< Undir huliðshjálmi

kaflar 51 til 60

 

 

51.

Ó, blessuð sé sólin, blessuð dögunin! Og blessuð sé döggin sem endurnærði mitt skrælnaða skinn.

Var ég að vakna af draumi eða hafði ég fallið í ómegin? Það veit ég ekki. En yndislegur morgunroðinn fyllti augu mín. Ég var á lífi! Höfuðið á mér var þungt sem blý og ég gat varla haggað því. Var það ef til vill vegna hjálmsins... Jú hann var enn á sínum stað. En hendurnar á mér voru einnig níðþungar og ég varð að taka á öllum kröftum til að ná hjálmnum af hausnum.

Ég var með höfuðverk og svo slæmur í hálsi og maga að það var eins og ég hefði gleypt eld.

Ég tók eftir því að hjálmurinn var dældaður og sprunginn. Ég þreifaði á höfðinu og fann að hárið var blóðstorkið. Eftir sprungunni að dæma virtist sem ég hefði fengið breiðblöðung í hausinn aftan frá. Ég vogaði mér ekki að þreifa á hauskúpunni.

Ég leit í kringum mig eftir því sem stirður og sár hálsinn leyfði. Allt í kringum mig lágu hreyfingarlausir Frankar, Húnar og Búrgundar. Tveir þeirra vissu ásjónum upp. Hinum megin við mig lágu fjórir vopnaðir Húnar dauðir, hver ofan á öðrum; sá fimmti þeirra sat á þeim eins og legubekk og virtist sofa, með andlitið niðurlútt, en í gegnum hann hafði spjót stungist.

Ég kallaði til hans:

„Ösköd!“

Hann svaraði engu. Hreyfði sig ekki hið minnsta.

Lík lágu um vígvöllinn eins og hráviði. Menn, hestar og vopn í einni bendu, í einum hrærigraut. Nakinn handleggur lá skammt frá mér, einn og sér. Einhver hafði skilið á milli hans og eigandans. Einn fingurinn skartaði gullhring. Í aðeins nokkurra skrefa fjarlægð frá mér klúkti Rómverji, svartur af blóði og með hauskúpuna klofna eins og ostruskel.

Enginn hafði uppi kveinstafi lengur. Loftið var svalt en höfuðið á mér var funheitt.

Ég virti sjálfan mig fyrir mér. Rifin og tætt klæðin voru útsvínuð í sortnu blóði. Ég reyndi að rísa á fætur. Vinstri fótleggurinn á mér var í lagi en nístandi sársauki í þeim hægri hélt aftur af mér. Hnéð var stokkbólgið.

Engu að síður tókst mér að rísa ögn upp með hjálp vinstra fótleggsins og handleggs. Hauslaus, frankverskur hermaður lá þarna á bakinu við hlið reiðskjóta síns, og jafnvel enn nú kreppti hann fingurna utan um spjót sitt. Ég varð að snúa það úr höndum hans.

Með hjálp spjótsins tókst mér að setjast upp á lendar hestsins. Svo langt sem auga eygði blöstu vellirnir við mér, og svo þétt lágu lík manna og hræin af hrossunum að varla varð þverfótað.

Þegar morgunmistrinu létti komu búðir Húnanna í ljós. Umhverfis þær voru vagnarnir, eins og kastalaveggir, og hvarvetna fyrir fram þá verðir á hestbaki.

Þá hvarflaði ég augum í átt til rómversku búðanna, eða öllu heldur þangað sem ég bjóst við að sjá þær, en fékk hvergi komið auga á þær.

Höfuðið á mér hlýtur að hafa verið á við tonn þyngdar. Tungan var svo skrælþurr að ég hefði fórnað hálfri ævinni fyrir glas af vatni.

Að um það bil fjórðungi stundar liðnum barst mér hornablástur til eyrna frá húnversku búðunum. Mikill fyrirgangur fylgdi í kjölfarið, en ekki var þó verið að blása til orrustu heldur til merkis um einhvern annars konar viðbúnað. Háreystin lét öðruvísi í eyrum en maður átti að venjast og knapar riðu í hinar ýmsu áttir á brott frá búðunum, sumir í átt til mín.

Ég veifaði til þeirra og kallaði: „Hingað! Hingað!“ en þeir flengdust fram og til baka og dokuðu aðeins við stöku sinnum til að virða fyrir sér sjóndeildarhringinn í austri.

Einn þeirra reið skammt frá mér án þess svo mikið sem virða mig viðlits. Það var líkast því að þeir gengju berserksgang, svo mikill var á þeim móðurinn.

Annað slagið heyrði ég að þeir hrópuðu: „Þeir hafa laumast burt!“

Knöpunum fjölgaði og fóru á stökki yfir lík og hræ, þvert yfir vellina.

Lætin í búðunum minntu einna helst á niðandi býflugnasveim og undir öllu saman létu hljópípuleikarar hvína hressilega í flautum sínum. Nú fór mér að skiljast. Rómverjar hlutu að hafa haft sig á brott í skjóli næturinnar.

Lof og dýrð sé Guði Húna! Ég var að minnsta kosti ekki öllum heillum horfinn í mínu guðsvolaða ástandi. Þeir hlutu að koma núna og leita uppi þá særðu.

Ég beið þolinmóður þó að ég væri að deyja úr þorsta. Mér leið eins og ímynda mætti sér líðan vínþrúgna þegar búið er að þurrka þær í ofni svo að úr verði rúsínur, hefðu þrúgur á annað borð tilfinningar.

Hvað um það, innan hálfrar stundar sá ég að prestar og konur af öllum þjóðernum tóku að flykkjast út á milli vagnanna ásamt úgúrsku fiskimönnunum. Nokkrir úr hópi fyrirmannanna komu nú einnig á vettvang.

Jafnskjótt tóku handleggir að bifast og höfuðföt. Um vígvöllinn allan kváðu við óp.

„Hingað! Þessa leið! Hingað! Hingað! Vatn!“

„Aaaaa...!“ Og ópin efldust að mun.

Skammt frá mér lá skjöldur fléttaður úr bambusreyr. Ég stakk í hann spjótinu og lyfti honum hátt á loft. „Hingað! Þessa leið!“ Hvenær kæmi eiginlega að mér?

Þeir sem fóru ríðandi voru eingöngu fyrirmenn og höfðingjar eftir því sem ég best gat séð og voru fyrst og fremst að kanna blóðugan valinn. Ó, aðeins að húsbóndi minn léti nú sjá sig eða einhver úr flokki hans!

Loksins lá leið þeirra um þar sem ég var.

„Hjálp!“ kallaði ég.

Einn húnversku fyrirmannanna, Szirtos að nafni, lét klár sinn nema staðar og einblíndi á mig — eða á líkkösina í kringum mig.

„Það verður brátt komið eftir þér,“ sagði hann við mig uppörvandi, vingjarnlegri röddu.

„Vatnspyttlan þín...“

Hann þreifaði aftur fyrir sig.

„Ég er víst ekki með hana á mér.“

„Af hverju koma ekki allir úr búðunum?“ leyfði ég mér að kvarta. „Það eru svo margir hér af mönnum okkar særðir.“

„Attíla leyfir það ekki,“ svaraði sá er á hestbaki var. „Enn er hætta á að Rómverjarnir spretti upp að baki okkur.“ Og hann reið áfram.

Annar er einnig fór ríðandi kallaði til hans: „Hver var hann þessi kóngur sem þeir jörðuðu í nótt?“

„Þjóðrekur,“ svaraði Szirtos. Og fákur hans fetaði sig milli líkanna og bar hann á brott.

Löng stund leið áður en nokkur kæmi aftur í námundan við mig.

Æ fleira fólk kom út úr búðunum, í stórum hópum, sumt með kerrur í eftirdragi sem það safnaði á vopnum hinna dauðu og því sem fémætt var. Sumir sáu um að hirða líkin. Hvaðanæva úr búðunum barst ómur af flautu- og belgpípuleik.

Ég varð þreyttur í handleggjunum af því að veifa. Mér fannst heil eilífð líða þangað til mér var loks sinnt. Mér var gefið dálítið að drekka og settur á börur úr striga af einum vagnanna og síðan borinn að ánni, líkt og allir þeir sem voru særðir.

Áin var enn eins og rauðvín á að líta. Óteljandi margir dauðir lágu hvarvetna meðfram bökkunum og voru þó að líkindum ekki færri í ánni sjálfri. Prestarnir, saragúrsku konurnar og Úgúrarnir þvoðu okkur og bundu um sár; aðrir voru úti á vígvöllunum og söfnuðu því sem nýtilegt var. Ég heyrði sagt að hnakkarnir einir sem voru hirtir hefðu nægt til að fylla fleiri hundruð vagna og kerrur og var þó að minnsta kosti annað eins skilið eftir. Vítt og breitt um vellina var líkum höfðingja, fyrirmanna og merkisbera staflað á bálkesti sem sums staðar voru eingöngu gerðir úr brotnum spjótum, viðarskjöldum og vagnhlutum. Þeir hinna dauðu sem höfðu átt ættingja í hernum fengu að njóta hins sama.

Einu sárin sem þurfti að binda um á mér voru á höfði og fæti. Hnésárið var vægast sagt ljótt að sjá, en ég hafði enga ástæðu til að kvarta, margir aðrir voru svo illa útleiknir að ekki var hægt að horfa upp á það. Þessir ágætu heiðnu prestar. Guð blessi þá! En þúsundum saman biðu hinir særðu aðhlynningar og ég gat því ekki fengið neinn til að flytja mig til tjalds Kata.

Það var því til einskis að vera að kalla, við máttum hírast þarna á bakkanum, með hnakka, hestshausa eða hatta sem voru settir undir höfðalag okkar og okkur sagt að sýna þolinmæði þangað til að okkur kæmi.

Eins og gefur að skilja gátu hinir ósærðu hrósað happi og tekið þátt í að næla sér í herfang. En við máttum liggja og skrælna í sólskininu og berja frá okkur flugur, bíðandi þess milli vonar og ótta að ef til vill yrðu búðirnar teknar upp fyrirvaralaust og við skildir eftir til að verða hröfnunum að bráð.

Lúpus gamli biskup stóð einnig í ströngu við að hlynna að hinum særðu. Ég kallaði til hans á latínu: „Heus domine!

Hann kom til mín og lofaði mér því að þegar hann sneri til búðanna um kvöldið skyldi hann láta Kata vita af mér. En hann fór aldrei þangað um kvöldið heldur svaf á meðal hinna særðu.

Daginn eftir fór Attíla í yfirreið um vígvöllinn. Einnig hann lét sér annt um velferð okkar og taldi í okkur hug og kjark.

„Þið megið vera stoltir af sárum ykkar! Á heimleiðinni munuð þið ná bata og þið komið heim heilbrigðari en nokkru sinni!“ Jafnvel þeir sem máttu bíða dauðans urðu glaðir við þegar þeir sáu Attílu.

En húsbóndi minn var ekki með honum í för. Var hann dauður? Eða sár? Um það hafði ég ekki hugmynd.

Þegar hér var komið sögu var ég orðinn illa haldinn af hitasótt. Ég reis upp við dogg og seldi upp blóði.

Skutilsveinn einn er Esztán hét sat við hlið mér. Hann var fótbrotinn á báðum. Hann hrópaði upp yfir sig:

„Guð hjálpi þér maður, þú ert haldinn plágunni!“

Mér var þá þegar orðið það ljóst. Ég var allur bólginn um hálsinn og í handarkrikum. Mér hafði tekist að forðast dauðann á vígvellinum, en nú hafði drepsóttin klófest mig.

 

52.

Síðdegis daginn eftir voru hinir særðu sóttir og farið með þá til búðanna. Ég gerði mér brátt ljóst að allir sneiddu hjá mér, ég skyldi verða skilinn eftir. Ég var heltekinn af drepsóttinni sem læsti sig um mig eins og fuðrandi bál. Ég baðst miskunnar: „Verið svo góðir að skilja mig ekki eftir!“

En mér var ekki einu sinni ansað.

Ég kallaði til þeirra með nafni: „Taros, Tzobor!“

Tzobor nam staðar en yppti aðeins öxlum. „Hvaða stoð ætti þér að vera í því þó að ég tæki þig með mér? Þú ert haldinn plágunni, skilur þú það ekki?“

„Ég mundi þá að minnsta kosti deyja á meðal fólks en ekki verða hröfnunum að bráð.“

Hann hristi höfuðið, spýtti og hélt svo leiðar sinnar. Ég var skilinn einn eftir, með hestshaus undir höfðalaginu, með nái fyrir félagsskap og hrafna sveimandi yfir höfði mér í syrgjenda stað.

