< Hafa, ekki hafa

ÞRIÐJI HLUTI: HARRÝ MORGAN, Vetur (11. - 18. kafli)

 

 

11. kafli

Morguninn eftir í Key-Vest var Richard Gordon á leið heim í íbúð sína eftir að hafa verið á barnum hjá Fredda sem hann hafði farið á til að spyrjast fyrir um bankaránið. Hann var á hjólinu sínu og á vegi hans varð digur, stór kona, bláeygð, með ljóst litað hár sem féll undan gamals manns flókahatti; hún var á hraðferð, á leið yfir götuna, og augun rauðþrútin af gráti. Sjá þetta svaða yxni, hugsaði hann. Hvað skyldi nú kona eins og þessi láta hugann dvelja við? Hvernig skyldi hún gera það í rúminu? Hvað skyldi eiginmanninum finnast um hana svona vaxna. Hvað skyldi hann hafa með höndum í þessum bæ? Var hún ekki svakaleg ásýndum þessi kona? Eins og orrustuskip. Hrollvekjandi.

Hann var nú næstum kominn heim. Hann skildi hjólið sitt eftir í forbyrginu og lokaði á eftir sér forstofudyrunum sem voru útboraðar og étnar af hvítmaur.

„Hvað fékkstu að vita, Dick?“ kallaði kona hans til hans úr eldhúsinu.

„Ekki ónáða mig,“ sagði hann. „Er að fara að vinna. Ég hef það allt í höfðinu.“

„Gott að heyra,“ sagði hún. „Ég skal ekki ónáða þig.“

Hann settist niður við stórt borðið í fremri stofunni. Hann var að skrifa skáldsögu um verkfall í vefnaðarverksmiðju. Hann hafði í hyggju að nota hana í kafla dagsins þessa stórvöxnu konu með rauðþrútnu augun sem hafði orðið á vegi hans rétt í þessu á leiðinni heim. Þegar eiginmaður hennar kæmi heim að kveldi legði hann fæð á hana fyrir það hve hún væri orðin stórgerð og mikil vöxtum, hefði óbeit á lýstu hári hennar, á of stórum brjóstunum, og þyldi ekki hve hún sýndi starfi hans sem skipuleggjanda lítinn skilning. Hann mundi bera hana saman við ungu, smávöxnu gyðingastúlkuna með nettu brjóstin sem hafði talað á fundinum þetta kvöld. Þetta var ágætt. Gæti orðið virkilega hrollvekjandi, svo sannarlega. Hann hafði fangað í leiftursýn allt innra líf konu af þessu tagi.

Fálæti hennar gagnvart atlotum eiginmannsins fyrr á tíð. Þrá hennar eftir börnum og öryggi. Skilningsleysi hennar gagnvart markmiðum eiginmannsins. Raunalega viðleitni hennar til að gera sér upp áhuga á kynlífi sem hún var þó komin með andúð á. Þetta mundi verða fínn kafli.

Konan sem hann hafði séð var eiginkona Harrýs Morgans, María, á leið heim af skrifstofu lögreglustjórans.

 

12. kafli

Bátur Fredda Wallace, Kræklingadrottningin, þrjátíu og fjögra feta langur, með V-númeri frá Tampa, var hvítmálaður; framdekkið málað í lit sem kallaður er gáskagrænn og stýrisskýlið var málað gáskagrænt að innanverðu. Þakið á skýlinu var málað í sama lit. Nafn og heimahöfn, Key-Vest, Fló., var málað í svörtu þvert á skutinn. Hún var ekki með neinn utanborðsbúnað og ekki heldur með siglutré. Hún var með vindskyggni úr gleri, það var brotið fyrir framan stýrishjólið. Á nokkrum stöðum voru göt í nýmálaðan skrokkinn þar sem skein í ferskan viðinn. Beggja vegna gaf að líta hvar flísast hafði úr viðnum um það bil feti fyrir neðan borðstokk, lítið eitt fyrir framan miðju á stýrisskýlinu. Stjórnborðsmegin, næstum við sjólínu, á móts við stoðirnar sem héldu húsinu eða skýlinu uppi að aftanverðu, var önnur þyrping af þessum förum í viðinn. Neðanvert við þau var eitthvað dökkleitt sem hafði lekið niður og loddi í límkenndum taumum við nýja málninguna á skrokknum.

Hana rak flata fyrir hægum norðanvindinum um það bil tíu mílur fyrir utan nyrðri siglingarleið tankskipanna, frískleg á að líta í björtum litum sínum hvítum og grænum, mót dimmbláum sæ Golfstraumsins. Flákar af sólblikuðu Sargassóþangi flutu í vatnsskorpunni skammt undan og sem þeir bárust með straumnum í norður og austur þokuðust þeir smám saman nær henni, en vindurinn vann að nokkru leyti á móti er bátinn rak æ lengra út í strauminn. Ekkert lífsmark var sjáanlegt um borð þó þar gæfi að líta skrokk af manni, heldur skrautlegan ásýndum, liggjandi út af á bekk yfir bensíngeyminum bakborðsmegin, og svo var að sjá sem maður á bekknum stjórnborðsmegin lyti út yfir borðstokk að dýfa hendinni í sjóinn. Sólin skein á höfuð hans og handleggi og þar sem fingur hans námu næstum við vatnsskorpuna var torfa af um það bil tveggja þumlunga löngum, egglaga sílum, gylltum á lit með daufum purpuraröndum; þau höfðu yfirgefið flóaþangið til að leita afdreps í skugganum sem myndaðist í sjónum undir rekandi bátnum, og í hvert sinn sem eitthvað draup í sjóinn þyrptust sílin að og þæfðust hvert um annað þangað til það var uppurið. Tveir gráir sogfiskar, um það bil átta þumlunga langir, syntu hring eftir hring kringum bátinn í skugganum í sjónum, glennandi upp og skellandi aftur þverum skoltunum á ofanverðum hausunum; en þeir virtust ekki átta sig á eftir hvaða reglu droparnir sem urðu sílunum að bráð féllu og voru eins vísir til að vera þeim megin undir bátnum sem fjær lá þegar þeir féllu, eins og réttu megin. Þeir voru fyrir löngu búnir að slíta í sig rauða og límkennda kleprana og taumana sem höfðu lekið í sjóinn út um gatatæjurnar sem lægst lágu, skekjandi á sér ófrýnilega sogkjaftshausana og mjóslegnar stirtlurnar er þeir slitu það í sig. Þeim var þvert um geð að yfirgefa þennan stað þar sem þeir svo óvænt höfðu komist í svo feitt.

Inni í stýrisskýlinu á bátnum voru þrír menn að auki. Einn, dauður, lá á bakinu þar sem hann hafði fallið niður af stólnum við stýrið. Annar, dauður, stærðarinnar flykki, lá út við lensportið við stoðina sem hélt skýlinu uppi að aftan stjórnborðsmegin. Sá þriðji, enn á lífi, en hafði ekki verið með sjálfum sér um langa hríð, lá á hliðinni og hvíldi höfuðið á handleggnum.

Kjalsogið í bátnum var fullt af bensíni og þegar báturinn valt slóst það til með skvamphljóði. Maðurinn, Harrý Morgan, stóð í þeirri trú að þetta hljóð kæmi úr sínum eigin maga og honum fannst núna sem maginn væri á stærð við stöðuvatn og að það bryti samtímis í fjörunum beggja vegna. Það var vegna þess að hann lá núna á bakinu með hnén uppi og höfuðið aftur. Stöðuvatnið sem var maginn í honum var afar kalt; svo kalt að þegar hann steig út í það varð hann dofinn af kulda, honum var óhemju kalt núna og bensínþefinn lagði af öllu eins og hann hefði verið að soga með slöngu upp úr geymi. Hann vissi að hann hafði ekki verið að fást við neitt slíkt þótt hann fyndi fyrir kaldri gúmmíslöngu sem líkast var að hefði farið upp í hann og hringaði sig núna niður, stór, köld og þung í sér, niður um hann allan. Hvert sinn sem hann dró andann vafði slangan sig kaldar og þéttar innra með kviðnum neðanverðum og hann fann til hennar eins og það væri stærðar snákur sem hreyfði sig þar fimlega, yfir brimandi stöðuvatninu. Honum stóð stuggur af þessu, en þó þessu færi fram innra með honum virtist það engu að síður vera óravegu í burtu og það sem hann hafði hugann við, þessa stundina, var kuldinn.

Kuldinn hríslaðist um hann allan, nístandi kuldi sem varð ekki bægt á brott, og hann lá núna kyrr og fann til hans. Um hríð hafði hann hugsað með sjálfum sér að gæti hann lyft sér upp og lagt sig saman myndi það veita honum yl eins og hann hefði um sig teppi, og um stund fannst honum sem hann hefði lyft sér upp og ylinn legði um hann. En sá ylur stafaði í raun og veru aðeins af blóðrennslinu sem uppreist hnén ollu; og þegar ylurinn dvínaði komst hann að raun um að maður getur ekki lyft sér upp og lagt sig saman og að ekkert var við kuldanum að gera nema láta sig hafa það. Þar lá hann og reyndi eftir fremsta megni að gefa ekki upp öndina löngu eftir að hugsunin væri öll. Hann lá núna í skugganum, sem bátinn rak, og það varð æ kaldara.

Báturinn hafði verið á reki síðan klukkan tíu kvöldinu áður og nú var orðið langt liðið á dag. Svo langt sem augað eygði út yfir Golfstrauminn var ekkert að sjá nema flóaþangið, og fáeinar bleikar, státnar og skjallþunnar portúgalastríðsfleytur hreykjandi sér iðandi í yfirborðinu, og í fjarska liðaðist reykjarslæða upp frá djúpristu tankskipi sem var haldið í norður á leið frá Tampico.

 

13. kafli

„Jæja?“ sagði Richard Gordon við konu sína.

„Það er varalitur á skyrtunni þinni,“ sagði hún. „Og á eyranu á þér.“

„Hvað finnst þér um þetta?“

„Um þetta hvað?“

„Að koma að þér liggjandi á legubekknum með þessum drykkjurúti.“

„Það gerðirðu ekki.“

„Hvernig kom ég þá að ykkur?“

„Við sátum á bekknum.“

„Í myrkrinu.“

„Hvar hefur þú verið?“

„Á heimili þeirra Bradley.“

„Já,“ sagði hún. „Ég veit. Snertu mig ekki. Þú angar allur af þessari konu.“

„Hverju angar þú af?“

„Engu. Ég sat og spjallaði við vin minn.“

„Kysstirðu hann?“

„Nei.“

„Kyssti hann þig?“

„Já, og mér fannst það gott.“

„Tíkin þín.“

„Ef þú kallar mig það fer ég frá þér.“

„Tíkin þín.“

„Allt í lagi,“ sagði hún. „Það er búið. Ef þú værir ekki svona upptekinn af sjálfum þér og góður með þig, myndirðu hafa séð fyrir löngu að þetta væri búið.“

„Tíkin þín.“

„Nei,“ sagði hún. „Ég er engin tík. Ég hef reynt mitt besta til að vera góð eiginkona, en þú ert sjálfumglaður og eigingjarn eins og hani á priki. Sífellt galandi: "Sjáðu hvað mér hefur tekist. Sjáðu hvað ég hef gert þig hamingjusama. Farðu nú og klakaðu svo allir viti." Jæja, þú gerir mig ekki hamingjusama og ég er búin að fá nóg af þér. Ég klaka ekki meir.“

„Það ættirðu heldur ekki að gera. Þú hefur aldrei myndast til neins sem væri til að klaka um.“

„Hverjum er það að kenna? Vildi ég ekki eignast börn? En við höfðum aldrei efni á því. En við höfðum efni á að fara til Cap d’Antibes til að synda og fara á skíði í Sviss. Við höfum efni á að fara hingað niður eftir til Key-Vest. Ég er búin að fá nóg af þér. Mér mislíkar við þig. Þessi Bradley kvensa í dag gerði útslagið.“

„Æ, haltu henni utan við þetta.“

„Kemur heim allur útataður í varalit. Gastu ekki einu sinni þvegið þér? Þú ert með þetta á enninu líka.“

„Þú kysstir þennan drukkna dóna.“

„Nei, það gerði ég ekki. En hefði gert það hefði ég vitað hvað þú varst að gera.“

„Af hverju léstu hann kyssa þig?“

„Ég var svo ofsareið út í þig. Við biðum og biðum og biðum. Þú komst aldrei nærri mér. Þú fórst burt með þessari konu og varst hjá henni í fleiri klukkustundir. John tók mig heim.“

„Ó, John, sagðirðu það?“

„Já, John. JOHN. John.“

„Og hvert er eftirnafn hans? Thomas?“

„Það er MacWalsey.“

„Af hverju stafarðu það ekki?“

„Ég get það ekki,“ sagði hún og hló. En það var í síðasta sinn sem hún hló. „Skalt ekki halda að allt sé í lagi þó ég hlæi,“ sagði hún með tárin í augunum, titrandi vörum. „Það er ekki allt í lagi. Þetta er ekkert venjulegt rifrildi. Þetta er búið. Ég hata þig ekki. Það býr engin heift að baki. Mér bara mislíkar við þig. Mér mislíkar við þig að öllu leyti og ég er hætt við þig.“

„Allt í lagi,“ sagði hann.

„Nei. Ekki allt í lagi. Allt búið. Skilurðu ekki?“

„Ætli það ekki.“

„Ekki ætla það.“

„Hættu þessum tilfinningaleik, Helena.“

„Að ég sé að leika tilfinningaleik, heldurðu það? Nei, það er ég ekki. Ég er hætt við þig.“

„Nei, það ertu ekki.“

„Ég ætla ekki að endurtaka það.“

„Hvað hyggstu fyrir?“

„Ég veit það ekki enn. Kannski að ég giftist John MacWalsey.“

„Það gerirðu ekki.“

„Geri það ef mig langar til.“

„Hann mundi ekki giftast þér.“

„O, jú, hann gerir það. Hann bað mig núna í dag að giftast sér.“

Richard Gordon sagði ekki neitt. Þar sem hjarta hans hafði verið var nú aðeins tóm, og allt sem hann heyrði, eða sagði, virtist vera fyrir misheyrn.

„Bað hann þig hvers?“ sagði hann, röddu langt að handan.

„Að giftast sér.“

„Af hverju?“

„Af því hann elskar mig. Af því að hann vill að við búum saman. Hann hefur nægar tekjur til að sjá fyrir mér.“

„Þú ert gift mér.“

„Ekki í raun og veru. Ekki í kirkju. Þú vildir ekki giftast mér í kirkju og það olli móður minni sárri hugarkvöl eins og þú veist vel. Ég var svo veik fyrir þér að ég skeytti því engu þó ég ylli hverjum sem væri sárri hugarkvöl þín vegna. Guð, hvílíkur bannsettur kjáni ég var. Ég olli ekki síður sjálfri mér sárri hugarkvöl. Hugur minn er kvalinn og ég öllum heillum horfin. Allt sem ég trúði á og allt sem ég lét mig einhverju varða lét ég lönd og leið þín vegna af því að þú varst svo dásamlegur og þú elskaðir mig svo heitt að ástin var það eina sem skipti máli. Ástin var öllu æðra, var það ekki? Ástin var það sem við áttum ein og enginn annar átti og mundi aldrei öðlast. Og þú varst snillingur og ég var gjörvallt líf þitt. Ég var félagi þinn og litla svarta blómið þitt. Sori. Ást er einungis enn ein óþverralygin. Ást er ergoapiolpillur til þess ætlaðar að laða mig fram af því að þú varst hræddur við að eignast barn. Ást er hrein og tær, hrein og tær, hrein og tær þangað til ég hætti að heyra það. Ást er þessi misheppnaði óþverrahryllingur sem þú leiddir mig út í. Ást er innmaturinn í mér allur í stöppu. Hún er að hálfu þvagfæri og að hálfu iðandi vessar. Ég veit hvað ást er. Ást hangir alltaf uppi á bak við baðherbergisdyrnar. Hún lyktar eins og lýsól. Til fjandans með ástina. Ást er hamingja mín búin til af þér og þú að sofna með munninn á þér opinn á meðan ég ligg andvaka alla nóttina jafnvel hrædd við að fara með bænirnar mínar af því að ég veit að ég á ekki rétt á neinu meira. Ást er öll litlu óþverrabrögðin sem þú kenndir mér og hafðir trúlega beint upp úr einhverjum bókum. Allt í lagi. Ég er búin að fá nóg af þér og búin að fá nóg af ástinni. Af þér og þinni nefboruást. Þú rithöfundurinn þinn.“

„Þú litla mikla subban þín.“

„Skalt ekki uppnefna mig. Ég veit hvaða nafn hæfir þér.“

„Allt í lagi.“

„Nei, ekki allt í lagi. Öllu er öfugt farið og aftur öfugt farið. Værirðu einungis sæmilegur rithöfundur mundi ég kannski umbera allt hitt. En ég hef séð þig beiskan, afbrýðisaman, skiptandi um stjórnmálaskoðanir til að tolla í tískunni, flaðrandi upp um fólk og baknagandi það. Ég hef fylgst með þér og fengið nóg af þér. Og svo þessi Bradley kvensa núna í dag. Ó, ég hef fengið mig fullsadda. Ég hef reynt að annast þig og vera þér að skapi og líta til með þér og elda fyrir þig og hafa hægt um mig þegar þú vildir og vera þér til upplyftingar þegar þú vildir og sjá þér fyrir litlu hvellunum þínum og láta sem ég nyti þeirra, og umborið ofstopa þinn og afbrýðisemi og ódrenglyndi og núna er ég búin að fá nóg.“

„Svo að þú vilt byrja núna upp á nýtt með fullum prófessor?“

„Hann er karlmaður. Hann er blíður og vingjarnlegur og manni líður vel í návist hans og við erum upprunnin úr svipuðu umhverfi og við metum hlutina á þann hátt sem þú munt aldrei fá skilið. Hann er eins og faðir minn var.“

„Hann er drykkjumaður.“

„Hann drekkur. En það gerði faðir minn líka. Og faðir minn gekk í ullarsokkum og setti fæturna upp á stól í sokkunum og las blaðið á kvöldin. Og þegar við fengum barnaveiki passaði hann upp á okkur. Hann var ketilsmiður og hendurnar á honum voru allar lerkaðar og honum þótti gaman að slást þegar hann drakk, og hann gat slegist þegar hann var ódrukkinn. Hann fór til kirkju af því að móðir mín vildi að hann gerði það og hann lét þjónusta sig á páskum hennar vegna og vegna drottins vor, en aðallega vegna hennar, og hann var góður verkalýðssinni og hafi hann einhvern tímann verið með annarri konu hefur hún aldrei vitað það.“

„Ég þori að veðja að hann hefur verið með þeim býsna mörgum.“

„Má vera, en þá sagði hann prestinum frá því, en ekki henni, og þá hefur það verið af því að hann hefur ekki getað staðist það og honum þótt það leitt og hann iðrast þess. Það var ekki af neinni nýjungagirni, eða af neinum oflátungsskap, eða til að miklast af sjálfum sér fyrir konu sinni. Hafi hann gert það þá hefur það verið af því móðir mín fór burtu með okkur krakkana á sumrin, og hann verið úti með strákunum og orðið drukkinn. Hann var karlmaður.“

„Þú ættir að gerast rithöfundur og skrifa um hann.“

„Mundi áreiðanlega slá þér við. Og John MacWalsey er góður maður. Nokkuð sem þú ert ekki. Þú gætir það ekki. Sama hverjar stjórnmálaskoðanir þú hefðir eða hverrar trúar værir.“

„Ég er trúlaus.“

„Það er ég einnig. En einu sinni átti ég mér trú og ég ætla mér að öðlast trú á ný. Og þá verður þú ekki til staðar til að svipta mig henni. Líkt og þú hefur svipt mig öllu öðru.“

„Nei.“

„Nei. Þú getur sængað hjá einhverri ríkri konu eins og Helène Bradley. Hvað fannst henni um þig? Fannst henni þú vera dásamlegur?“

Sem Richard Gordon virti fyrir sér sorgmætt, heiftúðugt andlit hennar, dáindis snoturt sem hún grét, varirnar ferskar og svellandi eins og eitthvað sem regn hefur leikið um, dökkt hrokkið hár hennar villt kringum andlitið, þá gaf hann hana upp á bátinn, síðan, að lokum:

„Og þú elskar mig ekki framar?“

„Ég meira að segja hata það orð.“

„Allt í lagi,“ sagði hann, og sló hana skyndilega fast í framan.

