á borðið, munkinn, kaffið og vindlana, ásamt baðmamiklum glösunum og kaffibollum.

Augu allra beindust að þeim í þögulli spurn, flöktandi á glóðum milli hennar í hjólastólnum og dísarinnar ljóðanna, en önnur laumuðust til að lesa niðurmjóa en stælta kroppa keisaraynjanna sem samstundis höfðu lagt frá sér hamarinn og hætt verki, enn önnur voru með augu sem límd við engilfríðan líkama fegurðardísarinnar, sem óneitanlega tók mikið af athyglinni til sín hnarreist hnykkjandi höfði svo að glóandi haddur hennar bylgjaðist um vængi og mjúkt skinn, en tindrandi barmur hennar reis og hneig djúpum andardrætti undir. Stöku hófu að klappa í salnum en skynjuðu skjótt að það var tæpast tímabært. Fegurðardísin tók klappið engu að síður til sín og hún hvíslaði full eftirvæntingar fram í salinn:

Pax maní prédikum húm! Sésésé þökk sé. OM!

Blessaður sé friðurinn, hvíslaði salurinn hljóður undir, yfir að líta sem sæminjasafn í himneskri hvíld að búast undir dægrið langt og miklu dagshríðarsporin.

Smá glætu morgunhúmsins lagði inn um rimlagluggatjöldin er annars voru vendilega dregin fyrir. Kertalog vörpuðu skuggum á skinn, augu glóðu í kófinu, baðmar bifuðust logandi af feginsamlegri hvíld, maurildi eins og mýraljós, marglyttur vafðar vafurlogum í þanghafinu.

Barþernan gengur hljóðlega um að taka niður morgunpantanir hinna. Hún hefur skenkt þeim stöllum í glös og bolla og þær signa munkinn, auga fyrir auga.

Hve himneskt, hugsaði hún og hvíldin hríslaðist um hana. Hún lygndi aftur augunum. Guðdómlegt.

Má ég byrja? hvíslaði fegurðardísin, titrandi af eftirvæntingu.

Nei, má ég, lofa mér, lofa mér heldur! Ó, mér langar svo, ég vill svo, tóku raddir að óma hvíslandi hver upp í aðra í salnum.

Var þá öllu lokið? Komið að spurningunni um punkt og basta? Hvort ætti að setja hann hér og síðan ekki söguna meir? Eða var hugmyndin að útvega fleiri skinn? Kliður eftirvæntingar fór um salinn. Var skýrslan brátt öll, sagan á enda? Úti ævintýr? Skjálfti andaktar fór um salinn. Pax maní prédikum húm? En Stína þerna sveif hljóðlaust á milli borða og tók niður pantanir, fyrr fengju þau varla náðarmeðulin sín.

 

Sölin við etum

einatt og getum

eðlasta rínarvín þambað án blands.

Vöfflur með rjóma,

súpu með sóma

snæðum svo hýr eftir dagmáladans.

Í vindli kveiki

hún nú og reyki,

að heyri til friðarins Freyju vors lands.

 

 

Gangverkið og gullinsniðið

Hvað sagði ekki drottinn þegar Nói var kominn á þurrt og hafði fórnað honum brennifórn á altari sínu, einum skrokk af öllum hreinum skepnum jarðar, og hlífði þó konu sinni? Drottinn kenndi þægilegan ilminn og mælti við sjálfan sig: Ég vil upp frá þessu ekki bölva jörðinni framar vegna mannsins, því að hugrenningar mannshjartans eru illar frá bernsku hans, og ég mun upp frá þessu ekki framar deyða allt sem lifir, eins og ég hefi gjört. Meðan jörðin stendur skal ekki linna sáning og uppskera, frost og hiti, sumar og vetur, dagur og nótt.

Þegar fakírar láta urt spretta af ertu í einu vetfangi og jógar spássera á vatni, eða ófreskir menn fara hamförum í fjarlæg lönd að sínum erindum og annarra eins og Óðinn, þá er sagt: Varið ykkur börnin góð, það er djöfullinn! Rétt eins og djöflinum væri ekki velkomið að láta baunir spretta, menn spássera á vatni, ófreska menn fara erinda sinna og miðla hafa uppköst og niðurgang af útfrymi? Ef djöfullinn væri ekki skæðari en svo, þá væri gaman að lifa.