Bálkestir úr hnökkum og viðarskjöldum — líkbálin — tóku að brenna út um víða vellina. Reykjarstrókar stigu hátt til himins. Fræðararnir hófu upp sorgarbænir sínar og harmljóð langdregnum tóni sem tekið var undir með af trumbuslætti og lúðraþyt. Samkvæmt trú Húna risu sálir hinna dauðu nú upp af logunum og höfðu með sér til þjónustu fyrir handan þá sem þeir höfðu borið banaorð af í orrustunni.

Ég veit ekki hve mörg bálin voru eða hve mörgum hlotnaðist útför á þennan veg. Þeir voru að líkindum ekki ýkja margir sem urðu þessa sérstaka heiðurs aðnjótandi. Enda hefði ekki mátt minna vera en fella hefði þurft heilan skóg ef allir þeir Húnar sem lágu í valnum hefðu átt að fá notið bálfarar.

Svo var söngurinn á enda og brátt barst mér ekki annað til eyrna en fjarlægur kliðurinn frá búðunum og krunkið í hröfnunum er sveimuðu yfir mér. Hér var ég sem sagt niðurkominn, á meðal hinna dauðu, án matar, án vatns, einn, og yfirgefinn af sjálfum Guði.

Annað slagið missti ég meðvitund en kom til sjálfs mín þess á milli. Þegar myrkrið skall á og stjörnurnar tóku að blika á sumarhimninum varð ég altekinn nístandi sorg og hugsuninni um dauðann. Mig langaði ekki til að deyja að nóttu til. Ég vildi fá að njóta dögunarinnar einu sinni enn, fá að njóta morgunroðans og sólaruppkomunnar! Og loks, þá langaði mig til að svala þorsta mínum hinsta sinni.

Vatn! Ég hefði getað svolgrað í mig vatn hversu fúlt og vont sem mér hefði fundist það vera, því að innra með mér loguðu eldar vítis.

Áin var aðeins tíu skref undan og ég samt að deyja úr þorsta. En það var þá sem nokkuð óvænt bar til.

Ég hafði um hríð fundið til óþæginda við mjóhrygginn, eins og eitthvað þrýsti að honum; hafði lítillega orðið þess var á vígvellinum um nóttina en ekki leitt hugann að því eftir að sárindin í hnénu fóru að segja til sín. Hvað um það, sem ég nú lá þarna og beið dauðans, verður mér það til eins og ósjálfrátt að ég þreifa þarna aftur fyrir bak á mér. Hvort mér hefur fundist það vera eins og tak við hrygginn þegar ég hef gripið andann á lofti eða eins og steinn þrýsti að honum, skal ég ekki um segja, en eitt er víst, að ef það var hér sem ég átti að bera beinin að þá var ástæðulaust að gera sér dauðastundina enn óbærilegri en efni stóðu til, og það sökum steinhnullungs ef svo skyldi vera.

En hvað verður þarna fyrir mér! Sjálfur geitarskinnsbelgurinn sem húsbóndi minn hafði látið mér í té fyrir orrustuna, og það fullur af víni!

Þá rifjaðist allt í einu upp fyrir mér að í hita og þunga leiksins hafði ég hnýtt belginn fyrir aftan bak mér við beltisstað í stað þess að hnýta hann við hnakkinn, til þess að eiga vínið á vísum stað ef hesturinn félli.

Harla ólíklegt var að ég mundi fá séð morgun renna upp á ný. Þrátt fyrir það fylltist ég óumræðilegri gleði, líkast því að kulnandi eldur blossaði upp eitt augnablik áður en hann slokknaði fyrir fullt og allt.

Ég losaði korktappann með tönnunum og teygaði af belgnum. Svolgraði í mig þetta súra og sterka vín — eða edik, öllu heldur — af óþrotlegum, brennandi þorsta. Það ólgaði í æðum og nísti inn að beini, eins og eitur færi um mig allan. Eins og svampur svelgdi ég það í mig af lífi og sál, allt til síðasta dropa. Og jafnskjótt féll ég í svefn.

Ég skal ekki um það segja hve lengi ég svaf — í einn dag eða hvort þeir voru tveir. Ég vaknaði við þrumugný í eyrum. Úrhellisrigning lamdi mig í framan. Ég veitti því athygli að bjart var af degi. Ég var gegndrepa af regninu sem var eins og hellt væri úr fötu. Það var sannkallað skýfall. En að hálftíma liðnum stytti upp og sólin braust fram úr skýjum. Ég varð var við að vatn gjálfraði við fætur mér og fylltist skelfingu þegar ég gerði mér ljóst að vatnsborð árinnar hafði stigið og að hún flæddi yfir bakka sína, blóðrauð og full saurinda af vígvellinum.

Með mestu erfiðismunum og sárkvalinn mjakaði ég mér hærra upp á hestshausinn með því að þrýsta bakinu að honum. Ég fylgdist með vatnsflaumnum og því sem barst með honum, líkum sem byltust í vatnsskorpunni, höttum og hnökkum, viðarskjöldum og viðarhjálmum, örvum, spjótum, heyknippum; straumurinn hafði hrifið það allt saman með sér.

Vatnsborðið hélt áfram að stíga þangað til það náði mér í mitti og fæturnir tóku að fljóta.

Því er vissulega ekki að neita að þrátt fyrir allt böl mitt og gæfuleysi höfðu mér staðið all margvíslegir dauðdagar til boða.

Látlaust bar straumurinn með sér líkin og bylti þeim á alla kanta.

Varla hafði hringiðan hrifið eitt lík þegar annað bar að og var hrifið á sama veg af iðandi flaumnum og saman hringsnerust þau þangað til snúningurinn tvístraði þeim í sitt hvora áttina.

Brak úr breiðri brú barst í átt til mín. Ég hugsaði með mér að ef til vill gæti ég fleytt mér á brakinu niður eftir ánni til búðanna, og eftir því sem það barst hægt í áttina til mín safnaði ég öllum þeim kröftum sem ég átti til.

Örstuttu seinna var einnig ég kominn á flot, borinn áfram af köldum straumnum með brúarbrakinu innan um hina dauðu. Heil eilífð leið og ég byltist áfram með flaumnum með öldurnar mér við kinn.

Þegar ég var kominn til móts við staðinn þar sem ég bjóst við að sjá búðirnar var ekkert að sjá nema auða vellina. Ekki eitt einasta tjald, ekki einn einasta vagn að sjá. Einu ummerkin um búðir Attílu voru sótsvartar brunaleifar eftir elda. Ég kom auga á úlf sem var að fá sér að drekka úr ánni. Hann hlýtur að hafa fengið meira en nægju sína að éta eftir því að dæma hversu hann svolgraði í sig vatnið.

Enn barst ég áfram með flaumnum.

Loksins, þegar kvöldsett var orðið, kom ég auga á fólk á árbakkanum. Með krökum og löngum stjökum var það að veiða lík, viðarhjálma, vopn og tréskó upp úr ánni.

„Í guðs bænum!“ kallaði ég til fólksins og ég var dreginn á land. Fólkið þyrptist í kringum mig og starði á mig í forundran. „Miskunnið mér!“ bað ég. „Verið svo góð að skjóta yfir mig skjólshúsi og gefa mér eitthvað að éta!“ Undrun þeirra varð aðeins því meiri.

Þá varð mér ljóst að ég hafði mælt til þeirra á grísku en að þetta voru Katalánar — en hvorki Frankar eða Búrgundar né heldur Gotar. Þá veitti ég því loks athygli að á meðal þeirra var prestur og hann ávarpaði ég, kveinandi á latínu: „Reverendissime domine! Ég er þræll Lúpusar biskups...“

Hvað síðan gerðist hef ég ekki hugmynd um.

 

53.

Maður skyldi aldrei láta hugfallast. Eða hversu mjög hafði ekki dauðinn ásótt mig, jafnvel hreiðrað um sig innvortis — og er ég þó enn sprelllifandi þrátt fyrir allt.

En það verður mér ætíð hulin ráðgáta hvernig mér tókst að sleppa úr greipum plágunnar. Stundum hvarflar að mér að það sé því að þakka að mér rann enn ungt og kjarnmikið blóð í æðum, stundum að þetta sterka rauðvín sem var orðið að ediki hafi farið sem hreinsunareldur um líkama minn. Ég hef einnig látið mér til hugar koma að hitasóttin sem leiddi af sárum mínum hafi bókstaflega svælt út eituráhrif plágunnar. En látum læknunum eftir að brjóta heilann um þetta!

Lúpus biskup hlýtur að hafa orðið meira en lítið undrandi þegar ég var færður honum með þeim orðum að ég hefði sagst vera þræll hans. En hann var helgur maður og lét mig ekki fara frá sér. Þegar ég vaknaði var ég í hreinu, hvítu rúmi og með mjúk sárabindi vafin um höfuðið og fótlegg. Herbergið ilmaði af reykelsi og á veggjum héngu myndir af dýrlingum. Gegnt rúminu var stórt eldstæði og fyrir framan það lágur armstóll sem var þakinn skinnum.

Pater sanctissime,“ tókst mér loks að stynja upp, fullur þakklætis. „Fyrirfinnst nokkurt það tungumál á jörðu sem býr yfir orðum er ég gæti tjáð yður með þakklæti mitt?“

„Fyrst þú hefur skotið upp kollinum hér, hlýtur það að vera fyrir Guðs tilverknað,“ svaraði gamli maðurinn. „Hafðu annars engar áhyggjur.“

Það fékk ég þó lesið úr svip hans að hann furðaði sig á að ég skyldi vera mæltur á latneska tungu.

„Ég hélt að þú værir Húni!“ sagði hann og brosti góðlátlega. „En látum það liggja milli hluta. Vandræðin eru yfirstaðin. Lof sé Guði!“

„Amen,“ svaraði ég og augu mín fylltust tárum.

Mér var færður steiktur kjúklingur, og svo glorsoltinn sem ég var þá bráðnaði hann uppi í mér eins og smjör. Aldrei á ævinni hef ég notið eins nokkurrar máltíðar. Sálartetrið bókstaflega uppljómaðist af anganinni einni saman og krafturinn úr kjötinu hríslaðist um mig jafnskjótt og ég tuggði það.

Á eftir drakk ég glas af víni og leið svo dásamlega að betur hefur mér áreiðanlega aldrei liðið á ævinni.

Gamli biskupinn hafði um það bil tuttugu klerka í þjónustu sinni, sem sumir voru innvígðir í reglu kórbræðra en aðrir enn á námsstigi; en allir bjuggu þeir undir sama þaki með gamla manninum. Að lokinni guðsþjónustu og tíðagjörð hverju sinni tóku þeir af sér skrúða sína og fóru að fást við hin margvíslegustu störf, einn varð matreiðslumaður, annar sópaði gólf eða vann í garðinum, aðrir hirtu um kúna eða hjuggu í eldinn. Nokkrir gegndu stöðu kennara og enn aðrir höfðu umsjón með leikmönnum. Hver og einn hafði sínum ákveðnu skyldum að gegna.

Eftir því sem ég hjarnaði við furðaði gamli maðurinn sig æ meir á þekkingu minni og kunnáttu enda var bókakostur hans og presta hans ekki upp á marga fiska. Af veraldlegum bókmenntum var Rím Ovíðs hið eina sem hann gerði sér dælt við. Og um lestrarkunnáttu presta hans verður ekki annað sagt en að hún hafi verið afar takmörkuð. Þegar ég hafði endurheimt þrek mitt sat ég gjarnan á meðal þeirra, líkt og þegar Jesús var tólf ára og sat á meðal læriferðanna í helgidóminum, og við spurðum hver annan. Þrátt fyrir að ég hefði aldrei lagt stund á klerklegar menntir var ég ólíkt betur að mér en þeir. Gamli maðurinn var sá eini sem virkilega kunni eitthvað fyrir sér í guðfræði; ég lét því síður hafa mig út í heitar umræður væri hann nærstaddur. En honum þótti mikið til mín koma.

„Sonur minn,“ sagði hann, „ég er þess fullviss að þú ert til mín sendur af Guði. Ef þú aðeins vildir leggja stund á katalánsku og læra messugjörð, þá mundi ég vilja vígja þig sem minn arftaka.“

Prestarnir voru farnir að líta mig hornauga. En ég gerði þeim ljóst að klerkdómur höfðaði á engan hátt til mín og að ég æskti þess eins að fá að þjóna sem auðmjúkastur þjóna. Þessu mátti ég stöðugt halda fram því að lengi vel vildu þeir ekki leggja trúnað á orð mín, en þegar frá leið og mér reyndist unnt að fara á stjá og gat tekið til hendinni með þeim við heimilishaldið þá meðtóku þeir mig í sinn hóp. Ó, hvort ég átti ekki auðmýkt til að bera! Ekkert er eins lærdómsríkt í þeim efnum og hlutskipti þrælsins. Smám saman gast þeim betur að mér og kipptu sér brátt ekkert upp við það þó að sá gamli færi með mig sem sinn eigin son, sem væri ég skuggi hans. Ég fylgdi þeim við jarðarfarir og sat við hlið hans í brúðkaupsveislum og á hátíðum.