Hún grét núna af raunverulegum sársauka, ekki af reiði, og grúfði andlitið fram á borðið.

„Þú þurftir ekki að gera þetta,“ sagði hún.

„Ó, jú, ég þurfti þess,“ sagði hann. „Þú veist heilmikið, en þú veist ekki hve mjög ég þurfti þess.“

Þá síðdegis hafði hún ekki orðið hans vör þegar dyrnar opnuðust. Hún hafði ekki séð neitt nema hvítt loftið með hrímkökumótuðum ástargoðunum, dúfunum og útflúrinu sem lýsti skyndilega upp þegar birtuna lagði inn um dyrnar.

Richard Gordon hafði litið um öxl og séð hann þar sem hann stóð í dyrunum, hávaxinn og skeggjaður.

„Ekki hætta,“ hafði Helène sagt. „Gerðu það, ekki hætta.“ Bjart hár hennar flóði um koddann.

En Richard Gordon hafði hætt, enn horfandi um öxl, starandi augum.

„Láttu þig hann engu skipta. Láttu þig ekkert neinu skipta. Skilurðu ekki að þú mátt ekki hætta núna?“ hafði konan sagt af örvæntingarfullri ákefð.

Skeggjaði maðurinn hafði lagt hurðina hægt aftur. Hann var brosandi.

„Hvað er að, ástin?“ hafði Helène Bradley spurt nú sem myrkrið hafði leikið um þau á ný.

„Ég verð að fara.“

„Skilurðu ekki að þú getur ekki farið?“

„Þessi maður—“

„Þetta er bara hann Tommi,“ hafði Helène sagt. Hann veit allt um þessa hluti. Láttu þig hann engu skipta. Haltu áfram, ástin. Gerðu það.“

„Ég get það ekki.“

„Þú verður,“ hafði Helène sagt. Hann fann að hún skalf og höfuð hennar nötraði við öxl hans. „Guð minn góður, skilurðu ekki neitt? Berðu enga virðingu fyrir kvenfólki?“

„Ég verð að fara.“ sagði Richard Gordon.

Umleikinn myrkrinu hafði hann fundið þegar hún sló hann í framan svo að stjörnur dönsuðu fyrir augum hans. Hún sló hann aftur. Á munninn að þessu sinni.

„Svo að það er þess háttar maður sem þú ert,“ hafði hún sagt við hann. „Ég sem hélt að þú værir heimsmaður. Snáfaðu burt héðan.“

Það var nú síðdegis. Það var þannig sem því hafði lokið heima hjá Bradleyhjónunum.

Núna sat kona hans og hvíldi höfuðið í höndum sér fram á borðið og hvorugt þeirra sagði neitt. Richard Gordon gat heyrt klukkuna tifa og honum fannst hann vera svo tómur innan sem herbergið var hljótt. Að stundarkorni liðnu sagði kona hans við hann án þess að líta á hann: „Mér þykir fyrir þessu. En þú skilur að þetta er búið, er það ekki?“

„Jú, ef það er þannig sem það hefur verið.“

„Það hefur ekki allt verið með þessu móti, en þetta er búið að vera þannig lengi.“

„Mér þykir fyrir því að ég skyldi slá þig.“

„O, það er ekki neitt. Það kemur þessu ekkert við. Það var einungis leið til að kveðja.“

„Hættu þessu.“

„Ég verð að flytja héðan út,“ sagði hún afar þreytulega. „Ég er hrædd um að ég verði að fá stóru ferðatöskuna.“

„Bíddu með það til morguns,“ sagði hann. „Þú getur gert það allt í fyrramálið.“

„Ég mundi heldur vilja gera það núna, Dick, og það væri auðveldara. En ég er svo þreytt. Þetta hefur þreytt mig ógurlega og ég er komin með höfuðverk af því.“

„Þú gerir sem þér sýnist.“

„Ó, Guð,“ sagði hún. „Ég vildi að þetta hefði ekki gerst. En það er orðið. Ég ætla að reyna að koma öllu í kring fyrir þig. Það verður að fá einhvern til að líta eftir þér. Ef ég hefði látið vera að segja sumt af þessu, eða ef þú hefðir ekki slegið mig; kannski að við hefðum þá getað kippt þessu aftur í lag.“

„Nei, það var búið áður en að þessu kom.“

„Ég finn til með þér, Dick.“

„Finndu ekki til með mér eða ég slæ þig aftur.“

„Ég hugsa að mér liði betur ef þú slægir mig,“ sagði hún. „Ég finn til með þér. Ó, hvort ég ekki geri.“

„Farðu til fjandans.“

„Mér þykir fyrir því að ég skyldi láta að því liggja að þú værir ekki góður í rúminu. Ég veit ekkert um það. Hugsa að þú sért dásamlegur.“

„Þú ert nú ekki slík stjarna.“

Hún fór aftur að gráta.

„Þetta er verra en að vera slegin,“ sagði hún.

„Nú, hvað lést þú út úr þér?“

„Ég veit það ekki. Ég man það ekki. Ég var svo reið og þú særðir mig svo.“

„Nú, þetta er allt búið, því þá þessa biturð?“

„Ó, ég vil ekki að það sé búið. En það er orðið og ekkert við því að gera úr því sem komið er.“

„Þú færð byttuna, prófessorinn þinn.“

„Hættu þessu,“ sagði hún. „Getum við ekki bara haldið okkur saman og látið vera að segja neitt meira?“

„Jú.“

„Viltu það?“

„Já.“

„Ég ætla að sofa hérna úti.“

„Nei, þú getur fengið rúmið. Þú verður. Ég ætla út smá stund.“

„Ó, ekki fara.“

„Ég verð,“ sagði hann.

„Vertu sæll,“ sagði hún, og hann sá andlit hennar sem hann elskaði alltaf svo heitt, sem grátur aldrei spillti, og svart, hrokkið hár hennar, lítil stinn brjóst hennar undir peysunni sem námu við borðbrúnina, og hann sá ekki hitt af henni sem hann elskaði svo heitt og hélt að hann hefði gert vel til, en hafði auðsæilega ekki verið til neins góðs, það var allt undir borðinu, og þegar hann gekk út um dyrnar horfði hún á hann yfir borðið, með hendur undir vöngum, og hún grét.

 

14. kafli

Hann fór ekki á hjólinu heldur gekk niður strætið. Tunglið var komið upp og tréin voru dimmleit móti því, og hann lagði að baki timburhúsin með þröngum görðunum, þar sem birtu lagði út um lokaða gluggana; ómalbikaða stígana, með sínum tvöföldu húsaröðum; Kræklingabæ, þar sem lífið kom saman í línsterkju, vel lokuðum gluggum, dyggðum, brestum, grjónum og soðnu hríni, vannæringu, hleypidómum, ráðvendni, kynblöndun og trúarhuggun; upplýst bolító-hýsi Kúbananna, hreysi ljóðræn fyrir nafngiftina eina; Rauða húsið, maísmjaðarins; steinhlaðna kirkjuna; mundandi hvassa, ljóta, þríhyrningslagaða turna sína móti tunglskininu; aflangt klausturbáknið með svörtum kúplum sínum, umfaðmað víðáttumiklum grundum, tignarlegt í tunglskininu; bensínstöð og samlokustað, vel upplýst við hliðina á yfirgefnum stað þar sem hafði verið leikið minigolf en var nú flutt; fór eftir uppljómaðri aðalgötunni með lyfjabúðunum þremur, plötubúðinni, gyðingabúðunum þremur, þremur spilapeningastöðum, fimm bjórstofum, þremur rjómaísstofum, lélegu veitingastöðunum fimm og þeim eina góða, tveimur tímarita- og dagblaðasölustöðum, fjórum búðum með notaðan varning (þar af einni þar sem smíðaðir voru lyklar), ljósmyndastofu, skrifstofubyggingu með fjórum tannlæknastofum uppi á lofti, stóra keilusalnum, hóteli á horninu þar sem leigubílar biðu handan við götuna; og þvert á móti, handan við hótelið, við strætið sem lá inn í miðbæjariðuna, var stórt ómálað timburhúsið með ljósagangi og stúlkum við innganginn, upptrekkipíanóið spilandi og sjómaður sitjandi á götunni; og síðan bakatil, bak við tígulsteinsbyggt dómshúsið með klukkunni sem sýndi núna hálfellefu lýsandi vísum sínum, fram hjá hvítþveginni fangelsisbyggingunni skínandi við tungli, að lauffléttuðum innganginum að Rósrauðu Mund þar sem bifreiðar fylltu út í sundið.

Rósrauða Mundin var uppljómuð og þéttskipuð fólki, og þegar Richard Gordon fór inn sá hann að það var stappað í spilastofunni, hjólið snúandist og lítil fallvölt kúlan smellandi við málmrifin í skálinni; hjólið snerist rólega, kúlan hvirflandi, síðan smellandi eftir duttlungum sínum þangað til hún kom sér niður og það var aðeins hjólið sem snerist og spilapeningarnir sem hringlaði í. Á barnum sagði eigandinn, sem var að afgreiða ásamt tveimur þjónum: „’Allo. ’Allo. Her’ Gordon. Hvað má þér bjóða?“

„Ég veit ekki,“ sagði Richard Gordon.“

„Þú ekki líta vel út. Hvaða mæða? Þér ekki líða vel?“

„Nei.“

„Ég búa til handa þér eitthvað aldeilis gott. Búa til handa þér hokkí. Þú einhvern tíma bragða spænskt absint, ojen?“

„Haltu áfram,“ sagði Gordon.

„Þú drekka það þér líða vel. Vilja berjast við alla á staðnum,“ sagði eigandinn. „Búa til ojen spesíal handa herha Gordon.“

Richard Gordon stóð við barinn og drakk þrjá ojen spesíal en honum leið ekkert betur af því; ógagnsær drykkurinn, sætur, kaldur, með lakkrískeimi, fékk honum engu betri líðan.

„Láttu mig fá eitthvað annað,“ sagði hann við þjóninn.

„Hvaða mæða? Þú ekki líka ojen spesíal?“ sagði eigandinn. „Þér ekki líða vel?“

„Nei.“

„Þú verða að vara þig hvað þú drekka á eftir honum.“

„Láttu mig fá óblandað viskí.“

Viskíið vermdi tungu hans og aftanverðan hálsinn, en það hafði engin áhrif á hugsanagang hans, og þegar honum varð litið í spegilinn handan við barinn, gerði hann sér allt í einu ljóst að drykkja mundi aldrei gera honum neitt gott núna. Hvað sem hvíldi á honum núna mundi hvíla á honum áfram, og drykki hann sig útúr mundi það hvíla enn á honum þegar hann vaknaði.

Hávaxinn, afar grannur ungur maður með ljósa, gisna skeggbrodda í vöngum stóð næstur honum við barinn, hann spurði: „Ert þú ekki Richard Gordon?“

„Jú.“

„Ég er Herbert Spellman. Við hittumst einu sinni í samkvæmi í Brooklyn, held ég.“

„Kann að vera,“ sagði Richard. „Því ekki það?“

„Mér þótti síðasta bókin þín mjög góð,“ sagði Spellman. „Mér þykja þær allar góðar.“

„Gleður mig að heyra,“ sagði Richard Gordon. „Viltu drykk?“

„Fáðu þér einn með mér,“ sagði Spellman. „Hefurðu prófað þennan ojen?“

„Ég hef ekki vitund gott af honum.“

„Hvað er að?“

„Er djúpt niðri.“

„Viltu ekki prófa annan?“

„Nei. Ég ætla að fá mér viskí.“

„Þú veist, það er mér dálítið að hitta þig,“ sagði Spellman. Ég á ekki von á að þú munir eftir mér síðan í þessu samkvæmi.“

„Nei. En kannski var þetta ágætt samkvæmi. Það er ekki búist við því af manni að maður muni góð samkvæmi, er það?“

„Ætli það,“ sagði Spellman. „Það var hjá Margréti Van Brunt. Manstu eftir því?“ spurði hann vongóður.

„Ég er að reyna það.“

„Ég var sá sem kveikti í staðnum,“ sagði Spellman.

„Nei,“ sagði Gordon.

„Jú,“ sagði Spellman, glaður í bragði. „Það var ég. Þetta var það stórkostlegasta samkvæmi sem ég hef nokkru sinni verið í.“

„Hvað hefurðu fyrir stafni núna?“ spurði Gordon.

„Ekki margt,“ sagði Spellman. „Hitt og þetta smávegis. Svo á að heita að ég taki því rólega núna. Ertu að skrifa nýja bók?“

„Já. Um það bil hálfnaður.“

„Stórgott að heyra,“ sagði Spellman. „Um hvað fjallar hún?“

„Verkfall í vefnaðarverksmiðju.“

„Undursamlegt,“ sagði Spellman. „Þú skilur, ég svelgi í mig allt sem fjallar um þjóðfélagsbaráttuna.“

„Hvað þá?“

„Ég elska það,“ sagði Spellman. „Ég tek það fram yfir allt annað. Ekkert vafamál að þú ert sá besti sem völ er á. Heyrðu, er falleg gyðingastúlka í henni sem heldur uppi áróðri?“

„Því þá?“ spurði Richard Gordon, tortryggnislega.

„Það væri eitthvað fyrir Sylvíu Sidney. Hún er mín heitelskaða. Viltu sjá myndina hennar?“

„Búin að sjá hana,“ sagði Richard Gordon.

„Fáum okkur drykk,“ sagði Spellman, glaður í bragði. „Hugsa sér að hitta þig hér niður frá. Þú veist, ég er heppinn náungi. Virkilega heppinn.“

„Því þá?“ spurði Richard Gordon.

„Ég er brjálaður,“ sagði Spellman. „Gæ, það er dásamlegt. Alveg eins og að vera ástfanginn nema það kemur alltaf rétt út.“

Richard Gordon mjakaði sér aðeins frá.

„Ekki taka þessu svona,“ sagði Spellman. „Ég er ekki óður. Það er að segja, ég er næstum aldrei óður. Svona, fáum okkur nú drykk.“

„Ertu búinn að vera brjálaður lengi?“

„Ég held alltaf,“ sagði Spellman. „Skal segja þér það að það er eina leiðin til að vera hamingjusamur á tímum sem þessum. Hvað kemur mér við hvað Douglas flugvélasmiðjurnar aðhafast? Hvað kemur mér við hvað A.T. og T. hlutabréfast? Það snertir mig ekki vitund. Ég einungis tek mér í hönd eina af bókunum þínum eða fæ mér drykk, eða lít á myndina af Silvíu, og ég er hamingjusamur. Ég er eins og fuglinn fljúgandi. Ég er betur settur en fuglinn. Ég er—“ Hann virtist hika sem hann leitaði að rétta orðinu, hélt svo áfram í flýti. „Ég er elskulegur lítill storkur,“ sagði hann flaumósa og blóðið þaut fram í andlit honum. Hann horfði á Richard Gordon starandi augum, geiflandi varirnar, og stór ljóshærður ungur maður skildi sig frá hóp fjær á barnum, kom til hans og tók um handlegginn á honum.

„Komdu nú, Harold,“ sagði hann. „Við ættum víst að fara að halda heim.“

Spellman horfði á Richard Gordon villtu augnaráði. „Hann hæddist að storki,“ sagði hann. „Hann skálmaði burtu frá storki. Storki sem hnitar hringi—“

„Komdu nú, Harold,“ sagði ungi maðurinn stóri.

Spellman rétti Richard Gordon höndina. „Ekki móðgast,“ sagði hann. „Þú ert góður rithöfundur. Haltu því áfram. Mundu að ég er ætíð hamingjusamur. Láttu þá ekki rugla þig. Sé þig brátt.“

Með arm stóra unga mannsins um axlir sér þokuðu þeir tveir sér gegnum mannþröngina til dyra. Spellman leit aftur og veifaði til Richards Gordons.

„Geðuga náunga,“ sagði eigandinn. Hann bankaði í höfuð sér. „Mjög mjög menntaður. Hann læra of mikið hugsa ég. Finnast gaman brjóta rúður. Hann ekki vilja gera neitt slæmt. Hann borga fyrir allt hann brjóta.“

„Kemur hann oft hingað?“

„Á kvöldin. Hvað hann segja hann vera? Svanur?“

„Storkur.“

„Í gærkvöldi hann vera hestur. Með vængi. Eins og hestur á white horse flösku en aðeins með vængi! Geðuga náunga allt í lagi. Nóga peninga. Fá skrýtna hugmyndir. Fjölskyldan láta hann vera hér niður frá með hans framkvæmdastjóra. Hann segja mér honum finnast bækur þínar góðar, herra Gordon. Hvað viltu drekka? Á reikning hússins.“

„Viskí,“ sagði Richard Gordon. Hann sá að lögregluforinginn var á leið í átt til hans. Lögregluforinginn var heldur fölur yfirlitum, afar vingjarnlegur maður. Richard Gordon hafði hitt hann þetta síðdegi í samkvæmi Bradley og rætt við hann um bankaránið.