Eða hve hljótt hvarflar ekki fræið á hvirfilvæng hverfula nótt um sumar?

Það er engin skýring á neinu að segja um eitthvert fyrirbrigði: Það er frá djöflinum! Eins og það er ekki annað en útúrsnúningur ef einhverjum er svarað því um tilorðningu heims að hann sé skapaður af guði. Allt eins mætti spyrja: Hvernig fór hann að því? Stofnaði hann fyrst hlaupareikning hjá CCC? Eða eftir tilorðninguna?

Vann hann verkið hörðum höndum og tók sér síðan hvíld, eða hneigði hann huga sinn að bókrollum og ritningum? Var hann sýslumaður í sinni sveit og sagði englum fyrir verkum við deigluna, hamrandi járnið heitt?

Örþreyttur smiður fyrir framan glóandi aflinn með fingur eins og skorpnar handritsrollur, illa þefjandi eins og sútari. Akrar hans eru járnið og jarðræktaráhöld hamarinn, meitillinn, skörungurinn, töngin.

Sútari með andarteppu af eiturgufum, ataður mör og grút, að elta í brák eða á hækjum sér og skinnin að spýta, verr haldinn en vefari í Kasmír hokinn og krepptur við feld sinn. Skili hann ekki sínum hlut í skinnum eftir daginn, fær enginn Lilju kveðið þann daginn. Dreymi hann um að sjá til sólar, á hann engra annarra kosta völ en að múta dyravörðunum með ilmandi brauði.

Fái hann þá freistað bakarans! Krumlum siggi grónum, krepptum í herðum, signum í öxlum ofan niður ok og alla vöðvaköggla, rauðþrútnum um nasir af kryddinu og hveitinu. Og freista hans með hverju? Konu sinni?

Eða þá kyndarinn hvetjandi bálin blind, skinnskorpinn, starandi dauðum sjónum í eimyrju bakarofnanna, líkofnanna, augnhvítunum einum í glóandi eldstór smiðjanna, grútarbræðslanna; úttaugaður, svitastorkinn, tárum tæmdur, daunillur eins og lík.

Starfi þangskurðarmannsins er þó sá versti af öllum; hann má þakka fyrir að halda lífi á kafi í rósfingrakálinu í fjörunni. Birtist drukknir nílhestar þá blindast hann af ótta. Stoðar þá lítt að æpa og skrækja og æskja sér hjálpar. Og skriki honum fótur á hlein, má hann þakka fyrir að bera ekki beinin í mararpolli.

 

Hér í vörum heyrist bárusnari,

höld ber kaldan öldu vald á faldi,

sveltupiltar söltum veltast byltum,

á sólarbóli róla í njólu gjólu;

öflgir tefla afl við skeflurefla,

sem að þeim voga, boga, toga, soga!

 

Nei, sannarlega er ekkert starf svo gott að ekki megi finna annað betra, nema einmitt iðja skrifarans sem er allra best allra starfa.

Sá sem kann skil á starfi skrifarans verður öðrum æðri í krafti þess eins, og þetta verður ekki sagt um neitt annað starf. Sannarlega bölvar sérhver verkamaður meðbróður sínum. En hver segði við skrifarann: Bakaðu brauð handa mér! Gerðu mér skæði! Plægðu akrana fyrir mig!

Eða hver er skapari laga og reglu? Hver ákveður gangverkið og gullinsniðið? Sannarlega fetar dísin ljóðavegu guðs. Eða er hún ekki skrifaranum innan handar, allt frá fæðingu að fulltíða má kalla og mál er til komið að stíga inn í stjórnarsalinn fyrsta sinn? Sannarlega er ekki til sá skrifari sem ekki er í fullu fæði í konungs höllu og drottningar. Eða hver fær vænni flís af feitum sauð? Stoltur ber skrifarinn kápuna á báðum öxlum. Yfir klæðin ljós og rauð. Bæði eru skæðin góð, og hylja ökla, iljar, tær. Hver þekkir soltinn skrifara? Skrifara sem býr við nauð? Hver skipar svo, þá hamrað skuli járnið heitt, í járnsíður, speldi og spennsl, að búnar verði bækur?