„Guð færði mér þennan dreng,“ varð brátt viðkvæði gamla mannsins og fékk hver sem var að heyra. „Sannið þið til — sá dagur kemur að hann verður helgur maður!“

Ég átti, trúi ég, nægan heilagleika til að bera að ég gerði ekki neinum neitt til miska, en væri ég engu að síður litinn hornauga af einhverjum, auðsýndi ég þeim hinum sama svo ástúðlegt viðmót að ég blátt áfram hlaut að falla honum í geð. En allt voru þetta leikir og látbrögð af minni hálfu. Ég hafði ímugust á þessum heimóttarlegu og hjátrúarfullu manneskjum sem voru svo uppteknar af blaðrinu í sjálfum sér. Gamli biskupinn var sá eini sem ég hafði virkilegar mætur á. Hann var í raun og sann helgur maður.

Sumt fólk skartar silki og flosi til að allir megi sjá hve tigið það er og velborið, engu að síður fær það ekki leynt dýrslegu eðli sínu þegar við það er talað — dýrseðli manneskjunnar. Svo eru þeir til sem klæðast aflóga kyrtlum og ganga um í slitnum ilskóm og með upplitaðar yfirhafnir á herðum sér, en mæli þeir þó að ekki sé nema eitt orð af vörum skynjar maður samstundis að þar eru á ferð englar í mannsmynd, englar í dýrslíki!

Ófáir hanga við sama heygarðshornið sama hve lengi þeir sitja á skólabekk eða hve margar bækur þeir gleypa í sig. Orð og nafnbætur leika þeim á vörum og ekki ruglast þeir í rímbeglu daganna, séu þeir á hinn bóginn beðnir um að tjá sig um skoðanir sínar eru svörin einatt með ólíkindum heimskuleg. Engu að síður er til skarpgreint fólk og djúpviturt þótt það kunni hvorki að draga til stafs né lesa. Það er mikil blessun að vera samvistum við slíkt fólk.

Vesalings biskupinn minn var einn af þessum aflóga gömlu englum. Hann gekk um í svartri hempu úr hærudúk, berfættur á sumrin og berhöfðaður en á veturna þó með hatt uppi og í stígvélum.

Í herbergi hans var ekkert til skrauts, aðeins myndir af Jesú, Maríu guðsmóður og Páli postula. Fyrir rúmflet hafði hann aðeins mottu. Rekkjuvoðir og lín hefði hann ekki kært sig um ef kvenfólk hefði ekki séð honum fyrir slíku. Hann hafði ekki hugmynd um hvað skyrta var; skyrtur voru fyrst innleiddar af Húnum.

Þrátt fyrir að herbergi væru ófá í bústað biskups lét hann sjálfum sér nægja aðeins eitt. Í næstu tveimur aðliggjandi herbergjum bjuggu tveir ævagamlir kórbræður og fimm munaðarlausir drengir. Ein fimm herbergi stóðu auð nema að betlarar fengu að halla sér þar þegar þeir áttu leið um bæinn. Allt sem gamli maðurinn eignaðist gaf hann öldnum betlurum, einnig það sem rann til kirkjunnar. Hann sá þeim fyrir nýjum fötum og veitti þeim umhyggju sína svo þeir mættu fara á braut glaðir í sinni.

Þegar fyrsti snjór vetrarins féll lét gamli maðurinn kalla til sín öll börn bæjarins og saman hófumst við allir handa um að kenna þeim. Ég kenndi hinum elstu latínu, sér í lagi þeim sem hugðust læra til prests. Fyrir námsbók hafði ég Biblíuna.

In principio creavit Deus coelum et terram (Í upphafi skapaði Guð himin og jörð). Með þeim orðum hófst námið. Ég geri ráð fyrir að allir latínukennarar hefji kennslu sína með þessum orðum Biblíunnar. Setningarnar eru auðveldar viðfangs og það sem þær fela í sér fagurt.

Á kvöldin, þegar munaðarleysingjarnir voru háttaðir, komum við allir saman í kringum stórt eldstæði í herbergi gamla mannsins og spjölluðum saman.

Fyrir kom að gesti bar að garði og máttum við þá aldeilis halda á spöðunum við matreiðslu og bakstur. Meira að segja hjálpaði gamli maðurinn til við að flysja gulrætur og höggva í eldinn ellegar snúa steikarteinum. Að kvöldverði loknum las ég gjarnan upp fyrir þeim úr heilagra manna sögum við ljós af tveimur ilmandi vaxkertum og á eftir sungum við sálma. Einn prestanna, Gad að nafni, var frábær bassi og átti það til að taka lagið einn og syngja nokkur vers; og stundum skemmti gamli biskupinn gestum sínum með frásögnum af því sem hann hafði upplifað fyrr á árum sem ferðalangur á Bretlandi.

En allt kom fyrir ekki. Þrátt fyrir að gæfan brosti við mér var ég enn dapur í lund.

Vetur var genginn í garð þegar ég loks komst á lappir og það tók mig langan tíma að endurheimta þrek mitt. Hnésárið var gróið en ekki gat ég þó beygt hnjáliðinn. Mér hefði verið leyft að fara hefði ég æskt þess, en hvernig átti ég að geta setið hest enn með þessa slæmsku í hnénu? Ég hefði heldur aldrei vogað mér að mæta augliti til auglitis öllum þeim skörum af úlfum sem reikuðu um vellina. Engu var líkara en öll úlfafjöld veraldarinnar væri hér saman komin; og mergð ránfugla var með ólíkindum, jafnt af örnum sem hröfnum. Yrði manni litið upp mættu þeir ávallt sjónum manns hnitandi hringi á himninum, gargandi og krunkandi.

Fyrst framan af var það mál manna að biskupinn hygðist láta jarðsetja hvert einasta lík. Þeir guðhræddustu í hópi bæjarbúa höfðu farið af stað með rekur og pála en brátt snúið til baka. „Hinir dauðu eru að minnsta kosti eitthvað á annað hundrað þúsund,“ sögðu þeir og hristu höfuð. Að sönnu máttum við þakka Guði fyrir að hafa skapað úlfinn, hýenuna og hrafninn, að ógleymdum vindum himinsins.

Nei, það hefði verið óðs manns æði að ætla að leggja land undir fót við þessar kringumstæður.

Ég var því heldur dapur í lund. Ég tók því þess vegna fegins hendi að fá að hafa eitthvað fyrir stafni, ég var þá að minnsta kosti ekki haldinn hugarvíli á meðan. En þegar ég var kominn í rúmið á kvöldin tókst mér ekki að sofna, sama hversu þreyttur ég var. Ég hugsaði um hverju fram yndi heima. Hvers vegna var það ég sem ekki fékk að snúa til baka? Stundum var ég svo heltekinn heimþrá að mig langaði mest til að stökkva út eins og ég var klæddur og leggja af stað berhöfðaður og fótgangandi.

Biskupinn spurði mig oft af hverju ég væri svo dapur. Var það eitthvað sem mér líkaði ekki? Ef mér leiddust þessar fábrotnu máltíðir þá skyldi hann með glöðu geði láta matreiða eitthvað sérstakt handa mér, sagði hann. Og ef mig vantaði föt þá þyrfti ég ekki annað en nefna það.

Því var það, að dag nokkurn sagði ég honum alla sólarsöguna — af ást minni á Móeik. Hann hlustaði og sagði ekki eitt einasta orð, aðeins hlustaði. Þegar sagan var öll, hristi hann höfuðið.

„Mig undrar stórum að þú svona vel gefinn og upplýstur piltur skulir láta stjórnast af ást á ómenntuðum stelpukjána. Eitt sinn var ég ungur sjálfur — og víst gerði ég ýmislegt glórulaust. Ég klifraði yfir veggi og synti yfir ár til þess eins að fá að standa undir glugga minnar fögru prinsessu kaldar, naprar nætur á meðan hún svaf svefni hinna réttlátu. En að láta mér til hugar koma að gefa mig henni af lífi og sál, eins og hverja aðra gjöf á silfurfati; nei, það hefði ég aldrei gert.“

„Ég get svo sem vel skilið það,“ sagði ég og andvarpaði. „En það hefur ekki heldur verið Móeik; það er aðeins til ein Móeik.“

„Þetta er eins og hver annar hjalli á þroskabraut, sonur minn; nokkuð sem verður að yfirstíga. Rétt eins og þú værir að taka tennur,“ bætti hann við og vildi hughreysta mig. „Stúlkukindin verður vafalaust komin í það heilaga áður en vetur er úti, og orðin móðir þegar þú nærð að snúa heim.“

Ó, aðeins að hann hefði ekki sagt þetta! Orð hans nístu mig inn að hjartarótum. Og sem ég sat þarna við eldinn með körfu á hvolfi fyrir sess, féll ég um koll á gólfið og formælti heitt með kveinstöfum þeirri stund þegar dauðinn hefði snúið við mér baki. Gamli maðurinn varð sleginn ótta og tók að úða vígðu vatni yfir gagnaugun á mér, færði þá höfuð mitt í kjöltu sér og strauk það eins og hann væri mín móðir.

„Vesalings drengurinn!“ mælti hann af innilegri samúð. „Bágt áttu. Hve vanþroska þú ert! En sjáðu til, ég var einu sinni kvæntur maður sjálfur, átti sex ár í hamingjusömu hjónabandi. Ást okkar var óumræðileg. En af því að við lifðum lífi bænarinnar þá sagði ég: „Væri það ekki Guði þóknanlegra að ég gerðist prestur og þú nunna?“ Og það varð. Við skildumst að og núna er ég biskup og hún nunna. En engu að síður hugsum við hvort til annars af ástúð.“

Armæða er eins og belgur sem sleppt er á loft — sé hann látinn stíga of hátt, springur hann. Þegar hinn helgi maður hafði sagt mér sögu sína gat ég ekki að mér gert, ég fór að skellihlæja.

 

54.

Snjóa hafði leyst en drepsóttin blossaði upp að nýju. Með hverjum degi fór hinum dánu fjölgandi. Á páskadag tók ég vígslu af hendi biskups. Hann varð að fá einhvern sér til aðstoðar við skriftamál og jarðarfarir. Og ég horfði fram á að ganga prestsveginn.

Eða hvers vegna skyldi ég snúa til baka, hugsaði ég. Ég hafði drýgt hetjudáðir í stríði og var þó allt unnið fyrir gýg. Ég hafði ekki hirt um að halda eftir hausum handa skrifurunum. Hver gat þá staðfest hreysti mína? Í besta falli myndi Kati veita mér frelsi — ef hann hafði þá ekki orðið hröfnunum að bráð á vígvellinum — en hvorki fé né heiður kæmu í minn hlut er mundu gera mér kleift að biðja Móeikar. Ég yrði einungis einskis metinn. Hér á hinn bóginn kyssti fólk hendur mínar og kallaði mig heiðursmann. Hér gæti ég lifað í friði og ró. Ég gat jafnvel gert mér vonir um að bera míturið í náinni framtíð og verða biskup ungur maður; hér um slóðir var ekki völ á betur menntuðum manni.

En drepsóttin!

Þegar tala dauðra nam orðið tveim tugum á dag höfðum við ekki lengur undan að veita þeim hinstu smurningu. Við vorum aðeins þrír eftir, okkur hafði reynst það um megn. Starfsbræður okkar voru allir annað hvort dánir eða farnir til fjalla til að dveljast á meðal fólksins sem enn hélt sig þar í leynum. Í fjöllunum leyndust að minnsta kosti þúsund manns sem höfðu lagt á flótta undan Attílu og voguðu sér ekki að snúa til baka heim. Biskupinn réði þjónustufólk til að matreiða og sjá um húsið, af þeirri einföldu ástæðu að við gátum ekki gert allt í senn.

Í maí steig tala látinna upp í fimmtíu, sextíu og allt að sjötíu dag hvern. Hús stóðu yfirgefin. Í heilu götunum var varla nokkur lifandi sála.

Í júní dró heldur úr dauðsföllunum en þá vorum við aðeins tveir eftir á lífi, gamli biskupinn og ég; sálmasöngvarinn góði var þá allur. Hinum dauðu var staflað upp fyrir framan kirkjuna. Við gáfum þeim hina almennari syndaaflausn og greftruðum nokkra þeirra á tveggja stunda fresti.

Dag nokkurn í júlí gaf borgari einn vel efnum búinn upp öndina og færði biskupinn mér þá gleðifregn að hann hefði arfleitt mig að öllum eigum sínum.

„Arfleitt mig?“

„Já, lof sé drottni! Hve gott þú getur nú látið af þér leiða!“

Annað kvöld lituðumst við um arfleifð mína. Það var fallegt einnar hæðar hús, þrjú hross, fjöldi fagurra málverka, forláta vopn, dálítið af húsgögnum og sjöhundruð og tíu gullpeningar.