„Segjum,“ sagði lögregluforinginn, „ef þú ert ekki upptekinn, að þú komir með mér eftir dálitla stund. Strandgæslan er á leið inn með bát Harrýs Morgans í togi. Hans varð vart af tankskipi undan Matacumbe. Þeir hafa náð öllu eins og það leggur sig.“

„Guð minn góður,“ sagði Richard Gordon. „Þeir hafa náð þeim öllum?“

„Þeir eru allir dauðir nema einn, sagði í skeytinu.“

„Þú veist ekki hver það er?“

„Nei, þeir sögðu ekkert um það. Guð má vita hvað hefur gerst.“

„Eru þeir með peningana?“

„Það veit enginn. En þeir hljóta að vera um borð hafi þeir ekki farið til Kúbu með þá.“

„Hvenær verða þeir inni?“

„O, varla fyrr en eftir tvær, þrjár stundir.“

„Hvert fara þeir með bátinn?“

„Í flotastöðina, hugsa ég. Þar sem strandgæslan heldur til.“

„Hvar á ég að hitta þig til að fara með þér niður eftir?“

„Ég skal koma við hérna og taka þig.“

„Hér eða niður frá hjá Fredda. Ég helst ekki við hér mikið lengur.“

„Það er býsna mikið um að vera hjá Fredda í kvöld. Það er fullt af þessum uppgjafahermönnum ofan að hér á Eyrunum. Andskotinn er alltaf laus þegar þeir eru annars vegar.“

„Ég ætla að fara þangað niður eftir og sjá,“ sagði Richard Gordon. „Ég er eiginlega frekar djúpt niðri.“

„Jæja, láttu bara ekki draga þig út í nein vandræði,“ sagði lögregluforinginn. „Ég tek þig þar eftir tvær stundir eða svo. Viltu fljóta með þangað niður eftir?“

„Þakka.“

Þeir ruddu sér braut út gegnum mannþröngina og Richard Gordon settist inn í bílinn við hlið lögregluforingjans.

„Hvað álítur þú að hafi gerst um borð í bát Morgans?“ spurði hann.

„Það má Guð vita,“ sagði lögregluforinginn. „Það lítur út fyrir að hafa verið heldur grátt gaman.“

„Höfðu þeir engar aðrar upplýsingar?“

„Ekki nokkurn skapaðan hlut,“ sagði lögregluforinginn. „Sjáðu nú þetta, líttu á.“

Þeir voru á móts við uppljómaða, opna framhliðina á stað Fredda og það var stappað út á gangstétt. Menn í grófum baðmullarklæðum, sumir berhöfðaðir, aðrir með húfur, gamla herþjónustuhatta eða pappahjálma stóðu í þriggja manna djúpri þröng við barinn, og háróma grammófóns-nikkel-gleypirinn var að leika Isle of Capri. Þegar þeir námu staðar kom maður hrekjandist út um opnar dyrnar með annan ofan á sér. Þeir féllu um koll og ultu niður á gangstéttina, og sá sem ofan á var tók í hár hins og barði höfði hans niður í steinsteypuna svo að buldi í. Enginn á barnum lét sig það neinu skipta.

Lögregluforinginn fór út úr bílnum og þreif í axlir mannsins sem ofan á var.

„Hættu þessu,“ sagði hann. „Upp með þig.“

Maðurinn rétti úr sér og leit á lögregluforingjann. „Í Guðs bænum, hvað ert þú að skipta þér að því sem þér kemur ekki við?“

Með blóðugt hárið og blóð vætlandi úr öðru eyra, og með enn meira af því seytlandi niður freknótt andlitið, vatt hinn maðurinn sér að lögregluforingjanum.

„Láttu vin minn vera,“ sagði hann með þykkju. „Hvað gengur að þér? Heldurðu að ég sé ekki maður til að taka þessu?“

„Þú ert maður til þess, Joey,“ sagði maðurinn sem hafði verið að lúskra á honum. Og við lögregluforingjann: „Heyrðu, áttu ekki seðil?“

„Nei, sagði lögregluforinginn.“

„Fjandinn hirði þig þá.“ Hann sneri sér að Richard Gordon.

„Hvað með þig, kunningi?“

„Ég kaupi handa ykkur drykk,“ sagði Gordon.

„Komum,“ sagði uppgjafahermaðurinn og tók undir arminn á Gordon.

„Ég kem við á eftir,“ sagði lögregluforinginn.

„Ágætt. Ég bíð eftir þér.“

Sem þeir mjökuðu sér í áttina að endanum á barnum þreif rauðhausinn freknótti með blóði drifna andlitið og eyrað í handlegginn á Gordon.

„Minn gamli vin,“ sagði hann.

„Hann er í lagi,“ sagði hinn uppgjafahermaðurinn. „Hann kann að taka því.“

„Ég kann að taka því, sjáðu,“ sagði sá blóðugi. „Það var hér sem ég fékk á hann.“

„En láttu vera að miðla því öðrum,“ sagði einhver. „Vertu ekki að ryðjast svona.“

„Hleyptu okkur hjá,“ sagði sá blóðugi í framan. „Mér og mínum gamla vin.“ Hann hvíslaði í eyra Richards Gordons: „Ég þarf ekki að miðla því öðrum. Ég kann að taka því, skilurðu?“

„Heyrðu,“ sagði hinn uppgjafahermaðurinn þegar þeir náðu loksins að barnum sem var fljótandi í bjór. „Þú hefðir átt að sjá hann í hádeginu í mötuneytinu í fimmtu búð. Ég lagði hann og lét flösku dynja á höfðinu á honum. Rétt eins og maður væri að leika á trumbu. Þori að veðja að ég hef hæft hann fimmtíu sinnum.“

„Oftar,“ sagði sá blóðugi.

„Það hafði ekki nein áhrif á hann.“

„Ég kann að taka því,“ sagði hinn. Hann hvíslaði í eyra Richards Gordons: „Það er leyndarmál.“

Richard Gordon rétti tvo af bjórunum þremur yfir sem barþjónninn, vambmikill negri í hvítum jakka, lét renna og ýtti í átt til hans.

„Hvað er leyndarmál?“ spurði hann.

„Ég,“ sagði sá blóðugi. „Mitt leyndarmál.“

„Hann býr yfir leyndarmáli,“ sagði hinn uppgjafahermaðurinn. „Hann lýgur því ekki.“

„Viltu að ég hvísli því að þér?“ sagði sá blóðugi í eyra Richards Gordons.

Gordon kinkaði kolli.

„Það meiðir ekki.“

Hinn kinkaði kolli. „Segðu honum það versta af því.“

Rauðhausinn lagði blóðugar varir sínar næstum að eyra Gordons.

„Stundum finnst manni það gott,“ sagði hann. „Hvað sýnist þér um það?“

Hár og grannvaxinn maður með ör er lá úr augnkrók niður á höku stóð við olnbogann á Gordon. Hann leit niður á rauðhausinn og brosti.

„Fyrst var það list,“ sagði hann. „Siðan nautnin einber. Ef eitthvað ylli mér ógleði þá væri það þú, Rauður.“

„Þú gerir lítið úr ógleði,“ sagði sá fyrsti af uppgjafahermönnunum. „Hvað hefur þú verið að gera út á?“

„Þið munduð ekki skilja það, svona ölvaðir af barsmíðum,“ sagði sá hávaxni.

„Bjóða þér í glas?“ spurði Richard Gordon þann hávaxna.

„Þakka,“ sagði hann. „Ég er með.“

„Gleymdu ekki okkur,“ sagði annar þeirra tveggja sem Gordon hafði komið inn með.

„Þrjá bjóra í viðbót,“ sagði Richard Gordon, og negrinn lét þá renna og ýtti þeim yfir. Það var ekkert olnbogarými til að lyfta þeim í þrönginni og Gordon var þrýst upp að þeim hávaxna.

„Þú af skipi?“ spurði sá hávaxni.

„Nei, dvelst hér. Þú hér neðan af Eyrunum?“

„Við komum inn frá Tortugas í kvöld,“ sagði sá hávaxni. „Við gerðum allt svo vitlaust þar að þeir gátu ekki haft okkur þar lengur.“

„Hann er rauður,“ sagði sá fyrsti af uppgjafahermönnunum.

„Sem þú værir einnig ef eitthvað vit væri í kollinum á þér,“ sagði sá hávaxni. „Þeir sendu kippur af okkur þangað til að bæla okkur niður en við gerðum þeim lífið einum of leitt.“ Hann brosti til Richards Gordons.

„Neglið þennan gutta,“ æpti einhver og Richard Gordon sá hnefa lenda í andliti rétt hjá sér. Maðurinn sem fyrir því varð var dreginn burtu af barnum af tveimur öðrum. Þar sem rýmkaðist um sló annar þeirra til hans, fast, beint í andlitið, og hinn lamdi hann í skrokkinn. Hann hneig niður á steinsteypt gólfið og setti handleggina til skjóls yfir höfuð sér og annar mannanna sparkaði í mjóhrygginn á honum. Allan þennan tíma hafði ekki gefið neitt hljóð frá sér. Hinn rykkti honum á fætur og þrýsti honum upp að veggnum.

„Kældu tíkarsoninn niður,“ sagði hann, og sem maðurinn braust um við vegginn, fölur sem nár, stillti hinn maðurinn sér upp með hnén lítið eitt bogin, og vippaði sér síðan að honum með hægri handar höggi sem reið af næstum niður við gólf og lenti síðan á kjálkanum öðrum megin á náfölum manninum. Hann féll á kné og valt síðan hægt fram fyrir sig með höfuðið í dálitlum blóðpolli. Mennirnir tveir létu hann eiga sig þar og komu aftur að barnum.

„Drengur, þú kannt að gefa á hann,“ sagði annar.

„Þessi tíkarsonur kemur í bæinn og leggur alla þénustuna sína inn hjá póstinum og hangir svo hér húkkandi drykki á barnum,“ sagði hinn. „Þetta er í annað sinn sem ég kæli hann.“

„Þú kældir hann að þessu sinni.“

„Ég fann um leið og ég hitti hann að kjálkinn lét undan rétt eins og marmarakúlupoki,“ sagði hinn glaður í bragði. Maðurinn lá undir veggnum og enginn skipti sér neitt að honum.

„Heyrðu, gæfirðu mér svona á hann þá hefði það ekki nein áhrif,“ sagði rauðhausinn.

„Haltu þér saman, snoppungi,“ sagði kælirinn. „Þú ert búinn að fá gamla snörlið.“

„Nei, það er ég ekki.“

„Þið slagsmálahundarnir valdið manni ógleði,“ sagði kælirinn. „Því ætti ég að vera að lemstra hendur mínar ykkar vegna?“

„Það er einmitt það sem þú mundir gera, lemstra hendur þínar,“ sagði rauðhausinn. Og við Richard Gordon: „Heyrðu kunningi, hvernig væri að fá sér annan?“

„Eru þetta ekki fyrirtaks drengir?“ sagði hávaxni maðurinn. „Stríð er hreinsandi og göfgandi afl. Spurningin er hvort einungis menn eins og við hérna séu til hermennsku fallnir eða hvort mismunandi reynsla í þjónustunni hefur mótað okkur.“

„Ég veit ekki,“ sagði Richard Gordon.

„Ég skal veðja við þig að hér á þessum stað fyrirfinnast ekki þrír menn sem hafa verið kallaðir til,“ sagði hávaxni maðurinn. „Þetta er elítan. Sjálfur rjóminn. Það sem gerði útslagið fyrir Wellington í orrustunni um Waterloo. Nú, Hoover flæmdi okkur burt frá Anticosti og herra Roosvelt hefur látið fleyta okkur hingað niður eftir til að losna við okkur. Þeir hafa rekið búðirnar með það fyrir augum að þær yrðu sóttarbæli en þessi vesalings afstyrmi neita að drepast. Þeir létu sigla með nokkra af okkur til Tortugas en það má kallast til heilsubótar núna. Þar fyrir utan tókum við það ekki í mál. Svo að þeir máttu flytja okkur til baka. Hver verður næsti leikur? Þeir verða að losa sig við okkur. Skilur það, er það ekki?“

„Því þá?“

„Af því að við erum þeir örvona,“ sagði maðurinn. „Þeir sem hafa engu að tapa. Við erum þeir sem hafa náð á hið algjöra stig skepnuskaparins. Við erum lakara en það sem hinn eini sanni Spartakus hafði úr að moða. En það er þess virði að reyna að gera eitthvað úr því af því að við höfum verið settir á slíka vonarvöl að eina huggunin er sopinn og hinn eini heiður að kunna að taka því. En við erum ekki allir þannig. Þeir eru til á meðal okkar sem hyggjast breyta hlutunum.“

„Eru margir kommúnistar í búðunum?“

„Aðeins um það bil fjörtíu,“ sagði hávaxni maðurinn. „Af tveimur þúsundum. Það krefst aga og sjálfsafneitunar að vera kommúnisti; bytta getur ekki verið kommúnisti.“

„Hlustaðu ekki á hann,“ sagði uppgjafahermaðurinn rauðhöfðaði. „Hann er bara bannsettur róttækur.“

„Heyrðu,“ sagði hinn uppgjafahermaðurinn sem var að drekka bjór með Richard Gordon, „ég skal segja þér hvernig það er í sjóhernum. Skal segja þér það, árans róttæklingurinn þinn.“

„Hlustaðu ekki á hann,“ sagði rauðhausinn. „Þegar flotinn er í New York og maður fer í land og upp undir Árbakkabrú þá koma gamlir síðskeggjaðir fírar þangað niður og maður getur migið í skeggið á þeim fyrir dal. Hvernig lýst þér á það?“

„Ég býð þér upp á drykk,“ sagði hávaxni maðurinn, „og þú gleymir honum þessum. Ég kæri mig ekki um að heyra hann þennan.“

„Ég gleymi ekki neinu,“ sagði rauðhausinn. „Hvað gengur að þér, kunningi?“

„Er þetta satt með skeggið?“ spurði Richard Gordon. Honum var dálítið óglatt.

„Sver til Guðs og hennar móður minnar,“ sagði rauðhausinn. „Skollinn hafi það, þetta er ekki neitt.“

Innar á barnum var uppgjafahermaður að rífast við Fredda um borgun fyrir drykk.

„Það var þetta sem þú fékkst,“ sagði Freddi.

Richard Gordon virti fyrir sér andlit uppgjafahermannsins. Hann var mjög drukkinn, augun blóðhlaupin og var að leita uppi vandræði.

„Þú ert bannsettur lygari,“ sagði hann við Fredda.

„Áttatíu og fimm sent,“ sagði Freddi við hann.

„Taktu nú eftir,“ sagði uppgjafahermaðurinn rauðhöfðaði.

Freddi lagði hendurnar á barborðið. Hann fylgdist með uppgjafahermanninum.

„Þú ert bannsettur lygari,“ sagði uppgjafahermaðurinn og greip um ölkollu í því augnamiði að kasta henni. Sem hönd hans luktist um kolluna þaut hægri höndin á Fredda í boga yfir barinn og stór saltbaukur, umvafinn glasaþurrku, mélaðist við höfuðskelina á uppgjafahermanninum.

„Ekki hreinlega gert?“ sagði uppgjafahermaðurinn rauðhöfðaði. „Ekki snoturt?“

„Ættir að sjá sjá til hans bora í þá með þessari afsöguðu billjarðrenglu,“ sagði hinn.

Tveir uppgjafahermenn sem næst stóðu þar sem saltbauksmaðurinn hafði hnigið niður litu reiðilega á Fredda. „Hver er hugmyndin að kæla hann svona?“

„Takið það rólega,“ sagði Freddi. „Hann er á reikning hússins þessi. Heyrðu, Wallace,“ sagði hann. „Settu þennan náunga yfir að veggnum.“

„Ekki snoturt?“ spurði uppgjafahermaðurinn rauðhöfðaði Richard Gordon. „Ekki hreinlega gert?“

Ungur, samanrekinn náungi dró saltbauksmanninn út úr þrönginni. Hann togaði hann á fætur og maðurinn leit á hann tómlátlega. „Komdu þér út,“ sagði hann við hann. „Fáðu þér dálítið frískt loft.“

Undir veggnum handan við sat maðurinn sem hafði verið kældur niður með höfuðið milli handa sinna. Ungi samanrekni maðurinn fór yfir til hans.

„Komdu þú þér líka út,“ sagði hann við hann. „Þú uppskerð ekkert annað en vandræði hér.“

„Kjálkinn á mér er brotinn,“ sagði sá kældi þykkjuþungur. Blóð lagði út um munnvikin niður hökuna.

„Þakkaðu fyrir að vera ekki drepinn, annað eins kjaftshögg og hann gaf þér,“ sagði sá ungi og samanrekni. „Komdu þér nú út.“

„Kjálkinn á mér er brotinn,“ sagði hinn dauflega. „Þeir brutu á mér kjálkann.“

„Vissara fyrir þig að koma þér út,“ sagði ungi maðurinn. „Hér uppskerð þú ekkert annað en vandræði.“

Hann hjálpaði kjálkabrotna manninum á fætur og hann skjögraði völtum fótum út á götu.

„Ég hef séð tylft liggjandi þarna undir veggnum á fjörugu kvöldi,“ sagði uppgjafahermaðurinn rauðhöfðaði. „Einn morguninn sá ég þennan stóra skrattakoll þarna ryðja hérna út með vatnsfötu. Sá ég þig ekki ryðja hérna út með vatnsfötu?“ spurði hann stóra negrann, barþjóninn.

„Jú, herra minn,“ sagði barþjónninn. „Oft og mörgum sinnum. Jú, herra. En þú aldrei neitt séð mig slást við neina.“

„Sagði ég þér ekki?“ sagði rauðhausinn. „Með vatnsfötu.“

„Lítur út fyrir að verði ansi fjörugt í kvöld,“ sagði hinn uppgjafahermaðurinn, og við Richard Gordon: „Hvað segirðu, kunningi? Allt í fína að við fáum annan til?“

Richard Gordon fann að hann var að verða drukkinn. Andlit hans í speglinum handan við barinn var farið að orka framandi á hann.

„Hvað heitirðu?“ spurði hann hávaxna kommúnistann.

„Jacks,“ sagði sá hávaxni. „Nelson Jacks.“

„Hvar varstu áður en þú komst hingað?“

„O, hér og þar,“ sagði maðurinn. „Mexíkó, Kúbu, Suður-Ameríku, hér og þar.“

„Ég öfunda þig,“ sagði Richard Gordon.