Grágæsa móðir! Heimur hugsunarinnar er hinn sanni heimur ofar lögmálum, staðreyndum og gerðum; heimur sögunnar er í kirkjugörðum. Sagan ræðir um strit og afrek, en aðall skrifarans fram yfir náttúruna er það að hann hefur hlotið skyggnan hug hafinn yfir strit og afrek. Sagan er hismi og hjóm, aumasti hégómi, þegar öll kurl koma til grafar. Að garfa skinn og taka saman skræður, á því er enginn endir, og mikill hráskinnsleikur þreytir líkamann. Sagan er óuppbyggilegust þegar hún er samin af grúskurum sem annað hvort vita ekki hvað á að greina, eða gera sér far um að vita það ekki. Þannig er sagan ýmist sögð af afturhaldsmönnum eða frjálslyndum, höfðingjasinnum eða lýðvaldssinnum, auðvaldssinnum eða sameignarmönnum; þeim sem að þykjast vita hvað sé heilsteyptur trúnaður við gangverk sögunnar eða þeim sem andmæla og þykjast geta greint gullinsniðið öllu betur.

Sannur skrifari er hafinn yfir söguna og allt lífshlaup annarra en sjálfs sín. Starfi hann er starf hans þó svo fjarri því að snerta sjálfan hann, að þegar hann kemur í áfanga hefur hann steingleymt hvaðan hann lagði af stað, hvað hann ætlaði að greina. Hann lætur nótt sem nemur. Sigur og ósigur eru honum tvö ókunn hugtök, og tilraun sem tekst er honum nákvæmlega jafn einskisverð og sú sem mistekst. Hann horfir inn í heim sem þarf að skapa og móta, sér sæg af skuggum sem biðjast vægðar, biðjast friðar og endurlausnar. Þannig stendur skrifarinn fyrir byltingardómstóli og skipar fyrir hverja skuli leiða undir fallöxina, jafn óháður og Nói í örkinni sinni, hvaða fugla skuli senda á loft að gæta að löndum.

 

Til eru fræ, sem fengu þennan dóm:

að falla í jörð, en verða aldrei blóm.

Eins eru skip, sem aldrei landi ná,

og iðgræn lönd, er sökkva í djúpin blá,

og von sem hefir vængi sína misst,

og varir, sem að aldrei geta kysst,

og elskendur, sem aldrei geta mæst,

og aldrei geta sumir draumar ræst.

 

Eða hvarflar fræið hljótt, líkt og fiðrildi, hverfula nótt um sumar?

Er sönnum skrifara líkt farið og sáðmanninum? Eða flotaforingja á móðurskipi sínu, sem ákveður hverjum hann vill til drekka, hverjum hann felur flugið heimum ofar, hverjum hann vill fremur drekkja, jafn óháður og hann tekur ofan hattinn fyrir betlara í strætinu sínu heima þegar stundir gefast milli stríða?

 

Til eru ljóð, sem lifna og deyja í senn,

og lítil börn, sem aldrei verða menn.

 

Dómstóllinn dæmir en lætur sig engu varða byltinguna, hvort éti börnin sín.

Ekki benda á mig, svaraði varðstjórinn Línu þegar hann kom til að heimta Óla lausan. Sagðist hafa verið að æfa lögreglukórinn þetta kvöld. Hún gæti spurt þá sem voru á vakt og hann myndi ábyrgjast þeir segðu satt.

Þannig ultu svör þeirra öll upp úr sama plógfarinu, upp úr sömu litluguluhænufræðunum, ekki benda, ekki benda á mig; þeirra varðstjórans, yfirlögregluþjónsins og lögreglustjórans, þegar Lína spurði þá hver væri skapari laga og reglu.

Hvernig var það svo þegar Óli hóf að deila út brauðinu og brauðhnífurinn stóð í járni — að hún Lína ætti ekki hníf til að skera brauðið með! Hver hnoðaði deigið og laumaði járnsög í baksturinn?