Peningana afhenti ég biskupnum til að láta í söfnunarsjóð fátækra. Húsið og allt sem því tilheyrði fól ég í umsjá bæjarstjórans. Hann skyldi hafa eftirlit með því svo lengi sem plágan geisaði en síðan selja það og nota fjármunina til hjálpar bágstöddum.

En þegar mér varð litið á hestana þrjá fékk ég engu orði upp komið. Hjartað barðist í brjósti mér. Mér leið eins og steini væri velt frá grafhvelfingu. Og um nóttina, þegar biskupinn var sofnaður, yfirgaf ég húsið og hélt rakleiðis til húss bæjarstjórans. Ég bankaði upp á glugga.

„Á fætur, herra minn, og fáið mér lyklana að húsi mínu!“

Hann kom út, tiplandi á berum tám, hálfklæddur og óttasleginn.

„Hvað er á seyði? Hvað er svo aðkallandi?“

„París kallar! Ég verð að fara þangað nú samstundis. Biskupinn okkar lét senda þangað eftir nokkrum prestum en þeir hafa ekki skilað sér; ég verð því að fara eftir þeim. Verð kominn til baka síðdegis á morgun.“

Ég fór til húss míns og valdi mér eitt forkunnargott sverð og spjót og boga. Ég skipti um föt, klæddist kirsuberjarauðum fötum úr fallegu flaueli og hengdi pokaskjatta um háls mér. Þarna voru ágætis þvengskór með þvengjum sem náðu upp að hnjám, og þá setti ég á mig ásamt sporum úr skíra gulli. Það er til lítils að ætla sér að fara ríðandi án spora.

Bæjarstjóranum þótti það ekkert undarlegt að ég skyldi fara svo vel vopnaður, gráðugir úlfarnir voru enn allt um kring.

Ég valdi mér besta gæðinginn og tók stefnuna austur!

 

55.

Komið var haust og gróður tekinn að fölna þegar ég kvöld eitt náði að bökkum Dónár eftir viðburðaríkt ferðalag. Tekið var að dimma og ég blés í hornið mitt og að skammri stund liðinni birtist ferjan. Ferjumaðurinn var gamall, þrekvaxinn Húni, grár í vöngum. Gamli maðurinn beið ekki boðanna heldur benti boga sinn þó að enn ætti báturinn eftir spölkorn yfir.

„Hver ert þú og hvað viltu?“

„Ég er Húni eins og þú sjálfur,“ svaraði ég, „á leið heim.“

„Hvað viltu heim?“

„Það er mitt mál. En þín skylda er að ferja mig yfir.“

„Til fjandans með mínar skyldur. Skilur þú ekki að ég get skotið þessari ör gegnum þig?“

„Til hvers ættir þú að gera það?“

„Af því að þú ert einskisnýtur strokumaður!“

„Strokumaður? Ég? Heyrðu vinur, við greinilega skiljum ekki hvor annan. Ég kem af Katalánavöllum — þar sem var barist í fyrra.“

Haka hans seig af undrun einni saman.

„Þú ert þá ekki að koma úr Rómarleiðangrinum?“

„Rómar? Nei. Er þá herinn okkar farinn til Rómar?“

„Já.“

Nú var það haka mín sem seig.

Húninn damlaði í átt til mín og virti mig fyrir sér, föt mín og andlit.

„Ég skal ferja þig yfir,“ sagði hann, „en þú verður þá að taka afleiðingunum.“

„Hvaða afleiðingum?“

„Nú, þér er heimilt að koma yfir, en hvarfli einhvern tíma að þér að snúa til baka...“

Ég rökræddi ekki frekar við hann. Ég hefði haldið áfram ferð minni ef hesturinn minn hefði ekki verið hvíldar þurfi og bað ég því ferjumennina leyfis um að fá að dvelja með þeim næturlangt. Yfir kvöldverðinum breyttist viðmót þeirra heldur til hins betra þegar ég sagði þeim frá orrustunni á völlunum. Og eins og gefur að skilja leitaði ég sjálfur frétta.

„Hvenær fór Attíla af stað til Ítalíu?“

„Fljótlega eftir að hann kom að vestan. Herinn hvíldist ekki nema rétt fáeinar vikur, rétt nóg til að hestarnir endurheimtu þrek sitt. Hann fór af stað strax og mestu vetrarkuldarnir voru afstaðnir.“

„Vitið þið nokkuð um Kata? Er hann á lífi?“

„Hann er það.“

„Og fjölskylda hans?“

Um fjölskylduna vissu þeir ekkert. Þetta voru aðallega Úgúrar sem hér þjónuðu sem ferjumenn og landamæraverðir. Nokkrir óvopnfærir Húnar dvöldust á meðal þeirra og fengust aðallega við að fiska og veiða dýr. Með hundrað feta bili stóðu kofar úr reyr. Þeir voru til merkis um hina ströngu gæslu Húna á landamærum sínum. Fram hjá þeim kæmust njósnarar hvergi.

Snemma morguns hélt ég áfram ferð minni. Þegar dagur var að kveldi kominn sá ég framundan mér hvar glitti í hallarturna Attílu. Ég get ekki lýst því hve hrærður ég var. Eitt augnablik hoppaði hjartað í brjósti mér af kæti, hið næsta titraði það eins og vængbrotinn fugl. Er hún enn ógefin? hugsaði ég kvíðafullur. Hvernig mun henni lítast á mig þegar ég birtist?

Ég barðist við hjartsláttinn á meðan ég reið áfram að Tísjuá þar sem ég brynnti hestinum. Ég fékk mér snöggvast bað og burstaði mesta rykið af fötum mínum.

Síðan reið ég inn í borgina. Hve þögul hún var og fátt um að vera. Aðeins konur og börn hvörfluðu um stræti.

Fyrir framan konungshöllina voru engu að síður nokkrir knapar undir vopnum og við bústað drottningar slangur af óvopnfærum hermönnum og slangur af Húnum af lágum stigum. Og þar að auki drjúgur hluti af þjónaherskörum Attílu.

Hjartað barðist í brjósti mér þegar ég reið gegnum hliðin að bústað Kata. Þjónar og þrælar göptu á mig en voru kuldalegir í bragði eins og ég væri útlendingur.

„Gott kvöld, Úzúra!“

Spjótið féll úr höndum hans, svo undrandi varð hann.

„Guð minn góður!“ stamaði hann. „Ert þetta þú, Zeta?“

„Að sjálfsögðu; en ekki hver?“

Hann æpti inn í húsið: „Zeta er kominn!“ — svo glaður sem ég hefði verið hans eigin sonur.

Þjónar og þrælar ruku upp til handa og fóta. Og um leið og ég stökk af baki faðmaði ein stúlknanna mig að sér og kyssti mig ákaft.

„Zeta! Zeta!“

Ég virti hana fyrir mér... Ef þetta var ekki hún Djídjía! Ég ætlaði varla að þekkja hana, það hafði tognað svo úr henni.

Hvert af öðru föðmuðu þau mig að sér, tóku í hendur mér og fitluðu við fötin mín, spyrjandi hvert upp í annað hvaðan ég eiginlega kæmi og hvort ég hefði virkilega ekki dáið! Síðan var mér ýtt og ég dreginn upp á loft til að hitta konu Kata og gamla heiðurskarlinn Barákon. Drengirnir tveir voru ekki síður glaðir yfir að sjá mig, þeir flöðruðu upp um mig og ég bað leyfis um að fá að kyssa hendur þeirra.

Aðeins eitt þeirra var ekki viðstatt, sú sem ég hefði þó helst af öllu viljað sjá. Hjartað í mér var að springa, eins og fyrir stafni væri dimmur váboði, og mig rak í vörðurnar þegar ég reyndi að svara frúnni og gamla karlinum.

„Eru allir í fjölskyldunni við góða heilsu?“ stundi ég loksins upp eins og bjálfi.

„Já, Zeta, öll saman.“

„Og ung-ungfrúin líka?“

„Já, líka hún, Zeta.“

„Og ung-ungfrúin, ungfrú Móeik — hún er þá ekki vei-veik?“

„Af hverju skyldi hún vera það? Hún er á veiðum með Ríku drottningu. Drottningin býður þér áreiðanlega að heimsækja sig á morgun, því að ég veit að hún hefur saknað þín. Maðurinn minn færði mér þær fréttir þegar hann kom heim að þú hefðir látist úr drepsóttinni.“

Þungu fargi var af mér létt. Ef Móeik hefði verið gift hefði kona Kata leiðrétt mig með því að segja: „Hún er engin ungfrú lengur, góði minn!“ í stað þess að segja að hún væri á veiðum.

„Og sneri húsbóndi minn heim ósærður eftir orrustuna?“ spurði ég. „Ég óttaðist mest að hann hefði verið á meðal hinna föllnu.“

„Ekki aldeilis,“ svaraði frúin og hló. „Hann er ekki vanur því að deyja!“

„Verður hann lengi í burtu? Væri ekki rétt af mér, frú mín góð, að ég færi á eftir honum?“

„Á eftir honum? Nei! Það er komið haust nú þegar og þeir yrðu komnir heim um það bil sem þú yrðir kominn þangað!“

„Hafði húsbóndi minn nokkuð orð á því hvernig ég hefði staðið mig í orrustunni?“

„Nei, Zeta. Hann sagði aðeins að rétt eftir að orrustan hefði hafist hefði hann misst sjónar á þér.“

Ég varð hryggur í huga; ég yrði þá áfram sami þrællinn. Ég sem hefði getað orðið biskup myndi verða áfram óbreyttur hestasveinn, fá að þrífa skó af annarra manna fótum — engu betur settur en hver annar rakki með lafandi rófuna.

Um kvöldið var mikið við haft í eldhúsinu. Allt þjónustuliðið ásamt þrælunum kom saman til að heyra sögu mína. Raba bauð upp á steik og gaf vín með matnum. Ég skyldi sitja á hennar eigin armstól og hún kallaði mig sinn kæra son. Ég fékk Djídjíu að borðnauti og gramdist það, því að hún hafði klætt sig í sitt fínasta skart og tínt nokkur gæsablóm sem hún setti í vasa fyrir framan mig.

Hvað um það, ég sagði þeim frá ævintýrum mínum, frá orrustunni og því hvernig ég hefði haldið lífi. Og ég sýndi þeim sárið á hnénu og á höfðinu.

Þau einblíndu á mig, full andaktar.

„Jæja,“ sagði Jonja, ein þjónustustúlknanna, „það var þá ekki til einskis að hún Djídjía bæði svo ákaft fyrir þér.“

Ég yppti öxlum.

„Til hvers var það? Hvers virði ætti ég svo sem að vera Djídjíu? Eða hún mér? Þakka þér samt fyrir, Djídjía, þó að ég eigi bágt með að skilja þig. Það er út af fyrir sig allt í lagi þó að þú látir þér annt um velferð mína — hef ekkert á móti því — en það var samt alveg óþarfi að þú værir að flaðra svona upp um mig með faðmlögum þegar ég kom, eins og ... ja, Guð veit hvað! Ég ætla bara að biðja þig að haga þér ekki svona aftur. Þú ert fullvaxta stúlka og verður að vera svolítið vönd að virðingu þinni.“

Djídjía seig saman í stólnum og blóðroðnaði en ég lét sem ekkert væri. Ég sló laust í borðið...

„Og hænan mín, hún Litla Ljót mín! Hvar er hún?“

Öll brostu þau og þeim varð litið á Úzúru, sem setti dreyrrauðan og klóraði sér í höfðinu.

„Já, segið mér það —“

„Nú...“ Það var Raba sem tók loks til máls. „Úzúra fórnaði henni til minningar um þig. Þegar hann heyrði að þú værir dáinn tók hann hana og slátraði henni og við settum hana á eld til að hún gæti orðið hænan þín einnig í næsta lífi.“

 

56.

Morguninn eftir lét drottningin senda eftir mér.

Ég var tilbúinn að fara. Stallbræður mínir og systur, þrælarnir, sýndu svo að ekki varð um villst að þau voru vinir mínir. Hvert í kapp við annað hömuðust þau við að þrífa flíkurnar sem ég hafði komið í frá Katalánabæ. Leðurstrípurnar lituðu þau gular, flauelið burstuðu þau, gullhnappana fáguðu þau þangað til þeir gljáðu, og hvar sem saumsprettu var að finna eða eitthvað rifið þá saumuðu þau það saman á nýjan leik. Í stuttu máli sagt, þegar ég vaknaði — í gamla herberginu mínu — þá færðu þau mér flíkurnar, hreinar og tilbúnar til að fara í.

Húsmóðirin var ekki síður almennileg; hún færði mér fallegt hálshnýti úr fínasta líni. Þegar ég hafði einnig sett það upp var það almennt álit allra í húsinu, að hver sá sem ekki þekkti mig, myndi álykta að hér færi útlægur prins.