„Því þá að öfunda mig? Því ferðu ekki að vinna?“

„Ég hef skrifað þrjár bækur,“ sagði Richard Gordon. „Ég er núna að skrifa eina um Gastoníu.“

„Ágætt,“ sagði hávaxni maðurinn. „Fyrirtak. Hvað sagðistu heita?“

„Richard Gordon.“

„Ó,“ sagði hávaxni maðurinn.

„Hvað áttu við með „Ó“?“

„Ekkert,“ sagði hávaxni maðurinn.

„Hefurðu nokkurn tímann lesið bækurnar?“ spurði Richard Gordon.

„Jú.“

„Líkuðu þér þær ekki?“

„Nei,“ sagði hávaxni maðurinn.

„Því þá ekki?“

„Kann ekki við að segja það.“

„Láttu það koma.“

„Mér þóttu þær skítlegar,“ sagði hávaxni maðurinn og sneri burt.

„Hugsa að þetta sé kvöldið mitt,“ sagði Richard Gordon. „Fjöruga kvöldið mitt. Hvað sagðistu vilja fá?“ spurði hann uppgjafahermanninn rauðhöfðaða. „Ég á eftir tvo dali.“

„Einn bjór,“ sagði rauðhausinn. „Heyrðu, þú ert minn vin. Ég hugsa að bækurnar þinar séu fyrirtak. Skollinn hirði þetta róttæka afstyrmi.“

„Þú ert ekki með bók á þér?“ spurði hinn uppgjafahermaðurinn. „Mig mundi langa að lesa eina, kunningi. Hefurðu nokkurn tímann skrifað í Sögur úr vestrinu eða í Stríðsásana? Ég gæti lesið Stríðsásana upp á hvern einasta dag.“

„Hver er hann þessi hávaxni fugl?“ spurði Richard Gordon.

„Skal segja þér, þetta er bara róttæklingsafstyrmi,“ sagði uppgjafahermaðurinn, sá sami. „Búðirnar eru fullar af þessu. Við mundum reka þá burtu, en ég skal segja þér, oftast nær geta fæstir fírarnir ekki munað nokkurn skapaðan hlut.“

„Geta ekki munað hvað?“ spurði rauðhausinn.

„Geta ekki munað nokkurn skapaðan hlut,“ sagði hinn.

„Sjáðu mig,“ sagði rauðhausinn.

„Já,“ sagði Richard Gordon.

„Gætirðu ímyndað þér að ég ætti bestu litlu vífuna í heimi?“

„Því þá ekki?“

„Jæja, það vill svo til að svo er,“ sagði rauðhausinn. „Og ég er eins og sjáaldur auga hennar. Hún er eins og ambátt mín. „Gefðu mér annan bolla af kaffi,“ segi ég við hana. „Allt í fína, páp,“ segir hún. Og hún færir mér hann. Allt er eftir því. Hún hefur flutt sig með mér. Kenjarnar í mér, eru lögmálið hennar.“

„En hvar eiginlega heldur hún sig?“ spurði hinn uppgjafahermaðurinn.

„Það er nú það,“ sagði rauðhausinn. „Það er nú það, kunningi. Hvar heldur hún sig?“

„Hann hefur ekki glóru um hvar hún er.“

„Ekki bara það,“ sagði rauðhausinn. „Ég hef ekki glóru um hvar ég sá hana síðast.“

„Hann hefur ekki einu sinni glóru um í hvaða landi hún er.“

„En heyrðu, vinur,“ sagði rauðhausinn. „Hvar sem hún er, þá er þessi vífa litla trú mér.“

„Það er heilagur sannleikur,“ sagði hinn uppgjafahermaðurinn. „Þú mátt hengja þig upp á það.“

„Það hvarflar stundum að mér,“ sagði rauðhausinn, „að hún gæti kannski verið Ginger Rogers og sé komin í bíómyndirnar.“

„Því ekki það?“ sagði hinn.

„En síðan, þá bara sé ég hana þar sem hún bíður mín róleg þar sem ég bý.“

„Haldandi logandi í arninum.“ sagði hinn.

„Einmitt,“ sagði rauðhausinn. „Hún er besta litla vífan í heiminum.“

„Heyrðu,“ sagði hinn. „mamma gamla er líka allt í fína.“

„Víst er það.“

„Hún er dauð,“ sagði hinn uppgjafahermaðurinn. „Tölum ekki um hana.“

„Ertu ekki giftur, kunningi?“ spurði uppgjafahermaðurinn rauðhöfðaði Richard Gordon.

„Vissulega,“ sagði hann. Innar á barnum, um það bil fjórum mönnum fjær, gat hann greint rautt andlitið, blá augun og jarpleitt, bjórperlað yfirvararskeggið á MacWalsey prófessor. MacWalsey prófessor horfði beint fram fyrir sig og sem Richard Gordon var að virða hann fyrir sér lauk hann úr bjórkollunni sinni og hreinsaði froðuna af yfirskegginu með með því að teygja upp neðri vörina. Richard Gordon veitti því athygli hve skærblá augu hans voru.

Þegar Richard Gordon virti hann fyrir sér fann hann til ónota fyrir brjóstinu. Og hann vissi nú fyrsta sinni hvernig manni líður við að horfa á þann sem kona manns ætlar að yfirgefa mann fyrir.

„Hvað er að, kunningi?“ spurði uppgjafahermaðurinn rauðhöfðaði.

„Ekki neitt.“

„Þér líður ekki vel, þér líður greinilega illa.“

„Nei,“ sagði Richard Gordon.

„Mætti halda að þú hafir séð draug eftir svipnum á þér að dæma.“

„Sérðu þennan náunga þarna fyrir innan með yfirskeggið?“ spurði Richard Gordon.

„Þennan?“

„Já.“

„Hvað með hann?“ spurði hinn uppgjafahermaðurinn.

„Ekki neitt,“ sagði Richard Gordon. „Fari það í kolað. Ekki neitt.“

„Angrar hann þig? Við getum kælt hann. Við getum sýnt honum hvar Davíð keypti ölið og þú sett í hann stígvélin.“

„Nei,“ sagði Richard Gordon. „Það væri ekki til neinna bóta.“

„Við tökum hann þegar hann fer út,“ sagði rauðhöfðaði uppgjafahermaðurinn. „Ég kann ekki við svipinn á honum. Tíkarsonurinn minnir mig á hrúðurkarla.“

„Ég hata hann,“ sagði Richard Gordon. „Hann er búinn að eyðileggja líf mitt.“

„Við látum hann vinna fyrir kaupinu sínu,“ sagði hinn uppgjafahermaðurinn. „Þessi gula rotta. Heyrðu, Rauður, náðu þér í tvær flöskur. Við berjum hann í klessu. Heyrðu, hvenær gerði hann þetta, kunningi? Allt í fína að við fáum einn til?“

„Við eigum eftir dal og sjötíu sent,“ sagði Richard Gordon.

„Við ættum þá kannski heldur að fá okkur hálfan kvartara,“ sagði rauðhöfðaði uppgjafahermaðurinn. „Ég er kominn með vatn í munninn.“

„Nei,“ sagði hinn. „Þessi bjór nægir þér. Fínn dökkur. Bjórinn má annars eiga sig. Förum og sýnum þessum fíra í tvo heimana og fáum okkur svo meiri bjór þegar við komum til baka.“

„Nei, látið hann eiga sig.“

„Nei, kunningi. Það gerum við ekki. Þú sagðir að hann væri búinn að eyðileggja vífuna þína.“

„Líf mitt, ekki vífuna mína.“

„Jesús minn! Innilega að fyrirgefa. Afar leitt, kunningi.“

„Hann varð gjaldþrota og rændi bankann,“ sagði hinn uppgjafahermaðurinn. „Skal veðja að það hefur verið sett fé til höfuðs honum. Það veit Guð, ég sá mynd af honum á pósthúsinu í dag.“

„Hvað varst þú að gera á pósthúsið?“ spurði hinn tortrygginn.

„Eins og ég geti ekki fengið bréf?“

„Hvað hefur maður að gera með að fá bréf búandi í búðum?“

„Heldurðu að ég hafi verið að leggja inn hjá póstinum?“

„Hvað varstu að gera í pósthúsinu?“

„Átti bara leið hjá?“

„Hafðu þetta,“ sagði vinurinn og réðst að honum svo sem þröngin leyfði.

„Þar fljúga þeir saman stallbræðurnir,“ sagði einhver. Með hnefana á lofti, stangandi og takandi hvor annan tökum, var þeim tveimur bolað burt út um dyrnar.

„Þeir geta flogist á úti á gangstétt,“ sagði ungi, herðabreiði maðurinn. „Þessi afstyrmi fljúgast á þrisvar, fjórum sinnum á kvöldi.“

„Þeir hæfa hvor öðrum, slagsmálahundarnir,“ sagði annar uppgjafahermaður. „Rauður gat slegist hér í eina tíð en hann er búinn að fá gamla snörlið.“

„Þeir eru það báðir.“

„Rauður fékk það í slag við náunga í hringnum,“ sagði einn uppgjafahermannanna, lítill stubbur. „Þessi náungi var búinn að fá gamla snörlið og var allur genginn sundur um herðarnar og bakið. Hvert sinn sem þeir lentu í klemmu nuddaði hann öxlinni á sér undir nef á Rauð eða í smettið á honum.“

„O, þvættingur. Af hverju ætti hann að hafa haldið höfðinu þannig?“

„Það var þannig sem Rauður bar höfuðið í návígi. Niður, eins og svona. Og þessi náungi var bara að velgja honum undir uggum.“

„O, þvættingur. Þetta er eins og hvert annað bull. Það hefur aldrei neinn nokkru sinni fengið gamla snörlið frá neinum í slag.“

„Það er það sem þú heldur. Hlustaðu á. Rauður var einn sá alþrifalegasti piltur sem hugsast gat. Ég þekkti hann. Hann var í minni sveit. Hann var líka eilítið góður í slag. Ég meina góður. Hann var líka giftur, það var snotrasta vífa. Ég meina snotur. Og þessi Benny Sampson gaf honum gamla snörlið, sem ég er lifandi.“

„Bíddu hægur,“ sagði annar uppgjafahermaður. „Hvernig fékk Poochy það?“

„Hann fékk það í Sjanghæ.“

„Hvar fékkst þú þitt?“

„Ég er ekki með það.“

„Hvar fékk Suds það?“

„Frá stelpu í Brest, á leið heim.“

„Þetta er það eina sem þið fírarnir getið talað um. Gamla snörlið. Hvaða máli eins og það skipti gamla snörlið?“

„Ekki neinu, ekki eins og nú er komið á fyrir okkur,“ sagði einn uppgjafahermannanna. „Manni líður alveg eins vel með það.“

„Poochy líður betur. Hann veit ekki glóru hvar hann er.“

„Hvað er gamla snörlið?“ spurði MacWalsey prófessor þann sem sat næstur honum á barnum. Maðurinn sagði honum það.

„Þætti gaman að vita af hverju það er dregið,“ sagði MacWalsey prófessor.

„Ég veit það ekki,“ sagði maðurinn. Ég hef aldrei heyrt það kallað annað en gamla snörlið síðan ég var fyrst skráður. Sumir kalla það snörl. En yfirleitt kalla þeir það gamla snörlið.“

„Mig mundi langa að vita það,“ sagði MacWalsey prófessor. „Flest þessi gömlu nöfn eru af gamalli enskri rót.“

„Af hverju er það kallað gamla snörlið?“ spurði uppgjafahermaðurinn næst prófessornum einn félaga sinna.

„Ég veit það ekki.“

Enginn virtist vita það en allir nutu þeir andrúmsloftsins sem skapaðist við þessa djúpheimspekilegu umræðu.

Richard Gordon var nú kominn næst við MacWalsey prófessor við barinn. Þegar Rauður og Poochy höfðu farið að slást hafði honum verið þrýst þangað inn fyrir og hann hafði ekki hamlað á móti.

„Hæ,“ sagði MacWalsey prófessor við hann. „Viltu í glas?“

„Ekki með þér,“ sagði Richard Gordon.

„Hugsa að það sé rétt hjá þér,“ sagði MacWalsey prófessor. „Hefurðu nokkurn tímann upplifað annað eins?“

„Nei,“ sagði Richard Gordon.

„Afar sérkennilegt,“ sagði MacWalsey prófessor. „Þeir gera mann forviða. Ég kem hingað alltaf á kvöldin.“

„Lendirðu aldrei í vandræðum?“

„Nei. Því ætti ég að gera það?“

„Þeir drekka og slást.“

„Ég virðist aldrei lenda í neinum vandræðum.“

„Tveir vinir mínir höfðu hug á að sýna þér í tvo heimana núna rétt áðan.“

„Jæja.“

„Vildi að ég hefði lofað þeim það.“

„Hugsa að það hefði ekki breytt miklu,“ sagði MacWalsey prófessor með þeim sérkennilega talsmáta sem honum var tamur. „Ég get farið ef nærvera mín er þér til skapraunar.“

„Nei,“ sagði Richard Gordon. „Á vissan hátt kann ég nærveru þinni ekki illa.“

„Jæja,“ sagði MacWalsey prófessor.

„Hefurðu nokkurn tímann verið kvæntur?“ spurði Richard Gordon.

„Jú.“

„Hvað kom upp á?“

„Konan mín dó í inflúensufaraldrinum 1918.“

„Af hverju viltu kvænast aftur núna?“

„Hugsa að ég sé betur til þess fallinn núna. Hugsa að ég yrði líka betri eiginmaður núna.“

„Svo að þú húkkaðir konuna mína.“

„Já,“ sagði MacWalsey prófessor.

„Bannsettur,“ sagði Richard Gordon og sló hann í andlitið.

Einhver greip um handlegginn á honum. Hann sleit sig lausan og einhver sló hann bylmingshöggi bak við eyrað. Hann gat séð MacWalsey prófessor fyrir framan sig þar sem hann var enn við barinn, rjóður í andliti, blikkandi augunum. Hann var að teygja sig eftir öðrum bjór í staðinn fyrir þann sem Gordon hafði látið fara til spillis, og Richard Gordon dró að sér handlegginn til að slá aftur til hans. Um leið og hann gerði það splundraðist eitthvað enn á ný bak við eyrað á honum og ljósin lýstu öll upp og spunnu hringi fyrir augum hans og dóu svo út.

Því næst stóð hann í innganginum á stað Fredda. Hann var ringlaður í höfðinu og þéttskipaður salurinn flökti og snerist hægt fyrir sjónum hans, og honum var illt í maganum. Hann sá að athygli mannfjöldans beindist að honum. Ungi, herðabreiði maðurinn stóð við hliðina á honum. „Heyrðu,“ var hann að segja, „þú hefur engan hug á að valda neinum vandræðum hér inni. Það er nóg slegist þar sem þessar byttur eru.“

„Hver sló mig?“ spurði Richard Gordon.

„Ég sló þig,“ sagði sá ungi og herðabreiði. „Þessi náungi er fastur viðskiptavinur hér. Þú vilt hafa hægt um þig. Þú hefur engan hug á að fara að slást hérna.“

Standandi völtum fótum sá Richard Gordon hvar MacWalsey prófessor kom í átt til hans út úr þrönginni við barinn. „Mér þykir þetta leitt,“ sagði hann. „Það var ekki minn vilji að neinn færi að kýla þig. Ég áfellist þig ekki þó að þér sé svona innanbrjósts.“

„Bannsettur sértu,“ sagði Richard Gordon og tók í átt til hans. Það var það síðasta sem hann mundi því að sá ungi og herðabreiði setti sig í veg fyrir hann, færði sig lítið eitt í herðarnar og stífði hann af á nýjan leik, og hann féll við, og að þessu sinni á steingólfið beint á andlitið. Sá ungi og herðabreiði sneri sér að MacWalsey prófessor. „Þetta er allt í lagi, dokt,“ sagði hann stimamjúkur. „Hann angrar þig ekki núna. Hvað gengur eiginlega að honum?“

„Ég verð að koma honum heim,“ sagði MacWalsey prófessor. „Verður allt í lagi með hann?“

„Vertu viss.“

„Aðstoðaðu mig við að koma honum inn í leigubíl,“ sagði MacWalsey prófessor. Þeir báru Richard Gordon út á milli sín og settu hann með hjálp bílstjórans inn í gamla T-módel leigubílinn.

„Þú ert viss um að það verði allt í lagi með hann?“ spurði MacWalsey prófessor.

„Einungis togar vel í eyrun á honum þegar þú vilt koma honum til. Helltu yfir hann dálitlu af vatni. Gættu að því að hann vilji ekki fara að slást aftur þegar hann kemur til. Gefðu honum ekki færi á þér, dokt.“

„Nei,“ sagði MacWalsey prófessor.

Richard Gordon lá með höfuðið út af í keng aftur í leigubílnum og dró andann höfuglega og svo korraði í honum. MacWalsey prófessor setti handlegginn undir höfuð honum og hélt undir það svo að það slægist ekki við sætið.

„Hvert förum við?“ spurði leigubílstjórinn.

„Yfir í hinn enda bæjarins,“ sagði MacWalsey prófessor. „Fram hjá skemmtigarðinum. Niður götuna sem liggur þaðan sem þeir selja marlaxinn.“

„Það er Klettagata,“ sagði bílstjórinn.

„Já,“ sagði MacWalsey prófessor.

Þegar þeir komu á móts við fyrstu kaffisöluna upp í götunni sagði MacWalsey prófessor bílstjóranum að stansa. Hann hugðist fara inn og verða sér úti um sígarettur. Hann lagði höfuðið á Richard Gordon varlega niður í sætið og fór inn í kaffisöluna. Þegar hann kom út og ætlaði að setjast inn í leigubílinn var Richard Gordon á burt.

„Hvert fór hann?“ spurði hann bílstjórann.

„Þetta er hann þarna uppi í götunni,“ sagði bílstjórinn.

„Farðu upp að honum.“

Þegar leigubíllinn var kominn á móts við hann fór MacWalsey prófessor út og gekk upp að Richard Gordon sem skjögraði eftir gangstéttinni.

„Komdu nú, Gordon,“ sagði hann. „Við ætlum heim.“

„Við?“ sagði hann, slagandi.

„Ég vil að þú farir heim í þessum leigubíl.“

„Farðu fjandans til.“

„Ég vildi að þú mundir vilja koma,“ sagði MacWalsey prófessor. „Ég vil að að þú komist heim heilu og höldnu.“

„Hvar er liðið þitt?“ sagði Richard Gordon.