Og leið nú og beið þar til að dag nokkurn birtist sýslumaður sjálfur á stéttinni í stífpressuðu júniformi sínu, spígsporandi á sínum gljásvörtu skóm.

Bonjour, madame! kallar hann upp í glugga. Je suis bien charmé de vous voir. Comment allez vous?

Lagalektorinn fór rakleiðis upp til að túlka fyrir Línu: Hann býður yður góðan dag, frú. Að það gleðji sig að sjá yður. Og spyr hvort yður líði ekki vel?

Mér líður ágætlega, svaraði Lína. Hvað vill þetta skoffín mér þarna niðrá götu?

Og lagalektorinn túlkaði á sína vísu, takandi sýslumann glóðvolgan á orðinu í stinamýktinni: Voudriez vous bien vous donner la peine de vous asseoir?

Sýslumaður hætti sér ekki lengra út á hála braut kliðmjúka málsins og greip til laga móðurmálsins:

Samkvæmt öllum lögum, madame, allt frá Jónsbók og réttarbótum Bónaparte, þá ber Óla að sinna borgaralegum skyldum sínum, að sinna konu sinni, starfi sínu, og almennt talað að halda velsæmi í heiðri vandræðalaust.

Hver bakar vandræði? spurði þá Lína. Ákvaðst þú uppskriftina og sniðið á brauðinu?

Á nú enn að fara að hengja bakara fyrir smið? Varla í anda Code Napóleon, madame, að benda bara á mig!

Hann á við að hann skapi hvorki lög né reglu, túlkaði lektor samviskusamlega fyrir Línu. Að honum sé einungis gert að fylgja gangverkinu eftir og gullinsniðinu.

Samkvæmt Jónsbók þá skal vélakaup at vettugi hafa, kallaði sýslumaður upp að bragði.

Skal svo um vélaðar kvennagiptingar, vitum vér vel, eða hvat? svaraði lektor honum um hæl. Samkvæmt rekabálki Jónsbókar á þó hverr maður reka allan fyrir sínu landi viðar ok hvala, sela ok fiska, fugla ok þara, nema með lögum sé frá komið.

Rekaviður hvat? Hvalreki á fjörum madame? Óli fugl! Óli fiskur! Selur syndandi! Eða þari hvat? Klárt kaupfox!

Þannig tókust þeir á, sýslumaður eins og fuglari bundinn við jörð að leggja snörur fyrir engla upphimins, en lektor hátt upp hafinn í línudansi á sínum lagavængjum að verja Óla. Ég vildi óska að ég hefði snöru eins og kúrekar vestursins, gæti sýslumaður hafa látið sig dreyma um að drottinn veitti honum liðsinni sitt, að hann svo fengi snarað þennan fugl og síðan fangað Óla.

Lagalektor kallaði niður til hans:

Þar sem tvær konur eða fleiri eigu einn grip saman, þann er eigi fær skipti á komit svá at eigi verði skaði af, eða þann er önnur vill gagn af hafa, en önnur órækir eða má eigi, bjóði þeirri fyrst er til móts eigu við hann.

Salómonsdóm hvat? kallaði sýslumaður upp á móti. Eða hálshöggva? Framandi þykir mér þú vera í lögum, lektor l'Étranger. Hér fylgjum eftir aðför að lögum, proxy madame hans Óla, proxy directeur hans Óla, sjálfum préfecture de police, áritaðri af dómara testifíkað. Madame láti Óla lausan án tafar. Með lögum skal honum frá henni komið absolutum ella!

Að lögum um fráfærur simplicis?

Að lögum um aðför purus, það veistu jafn vel og þú ert langur til, lektor. Ef manni, karli eða konu, er með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttinda, sem hann tjáir sig eiga og telur svo ljós, að sönnur verði færðar fyrir þeim, er honum heimult að beina til dómara beiðni um að skyldu þess efnis verði fullnægt með aðfarargerð absolutum.

Eigi skal maðr lesa ber á annars jörðu til heim at bera, benti lektor sýslumanni á.

Ekki skulum vér oss at gripdeildum gera, svaraði sýslumaður hvassyrtur. Dóms er hverr maðr verðr fyrir sínu at hafa. En sá er fyrir öðrum tekr, þá skal hann þat aptr færa, ok bæti þeim er hann tók fyrir.