Ég kunni því ævinlega vel að vera snyrtilegur til fara, og gilti einu þótt ég yrði að þvo af mér sjálfur. Ég var einnig vanur því að nota ilmvatn eða einhverjar vellyktandi jurtir. En aldrei á ævinni hafði ég verið eins fínn til fara og einmitt nú þegar til stóð að ég fengi að mæta fyrir augliti Móeikar eftir hinn langa aðskilnað.

Ég var samt ekki alveg laus við áhyggjur. Ég var breyttur í andliti, mér hafði vaxið skegg, svart og gróskumikið. Það var að vísu samdóma álit þrælanna og þjónustufólksins að ég tæki mig betur út með skeggið, en hvert yrði álit Móeikar? Að sið Húna sneri ég upp á yfirvararskeggið en lét vera að hnýta hárið í spena, því enn var ég aðeins þræll. Hárið féll líka að öxlum svo að prýði var að og því ástæðulaust að hafa áhyggjur út af því.

Þannig búinn stikaði ég inn í bústað drottningar, með barðastóran hatt í hendi og gyrtur sverði mínu, og til fótanna klæddur þvengskónum með gullsporunum. Buxurnar voru kirsuberjarauðar og jakkinn úr vínrauðu flaueli og hálslínið var á sínum stað, um axlir mér hékk tveggja spanna langt fílabeinshorn í silfurkeðju. Ég hefði ekki fyrir nokkurn mun viljað skipta á búningi mínum við einhvern þessara lubbalegu prinsa þeirra.

Þegar þjónninn hafði dregið dyrahengið frá gekk ég inn eins og konungssonur væri. Ég hvarflaði augunum á meðal kvennanna, sem hafa talið nærfellt tvo tugi, og á meðal þeirra var Móeik, klædd hvítum, rósóttum kjól; hárið féll henni að baki í einni fléttu, svo sem áður. Augu mín hvíldu á henni aðeins rétt augnablik og mér varð ljóst að hún hafði ekki breyst vitundarögn. Þær voru önnum kafnar við að máta ný hvít og blá klæði við ljóshærða konu sem ég hafði ekki séð fyrr. Þeim varð bilt við þegar ég birtist.

Ég hneigði mig djúpt og kraup niður á annað hnéð og beið þess að drottningin ávarpaði mig.

„Guð veri oss næstur!“ hrópaði hún upp yfir sig og klappaði lófunum saman. „Ert þetta þú, Zeta? Hve þú gerðir okkur hræddar!“

„Yðar náð, ég biðst forláts, en önnur föt á ég ekki til en þessi sem ég er í. En ég er yðar auðmjúkur þjónn, það vil ég fullvissa yður um — ég er meira að segja reiðubúinn að þjóna yður í þessum hræðilegu flíkum.“

„Komdu nær! Sjáið þið piltinn, stúlkur! En hve myndarlegur maður hann er orðinn! Segðu mér nú frá öllu saman, Zeta! Öllu saman! Okkur var tjáð að þú værir dáinn. Ég syrgði þig.“

„Þakka yður fyrir, yðar hátign,“ sagði ég hrærður og hneigði mig. „Hefði ég vitað á þessum erfiðu stundum að þér syrgðuð mig, hefði það orðið mér til mikillar huggunar.“

„Segðu mér nú alla söguna. Hvar hefur þú haldið þig? Hvar bjóstu? Hvers vegna komstu ekki til baka síðastliðið haust?“ Hún færði sig yfir á legubekkinn og virti mig fyrir sér, hallandi undir flatt með hönd undir kinn. Allar saman horfðu þær á mig með eftirvæntingu.

Ljóshærða, ókunna konan sat við fætur drottningar og horfði á mig köldum, rannsakandi augum; hún var afar falleg á hörund. Móeik fékk sér útsaumaða sessu til að setjast á og hallaði sér að legubekk drottningar. Ég er ekki viss um hvort hún brosti, enda vogaði ég mér ekki að líta hana augum, en fann að ég naut notalegrar athygli.

Ég á sjaldan við feimni að stríða og verð lítt uppvægur við augntillit annarra. En núna, þegar ég var aftur í návist Móeikar og fann að augu hennar hvíldu á mér, þá gat ég varla stunið upp orði. Ég einungis stóð þarna og hafði ekki hugmynd um á hverju ég skyldi byrja.

„Mín hátignarlega hefðarfrú,“ sagði ég loks, „ég veit ekki á hverju þér kynnuð að hafa mestan áhuga á eða hve mörg þeirra atvika er ég upplifði...“

„Ég hef áhuga á öllu, öllu saman! Fáið honum stól eða sestu á gólfábreiðuna. Þú ert svo stertur í þessum fötum að engu er líkara en þú værir hér til að óska okkur gleðilegs nýs árs! Hentu hattinum út í horn og hátíðleikanum sömuleiðis!“

Ég tyllti mér því á meðal þeirra á skemil og lagði hattinn frá mér á gólfið. Brátt rann feimnin af mér og mér leið eins og ég væri á meðal barna; þannig eru konur þegar þær gleðjast, verða alveg eins og börn. Það var eingöngu tillit Móeikar sem setti mig aðeins út af laginu, en ekki svo að mér fyndist það óþægilegt.

„Yðar hátign,“ sagði ég, „ég er hræddur um að frásögn mín verði heldur löng og leiðinleg eigi ég að ráða henni algjörlega sjálfur. Hvar viljið þér að ég byrji?“

„Hér, þegar þið lögðuð af stað frá borgarmörkunum. Segðu okkur síðan frá hinni löngu ferð, orrustunni og öllum ævintýrunum sem þú lentir í.“

Ein húnversku kvennanna bætti við með glettni í augnaráðinu: „Og segðu okkur sem nákvæmast frá því sem þú mundir helst vilja þegja yfir.“

Þær hlógu allar, nema ljóshærða stúlkan sem var svo falleg á hörund, alvaran bráði ekki af henni og augu hennar voru full undrunar. Það var ekki fyrr en seinna sem ég komst að því að konan með glettnislega augnaráðið var Eikka drottning og að ljóshærða stúlkan skildi ekki húnversku; hún var af germönskum uppruna og hét Hildka.

„Ég byrja þá á byrjuninni svo sem þér óskið. Það var í dögun sem æðsti presturinn veitti okkur blessun sína og við lögðum upp. Við vorum allir hryggir í lund því enginn vissi hvort okkur mundi nokkurn tíma auðnast að snúa til borgarinnar á ný eða hvort okkar biði ferð til ríkis hinna framliðnu. Sjálfur konungurinn virtist hryggur; ég sá einnig glitta í tár í augum hans.“

„Þar hlýtur þér að hafa skjátlast,“ sagði Ríka drottning og brosti. „Konungurinn virðist alltaf hryggur, en ef hann þyrfti að gráta þá gerði hann það aðeins innra með sér.“

„Það er líklega rétt,“ svaraði ég og hneigði mig. „Líklega hafa verið tár í augum mínum og mér þess vegna virst sem svo væri einnig um konung farið.“

Ég gaut augunum snöggvast andlit á Móeikar. Hún horfði á mig hugsi án þess að hvika augunum. Svipur hennar var óhagganlegur líkt og Attílu — enginn vissi hvað þar bjó að baki.

„Ekkert gerðist á leiðinni sem í frásögur er færandi. Við vorum fram á vor að þoka okkur upp með Dónárbökkum. Á undan fóru hersveitir sem rændu alla rómverska bæi. Það fyrsta sem má teljast frásagnarvert — og sem virkilega kom okkur til að hugsa — henti okkur á leið út yfir mýrlendi nokkurt. Hestar okkar voru farnir að vaða í mýrarsefinu upp að hnjám þegar horuð og tjásuleg gömul kerling stingur allt í einu upp kollinum. Undir augum hennar voru stórir, dökkir baugar og af beinaberum handleggjunum láku slepjulegir, mosagrænir taumar. Áður en okkur gafst minnsta ráðrúm til að stöðva hana, grípur hún þá ekki í beislið á hesti konungs og hrópar á tungu Germana:

„Snúðu við, Attíla! Snúðu við!“

Hún var færð á brott frá konunginum og stuggað burt þangað til hún hvarf í sefið.“

Áheyrendur mínir fölnuðu upp, og einnig Móeik, tók ég eftir.

„Fjöldi annarra fyrirboða urðu á vegi okkar, ekki síður óheillavænlegir,“ hélt ég áfram. „Í eitt skiptið birtist okkur einsetumaður inn á milli kletta. Þegar konungurinn nálgaðist fórnaði hann höndum og æpti: „Ég veit hver þú ert! Þú ert refsivöndur heimsins! Jörðin skelfur hvar sem þú drepur niður fæti og stjörnurnar hrapa hvar sem þú lætur gella í horninu þínu. En eitt skaltu vita — líkt og þú komst í heiminn fyrir tilverknað Guðs, svo mun hann einnig kalla þig á brott!““

„Spámenn eru sömu kjánarnir allsstaðar,“ sagði drottningin alvarleg í bragði. „Jafnt jarðnesk sem himnesk teikn áttu að boða Attílu ógæfu, en hver varð raunin?“

„Það er mér ókunnugt um, yðar hátign. Ég varð eftir einn og yfirgefinn á vígvellinum.“

„Attíla sneri til baka seint síðastliðið haust, við góða heilsu og auðsæld, og hann færði heim með sér í gíslingu hóp af prinsum og prinsessum til að knýja hinar vestrænu þjóðir til hollustu við sig. Líttu á hve þessi stúlka er yndisleg og fögur!“ Hún benti á Hildku. „Hann tók hana einnig með sér að vestan. Hún er konungsdóttir og er alveg einstaklega hrífandi.“

Hún tók utan um Hildku og kyssti hana.

Ég sagði þeim síðan frá orrustunni, og þegar þar kom sögu að ég lýsti því fyrir þeim þegar Attíla hefði staðið frammi fyrir hermönnunum með sverð sitt á lofti og leitt þá til bardagans, þá héldu þær niðri í sér andanum og máttu vart mæla og augun í þeim glóðu. Það kom mér á óvart að jafnvel Móeik, sem mér hafði ævinlega virst svo óhagganleg á svipin, hún horfði líka á mig með glóð í augum. Það fór ekkert á milli mála að frásögn mín snerti hana djúpt.

Ég ályktaði sem svo að nú væri rétta augnablikið til að lýsa fyrir þeim mínum eigin hetjudáðum, en þá var tjöldunum svipt frá dyrum og þjónn tilkynnti að kominn væri sendiboði frá konungi.

Þær stukku upp til handa og fóta eins og eldingu hefði lostið niður. Einnig drottningin reis upp.

„Er hann búinn sorgarklæðum?“ spurði hún kvíðin.

„Nei, yðar hátign, hann hefur góðar fréttir að færa.“

„Sendið hann inn og kallið á ráðsmanninn!“ Og hún andvarpaði feginsamlega. „Hve hann skelfdi okkur!“

Sendiboðinn, Ígar, sem var húnverskur hermaður, gekk inn til okkar allur ataður ryki. Hann kraup á kné og rétti drottningu bréf Attílu.

„Hvaða fréttir hefur þú að færa?“ spurði drottning. „Eruð þið enn í Róm?“

„Nei, yðar hátign,“ svaraði Ígar. „Róm gekk til móts við okkur.“

„Nú skil ég ekki.“

„Rómverski páfinn, hinn mikli herra hins kristna heims, gekk út til móts við okkur. Í fullum skrúða. Hann henti sér niður við fætur konungs og baðst þess að hann þyrmdi borginni.“

„Og?“

„Við erum nú á heimleið.“

Ríku drottningu varð brugðið.

„Hvers vegna hlífði hann þeim? Hvers vegna settist hann ekki í hásæti heimsveldisins?“

Augu hennar skutu gneistum. Hve allt viðmót hennar gjörbreyttist! Nú var hún svo sannarlega drottning Attílu.

En aðeins örskamma stund sýndi hún þessa hlið á sér, líkt og þegar elding lýsir upp landslag. Á eftir leit hún niður og hún spurði innantómri, næstum leiðri röddu: „Og enginn haft uppi neinn mótþróa?“

„Enginn, yðar hátign. Eða hver skyldi dirfast að setja sig upp á móti okkur?“

„Aëtíus?“

„Aëtíus hafði komið af stað þeim orðrómi að hann hefði unnið orrustuna á Katalánavöllum.“

„Já, ég hafði veður af því. En hvar heldur hann sig núna?“

„Það er okkur ókunnugt um. Hinn máttugi sigurvegari fyrirfinnst hvergi! Á hinn bóginn hefur mesta stórborg veraldarinnar orðið að gangast undir ok hins sigraða og má nú auðmjúklegast gjalda honum skatt!“

„Og var þá alls ekkert barist?“

„Nei, yðar hátign. Jafn skjótt og við höfðum brotið niður mótþróa Aquíleiu lá öll Ítalía fyrir fótum vorum. Við færum heim með okkur þúsundir vagnhlassa af gersemum. Kynstrin öll af silki, flaueli, málverkum og leirkerjum og ógrynni af gulli og silfri. Og heilan her af ungum þrælum.“

„En plágan?“

„Hún geisar enn líkt og síðastliðið ár, yðar hátign. Það mætti segja mér að það sé vegna hennar sem konungurinn afréð að sækja ekki inn í Róm.“

„Er hann við góða heilsu?“

„Það er hann, þökk sé Guði.“

„Segðu mér,“ mælti Eikka drottning, „hvers konar maður er þessi páfi?“

„Hann er horaður og kominn á gamals aldur,“ svaraði sendiboðinn og brosti. „Nefið er hrukkótt og fas hans felmtsfullt.“

Ráðsmaðurinn kom inn og dró drottning sig í hlé ásamt honum og Eikku drottningu inn í innra herbergið til að kynna sér efni bréfsins.