„Hvaða lið?“

„Þetta lið þitt sem barði mig til óbóta.“

„Það var útkastarinn. Ég vissi ekki að hann ætlaði sér að slá þig.“

„Þú lýgur,“ sagði Richard Gordon. Hann réðst að rauðbirkna manninum fyrir framan hann og missti hans. Hann féll fram á kné sér og reisti sig hægt upp. Hnéin á honum voru rifin til blóðs eftir gangstéttina en það vissi hann ekki.

„Komdu og berstu,“ sagði hann hálfbrostinni röddu.

„Ég berst ekki,“ sagði MacWalsey prófessor. „Ef þú vilt stíga inn í leigubílinn skal ég fara.“

„Farðu fjandans til.“ sagði Richard Gordon og gekk af stað niður götuna.

„Láttu hann fara,“ sagði leigubílstjórinn. „Það er allt í lagi með hann núna.“

„Heldurðu að verði í lagi með hann?“

„Fjandinn hafi það,“ sagði leigubílstjórinn. „Hann er óaðfinnanlegur.“

„Ég hef áhyggjur af honum,“ sagði MacWalsey prófessor.

„Þú færð hann ekki inn í bílinn án þess að slást við hann,“ sagði leigubílstjórinn. „Láttu hann fara. Hann er í lagi. Er hann bróðir þinn?“

„Á sinn hátt,“ sagði MacWalsey prófessor.

Hann horfði á Richard Gordon skjögra niður götuna þangað til hann var úr augsýn, hulinn skuggunum af stórum trjánum sem hneigðu lim sitt til jarðar eins og til að skjóta þar rótum. Það var síst skemmtilegt sem hann var að hugsa um sem hann horfði á hann. Þetta er höfuðsynd, hugsaði hann, dauðasynd, og mikil grimmd, og þó að trú manns heimili ef til vill tæknilega séð hina óumflýjanlegu niðurstöðu, hef ég ekkert mér til málsbóta. Á hinn bóginn þá getur læknir ekki hætt við uppskurð í miðjum klíðum af ótta við að hann valdi sjúklingnum sársauka. En af hverju verða allir uppskurðir í lífinu að gerast án deyfingar? Ef ég hefði verið betri maður hefði ég lofað honum að berja mig til óbóta. Það hefði verið betra fyrir hann. Vesalings kjánann. Vesalings heimilislausan kjánann. Ég átti að vera áfram með honum, en ég veit að það væri of mikið á hann lagt. Ég skammast mín og hef óbeit á sjálfum mér og hef andstyggð á því sem ég hef gert. Allt gæti líka átt eftir að snúast til verri vegar. En ég má ekki hugsa um það. Núna ætla ég að hverfa á vit deyfingarinnar sem ég hef notað í sautján ár og mun ekki þurfa á að halda mikið lengur. Þó að trúlega sé það löstur sem ég nú einungis afsaka mig með. Þó að minnsta kosti löstur sem mér hæfir. En það vildi ég óska að ég gæti hjálpað þessum vesalings manni sem ég veit að ég geri rangt til.

„Aktu mér til baka til Fredda,“ sagði hann.

 

15. kafli

Strandgæslubáturinn var á leið niður úfið sundið milli rifsins og eyranna með Kræklingadrottninguna í eftirdragi. Báturinn valt í öldurótinu sem hægur norðanvindurinn reisti mót flóðöldunni en báturinn hvíti sem á eftir fylgdi fór ágætlega í drætti.

„Hún verður í lagi á meðan hann bætir ekki í vindinn,“ sagði strandgæslukapteinninn. „Hún fer líka prýðisvel í drætti. Hann smíðaði prýðisfleytur þessi Robbi. Gastu fengið einhvern botn í þetta óráðstal hans?“

„Það var ekki heil brú í því,“ sagði stýrimaðurinn. „Hann er ekki með sjálfum sér.“

„Ætli hann gefi ekki upp öndina, þá það,“ sagði kapteinninn. „Skotinn svona í magann. Heldurðu að hann hafi drepið þessa fjóra Kúbana?“

„Ekki gott að segja. Ég spurði hann en hann hafði enga hugmynd um hvað ég var að segja.“

„Ættum við að fara og tala við hann aftur?“

„Lítum á hann,“ sagði stýrimaðurinn.

Þeir skildu 2. stýrimann eftir við stýrið, siglandi eftir vitunum niður sundið, og fóru inn í káetu kapteinsins að baki stýrishúsinu. Harrý Morgan lá þar á járngrindarbekknum. Hann var með augun aftur en lauk þeim upp þegar kapteinninn snerti breiðar axlir hans.

„Hvernig líður þér, Harrý?“ spurði kapteinninn hann. Harrý horfði á hann án þess að segja neitt.

„Er ekki eitthvað sem við getum fært þér, drengur minn?“ spurði kapteinninn hann.

Harrý Morgan horfði á hann.

„Hann heyrir ekki til þín,“ sagði stýrimaðurinn.

„Harrý,“ sagði kapteinninn, „er ekki eitthvað sem þig vanhagar um, drengur minn?“

Hann bleytti handklæði í vatnskönnu sem var í jafnvægisstandi við hliðina á bekknum og vætti sprungnar varirnar á Harrý Morgan. Þær voru þurrar og svartar á að líta. Sem Harrý Morgan horfði á hann tók hann að tala. „Maður,“ sagði hann.

„Vissulega,“ sagði kapteinninn. „Haltu áfram.“

„Maður,“ sagði Harrý Morgan, afar hægt, „hefur ekki neitt hefur ekki neina getur alls ekki er engin leið út.“ Hann þagnaði. Hann hafði talað án þess að nokkurra svipbrigða gætti á andliti hans.

„Haltu áfram, Harrý,“ sagði kapteinninn. „Segðu okkur frá hver gerði það. Hvernig gerðist það, drengur minn?“

„Maður,“ sagði Harrý, nú lítandi til hans þröngu augnaráði sínu, umgirtu kjálkabreiðu andlitinu, reynandi að gera sig honum skiljanlegan.

„Fjórir menn,“ sagði kapteinninn hjálpsamlega. Hann vætti aftur varir hans og vatt nú handklæðið svo að draup úr því niður á milli þeirra.

„Einn maður,“ leiðrétti Harrý hann; þagnaði síðan.

„Allt í lagi. Einn maður,“ sagði kapteinninn.

„Einn maður,“ endurtók Harrý afar hægt, afar holum hljómi, myndandi orðin þurrum gómi. „Nú eins og allt er eins og allt fer sama hvernig neitt.“

Kapteinninn leit á stýrimanninn og hristi höfuðið.

„Hver gerði það, Harrý?“ spurði stýrimaðurinn.

Harrý leit á hann.

„Ekki gera sig að fífli,“ sagði hann. Kapteinninn og stýrimaðurinn lutu yfir hann. Nú var það að koma. „Eins og að fara fram úr bílum á blindhæðum. Á þessum vegi á Kúbu. Hvaða vegi sem er. Hvar sem er. Bara svona. Eins og allt er meina ég. Eins og allt hefur farið. Um tíma já vissulega allt i lagi. Kannski fyrir heppni. Einn maður.“ Hann þagnaði. Kapteinninn leit aftur á stýrimanninn og hristi höfuðið. Harrý Morgan leit beint á hann. Kapteinninn vætti aftur varir Harrýs. Blóð varð eftir á handklæðinu.

„Einn maður,“ sagði Harrý Morgan, með augun á þeim báðum. „Maður einsamall á enga. Enginn maður einsamall núna.“ Hann þagnaði. „Sama hvernig maður einsamall maður á engra andskotans kosta enga völ.“

Hann lagði aftur augun. Það hafði tekið hann langan tíma að koma orðunum að því og hafði kostað hann alla ævina að skilja það.

Þarna lá hann með augun opin á ný.

„Komdu,“ sagði kapteinninn við stýrimanninn. „Ertu viss um að þig vanhagi ekki um neitt, Harrý?“

Harrý Morgan horfði á hann en hann svaraði ekki. Hann hafði sagt þeim frá; en þeir höfðu ekki hlustað.

„Við komum aftur,“ sagði kapteinninn. „Taktu það rólega, drengur minn.“

 

Harrý Morgan horfði á þá fara út úr káetunni.

Frammi í stýrishúsinu sagði stýrimaðurinn, sem hann horfði á húmið leggjast að og Sombrero vitann taka að varpa ljósi sínu út yfir sæinn: „Það fæst ekkert upp úr honum nema endaleysa með þessu móti.“

„Vesalingurinn,“ sagði kapteinninn. „Við verðum inni senn hvað líður. Verðum komnir með hann inn upp úr miðnætti. Svo fremi við þurfum ekki að slá af út af toginu.“

„Heldurðu að hann lifi?“

„Nei,“ sagði kapteinninn. „En það er aldrei að vita.“

 

16. kafli

Það var múgur og margmenni á dimmri götunni fyrir utan lokað járnhliðið að gömlu kafbátahöfninni sem nú hafði verið gerð að höfn fyrir lystisnekkjur. Kúbanski vaktmaðurinn hafði fyrirskipanir um að hleypa engum inn, og mannsöfnuðurinn þrýsti á girðinguna til að geta séð inn á milli járnrimlanna inn á skuggsýnt svæðið sem lýsti upp meðfram hafnarbakkanum af ljósunum á snekkjunum sem lágu bundnar við bryggjustúfana. Mannsöfnuðurinn var þögull á þann hátt sem einungis mannsöfnuður frá Key-Vest getur verið. Snekkjukarlarnir olnboguðu sig gegnum þröngina að hliðinu hjá vaktmanninum.

„Hei. Þið ekki geta fara inn,“ sagði vaktmaðurinn.

„Hver skollinn. Við erum af snekkju hérna.“

„Ekki neinum ætlað fara inn,“ sagði vaktmaðurinn. „Fara frá.“

„Ekki þennan kjánaskap,“ sagði annar snekkjukarlanna og ýtti honum til hliðar til að komast upp götuna að dokkinni.

Mannmergðin var að baki þeirra fyrir utan hliðið, þar sem smávaxinn vaktmaðurinn stóð kvíðafullur eins og illa gerður hlutur undir húfunni sinni, með sitt síða yfirvararskegg og fas hins subbulegan myndugleika, óskandi sér þess að hann hefði lykil til að læsa hinu stóra hliði, og sem þeir stikuðu glaðbeittir beint af augum upp aflíðandi götuna, og lögðu hana að baki, beið hópur manna á strandgæslubryggjunni. Þeir skiptu sér ekkert að þeim en héldu með hafnarbakkanum, fram hjá bryggjunum þar sem aðrar skútur lágu, að bryggju númer fimm, og út á bryggjuna þar sem flóðlýst landgöngubrúin lá milli grófrar trébryggjunnar og tekkviðarþiljanna á Exumu nýju II. Þeir fengu sér sæti inni í aðalkáetunni í stórum leðurstólum við hliðina á löngu borði þar sem tímarit lágu á dreif, og annar þeirra hringdi eftir brytanum.

„Skota og sóda,“ sagði hann. „Þú, Henrý?“

„Já,“ sagði Henrý Carpenter.

„Hvað gekk að þessum asnakjálka við hliðið?“

„Hef ekki hugmynd,“ sagði Henrý Carpenter.

Brytinn, í hvítum jakka sínum, kom með glösin tvö.

„Spilaðu þessar skífur sem ég tók fram eftir miðdegisverðinn,“ sagði snekkjukarlinn, sem Wallace Johnston hét.

Ég er hræddur um að ég hafi sett þær til hliðar, herra,“ sagði brytinn.

„Bannsettur sértu,“ sagði Wallace Johnston. „Spilaðu þá nýja Bach albúmið.“

„Fyrirtak, herra“ sagði brytinn. Hann fór yfir að plötuskápnum og tók út albúm og færði sig með það yfir að grammófóninum. Hann byrjaði að spila „Sarabande“.

„Sástu Tomma Bradley í dag?“ spurði Henrý Carpenter. „Ég sá hann þegar vélin lenti.“

„Ég þoli hann ekki,“ sagði Wallace. „Hvað þá heldur þessa hóru konuna hans.“

„Mér líkar við Helène,“ sagði Henrý Carpenter. „Hún hefur svo dáindis vel ofan af fyrir sér.“

„Nokkurn tímann reynt það?“

„Þó nú væri. Það er undursamlegt.“

„Ég gæti ekki títað hana sama hvað það kostaði,“ sagði Wallace Johnston. „Því þá í ósköpunum býr hún hér niður frá?“

„Þau eiga sér fallegt heimili.“

„Hreinn og snotur lítill snekkjupollur,“ sagði Wallace Johnston. „Er það rétt að Tommi Bradley sé getulaus?“

„Það mundi ég ekki ætla. Maður heyrir það nú sagt um alla. Hann er einfaldlega frjálslyndur.“

„Það er frábært að vera frjálslyndur. Hún er svo sannarlega frjálslynd ef einhver er.“

„Hún er kvenmaður sem gaumur er gefandi að,“ sagði Henrý Carpenter. „Þú mundir kunna við hana, Wallý.“

„Það mundi ég ekki gera,“ sagði Wallace. „Hún er fulltrúi alls þess sem ég hef andstyggð á í eðli kvenna, og Tommi Bradley ímynd alls þess sem ég hef andstyggð á í eðli karla.“

„Þú ert fjári harður í horn að taka í kvöld.“

„Þú ert aldrei harður í horn að taka af því að þig skortir staðfestu,“ sagði Wallace Johnston. „Þú getur ekki gert upp hug þinn. Þú veist ekki einu sinni hvar þú hefur sjálfan þig.“

„Sleppum mér,“ sagði Henrý Carpenter. Hann kveikti sér í sígarettu.

„Því ætti ég að gera það?“

„Nú, þú mættir gera það þó ekki væri nema af því ég fer með þér á þessari bölvuðu snekkju þinni, og minnsta kosti helming tímans geri ég svo sem þú vilt, og það forðar þér frá því að þetta fólk, sem þekkir sjálft sig og þekkir þig, kúgi út úr þér fé og hafi af þér eitt og annað.“

„Þú ert laglega fyrirkallaður,“ sagði Wallace Johnston. „Þú veist að ég læt aldrei kúga út úr mé fé.“

„Nei, þú ert of þéttur fyrir. Í staðinn áttu þér vini eins og mig.“

„Ég á mér enga aðra vini eins og þig.“

„Láttu vera að beita töfrum þínum,“ sagði Henrý. „Mér er það ekki að skapi í kvöld. Haltu bara áfram og leiktu Bach og atyrtu þjóninn þinn og drekktu einum um of og farðu í rúmið.“

„Hvað er hlaupið í þig?“ sagði hinn og reis á fætur. „Því ertu að verða svona andskoti óskemmtilegur. Þú ert ekki sá þungavigtarmaður, veist það.“

„Veit ég vel,“ sagði Henrý. „Ég mun verða ó svo léttur í lund á morgun. En kvöldið í kvöld er miður gott kvöld. Hefurðu aldrei tekið eftir neinum mun á kvöldum? Ég hugsa að sé maður nógu ríkur þá sé munurinn enginn.“

„Þú talar eins og skólastelpa.“

„Góða nótt,“ sagði Henrý Carpenter. „Ég er hvorki nein skólastelpa né skólastrákur. Ég ætla að fara í rúmið. Allt verður svo fjári skemmtilegt í fyrramálið.“

„Hve miklu tapaðirðu? Er það þess vegna sem þú ert svona hrelldur?“

„Ég tapaði þremur hundruðum.“

„Sagði ég ekki? Sagði þér að sú væri ástæðan.“

„Alltaf veist þú, er það ekki?“

„En sjáðu til. Þú tapaðir þremur hundruðum.“

„Ég hef tapað meira en það.“

„Hve miklu meira?“

„Gosapottinum,“ sagði Henrý Carpenter. „Gosapottinum eins og hann leggur sig. Ég leik núna kerfi sem gefur ekki færi á að maður vinni gosapott framar. Það vildi aðeins svo til í kvöld að ég leiddi hugann að því. Yfirleitt geri ég það ekki. Ég ætla að koma mér í rúmið núna svo að ég mun ekki verða þér til leiðinda.“

„Mér leiðist þú ekki. En vertu bara ekki með neinn ruddaskap.“

„Ég er hræddur um að ég sé ruddafenginn og mér leiðist þú. Góða nótt. Á morgun verður allt í þessu fína.“

„Þú ert árans ruddi.“

„Láttu þig hafa það eða láttu það vera,“ sagði Henrý. „Ég hef verið að gera hvort tveggja alla ævi.“

„Góða nótt,“ sagði Wallace Johnston vongóðri röddu.

Henrý Carpenter svaraði ekki. Hann var að hlusta á Bach.

„Þú ferð ekki í rúmið þannig fyrirkallaður,“ sagði Wallace Johnston. „Því þá þetta hviklyndi?“

„Slepptu því.“

„Því þá? Ég hef séð það bráðna af þér.“

„Slepptu því.“

„Fáðu þér drykk og sýndu af þér kæti.“

„Mig langar ekki í drykk og drykkur mundi síst kæta mig.“

„Jæja, farðu þá í rúmið.“

„Ég er að fara,“ sagði Henrý Carpenter.

Það var þannig sem það gekk fyrir sig í Exumu nýju II, með tólf manna áhöfn sem Nils Larson skipherra fór fyrir, og um borð voru Wallace Johnston, eigandinn, 38 ára gamall, með M.A. frá Harvard, tónskáld, silkimyllur möluðu gullið, ógiftur, interdit de séjour í París, velkunnur frá Algeirsborg til Biskra, og einn gestur, Henrý Carpenter, 36 ára, M.A. Harvard, allur auðurinn nú tvö hundruð á mánuði úr framfærslusjóði sem móðir hans hafði stofnað, hafði fyrr á tíð verið fjögur hundruð og fimmtíu á mánuði þangað til bankinn sem hafði stjórn Sjóðsins með höndum hafði skipt á einu góðu veði fyrir annað gott veð, fyrir önnur síður góð veð, og að lokum fyrir jafnvirði í skrifstofubyggingu sem bankinn hafði mátt sitja uppi með og sem gaf alls ekkert af sér. Löngu áður en tekjur hans skruppu svo saman hafði það verið haft á orði um Henrý Carpenter að þó hann væri látinn falla úr 5500 feta hæð án fallhlífar, mundi hann lenda örugglega með hnjákollana undir einhvers ríks manns borði. En hann þótti skemmtilegur í góðum félagsskap og þótt það væri einungis upp á síðkastið, og í litlum mæli, sem honum hefði liðið, eða hann sýnt af sér hegðan, líkt og þetta kvöld, höfðu vinir hans fundið um allnokkra hríð að hann var að brenna út. Hefði hann ekki þótt vera að brenna út, fyrir þessa eðlislægu tilfinningu að eitthvað gengur að einum í hópnum og heilbrigðu hvöt að snúa honum til betri vegar, sé ekki möguleiki að tortíma honum, sem einkennir hina ríku; þá hefði hann ekki verið knúinn til að þekkjast gestrisni Wallace Johnstons. Raunin var sú að Wallace Johnston, með sín heldur sérstæðu hugðarefni, var síðasta varnarvígi Henrýs Carpenters, og hann varði stöðu sína betur en hann gerði sér ljóst með því að hann lét svo hjartanlega í ljós hug sinn um lok vináttu þeirra; rustaleg framkoma hans upp á síðkastið og grómlaus breyskja sprottin af skorti hans á myndugleika tældi hinn og flækti í net hans, þó svo hann, hefði hann verið á sama reki og Henrý Carpenter, hefði svo auðveldlega mátt vera orðinn þreyttur á honum vegna stöðugrar undanlátssemi við hann. Því var það að Henrý Carpenter frestaði óhjákvæmilegu sjálfsmorði sínu um sem svaraði nokkrum vikum ef ekki mánuðum.