Hverr maðr á engivöxt í sínu engimarki, svaraði lektor, ekki af baki dottinn. En ef víðara vex, þá á sá er jörð á undir!

Hvergi á maðr at bæta fyrir hagabeit nema lögfest sé, hrópaði sýslumaður upp og var farið að síga í hann, en lektor greip hann á orðinu og kvað hástöfum:

 

Sumir geyma svíma í draumarúmi,

sofa ofurdofa í ofurkofa.

 

Eða engi er hagi engi né engi hagi, og vítka eg þig váar fyrir aðfararvillu, sýslumaður!

Villu hvað? gall við í sýslumanni. Og hann hrópaði upp hástöfum, hraðkvæður mjög, og þó tæpast tungu ljóðadísarinnar:

Nú ganga menn á landamerki ok verða eigi á sáttir, þá eigu þeir at lögfesta til þeirra merkja, er þeir segja rétt er þar eigu lönd við fyrir utan. Vituð ér enn — eða villu hvat!

Kom þá Lína út í glugga, baðandi út örmum og holdbornum bleikum barmi svo að skelfingarsvipur kom á sýslumann, hvort skyldi hún taka flugið absolutum ofan —.

Ek lögfesti hér í dag kall mitt til Óla, at orðfullu ok lögmáli réttu, hrópaði hún út yfir götuna. Fyrirbýð ek heðan af hverjum manni, karli og hverri konu, sér at nýta eða í at vinna, nema mitt sé lof eða leyfi til, at vitni þínu lektor ok þínu sýslumaður ok allra þeirra er orð mín heyra.

Með þeim orðum skellti Lína aftur glugganum, en sýslumaður hryllti sig og mátti yfirgefa vettvang við svo búið.

Hver er þá skapari laga og reglu? Hver bakar?

Ekki benda á mig, svaraði ríkislögreglustjórinn sem næstur kom á fund Línu, þá komið fram á haustnætur, og var hann þó ekki alveg sá síðasti í röðinni. Ég er aðeins apparat, fullyrti hann, tæki og tól í höndum þeirra skapavalda er ákveða gangverkið og gullinsniðið. Tól sem á að greina vandræði sem aðrir skapa.

Háfleygur, vantaði ekki, líkt og haldinn óráði, í sínu draumarúmi gulls og svíma. Eða talaði hann tungu langbylgjunnar? Því tók hann þá ekki skrefið til fulls og flutti heldur erindi um greiningu vandans á bylgjum gömlu gufunnar?

Heyrið þér, frú mín góð, spurði á hinn bóginn ríkissaksóknarinn, líkt og beint upp úr bók, einna síðastur í röðinni, — vilduð þér ekki gera mér þá ánægju að koma með í siglingu á snekkjunni minni á sunnudaginn kemur? Þetta verða aðallega góðkunningjar og þar á meðal ýmsir sem ég held þér munuð kunna vel að meta, og munuð jafnvel kannast við. Ætlið þér ekki að koma? Gerið það nú fyrir mig!

Kærar þakkir! svaraði Lína einu og fremur hvumpin. Að því miður hefði hún engan tíma á sunnudeginum, hún hefði þegar ráðstafað sér. Eða hvað hélt maðurinn? Var hann með öllum mjalla? Að hún færi að láta hrekjast í einhverri kollu um sundin bláfext og hvítflyssandi hrímkalt um haust, og það á messudegi!

Nei, allt kom fyrir ekki, þrátt fyrir þjált, tillært tungutakið herramannanna, og hafði þessi allaveganna ekki erindi sem erfiði, fremur en aðrir; treysti sér ekki til, ekki fremur en aðrir, að kveðast á við Línu.

Loks kom dómari, eins og síðbúinn veturnáttaboði, birtist reyndar á allraheilagramessu eða hvort það var á allrasálnamessu, það gildir einu og í öllu falli ýlir varla genginn í garð. En alls ófeiminn kynnir hann sig sem skriftandi dómara, afar tungulipur og augljóslega því vanur að halda miklar einræður.