Á meðan biðum við róleg í hinum stærri salarkynnum. Konurnar hvískruðu sín á milli en ég hafði engan til að tala við, aðeins gleypti Móeik í mig með augunum þegar enginn sá til.

Móeik ávarpaði Ígar: „Er faðir minn við góða heilsu?“

„Hann er það, mín ágæta yngismær.“

„Hefur þú engin skilaboð frá honum að færa?“

„Aðeins í orðum.“

„Getur þú sagt mér þau?“

„Hann bað mig einfaldlega að láta ykkur vita að sér liði vel og að ungu herramönnunum skyldu ekki gefnir neinir óþroskaðir ávextir.“

Móeik settist á legubekkinn og faðmaði Hildku að sér svo að vangar þeirra snertust.

„Finnst þér hún ekki fögur þessi stúlka, Zeta? Hefur þú nokkurn tímann séð fegurri stúlku?“

„Reyndar, mín ágæta yngismær.“

„Hvenær þá?“

„Á bökkum Tísjuár, mín ágæta yngismær. Ég sá þar eitt sinn eina, hún var á hestbaki og klæði hennar voru á litinn eins og turtildúfur. Og hún bar slæðu.“

Augnhár hennar bifuðust en andlitið var eftir sem áður óhagganlegt.

„Þú ert afar fögur,“ sagði hún hlýlega við Hildku. „Mjög fögur, skilurðu?“

Hildka kinkaði kolli, brosandi:

„Skilja, mjöt fögur.“

Og þær hlógu dátt.

 

57.

Enn á ný fékk ég að vera í herbergi Röbu. Hún vildi ekki heyra á það minnst að ég yrði annars staðar og færði sig sjálf um set inn í annað og enn minna herbergi.

Ég var dauðþreyttur og bað þess vegna gamla ráðsmanninn um að gefa mér frí frá störfum það sem eftir var dags. Ég dró mig því í hlé eftir hádegisverðinn og lagðist fyrir inni í litla herberginu.

Það var þægilega svalt þarna inni í skonsunni. Á vegg hékk blómsveigur úr villijurtum sem Móeik hafði einhverju sinni borið í brúðkaupsveilsu eða við annað slíkt tækifæri. Ég hafði gert mér lítið fyrir og hirt sveiginn þegar átti að henda honum.

Ekkert annað var til skrauts. Hins vegar héngu slétt og strokin pils matráðskonunnar upp um alla veggi og fylltu herbergið af línsterkjuangan.

Ég hafði enn andvara á mér þegar ég heyrði að small lágt í hurðarlokunni. Dyrunum var lokið upp lítillega og inn gægðist Djídjía feimin á svip.

„Ertu sofandi?“

„Nei. Hvað viltu, Djídjía?“

Hún var föl á vanga og alvarlegri í bragði en hún átti vanda til. Hún gekk inn fyrir og tók sér stöðu fyrir framan mig, eins og nemandi frammi fyrir kennara sínum.

Hve hún er orðin hávaxin, þessi stúlka! Svo sannarlega hefur tognað úr henni! hugsaði ég. Þegar ég fór var hún varla meira en barn, núna er hún orðin gjafvaxta stúlka. Hún var hávaxin og brjóst hennar orðin stinn og andlitið lýsti af kvenlegum þokka. Hitt þjónustufólkið átti það til að kalla hana að gamni sínu „ungu hefðarmærina“, líklega af því að hún var yfirleitt klædd gömlum fötum af Móeik. Það hafði alltaf valdið mér dálitlum sárindum.

„Ég vil gjarnan fá að tala við þig,“ sagði hún kvíðafull. Hún stóð við dyrnar og þrýsti fingri að vanga sínum, líkt og hún óttaðist að ég ræki hana á brott. Ég benti henni á af sér genginn tágastól og bauð henni að setjast, sem hún gerði.

„Mig langar aðeins að fá að vita...“ hvíslaði hún, „aðeins ... hvað ég hef gert á hluta þinn. Af hverju hatar þú mig?“

„Ég? Hata ég þig?“

„Auðmýktir þú mig ekki í gær frammi fyrir öllum hinum? Ó, ég hélt ég myndi deyja!“ Augu hennar fylltust tárum. „Af hverju gerðir þú það?“

„Þú auðmyktir sjálfa þig, stúlka mín. Mér finnst það því afar undarlegt að þú ætlist til að ég biðjist afsökunar, rétt eins og þú værir einhver dómari!“

„Ég ætlast ekki til að þú biðjist afsökunar á neinu, Zeta. Ég er aðeins að biðja þig auðmjúklegast að segja mér hvað ég hafi gert á hluta þinn — því ég vil vita það, svo ég geri það ekki aftur.“

Það olli mér undrun að stúlkan skyldi mæla af svo mikilli rökfestu.

„Það gleður mig,“ sagði ég, „að þú skulir vera svona skynsöm. Þá er ekkert því til fyrirstöðu að við tölum tæpitungulaust um þessa hluti. Vissulega var það fallega gert af þér að fagna mér af svo mikilli ákefð þegar ég kom heim, og mér hefði fallið það vel ef þú hefðir ekki gengið svo langt! Eða hvað fyndist þér um það að ég ryki upp til handa og fóta og tæki að kyssa Attílu þegar hann sneri heim?“

„Þú ert ekki Attíla. Og mér fannst alltaf ... að þú værir ... eins og bróðir minn.“

„Þakka þér fyrir. En hvernig í ósköpunum á fólk að vita af hvaða rótum tilfinningar þínar eru sprottnar? Svona lagað getur auðveldlega valdið misskilningi og það væri hvorki mér né þér í hag.“

Hún fól andlitið í greipum sér og ég sá að hún grét.

„Ég ætlaði ekki að særa þig, Djídjía. En tölum ekki frekar um þetta. Við erum bæði ánauðug og hlutskipti okkar víst nógu dapurlegt fyrir. Harkaðu nú af þér og segðu mér heldur frá hvað þið hafið haft fyrir stafni þetta hálfa annað ár sem ég hef verið í burtu. Hvað sagði húsbóndinn þegar hann sneri til baka?“

Djídjía þurrkaði sér um augun með svuntunni sinni.

„Hann sagðist hafa séð síðast til þín í þann mund sem bardaginn var að hefjast.“

„Minntist hann ekkert á afrek mín?“

„Nei, aðeins að síðast hefði sést til þín á meðal hinna særðu, að þú hefðir þó verið ósár en tekið drepsóttina.“

„Svo að Kati hefur álitið mig vera dauðan?“

„Já.“

„Þótti honum fyrir því?“

„Já, honum þótti það.“

„Hvernig gaf hann það til kynna? Hvað sagði hann?“

„Hann sagði að sér þætti það leitt, því að málbeinið þitt eitt hefði verið á við hendur annarra og að mikil eftirsjá væri að hæfileikum þínum, hann hefði ætlað sér að láta þig teikna gullgrafið á nýja skjöldinn sinn.“

„En frúin? Þótti henni það leitt?“

„Já, henni þótti það.“

„Hvernig þá? Hvað sagði hún?“

„Hún sagði að það hefði verið heimskulegt að taka þræl eins og þig burt af heimilinu. Enginn gæti hneigt sig og heilsað eins vel og þú. Slíkur þræll væri mesta stáss sem eitt heimili gæti státað af, ekki minna virði en silkigluggatjöld. Hún lét húsbóndann virkilega fá það óþvegið fyrir að hafa tekið þig með sér og glatað þér.“

„En hvað fannst ungu hefðarmeyjunni til um þetta?“ sagði ég og lést bæla niður geispa. (Hve mér tókst það eðlilega!) „Hvað fannst henni?“

„Ekki neitt.“

„Fannst henni það ekkert leitt?“

„Jú, að vísu.“

„En hvernig þá? Hvað sagði hún?“

„Hvað? Jú alveg rétt, því var ég búin að gleyma. Hún lét sér eitt sinn um munn fara eitthvað á þá leið, að ef til vill hefði þetta verið þér fyrir bestu.“

Á eftir fylgdi löng þögn. Ég gleymdi því að Djídjía var enn inni hjá mér. Það sem hún hafði mælt kom róti á huga minn eins og hvirfilvindur færi um.

„Er þá ekkert fleira sem þér leikur forvitni á að vita?“ spurði hún loks. „Eða ætlar þú ekkert að spyrja mig hvernig mér leið?“ og við nærri lá að ég heyrði hjarta hennar slá.

„Nei,“ svaraði ég og lokaði augunum. „Farðu nú!“

 

58.

Móeik kom heim um kvöldið. Um þessar mundir notaðist hún við smáhest sem var afskaplega falleg og spök, brún smávaxin skepna, ævinlega kroppandi gras einhvers staðar í kringum húsið. Nóg var að kalla á hann, þá hljóp hann til manns eins og hundur.

Ég var þess fullviss að hún segði móður sinni frá því sem ég hafði sagt drottningu og að ég yrði kallaður upp að loknum kvöldverði.

Ég lét mér jafnvel til hugar koma að hún kallaði á mig sjálf til að tala við sig.

Fyrir framan dyrnar stóðu tvö hitabeltistré umvafin þéttu, rauðu laufskrúði. (Ég veit ekki hvaðan þau voru komin. Vel kann að vera að Kati hafi fært þau konu sinni alla leið að heiman úr mínu eigin föðurlandi!) Ég hafði einatt setið undir þessum trjám þegar ég hafði beðið húsbónda míns, og hið sama gerði ég þetta kvöld, tilbúinn ef kallað yrði á mig.

Mér brugðust ekki vonir mínar. Kvöldverðinum var ekki einu sinni lokið þegar ég heyrði að Djídjía kallaði út um glugga á annarri hæð:

„Zeta! Vitið þið nokkuð um Zetu? Segið honum að koma upp!“

Þau sátu umhverfis borðið. Á milli drengjanna tveggja sat ung og að því er virtist tiginborin kona sem ég hafði ekki séð fyrr. Gamli húsbóndinn, afinn, var rauður og þrútinn í framan af víninu.

„Zeta,“ sagði húsmóðirin við mig í ávítunartón, „vilt þú einungis tala við drottninguna?“

„En frú mín góð,“ svaraði ég mér til afsökunar, „mér leyfist ekki að tala nema þér æskið þess. Þræli ber að þegja!“

„En þú ert ekki þess konar þræll. Þú átt að tala!“

„Þakka yður fyrir, frú mín góð. Það skal ég gera með glöðu geði hvenær sem þér viljið. En það tæki mig heila viku að segja frá allri orrustunni. Kvöldið eitt entist ekki einu sinni til þess að segja frá öllum hetjudáðum húsbóndans.“

„Svo að þú fylgdist þá með bónda mínum í orrustunni?“

„Vissulega, frú mín góð. Hann óð fram eins og stormur holdi klæddur!“

„En hann sagðist hafa misst sjónar á þér strax og síðan ekki orðið þín var.“

„Það er ekki húsbóndans að hafa auga með þræl sínum heldur þrælsins að gæta húsbónda síns. Ég barðist alltaf ýmist á hlið við hann eða að baki honum.“

Og á meðan ég lét móðan mása og lýsti afrekum Kata þótti mér sárt til þess að hugsa að vera ætlað að tala standandi; drottning hafði þó boðið mér að setjast.

Ég fann enn til í fætinum, sérstaklega ef ég varð að standa eða ganga mikið. Jafnvel enn þann dag í dag þegar veðurbreytingar verða minnir hnéð mig áþreifanlega á orrustuna á Katalánavöllum.

Ég talaði eingöngu um Kata þetta kvöld. Ég gerði mér grein fyrir því að á heimili Kata mundi hann vera það umræðuefni sem mestan áhuga vekti. Frúna þyrsti í að heyra um hann og drengirnir tveir störðu á mig opinmynntir, hugfangnir af frásögninni. En Barákon gamli drap einungis tittlinga og hnyklaði hvítar brýnnar þar sem hann sat við vínkönnuna.