Framfærslueyririnn sem gerði honum lífið ekki þess virði að lifa því var hundrað og sjötíu dölum meiri á mánuði en fiskimaðurinn Albert Tracy hafði haft til framfærslu fjölskyldu sinni þegar dauða hans bar að þremur dögum áður.

Um borð í hinum snekkjunum sem lágu við bryggjustúfana var annað fólk með önnur vandamál. Um borð í einni af stærstu snekkjunum, svörtum, laglegum þrímöstrungi með barkareiða, lá sextíu ára gamall kornkaupmaður andvaka af áhyggjum út af skeyti sem hann hafði fengið frá skrifstofu sinni viðvíkjandi aðgerðum rannsóknarmanna frá Ríkisskattstofunni. Að öllu jöfnu, á þessum tíma kvölds, hefði hann bægt áhyggjum sínum á brott með geimboltaskota og komist á það stig að hann fyndi sig ekki síður seigan og áhyggjulausan af gjörðum sínum en hver annar gömlu bræðranna á ströndinni sem hann átti vissulega margt sameiginlegt með að því er skapgerð og breytni varðaði. En læknir hans hafði bannað honum að bragða áfenga drykki í mánuð, í þrjá mánuði reyndar, það er að segja þeir höfðu sagt að það mundi drepa hann á einu ári hætti hann ekki neyslu alkóhóls í að minnsta kosti þrjá mánuði, svo að hann var að hugsa um að láta það eiga sig í mánuð; og núna var hann með áhyggjur út af skilaboðunum sem hann hafði fengið frá skattinum áður en hann yfirgaf bæinn þar sem þess var krafist að hann gerði nákvæma grein fyrir ferðum sínum og hvort hann hefði í hyggju að fara út úr strandlögsögu Bandaríkjanna.

Hann lá núna í silkináttklæðum sínum uppi í breiðu rúminu sínu, með tvo kodda undir höfðinu og með kveikt á leslampanum, en hann gat ekki haft hugann við bókina sem hafði að geyma lýsingu á ferð til Galapagos. Hann hafði aldrei tekið þær með í rúmið í gamla daga. Hann hafði haft þær í hirslum sínum og farið í þetta rúm á eftir. Þetta var hans einkaherbergi, ekki síður út af fyrir sig en skrifstofa hans. Hann kærði sig aldrei um að fá konu inn í herbergi sitt. Þarfnaðist hann konu fór hann til herbergis hennar, og þegar hann var búinn var hann búinn, og nú sem hann var búinn fyrir fullt og fast var hugur hans jafn kaldur og skýr sem alltaf forðum, í gamla daga, sem höfðu þá verið eftirköst. Og núna lá hann, án þess að neitt fengi sljóvgað á þægilegan hátt hugann, mátti hafna allri þessari efnafræðilegu styrkingu sem hafði sefað hug hans og vermt honum um hjartarætur í svo mörg ár, og reyndi að ráða í hvað skatturinn vissi, hvað þeir hefðu fundið og hvað þeir mundu tvinna saman, hvað þeir mundu álíta eðlilegt og hvað þeir mundu líta á sem undanskot; og hann óttaðist þá ekki, en einungis lagði fæð á þá og á valdið sem þeir mundu beita af svo mikilli ósvífni að öll hans eigin harðneskjulega, smálega, seiga og langæra ósvífni, hið eina sem hann hafði öðlast svo að varanlegt mátti heita og hafði virkilegt gildi, mundi verða boruð út í gegn og, yrði hann einhvern tímann fylltur geig, þá gerð að gjalti.

Hugsun hans var öll hlutstæð, snerist öll um viðskipti, um sölur, um færslur, um fríðindi. Hann hugsaði í hlutabréfum, sekkjum, þúsundum skeppa, í valkostum, í eignarhaldi í fyrirtækjum, sjóðum og dótturfyrirtækjum, og sem hann hugleiddi það vissi hann að þeir hefðu feiknin öll á hann, nóg til þess að hann fengi ekki frið árum saman. Féllust þeir ekki á málamiðlun væri hann illa staddur. Hann hefði ekki haft áhyggjur í gamla daga, en bardagamaðurinn í honum var nú orðinn þreyttur, ásamt hinum hlutanum af honum, og hann var núna einsamall í þessu öllu saman og hann lá á stóru, breiðu, gömlu rúminu og gat hvorki lesið né sofið.

Kona hans hafði skilið við hann fyrir tíu árum eftir tuttugu ára sjónarspil, og hann hafði aldrei saknað hennar né heldur hafði hann nokkurn tímann elskað hana. Hann hafði hafist handa með fjármunum hennar og hún hafði fætt honum tvo drengi, sem voru, eins og móðir þeirra, fífl báðir tveir. Hann hafði annast hana vel þangað til hagur hans hafði vænkast um sem svaraði tvöföldum heimanmund hennar og gat þá leyft sér að virða hana að vettugi. Eftir að efni hans höfðu náð þessu marki hafði hann aldrei látið veiklulega höfuðverki hennar, kvartanir eða áform hennar hafa áhrif á sig. Hann hafði látið það sem vind um eyru þjóta.

Hann hafði verið aðdáanlega vel af guði gerður fyrir gróðavænlegt lífshlaup því hann hafði til að bera ríkulega kynorku sem gerði honum kleift að spila djarft; heilbrigða skynsemi, frábæran stærðfræðiheila, sívakandi en agaða efahyggju; efahyggju sem var jafn næm fyrir yfirvofandi áföllum sem hún var nákvæmur mælir á breytingar á þrýstingi andrúmsloftsins; og gott tímaskyn sem hélt honum frá að reyna við það hæsta eða það lægsta. Þetta, ásamt vöntun á siðgæði, hæfileika til að láta fólk falla hann sér í geð án þess að hann nokkru sinni léti sér falla við það eða treysti því að sama skapi, þó hann á sama tíma sannfærði það hlýlega og hjartanlega um vináttu sína, sem var ekki ómerk vinátta, en vinátta sem snerist svo um árangur þess og happasælni að sjálfkrafa gerði hún það að vitorðsmönnum; og samviskuleysi jafnt sem skortur á samúð hafði borið hann þangað á leið sem hann nú var staddur. Og nú var svo komið að hann lá í röndóttum silkináttklæðum sem huldu hruma gamals manns bringu, tútinn lítinn maga, nú ónothæft og ósamsvarandi stórt tól hans sem hafði eitt sinn verið stolt hans, og stutta hvaplega fótleggi; lá í rúminu og var um megn að sofna af því að lokum var hann nagaður af samviskubiti.

Hann var með samviskubit yfir því að hafa endilega þurft að vera svo kænn fyrir fimm árum. Hann hefði getað greitt skattana undanbragðalaust, og hefði hann gert það hefði allt verið í lagi núna. Svo að hann lá og hugsaði um það og að lokum sofnaði hann; en af því að samviskan var einu sinni farin að naga hann og bíta, þá vissi hann ekki að hann svæfi því að hugurinn héldi áfram starfi sínu líkt og þegar hann vakti. Svo að hvíldin yrði engin og fyrir mann á hans aldri þá tæki það samviskuna ekki svo langan tíma að bíta sig fasta.

Hann var vanur að segja að einungis brjóstmylkingar hefðu áhyggjur og hann mundi sífellt bægja þeim frá þangað til hann gæti ekki sofnað. Hann kynni að halda þeim í skefjum þangað til hann sofnaði, en þá gerði samviskan vart við sig og þar sem hann var orðinn þetta gamall þá var eftirleikurinn auðveldur.

Hann mundi ekki þurfa að hafa áhyggjur af því hvað hann hefði gert á hlut annars fólks, né hverju það hefði orðið fyrir af hans völdum, né hver hefðu orðið örlög þess; hver hefðu flutt úr húsum við Vatnsstrandargötu til að fara leigja úti í Austin, hverjar nú dætur afmeyjaðra væru aðstoðarstúlkur tannlækna þegar þær hefðu vinnu; hver dagaði uppi sem næturvörður sextíu og þriggja ára eftir síðasta hornrekið; hver skaut sig eitt sinn árla morguns fyrir morgunverð eða hvert barna hans kom að honum, eða hvernig hroðinn var ásýndum; hver nú hjólaði í L-i til vinnu sinnar, þegar vinnu var að hafa, frá Berwyn, að reyna að selja, fyrst skuldabréf; síðan bíla; síðan nýjabrum og sérvarning hús-úr-húsi (við viljum ekki sjá neina mangara, snáfaðu burt héðan, hurðinni skellt á hann), þangað til hann brygði út af frá fallinu sem faðir hans hafði látið sig hafa ofan af fertugustu og annarri hæð, án nokkurs fjaðrafoks eins og þegar örn fellur, í eitt skref fram á við í þriðju lestarsporið fram undan Aurora-Elgin lestinni, með úlpuvasana fulla af óseljanlegum eggjaþeyturum og aldinsafalögurum. Lofið mér aðeins að útskýra það, madame. Þér setjið það á hér, herðið að þessum litla útbúnaði hér. Sjáið nú til. Nei, ég vil þetta ekki. Reynið eitt stykki. Ég vil þetta ekki. Burt með þig.

Svo að hann fór burt út á gangstéttina sem lá meðfram timburhúsunum, auðum görðunum með askviðinum baðandi út nöktum greinum sínum, þar sem enginn kærði sig um eitt eða neitt, og hélt sem leið lá niður að Aurora-Elgin brautinni.

Sumir tóku út fallið hátt ofan úr íbúðinni eða út um skrifstofugluggann; sumir létu sig hafa það hæglátlega í rúmgóðum bílskúr með vélina í gangi; sumir hefðbundið að þjóðarsið með Colt eða Smith og Wesson; þessum vel gerðu tólum sem taka fyrir svefnleysi, svæfa samviskuna, lækna krabba, forða frá gjaldþroti, og sprengja upp útgönguleið úr óbærilegri aðstöðu fyrir þrýsting eins fingurs; þessum undursamlegu amerísku áhöldum sem eru svo auðveld í meðförum, sem virka svo nákvæmlega, sem svo vel eru löguð til að ljúka ameríska draumnum þegar orðinn er að martröð, með þeim eina ágalla að hroðinn verður eftir handa ættingjunum að þrífa upp.

Mennirnir sem hann braut niður fundu sér allar þessar mismunandi útgönguleiðir en hann lét sér það í léttu rúmi liggja. Einhver varð að tapa og einungis brjóstmylkingar höfðu áhyggjur.

Nei hann mundi ekki þurfa að leiða hugann að þeim né að hliðarverkunum mikilla heilabrota. Maður sigrar, einhver tapar, og einungis brjóstmylkingar hafa áhyggjur.

Það mundi vera honum nóg íhugunarefni hve mun betra það hefði verið ef hann hefði ekki verið svo ansi kænn fyrir fimm árum, og eftir skamma hríð, fyrir mann á hans aldri, mundi löngunin eftir að fá breytt því sem verður ekki lengur breytt, opna áhyggjunum leið svo að þær streymdu inn. Einungis brjóstmylkingar hafa áhyggjur. En hann getur bægt áhyggjunum á brott með Skota og sóda. Til fjandans með læknisráðin. Svo að hann hringir eftir einum og brytinn birtist svefndrukkinn, og sem hann drekkur það, er nú gróðabrallarinn ekki neinn brjóstmylkingur; nema gagnvart dauðanum.

Á meðan sefur glaðvær, seinlát, státin fjölskylda um borð í næstu snekkju við hliðina á. Samviska föðurins er góð og hann sefur vært á hliðinni, með hraðsiglara á liðugri ferð undan vindi innrammaðan yfir höfðinu, með lesljósið á, bók hefur fallið niður við hliðina á rúminu. Móðirin sefur vel og dreymir garðinn sinn. Hún er fimmtug en er myndarleg, heilsteypt, velhaldin, aðlaðandi kona sem hún sefur. Dótturina dreymir unnusta sinn sem kemur á morgun með vélinni og hún bærir á sér í svefninum og hlær að einhverju í draumnum og án þess að vakna dregur hún að sér hnén næstum upp undir höku, hringar sig þannig eins og köttur, með ljóst liðað hár og snoturt hörundsmjúkt andlit, sofandi lítur hún út eins og móðir hennar þegar hún var stúlka.

Þetta er hamingjusöm fjölskylda og öll elska þau hvert annað. Faðirinn er sómakær borgari og hefur margt gott látið af sér leiða, var mótfallinn banninu, er ekki kreddufastur heldur veglyndur, hluttekningarsamur, skilningsríkur og næstum aldrei önuglyndur. Áhöfnin á snekkjunni fær ágætlega borgað, fær gott fæði og hefur rúmt um sig. Hún hefur miklar mætur á eigandanum og ekki síður konu hans og dóttur. Unnustinn er liðsmaður Kúpu og Beina, einn hinn vinsælasti, álitinn eiga mikla framtíð fyrir sér, sem enn hugsar meira um aðra en sjálfan sig og væri of góður fyrir þær allar nema elskulega stúlku eins og Frances. Hann kann líka að vera aðeins of góður fyrir Frances, en ár munu líða áður en Frances verður það ljóst, má vera; og ef til vill verður henni það aldrei ljóst, má þá hrósa happi. Sú manngerð sem er tekin á Bein er varla takandi í rúm; en með elskulegri stúlku eins og Frances helgar tilgangurinn meðalið.

Svo allavega sofa þau öll vel og hvaðan koma peningarnir sem þau eru öll svo glöð yfir og fara svo vel með og yndislega? Peningarnir eru fengnir með því að selja dálítið sem allir nota með milljónunum af flöskum, sem kostar þrjú sent á kvart að framleiða, fyrir dal á stóra (pint) flösku, fimmtíu sent á millistærðina og fyrir kvartdal á þá litlu. En það er hagkvæmara að kaupa þá stóru, og hafirðu tíu dali upp úr þér á viku kostar það þig alveg það sama og þó þú værir milljónamæringur, og hluturinn er mjög góður til síns brúks. Hann gerir alveg það sem hann ber með sér að vera ætlaður til og meira til. Þakklátir notendur hvaðanæva úr heiminum halda áfram að skrifa og tjá sig um að hafa uppgötvað ný not af honum og gamlir notendur eru jafn trúir honum sem Harold Tompkins, unnustinn, er trúr Kúpu og Beinum og Stanley Baldwins er trúr Herfinu. Það eru engin sjálfsmorð þegar peningarnir verða til á þennan hátt og allir sofa vært í snekkjunni Alziru III, þar sem skipherrann Jon Jacobson, áhöfnin, fjórtán manns, eigandinn og fjölskylda hans eru um borð.

Við fjórðu bryggju er 34 feta snekkja með léttbáti sem á eru tveir af þeim þrjúhundruð tuttugu og fjórum Eistlendingum sem eru á siglingu í hinum ýmsu heimshlutum á bátum sem eru á bilinu 28 til 36 feta langir og sendandi greinar heim til eistlensku dagblaðanna. Þessar greinar eru afar vinsælt lesefni í Eistlandi og færa höfundum sínum frá dal upp í dal og þrjátíu sent fyrir dálkinn. Þeir fá það rúm sem lagt er undir hafnabolta og fótbolta í amerískum dagblöðum og birtist efnið undir yfirskriftinni Sagnir af okkar hugrökku sjófarendum. Engin vel rekin snekkjuhöfn suður með sjó getur kallast almennileg nema þar séu að minnsta kosti tveir sólbrunnir og saltstroknir Eistlendingar að bíða eftir tékka fyrir síðustu greinina sína. Þegar tékkinn kemur sigla þeir til annarrar snekkjuhafnar og rita nýja frásögn. Einnig þeir eru hamingjusamir. Næstum jafn hamingjusamir og fólkið um borð í Alziru III. Það er reisn yfir því að vera hugrakkur sjófarandi.

Í rúmi sínu um borð í Irydíu IV er atvinnutengdasonur hinna flugríku og freyja hans, Dórótea að nafni, eiginkona þessa tekjuháa Hollywood leikstjóra, Johns Hollis, hvers heili er á góðri leið með að lifa lifrina svo að hann mun að lokum taka að kalla sig kommúnista, sér til sáluhjálpar, meðan önnur líffæri hans eru orðin of illa farin að þeim sé viðbjargandi. Tengdasonurinn, stórskorinn í andliti, tæki sig vel út á veggauglýsingu, liggur á bakinu og hrýtur, en Dórótea Hollis, kona leikstjórans, er vakandi og hún fer í náttslopp og þegar hún gengur út á dekkið lítur hún út yfir dimman sjóinn í snekkjuhöfninni þangað sem markar fyrir brimbrjótnum. Það er kalt uppi á dekki og vindurinn tekur í hárið og hún strýkur það aftur fyrir sólbrúnt ennið, og sem hún þrýstir sloppnum þéttar að sér, og geirvörturnar eru orðnar stinnar af kuldanum, tekur hún eftir ljósunum á bát sem er á leið meðfram brimbrjótnum utanverðum. Hún fylgist með þeim sem þau berast áfram jafnt og þétt, og við innsiglinguna í höfnina er kveikt á ljóskastaranum og geislinn sópar sjávarflötinn og blindar hana þegar hann líður hjá og leitar uppi strandgæslubryggjuna þar sem hann lýsir upp hópinn sem bíður þar og nýjan gljásvartan bílinn frá útfararstöðinni sem er notaður jafnt sem sjúkrabíll sem líkvagn við jarðarfarir.