Leikur yður ekki forvitni á að heyra eitthvað af mínum páfalegu ævintýrum, frú mín góð? Þó að vísu séu afskaplega rislág og hversdagsleg. Nú, þegar skipti svo á er komið, að réttlætið hefir endanlega verið skilið frá sakleysinu, réttlætinu holað niður á krá og sakleysið eitt hangandi eftir á nöktum krossi, hefi ég þá ekki frelsi og svigrúm til að starfa eftir sannfæringu minni? Mér finnst alveg kominn tími til að ég fái með góðri samvisku að gegna minni erfiðu stöðu sem skriftandi dómari, þeirri stöðu sem ég hefi valið mér eftir öll vonbrigði lífs míns, allar mótsagnirnar, allar mínar miklu paradoxur; og þar sem ég sé að þér eruð í þann veginn að fara að loka á mig glugganum, er ekki seinna vænna að fara hratt yfir sögu og ljúka ævintýrinu.

En dómarinn komst ekki lengra með að ljúka ævintýrinu, því að í sömu mund skellti Lína aftur glugganum. Lét sá skriftaglaði sig hógværlega hverfa við svo búið.

Hvað olli annars hvarfi krossins? Og hvað endurreisn hans? Því gat leynilögregla ríkisins ekki upplýst það? Eða sváfu allir ofurdofa í ofurkofa? Og hví stóð krossinn svo nakinn eftir?

Ekki benda á oss! mun borgarlistráðið hafa hrópað aðspurt í einum kór, beint upp úr sínum litluguluhænufræðum, og gat þó enginn því í móti mælt að í kvöldverði ráðsins á menningarnótt hefði verið saltfiskur á borðum.

Borgarstjóri krafði ráðið um reikninga fyrir öllum veisluföngum. Allt stóð heima og var vendilega í bækur fært, drykkjarföng, meðlæti og hvaðeina, altaltalt þúsundfalt — nema sjálfur aðalrétturinn, saltfiskurinn.

Hvaðan kom fiskurinn ráðinu? Eða saltið í grautinn? Hafði það og etið hattinn, slaufuna? Eða loftnetið og júnitið — hverjum ætti það svo sem að gagnast? Loftnetið raunar allt of stutt að kæmi að nokkrum notum við langbylgjugjörninga.

Hve lengi skal vor leit til einskis þreytt? Hve lengi í þras og streitur dögum eytt?

Allaveganna á eftir munu allir hafa farið út á lýst strætin að dansa — dansa rúmbu, tangó, vals, allt eftir því hver var fótmennt hvers og eins. Nær hin sama dansmenntin, ekki satt, og allajafna á heilögum Þorlák og á nýársnótt —.

 

Skál, mínir mátar,

skál, pótintátar,

skál þína, heilagi faðir í Róm.

Mín prédikun búin?

Prinsessan flúin?

Praktuga kórónan einasta hjóm?

Snart lýkur sálmi,

æ, barinn ei tálmi,

snafs upp á krít, takk, dræ – engan barlóm.

 

 

Nætur missir — dags heimt?

Hann sat við gluggann og horfði á dýrð ljósanna. Dies soli invicti nati. Hvíslaði tvö nöfn, tvö hrein, saklaus orð, sem táknuðu hina fyrstu sönnu ást hans, þjáningu og sælu, táknuðu lífið og átthagana, hina upprunalegu og djúpu tilfinningu ljóss og myrkurs. Hann leit yfir árin, sem liðin voru frá þeim tíma til þessa dags. Hann hugsaði um hin taumlausu ævintýri er hann hafði ratað í, ævintýri holdsins, tauganna og andans, sá sjálfan sig sundur kraminn af spottandi visku, hugsjúkan og lamaðan af niðurstöðum þekkingarinnar, úttaugaðan af hita og köldu sköpunarstarfsins, sá sjálfan sig sveiflast milli hinna ystu andstæðna, milli heilagleika og nautnaþorsta, fátækan, örmagna af kaldri, háspenntri æsingu, vegvilltan, þreklausan, hrjáðan og sjúkan — og það setti að honum grát af iðrun og þrá.

Hvernig hefðu kirkjufeðurnir brugðist við í hans sporum? Kveikt heldur á útvarpinu? Hlýtt á sálumessu? Fengið sér snafs? Eða í pípu? Jafnvel í nösina líka?