„Að heyra þetta!“ tuldraði hann eitt sinn. „Ég hef nú tekið snaran þátt í fjörtíu og fimm orrustum um ævina en ekki látið fleiri orð um þær falla allar saman fjörtíu og fimm en þessi gapuxi um eina! Allir eiga að heita hetjur nú á dögum! Mönnum nægir að reka sverðsoddinn í einn örmagna óvin og það er orðið efni í heila sögu!“

Drengina tók að syfja. Augu þeirra sliguðust af þreytu. Gamli maðurinn lygndi aftur augunum æ lengur í senn. Einungis frúin og Móeik virtust áfjáðar í að heyra meira.

„Hvíldu þig nú smá stund á frásögninni,“ sagði frúin. „Drengirnir þurfa að komast í háttinn.“ Og hún leiddi þá út með sér.

Ég heyrði óminn af því úr næsta herbergi þegar annar þeirra, Dédes, bað um að fá að fara til baka, en þær fengu talið hann á að fara að sofa: „Djídjía ætlar að segja þér ævintýrið um rauða björninn og álfaprinsinn.“

Gamli maðurinn lognaðist út af. Við Móeik vorum núna ein. Hún setti hönd undir kinn og horfði á mig. Þögnin var aðeins rofin annað slagið af snarki í olíulömpum sem voru þrír og úr silfri. Loks mælti ég:

„Mín ágæta yngismær ... hafið þér ekkert við mig að segja?“

„Þegar móðir mín kemur til baka skaltu segja okkur frá Attílu. Mikið hlýtur það að hafa verið tilkomumikið að sjá hann birtast frammi fyrir hernum með gullhjálminn á höfði... Ó, hve glæsilegur hann hefur verið — eins og guð stiginn niður til jarðar!“

Hún einblíndi fram fyrir sig.

Frúin kom til baka — og ég sagði þeim frá Attílu. Ég lýsti því svo nákvæmlega og í öllum smáatriðum þegar hann hafði birst, að vel hefði mátt ætla að ég væri að lýsa því fyrir málara. Móeik hvíldi olnbogana á borðinu og drakk í sig hvert orð sem ég mælti. Andlit hennar tók á sig rauðleitan blæ í birtunni frá lömpunum. Handleggir hennar voru ávalir eins og á vatnadís í marmaramynd.

 

59.

Attíla kom til baka þrem vikum síðar.

Borgin skrýddist hátíðarbúningi. Greni og furugreinar voru sóttar upp í fjöll á hundruðum kerra og vagna og notaðar til að skreyta götur og tjöld.

Drottningarnar fóru ásamt föruneyti að borgarmörkunum til að fagna konungi.

Fyrstu hersveitirnar birtust upp úr hádegi, það voru Jazýgar og Gotar sem stoltir veifuðu fánum sínum er voru rifnir og tættir eftir örvar og leiddu á eftir sér fjölda þræla. Hve hryggileg sjón það var að virða fyrir sér alla þá ungu menn, ungu konur og stúlkubörn sem var smalað sem í einni hjörð. Þau voru öll brúnhærð og lágvaxin, voru tötrum klædd og öll saman sorgmædd á svip. Á eftir fylgdu Húnar og Gefðar.

Komið var undir kvöld er hornablásturinn gaf til kynna innreið sjálfrar hátignarinnar. Hljóðpípuleikinn mátti heyra langan veg og þyrptust borgarbúar út á götur og stræti, veifandi höttum sínum og slæðum. Fagnaðarópin nær yfirgnæfðu tónlistina.

„Blessaður! Veri hann blessaður!“

Konungurinn heilsaði konum sínum með handsveiflu. Einungis börnin kyssti hann.

Þegar hér var komið sögu riðluðust raðir hermannanna og þeir föðmuðu konur sínar að sér. Sigrihrósandi fengu börnin að halda á bogum og spjótum og skjöldum feðra sinna. Í hverju tjaldi var heimkomu fagnað — og jafnvel hrossin fengu sinn skerf af kossum. Nokkrir þeirra hermanna er höfðu fengið úthlutað sínum skerf af herfanginu strax á leiðinni virtu fyrir sér nýju þrælana sína þar sem þeim hafði verið stillt upp inni í hallargarðinum.

Mér var sagt að standa við hlið drengjanna tveggja, en að sjálfsögðu höfðum við einnig farið út til að taka á móti Kata. Ég var þó sá eini af þjónustufólkinu sem fylgdi fjölskyldunni eftir og hafði af þessu tilefni orðið að klæðast katalánsku flíkunum mínum, en hattinn hafði ég þó orðið að skilja eftir.

Svo sannarlega var undrun Kata mikil er hann sá mig. Hann trúði vart sínum eigin augum.

„Að þú skulir dirfast að birtast mér!“ drundi í honum og hann þóttist bálreiður. „Þú sem ert dauður!“

„Ó, minn kæri herra!“ sagði ég og hneigði mig hæversklega. „Það er aðeins til merkis um trúmennsku mína að ég skuli rísa upp frá dauðum til að fá þjónað yður.“

En það mátti hann eiga að nógu háttvís var hann til að taka í höndina á mér.

Um kvöldið var gríðarlegur erill í borginni, hún ómaði endimarka á milli af miklum dyn og fyrirgangi og ekki síst tónlist. Hvarvetna voru stræti lýst upp með kyndlum. Fólkið safnaðist fagnandi fyrir framan tjöldin í kringum stóra elda og steikum var snúið á teinum. Bragsmiðirnir, ýmist í kór eða hver með sínu nefi, kváðu drápur til dýrðar sigrunum. Belgpípuleikarar úr hópi Kvada létu hvína í hljóðfærum sínum og óspart var blásið í flautur, það var sem borgina þyrsti í tónlist og söng.

Um miðnætti kom Attíla út úr höllinni og reið út á strætin undir fagnandi hljóðfæraleik, í fylgd lífvarða sinna sem lýstu honum braut með kyndlum. Af og til nam hann staðar við tjöld þar sem fjöldinn var mestur og birtan skærust og drakk af hverjum bikar sem að honum var réttur. Hann tók í hendur hinna eldri og reið síðan áfram undir hvellandi blessunarorðum.

Daginn eftir kom síðan meginfylking hersins ásamt vagnlestum yfirfullum af herfangi. Óslitin röð vagnanna virtist engan enda ætla að taka, frá morgni til kvölds bar þá að hvern á eftir öðrum og voru jafnvel enn að koma daginn eftir.

Kati kallaði mig á sinn fund þá um kvöldið. Kona hans og Móeik voru báðar viðstaddar.

Núna er stundin runnin upp, hugsaði ég og barðist við hjartsláttinn. Nú verð ég leystur úr ánauðinni.

Og vissulega ámálgaði hann slíkt við mig.

„Sonur minn,“ sagði hann, „ég veit að þú tókst þátt í orrustunni á Katalánavöllum og eftir fáeina daga munum við kanna afrek þín. En hvað sem því líður þarfnast Attíla þín — það er svo margt sem þarf að gera. Ég hef fært þig honum að gjöf. Þú skalt því taka saman það sem þér heyrir til og gefðu síðan Rústa og Manga-Sag skýrslu.“

Þarna stóð ég og gat hvorki hreyft legg né lið. Það var eins og elding hefði lostið mig. Hvaða gagn var mér í því að vera leystur úr ánauð ef það var til þess eins að vera settur til að þjóna konungi sem skrifari hans?

„Minn ágæti herra,“ kveinaði ég og kastaði mér niður, „lofið mér að tjá yður hve afar þungbært mér veitist að fara frá ykkur...“

„Mér þykir það ekki síður leitt að sjá að baki þér,“ svaraði hann. „Það veit Guð að ég hefði viljað kaupa það dýru verði að láta einhvern annan fara, en um það tjóir ekki að tala. Þrír skrifaranna urðu plágunni að bráð og það er svo mikið starf framundan við að deila út herfanginu.“

Ég varð svo fullur örvæntingar að ég gat mig hvergi hreyft. Engu var líkara en að fætur mínir hefðu gróið fastir. Tárvotum augum horfði ég á Móeik.

Óhagganleg á svip starði hún inn í loga á kerti, djúpt niðursokkin í hugsanir sínar.

 

60.

Á aðalstræti borgarinnar, á torginu og í hallargarði konungs stóðu vagnarnir í löngum röðum, hundruðum og þúsundum saman, hlaðnir herfanginu. Þeim hluta þess sem hross og múldýr höfðu borið í klyfjum hafði verið staflað upp í stærðarinnar bingi fyrir utan aðsetur skrifaranna. Það voru aðallega alls kyns brekán og vefnaðarvara. Okkar hlutverk var að sundurgreina herfangið og færa til bókar. Það var margra vikna verk og leiðigjarnt, að minnsta kosti þeim sem áttu enga kröfu til hlutdeildar í öllum auðæfunum.

Þetta voru mér engar gleðistundir.

Okkur var skipt í tíu hópa og við kepptumst við verk okkar undir hinu víðáttumikla forskyggni í hallargarðinum. Þrælarnir tóku herfangið til og matsmennirnir renndu yfir það augum og mátu. Hið eina sem af okkur var krafist var að gefa hverjum hlut sitt númer og skrá andvirði hans og tók það þó einungis til þess sem þótti sérstaklega verðmætt, til dæmis voru það diskar frá Egyptalandi, silkivarningur ýmis konar, glitvefnaður ofinn og útsaumaður með gulli og silfri, höklar og perlur og hvers kyns skartgripir. Komið var tölu á alla venjulega hluti með því einu að rista strik í stafi — svo og svo mörg brekán og svo og svo margar yfirhafnir eða ilskór, vopn, línklæði, lindar, leðuröskjur, kyrtlar, hettur, kóralgripir, hálshnýti, silkiborðar; svo og svo mikið af þessu, svo og svo mikið af hinu. Hrossin voru metin annars staðar og einnig komið á þau tölu með því að rista í stafi.

Oftast nær var rómversk mynt höfð fyrir gjaldmiðil í löndum Attílu. Því var það að við skráðum allt í solidus-einingum, eða zsoldos, sem svo var nefnd á húnversku, þessi smæsta gullmynt Rómverja.

Þegar allt hafði verið fært til bókar var næsta skref að reikna hvað hverjum og einum bæru margir gullpeningar, til að hægt væri að deila út herfanginu. Herforingjum og fyrirliðum voru ætlaðir tíu hlutir hverjum. Skutilsveinar skyldu fá fimm og hið sama var ekkjum fallinna ætlað. Aðrir hermenn fengu venjulega svo marga hluti sem hausarnir voru margir er þeir höfðu sneitt af. En þar sem enginn bardagi hafði orðið að þessu sinni fékk hver þeirra aðeins einn hlut. Þeir sem höfðu unnið sér eitthvað til frægðar í umsátrinu áttu rétt á að velja sér fyrstir úr hópi hrossa og þræla.

Þrælarnir voru tölusettir og skráðir á sama hátt og annað sem þótti sérstaklega verðmætt. Hinir húnversku tignarmenn tóku þá fanga strax til sín sem voru álitnir göfugrar ættar. Á meðal þeirra var Avzóni frá Napólí sem var málari; hann fékk meira en nóg að gera því allir vildu Húnarnir láta hann mála myndir af hestunum sínum.

Sjaldan hefur mér þó búið eins hlátur í hug og þessa gleðisnauðu daga er við máttum inna af hendi þetta dapurlega verk. Matsmennirnir kórónuðu hverja vitleysuna með annarri. Sem dæmi má nefna þá hrundu úr einum kistlinum ein fjögur hundruð gimsteinavirki þannig gerð að steinarnir voru greyptir í snigilkuðunga.

„Hver fjárinn er nú þetta?“ spurðu þeir hver upp í annan. Og djásnin voru lögð til hliðar sem „hnappasafn, hver fimmtíu stykki einnar sólidu virði“.

Næst hvolfdu þeir úr kassa fullum af leikgrímum og Turzó, yfirmatsmaðurinn, tók upp eina þeirra og kvað upp úr með dóm sinn: „Djöflaandlit til að setja upp í stríði. Gott til að hræða óvininn með. Tíu sólida virði.“

Ég rak upp hlátur og félagar mínir, skrifararnir, tóku undir með mér, enda voru þeir einnig ýmist af rómverskum eða grískum uppruna og vissu mætavel hve lítils virði grímurnar voru.

Turzó gamli gaf okkur illt auga, og skyndilega þreif hann sverð sitt úr slíðrum. „Ormarnir ykkar!“ æpti hann. „Hörundshvítu höggormsafstyrmi! Að þið skulið dirfast að hlæja að mér, hundarnir ykkar!“

Hann mundi hafa ráðist á okkur ef hinir matsmennirnir hefðu ekki haldið aftur af honum.

Einmitt þá, þegar leikurinn stóð sem hæst, birtist Attíla á tröppunum. Hann nam staðar og leit spyrjandi yfir allan hópinn.

„Herra minn,“ mælti Turzó, eldrauður af bræði. „Þessir ónytjungsþrælar! Réttast væri að hengja einn hinum til viðvörunar!“

Enn horfði Attíla á okkur spyrjandi.