Held ég ætti að taka aðeins af þessu lúminoli, hugsaði Dórótea. Ég verð að reyna að sofa dálítið. Vesalings Eddi hífaður eins og belgsödd blóðsuga. Þetta er honum svo mikils virði og hann er svo ágætur, en hann verður svo hífaður að hann lognast út af um leið. Hann er svo sætur. Ef ég giftist honum tæki hann auðvitað um leið saman við einhverja aðra hugsa ég. Hann er samt sætur. Veslings krúttið, að vera svona hífaður. Vona að hann verði ekki illa fyrir kallaður í fyrramálið. Ég verð að fara og setja þessa liði í og reyna svo að sofa eitthvað. Þetta er eins og fjandinn sjálfur. Ég vil að honum lítist vel á mig. Hann er sætur. Vildi að ég hefði tekið þjónustustúlku með. Gat það samt ómögulega. Ekki einu sinni Bates. Þætti gaman að vita hvernig vesalings John líður. Ó, hann er líka sætur. Vona að hann sé betri. Vesalings lifrin í honum. Vildi ég væri hjá honum til að hafa auga með honum. Gæti farið og reynt að sofa eitthvað svo ég verði ekki eins og algjört herfi á morgun. Eddi er sætur. Og líka John og vesalings lifrin í honum. Ó, vesalings lifrin í honum. Eddi er sætur. Vildi að hann hefði ekki orðið svona hífaður. Hann er svo stór og skemmtilegur og dásamlegur og allt. Kannski að hann verði ekki svona hífaður á morgun.

Hún hélt niður og sem leið lá inn í káetu sína og settist fyrir framan spegilinn og hóf að bursta hár sitt hundrað strokum. Hún brosti við sjálfri sér í speglinum sem langir haddar burstans strukust gegnum fagurt hár hennar. Eddi er sætur. Já, það er hann. Vildi að hann hefði ekki orðið svona hífaður. Allir karlmenn hafa við eitthvað slíkt að stríða. Sjáðu lifrina í John. Auðvitað getur maður ekki séð hana. Hún hlýtur að vera virkilega hræðileg á að líta. Fegin að ég skuli ekki geta séð hana. Samt er í rauninni ekkert virkilega ljótt við karlmenn. Kyndugt hvernig þeir halda að það sé samt. Hugsa að það sé lifrin samt. Eða nýrun. Nýru á steikarteini. Hvað eru nýrun mörg? Næstum allt er tvennt nema maginn og hjartað. Og heilinn auðvitað. Hana. Komnar hundrað strokur. Ég elska að bursta á mér hárið. Það er næstum það eina sem gerir manni gott sem er um leið skemmtilegt. Það sem maður gerir sjálf á ég við. Ó, Eddi er sætur. Ef ég nú bara færi þangað inn. Nei, hann er of hífaður. Vesalings strákurinn. Ég ætla að taka lúminolið.

Hún horfði á sjálfa sig í speglinum. Hún var einstaklega snotur, með smágert, afar fínlegt andlit. O, ég læt slag standa, hugsaði hún. Sumt af því er ekki eins gott og sumt af því, en ég læt slag standa enn um sinn. Þú verður samt að sofa. Ég elska að sofa. Vildi óska að ég fengi einu sinni að sofa góðum eðlilegum raunverulegum svefni eins og þegar við vorum krakkar. Hugsa að þetta fylgi því að verða fullorðin og gifta sig og eignast börn og síðan drekka of mikið og gera svo allt það sem maður ætti ekki að gera. Ef maður aðeins gæti sofið vel þá hugsa ég að maður hefði ekki neitt slæmt af neinu af því. Nema að drekka of mikið hugsa ég. Vesalings John og lifrin í honum og Eddi. Eddi er elskulegur, allavega. Hann er tilfinninganæmur. Held ég ætti að taka þetta lúminol.

Hún skoðaði sjálfa sig í speglinum.

„Þú ættir að taka þetta lúminol,“ sagði hún í hálfum hljóðum. Hún renndi lúminolinu niður með glasi af vatni úr krómhúðaðri hitaflösku sem var á hillu hjá rúminu.

Það gerir mann óstyrkan á taugum, hugsaði hún. En maður verður að sofa. Þætti gaman að vita hvernig Eddi væri ef við værum gift. Ætli hann væri ekki á einhverju flandri með einhverri yngri. Hugsa að þeir geti ekkert að því gert hvernig þeir eru gerðir ekki frekar en við. Ég vil einungis fá það og það vel og mér líður svo vel, og að vera einhver önnur eða einhver ný skiptir í rauninni engu máli. Það er bara það sjálft, og maður mundi elska þá að eilífu ef maður fengi það hjá þeim. Hjá þeim sama á ég við. En þeir eru ekki þannig gerðir. Þeir vilja einhverja nýja, eða einhverja yngri, eða einhverja sem þeir ættu ekki kost á, eða einhverja sem lítur út eins og einhver önnur. Eða sé maður dökk þá vilja þeir ljósku. Eða sé maður ljóska þá eru þeir á eftir rauðhærðri. Eða sé maður rauðhærð þá er það eitthvað annað. Gyðingastúlka gæti ég ímyndað mér, og séu þeir virkilega búnir að fá nóg vilja þeir hana kínverska eða hvað maður skyldi kalla þær eða Guð veit hvað. Ég veit það ekki. Nema þeir bara fyllist leiða, gæti verið. Maður getur ekki áfellst þá ef það er þannig sem þeir eru gerðir og í alvöru talað þá er John búinn að drekka svo mikið að það er ekkert gagn í honum lengur. Hann var góður til síns brúks. Hann var stórkostlegur. Það var hann. Svo sannarlega. Og Eddi er það. En núna er hann hífaður. Ætli ég dagi ekki á endanum uppi sem tík. Má vera að svo sé komið nú þegar. Hugsa að maður geri sér ekki grein fyrir því þegar svo er komið. Aðeins bestu vinir manns mundu benda manni á það. Ekki les maður það í herra Winchell. Nú ber nokkuð nýrra við, gæti hann básúnað. Ólánstík. Frú John Hollis má hypja sig í bæinn burt af ströndinni. Betra en börn? Nokkuð algengara? hugsa ég. En konur hafa það virkilega slæmt. Því betur sem maður annast karlmann og því meiri ást sem maður auðsýnir honum því fyrr verður hann leiður á manni. Ætli þeir góðu séu ekki gerðir til að eiga margar konur en það er fjári slítandi að vera að reyna að gera úr sjálfri sér margar konur, og síðan kemur einhver og einfaldlega nemur hann á brott þegar hann er orðinn leiður á því. Hugsa að við dögum allar uppi sem tíkur en hverjum er það að kenna? Tíkurnar eru hinar alsælustu en maður verður að vera virkilega fjári heimsk til að vera ein af þeim góðu. Eins og Helène Bradley. Heimsk og staðföst í ásetningi sínum og sjálfselsk fram í fingurgóma til að vera ein af þeim góðu. Kannski að ég sé það nú þegar. Maður veit víst aldrei og maður heldur víst alltaf að maður sé það ekki, er sagt. Það verða að vera karlmenn sem verða ekki leiðir á manni eða á því að gera það. Það verður að vera þannig. En hver er þannig sett? Þeir eru allir rangt upp aldnir sem við höfum úr að velja. Farðu nú ekki út í þá sálma núna. Nei, ekki þá. Eða að rifja upp allar þessar bílferðir og þessi böll. Vildi óska að þetta lúminol verkaði. Bannsettur hann Eddi, svo sannarlega. Hann hefði alls ekki þurft að verða svona hífaður. Það er ekki sanngjarnt, alls ekki. Enginn getur að því gert hvernig hann er gerður en að verða hífaður hefur ekkert með það að gera. Hugsa að ég sé tík þá það, en liggi ég nú hérna andvaka i alla nótt verð ég brjáluð og taki ég of mikið inn af þessu árans grómi líður mér hræðilega allan morgundaginn og svo sofnar maður stundum ekki af því og allavega verð ég þver og taugaslöpp og mun líða herfilega. O, þá það, yrði þannig hvort eð væri. Ég hef andstyggð á því en hvað á maður að gera? Hvað getur maður annað gert en haldið áfram og gert það jafnvel þó, jafnvel þó, jafnvel þó, ó, hann er sætur, nei hann er það ekki, ég er sæt, já það ertu, þú yndið mitt, ó, þú mikla yndið mitt, já, yndi, og mig langaði það ekki, en ég er, núna er ég virkilega, hann er sætur, nei hann er það ekki, hann er ekki einu sinni hér, ég er hér, ég er alltaf hér og ég er það eina sem sleppur aldrei frá mér, nei, aldrei. Þú mín sæta. Þú yndið mitt. Já það ertu. Þú yndið mitt, yndið mitt, yndið mitt. Ó, já, yndið mitt. Og þú ert ég. Það er nú svo. Svo er nú það. Svo sí og æ og nú hvað með það og svo búið. Nú allt búið. Allt í lagi. Sama er mér. Hvaða máli skiptir það? Það er ekki rangt ef mér líður ekki illa. Og mér líður ekki illa. Mig bara syfjar núna og þó ég vaki áfram þá geri ég það aftur áður en ég verð almennilega vöknuð.

Svo fór hún að sofa og mundi eftir því rétt áður en hún sofnaði að snúa sér á hliðina þannig að andlitið hvíldi ekki á koddanum. Hún mundi, og sama hve syfjuð hún var orðin, hve hryllilega slæmt það er fyrir andlitið að hvíla þannig á koddanum í svefni.

Tvær aðrar snekkjur voru í höfninni en um borð í þeim voru einnig allir sofnaðir þegar strandgæslubáturinn dró bát Fredda Wallace, Kræklingadrottninguna, inn í dimma höfnina og lagðist að strandgæslubryggjunni.

 

17. kafli 

Harrý Morgan vissi ekkert um það þegar þeir réttu sjúkrabörur niður af bryggjunni, og meðan tveir menn héldu á þeim á þilfarinu á grámáluðum gæslubátnum, lýstir upp af flóðljósum fyrir utan káetu kapteinsins, lyftu tveir menn honum upp af bekk kapteinsins og skjögtu út með hann til að leggja hann á börurnar. Hann var búinn að vera meðvitundarlaus frá því snemma um kvöldið og stór skrokkurinn á honum seig djúpt í segldúkinn á börunum þegar mennirnir fjórir lyftu þeim upp í átt að bryggjunni.

„Upp nú með þær.“

„Haldið við fæturna á honum. Ekki láta hann renna til.“

„Upp með þær.“

Þeir komu börunum upp á bryggju.

„Hvernig líður honum, læknir?“ spurði lögregluforinginn þegar mennirnir ýttu börunum inn í sjúkrabílinn.

„Hann er á lífi,“ sagði læknirinn. „Það er það eina sem maður getur sagt.“

„Hann er búinn að vera með óráði eða meðvitundarlaus allan tímann síðan við höfðum upp á honum,“ sagði stýrimaðurinn, sá sem hafði stjórn með höndum á strandgæslubátnum. Þetta var lítill stubbur með gleraugu sem glampaði á í flóðljósunum. Hann var órakaður. „Allir Kúbanabúkarnir þínir eru hérna fyrir aftan í bátnum. Við létum allt eiga sig eins og það var. Við einungis tókum þá tvo niður sem hefðu getað fallið útbyrðis. Allt er alveg eins og það var. Peningarnir og byssurnar. Allt saman.“ 

„Við skulum koma,“ sagði lögregluforinginn. „Geturðu kveikt á flóðljósum þarna aftur á?“

„Ég skal láta þá tengja ljós uppi á bryggju,“ sagði hafnarvörðurinn. Hann fór burtu eftir ljósinu og kaplinum.

„Komum,“ sagði lögregluforinginn. Þeir fóru aftur á með lukt með sér. „Ég vil að þú sýnir mér nákvæmlega hvernig það var þegar þið funduð þá. Hvar eru peningarnir?“

„Í töskunum þarna tveimur.“

„Hvað er mikið í þeim?“

„Ég veit það ekki. Ég opnaði aðra þeirra og sá að það voru peningarnir og lokaði henni. Ég vildi ekki snerta þá.“

„Það var rétt,“ sagði lögregluforinginn. „Hárrétt.“

„Allt er alveg eins og það var nema að við tókum tvo búkanna ofan af tönkunum og lögðum þá niður í stýrisskýlinu svo að þeir færu ekki útbyrðis, og fluttum þennan nautsskrokk á honum Harrý um borð og settum hann á bekkinn minn. Mér virtist hann vera að gefa upp öndina áður en við komum með hann inn. Það er skolli bágt á honum ástandið.“

„Er hann búinn að vera meðvitundarlaus allan tímann?“

„Hann var með óráði fyrst til að byrja með,“ sagði skipstjórinn. „En maður fékk engan botn í það sem hann sagði. Við hlustuðum á margt af því en það var ekki heil brú í því. Svo missti hann meðvitund. Þar hefurðu ummerkin. Alveg eins og það var nema að þessi niggaralegi þarna á hliðinni liggur þar sem Harrý lá. Hann var á bekknum yfir stjórnborðstankinum hangandi á lúgukarminum og hinn þessi dökki við hliðina á honum lá í keng á hinum bekknum, bakborðsmegin. Varið ykkur. Kveikið ekki á neinum eldspýtum. Hún er full af bensíni.“

„Það ætti að vera einn í viðbót.“ sagði lögregluforinginn.

„Þetta er allt sem fyrir var. Peningarnir eru í þessum töskum. Byssurnar eru nákvæmlega þar sem þær voru.“

„Ætli við verðum ekki að fá einhvern frá bankanum til að láta opna töskurnar.“ sagði lögregluforinginn.

„Fínt er,“ sagði skipstjórinn. „Mér líst vel á það.“

„Við getum farið með töskurnar á skrifstofu mína og innsiglað þær.“

„Mér líst vel á það,“ sagði skipstjórinn.

Í flóðljósunum tók grænn og hvítur liturinn á bátnum á sig ferskan blæ af döggvotu dekkinu og yfirbyggingunni. Það skein í ferskan viðinn gegnum málninguna þar sem hafði flísast úr viðnum. Sjórinn var grænn og glær í birtunni og smáfiskur sveimaði kringum bryggjustólpana.

Útblásin andlitin á hinum dauðu í stýrisskýlinu gljáðu í birtunni, brún eins og borin gljákvoðu þar sem storkið blóðið var. Tóm .45 calibrea skothylki voru á dreif kringum hina dauðu inni í stýrisskýlinu og Thompson byssan lá aftur á þar sem Harrý hafði sett hana frá sér. Leðurtöskurnar tvær sem mennirnir höfðu komið með peningana í um borð lágu upp að öðrum bensíngeyminum.

„Ég taldi að væri kannski rétt að ég tæki peningana um borð á meðan við værum með hana í togi,“ sagði skipstjórinn. „Síðan taldi ég að væri réttara að skilja þá eftir alveg nákvæmlega eins og þeir voru á meðan veðrið héldist gott.“

„Það var rétt að láta þá vera,“ sagði lögregluforinginn. „Hvað varð um hinn manninn, Albert Tracy, fiskimanninn?“

„Ég veit það ekki. Þetta er alveg eins og það var nema hvað við færðum til þessa tvo.“ sagði skipstjórinn. „Þeir eru allir sundurskotnir nema þessi þarna undir stýrinu liggjandi á bakinu. Hann hefur einungis verið skotinn í hnakkann. Það hefur komið út að framan. Þú getur séð hver áhrifin hafa verið.“

„Hann er sá þeirra sem leit svo strákslega út,“ sagði lögregluforinginn.

„Hann lítur ekki út eins og neitt núna,“ sagði skipstjórinn.

„Þessi stóri þarna er sá sem var með undirsettu hríðskotabyssuna og drap lögfræðinginn Robert Simmons,“ sagði lögregluforinginn. „Hvað álýtur þú að hafi gerst? Hvernig í djöflinum voru þeir allir skotnir?“

„Þeir hljóta að hafa lent í innbyrðis átökum,“ sagði skipstjórinn. „Hljóta að hafa farið að deila um hvernig ætti að skipta peningunum.“

„Við breiðum yfir þá til morguns,“ sagði lögregluforinginn. „Ég ætla að taka þessar töskur.“

Þá, sem þeir stóðu þarna í stýrisskýlinu, kom kona hlaupandi út á bryggjuna á móts við strandgæslubátinn, og á eftir henni fylgdi mannmergðin. Þetta var horuð miðaldra kona, berhöfðuð, og var vöndlað hárið á henni allt komið í óreiðu og hafði fallið niður að öxlum þó að það væri enn hnýtt í endann. Þegar hún sá líkamana í stýrisskýlinu fór hún að æpa. Hún stóð á bryggjunni og æpti með hnakkann kerrtan en tvær aðrar konur tóku undir handleggina á henni. Mannmergðin sem var kominn þétt að baki hennar hnappaðist kringum hana og tróðst fram til að sjá niður í bátinn.

„Árinn sjálfur,“ sagði lögregluforinginn. „Hver skildi hliðið eftir opið? Finnið eitthvað til að leggja yfir líkamana; teppi, lök, hvað sem er, og við komum þessum mannsöfnuði héðan í burtu.“

Konan hætti að æpa og leit niður í bátinn, kerrti þá hnakkann og æpti enn á ný.

„Hvað hafa þeir gert af honum?“ sagði önnur kvennanna næst henni.

„Hvað hafa þeir gert af Albert?“

Konan sem æpti hætti því og leit aftur niður í bátinn.

„Hann er ekki þarna,“ sagði hún „Heyrðu mig, þú, Roger Johnson,“ hrópaði hún til lögregluforingjans. „Hvar er Albert? Hvar er Albert?“

„Hann er ekki um borð, frú Tracy,“ sagði lögregluforinginn. Konan kerrti enn hnakkann og æpti, raddböndin í hrjúfum háls hennar þanin, hendurnar krepptar, hárið iðandi.

Þeir sem aftast voru í mannmergðinni tróðu sér fram og olnboguðu sig að bryggjukantinum.

„Svona nú. Lofið fleirum að sjá.“

„Þeir eru að fara að breiða yfir þá.“

Og á spænsku: „Hleypið mér að. Lofið mér að sjá. Hay cuatro muertos. Todos son muertos. Lofið mér að sjá.“

Konan æpti nú „Albert! Albert! Ó, Guð minn góður, hvar er Albert?“

Tveir Kúbanar sem höfðu komið að rétt í þessu og ekki tekist að þrengja sér gegnum mannmergðina tóku skref aftur á bak, hlupu síðan til og tróðu sér fram í sameiningu. Mergðin gekk undan þeim í bylgju og tútnaði út framan til, og frú Tracy, í miðju ópi, kastaðist fram og þær tvær sem studdu hana, svo að þær misstu jafnvægið og hölluðust fram fullar örvæntingar og á meðan þær sem studdu hana leituðu í óðagoti eftir eftir öruggu haldi féll frú Tracy, enn æpandi, í grænan sjóinn, svo að ópið umhverfðist í gusur og skvamp.