Umhverfis hann var dimmt og hljótt. Velkjast skuggar í vafa á veggjum. Glas, glas og aftur glas. Tíminn, það er fugl sem flýgur hratt, skyldi hann máske fljúga úr augsýn alls í kveld? Hve oft hafði hann ekki heyrt í draumi æpt úr kránni: Sjá! Sjá! Á lífsins staupum lækkar, skuggar! Ó, lyftið þeim á meðan færi er á!

Marvaðaflækja eða lömb á hverjum króki? Hvað varðaði hann um það? Þau máttu halda áfram, bræður og systur hans, hraðferðinni. Telja sín lömb eða láta velta á eld sinn vetrarsnjáða yfirbótafeld. Eina hann vissi, að skákborð eitt skiptist í glas og aftur glas, sex og aftur sex. Sofa sex, vaka sex, sofa sex, vaka sex. Eins og á útilegu á saltfisk? Glas, glas, glas og aftur glas!

En við nýár glæðast gamlar þrár í lund, þá gengur djúplynd sál á þagnar fund. Og vakir frívaktina. Vakandi, í móki, dottandi, á meðan ekki kemur kallið: Ræs, ræs! Upp! Vak! Úti vakir dýrð ljósanna, enn rofin hvellum. Þó löngu liðin náttmálatíð! Og óttutíð. Því kemur ekki kallið? Að neðan berst veikur ómur af tangó, eða var það vals klukknanna, karré kvadrillunnar, kliðmjúkt, vaggandi og hversdagslegt hljómfall lífsins?

 

Ein stundarhvíld á hólma í auðnarnótt.

Ein hestaskál í lífsins brunna sótt.

Svo fölna stjörnur. Lestin býst á brott

mót bleikri dögun einskis. — Kom þú fljótt!

 

Villuráfandi borgari. Týndur sonur með heimþrá í hjarta, listamaður með vonda samvisku. Þjófur. Þjófur í paradís? Listamennirnir kölluðu hann borgara. Borgararnir einfaldlega tækju hann höndum eða rækju á dyr. En þið, sem tilbiðjið fegurðina, þið, sem kallið hann tómlátan og kaldlyndan, ættuð að minnast þess að til er eðli sem stendur svo djúpt, er svo upprunalegt og áskapað, að því er engin þrá samgrónari og kærari en sú, sem kallar eftir unaði hversdagsleikans.

Hún er undirrót allrar hlýju, allrar gæsku, allrar gamansemi, og liggur næst við að halda að hún sé einmitt sú ást sem um stendur skrifað, að þótt einhver gæti talað manna og engla tungum, væri hann ekki annað en syngjandi málmur og hvellandi bjalla, ef hana vantaði.

Hann sér inn í óborinn og formlausan heim, sem skapa þarf og móta, sér sæg af englum — eða eru það mannlegir skuggar sem veifa til hans, í bæn um frið og endurlausn? Sumir eru harmþrungnir, aðrir broslegir og enn aðrir hvort tveggja í senn — og að þeim geðjast honum best. En dýpstu og leyndustu ást ber hann til hinna björtu og lífsglöðu, hinna hamingjusömu, óbreyttu og elskulegu.

Hallmælum ekki þessari ást. Eða er hún ekki góð og frjó? Í henni felst þrá og þunglyndiskennd öfund, vottur af fyrirlitningu, en fyrst og fremst saklaus sæla.

Eða verður sannri ást samsamað við nokkuð, fremur en að þýddi að bjóða fíl að ganga í bæinn í glervörubúð? Nema þá við grímulausa ást?

Undursamleg tilfinning. Vissulega. Að búa ekki lengur með einni eða neinni, einum eða neinum, aðeins með sjálfum sér og lögheimili sínu. Hann horfir út yfir varpann, yfir hálfan heiminn úr bláturni sínum en er ekkert að spá í hvar skyldi vera næsti bar. Eða því þá að vera að spá í það? Var þetta ekki í raun og sann eins og næsti bær við himna, þó að vísu hann sæi ekki périphérique alveg til allra átta?