Skrifararnir skulfu á beinunum og komu ekki upp orði, en loks tók ég til máls og mælti á latínu:

„Yðar hátign, hér eru nokkur afar verðmæt gimsteinavirki, hvert að minnsta kosti jarðarvirði, en yfirmatsmaðurinn yðar, herra Turzó, kvað þau vera einskisnýta hnappa, og mælti svo fyrir um að við skyldum skrá hver fimmtíu stykki á eina sólidu.“ Ég tók upp hnefafylli af djásnunum og sýndi konungi. „Dæmið sjálfur, yðar hátign. Ég tók þessi af handahófi. Lítið á! Hér sjáum við mynd af Venusi þar sem hún stígur upp úr sælöðrinu. Hugsið yður, hvílík dvergasmíði! Jafnvel löðrið á bárunni er einnig sýnt. Þetta er nokkuð sem mundi sóma sér á hvaða konungskórónu sem væri!“

Attíla tók djásnin og handlék þau. Hann skoðaði þau af nærfærni og sagði síðan kyrrlátri röddu: „Þessi gimsteinavirki skulu geymd í fjárhirslum mínum. En þú — hvað heitir þú?“

„Zeta, herra minn.“

„Þú, Zeta, skalt vera matsmönnunum til aðstoðar við að meta verðmæti sem þessi. Alla sjaldgæfa og fágæta hluti hyggst ég kaupa sjálfur. Og við þig, Turzó, vil ég segja, ef einhver hlær að þér þegar þú reiðist þá skaltu kenna honum mannasiði, jafnvel þótt þú þurfir að beita sverði þínu til þess!“

„Fjárinn hirði alla þessa krunkandi hrafna!“ tautaði gamli maðurinn. „Ég hefði höggvið þá í spað ef ekki hefði verið tekið fram fyrir hendurnar á mér!“

Það tók tímann sinn að róa gamla manninn niður.

„Sjáið til, herra minn Turzó,“ sagði ég, „hvergi á jarðríki fyrirfinnst nokkur sem kann skil á öllu. Þú hefur aldrei séð hluti sem þessa og því gildir einu hve glöggskyggn þú kannt að vera, það hefði ekki staðið í þínu valdi að leggja mat á þá.“

„Rétt er það, vissulega,“ sagði gamli maðurinn, „en ég líð það engum að flissa að mér!“

Daginn eftir rigndi of mikið til að við gætum sinnt starfa okkar. Ég notaði því tækifærið síðdegis og heimsótti fjölskyldu Kata. Ég kannaði vel hvort nokkurs staðar væru merki um hófför eftir hest Móeikar en fann engin.

Hún var heima og lét gera boð eftir mér um að koma upp.

Attíla hafði gefið Kata ambátt í minn stað. Hún var eiginkona tignarmanns frá Mílanó og hafði verið tekin á flótta. Þess var vænst að all álitlegt lausnargjald fengist fyrir hana.

Mér var falið það verkefni að skrifa bréf til fjölskyldu konunnar og gerði það með glöðu geði. Engin skriffæri voru til á heimilinu og varð ég því að senda þræl eftir þeim í skrifarastofuna í höllinni. Á meðan fékk ég mér sæti við dyrnar og velti vöngum yfir hvort mér auðnaðist að eiga orð við Móeik.

Húsbóndinn var ekki heima og ekki heldur húsmóðirin, hún var einhvers staðar í heimsókn með eldri syninum.

Við vorum aðeins þrjú inni í herberginu, og auk þess Djídjía um stund.

Ég byrjaði á því að spyrja hina herleiddu hefðarkonu hvað hún vildi að ég skrifaði.

„Þeir krefjast þriggja hundruða gullpunda í lausnargjald fyrir mig,“ mælti hún grátandi; „en hvernig á eiginmaður minn að geta innt svo mikið af hendi þegar öllum eigum okkar hefur verið rænt? Vínið okkar, hjarðirnar okkar — allt tóku þeir! Þeir skildu ekki svo mikið sem svæfil eftir í húsinu!“

Hún var föl yfirlitum, guggin og grá og snökti látlaust; eins og nú var ástatt fyrir henni var ómögulegt um það að segja hvort hún hefði einhvern tímann verið fögur. Djídjía skildi einnig mál hennar og venjulega var það hún sem túlkaði fyrir öðrum allt sem hún sagði. Konan bjó svo sem ekki við slæmt atlæti hjá fjölskyldunni, enda var ekki ætlast til annars af henni en að sauma flíkur, en þrátt fyrir það héldu tárin stöðugt áfram að streyma.

„Frú mín góð,“ sagði ég og vildi reyna að hughreysta hana, „þakkið Guði fyrir að hafa hafnað hér á þessu heimili. Annars staðar hefðuð þér ef til vill fengið að hírast hjá kúnum eða ala önn fyrir börnum. Gerið þér yður ekki grein fyrir því að yfirleitt er því meira þjarmað að föngum með erfiðri vinnu sem meira er krafist fyrir þá í lausnargjald!“

„Þú tekur málstað þeirra!“ hreytti hún út úr sér. „Ég get ekki viðurkennt neinn sem minn húsbónda, það er andstætt eðli mínu. Húsbóndi minn er aðeins einn, það er eiginmaður minn, og jafnvel honum skipa ég fyrir verkum!“ Og hún hélt áfram að úthúða Húnum og harma missi perlanna sinna.

„Frú mín góð,“ sagði ég og reyndi að róa hana. „Þér sýnið ekki sanngirni, eða hafið þér ekki hugleitt það að auðsæld yðar var ekki síður byggð á herfangi og ránskap en Húna núna, sá einn er munurinn að þið hafið búið að auði ykkar lengur. Eða sölsuðu ekki Grikkir og Rómverjar undir sig völd með sama hætti? Hvað með ránsfarir Alexanders mikla inn í Persíu og Egyptaland og Júlíusar Sesars um Evrópu? Um þessar mundir skín stjarna Húna á himninum, en sannið þér til, hjól tímans verður ekki stöðvað, ríkidæmi Húna á eftir að falla enn öðrum í skaut.“

„Ó, aðeins að þeir hefðu látið perlurnar mínar vera!“ snökti konan. „Að ég skyldi ekki hafa grafið þær!“

Ég gerði mér ljóst að heimspeki sögunnar átti heldur ógreiða leið inn að kvenmannshjarta.

Ég reit bréfið og lagði mig allan fram um að skrifa sem fagurlegasta hönd, því Móeik sat þarna og fylgdist með mér.

Þögnin umlék okkur, aðeins skrjáfið í pennanum lék í eyrum. Þá heyri ég að Móeik spyr, mjúkum rómi og dreymandi: „Hvernig líkar þér að dvelja í höllinni?“

„Þér þurfið varla að spyrja að því, mín kæra yngismær,“ svaraði ég, glaður yfir því að hún skyldi hafa á mig yrt. „Ég er á lífi og það er fyrir öllu. En ég mun aðeins lifa svo lengi sem þér verðið ógift.“

„Þú munt trúlega eiga langt líf fyrir höndum.“

Hvað átti hún við? Dapur svipur hennar var sem hjúpur um hugsanir hennar.

Stuttu síðar tekur hún aftur til máls:

„Sérð þú Attílu oft?“

„Já. Hann meira að segja talaði við mig í gær.“

„Svo! Og um hvað rædduð þið?“

Það lifnaði yfir henni og hún horfði á mig áköf. Ó, þessi hrífandi augu hennar, hve dularfull og undursamleg þau voru...!

Ég sagði henni frá hvað gerst hafði úti undir forskyggninu og klykkti út með að segja að mér fyndist hann hafa elst frá því áður. „Það eru komin grá hár í skeggið. Sannaðu til, mín kæra yngismær, innan fárra ára verður hann orðinn gamall, afar gamall.“

„Svo mun aldrei verða!“ sagði hún og brosti. „Ekki einu sinni þegar hann verður orðinn hvítur fyrir hærum eins og dúfa. Attíla verður ævinlega ungur! Hann er eins og hin grísku goð á gangi út um grundirnar! Hann er eins og — sjáðu þarna á veggtjöldunum okkar — eins og Ares sem stígur niður ofan úr skýjunum og færir sig í herklæði til að berjast! Sérð þú ekki kraftinn sem skín úr augum hans? Þau eru ekki lík neinum öðrum mannlegum augum. Reiðist hann, þá skjálfa laufin á trjánum! Brosi hann, þá hverfa skýin sem dögg fyrir sólu!“

Mig langaði til að segja að á slíkum rigningardegi sem þessum hefði hann mátt brosa æði lengi, en ég þagði. Ég var svo vanur því að heyra Attílu sungið lof. Hann er konungur núna, á morgun ryk, hugsaði ég. Ef engir slíkir sem ég vitnuðu ekki um nafn hans, feykti vindur aldanna honum á brott ásamt öllum dýrðarljómanum.

Upp frá þessu heimsótti ég fjölskyldu Kata næstum því í hverri viku. Hefðarkonan sendi hvert bréfið á fætur öðru heim til sín, til hvers einasta ættingja síns og loks páfans.

Bréfin fóru með erindrekum er voru látlaust á ferðinni fram og til baka. Því sem næst í hverri viku var umboðssveit að koma eða fara. Í eitt skiptið komu þær færandi hendi með lausnargjald fyrir eitthvert tignarmennið, í annað sinn bréf frá keisaranum eða páfa, í annan tíma skattgjöld eða gjafir.

Hið alsjáandi auga Attílu gerði sér brátt glögga grein fyrir því að hve góðum notum mátti hafa mig. Hvenær sem erindreka bar að garði lét hann kalla á mig ekkert síður en Rústa og Konstantínus og sagði mér að túlka, og vildi stundum jafnvel heyra álit mitt. Ekki leið á löngu áður en mér varð ljóst að ég stóð ekki aðeins hinum þrælunum framar heldur einnig að ég var sá er fágætastur mátti heita á meðal hinna frjálsu skrifara.

Mér leið vel þennan tíma. Þrælarnir heilsuðu mér á sama hátt og húsbændum sínum og frjálsu skrifararnir komu fram við mig líkt og þeir væru þrælar en ég frjáls! Allir spáðu mér því að Attíla ætti eftir að veita mér frelsi og auðlegð. Ég yrði ríkur og voldugur líkt og Órusti sem einu sinni hafði verið tötrum klæddur þræll en sprangaði núna um á meðal húnversku hefðarmannanna líkt og páfugl og var hann þó heimskur eins og naut í samanburði við mig.

Það var ætíð að kvöldlagi, þegar ég var laus undan embættisskyldum mínum, sem mér voru gerð boð um að koma til fjölskyldu Kata. Stundum töluðum við saman og ávallt um Attílu — hverjir heimsæktu hann, um hvað væri rætt, hverju hann svaraði. Bæri ég lof á Attílu fylltust augu Móeikar gleði. Eitt sinn er ég var á förum rétti hún mér hönd sína: „Þú mátt kyssa á hana.“

Hefðarkonan veitti því athygli hve mjög mér þótti það ljúft og rétti mér einnig hönd sína göfugleg. „Þú mátt kyssa á hana,“ sagði hún á húnversku.

Við hlógum að þessu þangað til tárin komu fram í augun.

En mér gafst aldrei tækifæri til að tala við Móeik undir fjögur augu. Alltaf var einhver inni í herberginu — móðir hennar eða Djídjía eða einhver önnur þjónustustúlka, eða þá að drengirnir voru að leik í kringum okkur. Ég mátti gera mér það að góðu að fá einungis hlýtt á hljóm raddar hennar og bergt hana augum.

Þegar ég fór var það oftast nær Djídjía sem fylgdi mér niður við lampaljós til að læsa dyrunum á eftir mér. Ég yfirgaf Móeik ætíð með vellíðan fyrir brjósti, því að þegar ég óskaði þeim góðrar nætur kyssti ég á hendur þeirra hverrar af annarri (að hefðarkonunni ógleymdri!) og fól þannig innra með mér hlýjuna af smárri og yndislegri hönd Móeikar. Á leiðinni niður stigann var ég yfirleitt svo utan garna að ég yrti ekki orði á Djídjíu, ég tók varla eftir henni fyrr en hún bauð mér góða nótt.

Eitt sinn sagði hún: „Zeta, þegar þú ferð kyssir þú hendur þeirra allra, en bara snýrð bakinu við mér.“

Rödd hennar var svo harmþrungin að ég brosti til hennar og sagði: „Fyrirgefðu mér, það var alls ekki af ásettu ráði, ég er einungis svo utan við mig.“

Og ég kvaddi hana með handabandi.

 

 

Formáli

kaflar 1 til 10

kaflar 11 til 20

kaflar 21 til 30

kaflar 31 til 40

kaflar 41 til 50

kaflar 51 til 60

kaflar 61 til 65

 

prenta skjal

Rómanza: heim á kvist