Tveir menn af strandgæslubátnum stungu sér í grængolaðan sjóinn þar sem frú Tracy svamlaði í flóðljósunum. Lögregluforinginn hallaði sér út yfir skutinn og mundaði krókstjaka í átt til hennar, og að lokum var hún dregin yfir í skutinn á bátnum með því strandgæslumennirnir tveir ýttu undir hana og lögregluforinginn lyfti henni á höndum sér. Enginn í mannmergðinni hafði hreyft sig hið minnsta til að koma henni til hjálpar, og þar sem hún stóð rennvot aftur í skutnum leit hún upp til þeirra steytandi hnefana og hrópaði: „Afþyrmi! Nöðuð!“ Síðan leit hún inn í stýrisskýlið kveinandi: „Alberð. Hvar’r Alberð?“

„Hann er ekki um borð, frú Tracy,“ sagði lögregluforinginn og tók upp teppi til að vefja utan um hana. „Reyndu að vera róleg, frú Tracy. Vertu hugrökk.“

„Þennunar mínar,“ sagði frú Tracy harmþrungin. „Þýndi þönnunum mínum.“

„Við köfum eftir þeim í fyrramálið,“ sagði skipstjórinn á strandgæslubátnum . „Við finnum þær, vertu viss.“

Strandgæslumennirnir höfðu klifrað upp í skutinn og stóðu þar rennvotir. „Komdu. Við skulum koma okkur,“ sagði annar þeirra. „Mér er að verða kalt.“

„Er allt í lagi með þig, frú Tracy?“ spurði lögregluforinginn sem hann vafði teppinu utan um hana.

„Allðí lagi?“ sagði frú Tracy. „Allðí lagi?“ og kreppti síðan báða hnefa og kerrti hnakkann og rak upp ósvikið óp. Sorg frú Tracy var meiri en hún gat afborið.

Mannsöfnuðurinn hlýddi á hana þögull og virðingarfullur. Frú Tracy kallaði einmitt fram þau hljóðáhrif sem féllu svo vel að sýninni sem nú hvarf þegar lögregluforinginn og aðstoðarmaður hans huldu ræningjana teppum frá strandgæslunni og tóku þannig fyrir þá tilkomumestu sjón sem bærinn hafði orðið vitni að síðan Isleñoinn hafði verið tekinn af lífi án dóms og laga fyrir mörgum árum út á Héraðsbraut og síðan hengdur upp í símastaur þar sem hann fékk að hanga í ljósunum frá öllum bílunum þeirra sem höfðu farið þangað út eftir til að sjá.

Það urðu öllum í mannmergðinni mikil vonbrigði þegar líkamarnir voru huldir sýnum en engir aðrir borgarbúa höfðu heldur séð þá. Fólkið hafði séð frú Tracy detta í sjóinn og hafði einnig séð, áður en það kom inn fyrir, hvar Harrý Morgan var borinn á sjúkrabörum inn í Sjómannaspítalann. Þegar lögregluforinginn skipaði því að fara burt úr snekkjuhöfninni hélt það af stað sælt og rólegt. Það var sér þess vel meðvitandi hvílíkra forréttinda það hafði orðið aðnjótandi.

Á meðan biðu María, eiginkona Harrýs Morgans, og dætur hennar þrjár á bekk í biðstofu Sjómannaspítalans. Stúlkurnar þrjár grétu og María beit í vasaklútinn sinn. Henni hafði verið um megn að gráta síðan um hádegi.

„Pabbi skotinn í magann,“ sagði ein stúlknanna við systur sína.

„Það er hræðilegt,“ sagði systirin.

„Hafið hljótt,“ sagði elsta systirin. „Ég er að biðja fyrir honum. Ekki trufla mig.“

María sagði ekkert, aðeins sat þarna og beit í vasaklút og neðri vörina.

Eftir dálitla stund birtist læknirinn. Hún horfði á hann og hann hristi höfuðið.

„Má ég fara inn?“spurði hún.

„Ekki strax,“ sagði hann. Hún gekk til móts við hann. „Er hann farinn?“ sagði hún.

„Ég óttast það, frú Morgan.“

„Má ég fara inn og sjá hann?“

„Ekki strax. Hann er inni á skurðstofunni.“

„Ó, Drottinn minn,“ sagði María. „Ó, Drottinn minn. Ég ætla að fara heim með stelpurnar. Síðan kem ég til baka.“

Hún fékk skyndilega kökk í hálsinn og hann herptist saman svo að hún gat ekki kyngt.

„Komið nú, stelpur,“ sagði hún. Stúlkurnar þrjár fylgdu á eftir henni út í kaldan bílinn og hún settist í bílstjórasætið og setti vélina í gang.

„Hvernig er pabbi?“ spurði ein stúlknanna.

María svaraði ekki.

„Hvernig er pabbi, mamma?“

„Ekki tala við mig,“ sagði María. „Bara ekki tala við mig.“

„En...“

„Þegiðu nú, ástin mín,“ sagði María. „Bara þegið og biðjið fyrir honum.“ Stúlkurnar fóru aftur að gráta.

„Árinn sjálfur,“ sagði María. „Ekki gráta svona. Ég sagði biðja fyrir honum.“

„Við gerum það,“ sagði ein stúlknanna. „Ég er búin að vera að því síðan við vorum á spítalanum.“

Þegar þær beygðu inn á hvítan hrjúfan kóralmulninginn á Klettagötu birtist maður fram undan í ljósgeislanum frá bílnum gangandi reikulum sporum.

„Einhver vesalings bytta,“ hugsaði María. „Einhver vesalings guðsvoluð bytta.“

Þær fóru fram hjá manninum, sem var blóðugur í framan og hélt áfram reikulum sporum í myrkrinu þegar ljósin voru horfin inn götuna. Þetta var Richard Gordon á leiðinni heim sín.

 

María stöðvaði bílinn við húsdyrnar.

„Farið í rúmið, stelpur,“ sagði hún. „Farið beint upp í rúm.“

„En hvað um pabba?“ spurði ein stúlknanna.

„Ekki tala neitt við mig,“ sagði María. „Í Drottins nafni, gerið það fyrir mig ekki tala neitt við mig.“

Hún sneri bílnum inn á götuna og hélt til baka í átt til spítalans.

 

Þegar María kom aftur á spítalann hraðaði hún sér upp tröppurnar. Læknirinn mætti henni í forbyrginu er hann var að koma út um dyrnar. Hann var þreyttur og á leið heim til sín.

„Hann er farinn, frú Morgan,“ sagði hann.

„Hann er dáinn?“

„Hann dó á borðinu.“

„Má ég sjá hann?“

„Já,“ sagði læknirinn. „Hann fékk mjög hægt andlát, frú Morgan. Hann leið engar kvalir.“

„Ó, hver fjárinn,“ sagði María. Tár tóku að hrynja niður vanga hennar. „Ó,“ sagði hún. „Ó, ó, ó.“

Læknirinn lagði hönd sína á öxl hennar.

„Ekki snerta mig,“ sagði María. „Ég vil sjá hann,“ sagði hún svo.

„Við skulum koma,“ sagði læknirinn. Hann gekk með henni inn gang og inn í hvítt herbergið þar sem Harrý Morgan lá á hjólaborði, með lak yfir skrokknum sínum mikla. Ljósið var afar skært og myndaði enga skugga. María stóð í dyrunum og virtist felmtri slegin í birtunni.

„Hann hafði alls engar þrautir, frú Morgan,“ sagði læknirinn. María hvorki heyrði hann né sá.

„Ó, Drottinn minn,“ sagði hún og fór aftur að gráta. „Sjáðu árans andlitið á honum.“

 

18. kafli

Ég veit það ekki, var María Morgan að hugsa þar sem hún sat við borðstofuborðið, ég get afborið það einn dag í senn og nótt í senn, og kannski að það breytist. Það eru þessar árans nætur. Ef ég léti mig stelpurnar einhverju varða þá væri það öðruvísi. En mér stendur á sama um þessar stelpur. Samt verð ég að gera eitthvað út af þeim. Ég verð að fara að byrja á einhverju. Kannski maður komist yfir þennan dauða innra með sér. Hugsa að það skipti ekki neinu máli. Ég verð allavega að byrja á að gera eitthvað. Það er liðin vika í dag. Ef ég hugsa um hann af ásettu ráði þá er ég hrædd um að svo fari fyrir mér að ég muni ekki hvernig hann lítur út. Þannig var það þegar ég fylltist þessum hræðilega geig þegar ég gat ekki munað eftir andlitinu á honum. Ég verð að fara að byrja á einhverju sama hvernig mér líður. Hefði hann skilið eftir sig einhverja peninga eða það hefði verið verðlaunafé í boði þá hefði það verið betra en mér mundi ekki líða neitt betur. Það fyrsta sem ég verð að gera er að reyna að selja húsið. Afstyrmin sem skutu hann. Ó, fúlu afstyrmin. Það er það eina sem ég finn til. Hatur og tómleiki. Ég er tóm eins og autt og yfirgefið hús. Jæja, ég verð að fara að byrja á einhverju. Ég hefði átt að vera við jarðarförina. En ég gat ekki farið. Ég verð samt að fara að gera eitthvað núna. Það fara ekki neinir að koma nokkru sinni aftur til baka þegar þeir eru dánir.

Hann, eins og hann var, stríður og sterkur og snarráður, og eins og einhvers konar dáindis dýr. Það hafði alltaf áhrif á mig bara að sjá hann hreyfa sig. Ég var svo lánsöm allan þennan tíma að hafa hann. Ólánið fór fyrst að elta hann á Kúbu. Síðan fór það að verða verra og verra þangað til Kúbani drap hann.

Kúbanar eru óheillakrákur Kræklinga. Kúbanar eru óheillakrákur allra. Þeir eru líka með of marga niggara þar. Ég man eftir þeim tíma þegar hann fór með mig yfir til Havanna þegar hann hafði svo gott upp úr sér og við vorum á göngu í skemmtigarðinum og niggari sagði eitthvað við mig og Harrý löðrungaði hann, og tók upp stráhattinn hans sem hann hafði misst, og þeytti honum um hálfa húsalengju og leigubíll ók yfir hann. Ég hló svo að mig fór að verkja í magann.

Það var þá sem ég lét fyrsta sinni á ævinni lita á mér hárið ljóst þarna í þessari snyrtistofu á Prado. Þeir voru að eiga við það allt síðdegið og það var svo dökkt í eðli sínu að þeir vildu ekki gera það og ég óttaðist að ég myndi líta herfilega út, en ég hélt áfram að segja þeim að athuga hvort þeir gætu ekki lýst það ofurlítið meira, og maðurinn mátti fara yfir það aftur og aftur með þessari appelsínurauðu lakkstöng með baðmull á endanum, milli þess að hann deif henni í þessa skál þar sem efnið var sem var eins og reykkennt eftir því hvernig eins og gufaði upp af því, og með greiðunni; tók hvern þátt með öðrum endanum á stönginni og með greiðunni og fór yfir þá og lét þá þorna og ég sat þarna með ugg í brjósti yfir því sem ég var að láta gera og eina sem ég sagði var, sjáðu bara hvort þú getur ekki lýst það aðeins meira.

Og að lokum sagði hann, þetta orðið er eins ljóst og ég mögulega get gert það svo að öruggt sé, Madame, og svo þvoði hann það upp úr hársápu og liðaði það og ég þorði varla að líta á það af ótta við að það væri herfilegt, og hann liðaði það og skipti öðrum megin og setti það hátt aftur fyrir eyrun með litlum þéttsettum krullum að aftan, og með það enn blautt gat ég ekki getið mér neitt til um hvernig það liti út nema að það var allt breytt og ég þekkti varla sjálfa mig. Og hann setti net yfir það blautt og lét mig setjast undir þurrkuna og allan tímann var ég með ugg í brjósti. Og svo þegar ég kem undan þurrkunni þá tók hann netið af og prjónana burt og greiddi það út og það var alveg eins og gull.

Og ég kom út af staðnum og sá sjálfa mig í speglinum og það lýsti svo af því í sólinni og var svo silkimjúkt þegar ég fór með höndina og snerti það, og ég ætlaði ekki að trúa því að þetta væri ég og ég var svo æst að ég ætlaði ekki að ná andanum.

Ég gekk niður Prado í kaffihúsið þar sem Harrý beið mín og ég var svo æst og öll svo skringileg innra, eins og allur máttur væri úr mér dreginn, og hann stóð upp þegar hann sá mig koma og hann var með augun sem límd við mig og rödd hans var þvoglukennd og svo skringileg þegar hann sagði: „Jesús, María, þú ert falleg.“

Og ég sagði: „Líkar þér við mig ljósa?“

„Ekki orð um það,“ sagði hann. „Komum á hótelið.“

Og ég sagði: „Allt í lagi. Við skulum koma.“ Þá var ég tuttugu og sex.

Og þannig var það sem hann var alltaf með mér og það var á þannig sem ég var alltaf með honum. Hann sagðist aldrei hafa kynnst neinu eins og mér og ég veit að það voru engir karlmenn til eins og hann. Það veit ég svo árans vel og nú er hann dáinn.

Nú verð ég að fara að byrja á einhverju. Ég veit að ég verð að gera það. En þegar maður á mann eins og hann og einhver óhræsis Kúbani skýtur hann þá getur maður ekki byrjað bara eins og ekkert sé; því að allt innra með manni er farið. Ég veit ekki hvað ég að taka til bragðs. Það er ekki eins og þegar hann var í burtu í túrunum. Þá var hann alltaf að koma aftur en núna verð ég að halda áfram til æviloka. Og ég er stór núna og ljót og gömul og hann er ekki hér til að segja mér að ég sé það ekki. Ég hugsa að núna yrði ég að borga manni fyrir að gera það og þá mundi ég ekki vilja neinn. Svo að þannig verður það. Þannig verður það allt í lagi.

Og hann var svo ári góður við mig og maður gat líka reitt sig á hann, og hann aflaði alltaf fjár einhvern veginn og ég þurfti aldrei að hafa áhyggjur af peningum, aðeins af honum, og nú er þetta allt búið.

Það er ekki það hvað hendir þann sem er drepinn. Mér væri sama þótt það væri ég sem væri drepin. Hvað Harrý varðaði undir það síðasta þá var hann einungis örmagna, sagði læknirinn. Hann kom ekki einu sinni til meðvitundar. Ég var glöð að heyra að hann hefði fengið hægt andlát því Jesús Kristur hann hlýtur að hafa tekið út um borð í þessum bát. Þætti gaman að vita hvort hann hefur hugsað til mín eða hvað hann hefur hugsað um. Ætli maður hugsi yfirleitt um nokkurn þegar svona er komið fyrir manni. Held það hljóti að hafa verið of sársaukafullt. En að lokum var hann einungis orðinn of örmagna. Vildi að Guð gæfi að það væri ég sem væri dauð. En það þjónar engum tilgangi að óska sér þess. Það þjónar ekki neinum tilgangi að óska sér neins.

Ég gat ekki farið í jarðarförina. En fólk skilur það ekki. Það veit ekki hvernig manni líður. Því góðir menn eru sjaldgæfir. Þeir eru einfaldlega ekki til í þeirra heimi. Enginn veit hvernig manni líður, því enginn veit hvað það snýst allt um þegar svona er. Ég veit það. Veit það ofur vel. Og ef ég á nú eftir tuttugu ár ólifuð hvað á ég þá að gera. Enginn fer að segja mér það og það er ekki um neitt að ræða núna nema að láta hverjum degi nægja sína þjáningu og einungis fara að gera eitthvað nú þegar. Það er það sem ég verð að gera. En Jesús Kristur, það vildi ég að ég vissi hvað maður á að gera á næturnar.

Hvernig heldur maður út næturnar ef maður getur ekki sofið? Ætli maður komist ekki að því líkt og maður kemst að því hvernig líðan það er að missa eiginmanninn. Hugsa að maður komist að því allt í lagi. Hugsa að maður komist að raun um allt saman í þessu árans lífi. Hugsa að maður geri það allt í lagi. Má vera að ég sé að komast að raun um það einmitt núna. Maður einfaldlega deyr innra með sér og allt verður auðvelt. Maður verður einfaldlega dauður líkt og flestir eru oftast nær. Hugsa að það sé þannig sem það er allt í lagi. Hugsa að það sé nokkurn veginn það sem gerist með mann. Jæja, ég hef fundið góða byrjun. Ég hef fundið góða byrjun ef það er það sem maður verður að gera. Hugsa að það sé það sem maður verður að gera allt í lagi. Hugsa að það sé þannig. Hugsa að það sé þannig sem það er. Allt í lagi. Ég hef þá fundið góða byrjun. Ég stend feti framar öllum núna.

 

Úti var fallegur, svalur vetrardagur eins og þeir gerast við mörk hitabeltisins, og pálmviðargreinarnar blöktu í hægum norðanvindinum. Eitthvert vetrardvalarfólk fór á hjólum fram hjá húsinu. Það var hlæjandi. Í stórum garðinum við húsið handan við götuna skrækti páfugl.

Út um gluggann gat maður séð hafið ómilt ásýndum og eins og nýtt, blátt í birtu vetrarins.

Stór hvít snekkja var á leið í höfn og sjö mílum utar út við sjóndeildarhringinn grillti í tankskip, lítið og smátt í útlínum sínum mót bláum sænum, á leið vestanhallt með eyrunum til að vera ekki að eyða olíu í að berja á móti straumnum.

 

 

FYRSTI HLUTI: HARRÝ MORGAN, Vor

1. kafli

2. kafli

3. kafli

4. kafli

5. kafli

 

ANNAR HLUTI: HARRÝ MORGAN, Haust

1. kafli

2. kafli

3. kafli

 

ÞRIÐJI HLUTI: HARRÝ MORGAN, Vetur (1 til 10)

1. kafli - Albert hefur orðið

2. kafli - Harrý

3. kafli

4. kafli

5. kafli

6. kafli

7. kafli

8. kafli

9. kafli

10. kafli

 

ÞRIÐJI HLUTI: HARRÝ MORGAN, Vetur (11 til 18)

11. kafli

12. kafli

13. kafli

14. kafli

15. kafli

16. kafli

17. kafli

18. kafli

 

prenta skjal

Rómanza: heim á kvist