Hann horfðist í augu við skugga grímanna á veggjum, horfðist í augu við svipi myndanna á veggjum, horfðist í augu við grandvara varðsveit sálar hússins, æ vakandi alsjáandi augum á hillum og syllum.

Því kemur ekki kallið? Engu þó líkara en ómi fjarlæg trumba — sittu kyrr!

Hann fálmar í húminu eftir líkjörnum góða, skenkir sér fálmandi hendi í kúpt glasið er sindrar mót pyttlunni marglitum glömpum er stöku enn vakna undir festingunni og deyja í senn.

 

Sú skál á hvolfi, er himin nefnum vér,

með heima lífs og dauða undir sér

– beindu ei til hennar hjálparkalli í neyð.

Hún hverfist ráðlaus. Áþekkt þér og mér?

 

Heyrðu mig nú! hrín þá allt í einu munkurinn, sem sofið hefur ofurdofa í ofurkofa sinnar gullveigar. Upp! Vak! Jólasveinaflóðið að fjara út og jólabókaflóðinu slotað — hvað liggur á? Koma flóð eftir flóð, vagnar eftir vagna, og skýrslur um skýrslur eftir skýrslur, alveg rólegur, rithöfundur góður, þó að ár og dagar líði.

 

Hin fyrsta mold og hinsta hold er eitt,

í hinsta ávöxt fyrsta sæði breytt.

Á fyrsta morgni rist var rúnin sú,

sem ráðin skal, er lögskil verða þreytt.

 

Hann stakk upp í munkinn og kveikir á útvarpinu. Það er kominn messutími, næturhúmið runnið út í eitt með dagmálatíð. Sönglar undir með gömlu gufunni, hvort sem væri á langbylgjunni eða á einhverju tíðnisviðinu öðru. Tekur út úr lífsins skálinni en klerkur hrín í sínu draumarúmi gulls og svíma.

 

Sæl og blessuð Freyja, má ég eina rækta þig?

Heil sért þú meyja, eða á einhver sjálfan sig?

 

Og holdið eina varð orð, það bjóst á meðal vor.

Heill þér mettri náð, góða, munablóm herrans.

Þú einrækta Freyja, orðin orðsins dôme d'or!

Æ, og vér enn að falast eftir þessu dómsorði hans.

 

Biðja þig að mýkja hans reiði, mikla herra orðs?

Að enn úthelli og náð í fagran blóma vorn?

Að frjóvgist rækt ein af einni, fyrir þján dómsmorðs?

Að aldrei baki á ný nauð né í síðu neins horn?

 

Hver er heiður hans Sjóla, mey, mætasta manns,

Kriste paradísar, Munks & Hudsonar – alias bay?

Háborgar litlu auðs vors nær kaldasta ranns.

Æ, bið þú oss náðar að syndum eyði – ó key?

 

Æ, Freyja, Freyja! Sjóli var maður, og þetta hold,

sem þú ræktir í blóma, svo að af yrði morð.

Finn drottins líkn, sorgir sefi, syndir grafi í mold,

þú móðir herrans, einrækta lífs og friðar, frú orð.

 

Jómfrú, sjá himinn og jörð er í höndum þínum,

bið þú um drottins líkn, þá fer að dauða mínum.

 

Enn einu sinni tekur að daga yfir reynslu mannkyns. Dies soli invicti nati. Enn boðar daufblár morgunhiminn nýjan sigur dags yfir nótt, og svipirnir stinga sér á höfuðið ofan í grafir sínar, líkt og flugeldar næturinnar væru enn á leið til jarðar. Í það mund sem janúarsól tekur að roða hæstu turna, staðnæmast einhver og gera engilsbæn sína, krossa sig í skyndi, tautandi fyrir munni sér þessi guðdómlegu firn um nauma dagmálatíð:

Gæti ekki þetta minnt okkur á maísól?

 

 

Fyrsti heimur?

Annar heimur?

Þriðji heimur?

Fjórði heimur?

Fimmti heimur?

Sjötti heimur?

Í allt öðrum heimi, heima í millum eða heimum alls neðar?

Sjöundi og efsti heimur?

Heimsendir?

Endir?

 

prenta skjal

Rómanza: heim á kvist