< Undir huliðshjálmi

kaflar 61 til 65

 

 

61.

Einu sinni í mánuði, þá er tungl var fullt, hélt Attíla mönnum sínum hóf; þeir tóku með sér konur sínar og dætur, og væru þeir kvæntir fleiri en einni, þá var það konan er hafði alið þeim flest börnin sem með fylgdi.

Þennan vetur fékk ég að taka þátt í hinum fyrsta slíkum fagnaði, ekki þó sem gestur heldur sem túlkur fyrirmanna og stórhöfðingja úr hópi hinna föngnu. Alls voru um sexhundruð manns að þessu boði og þarna sá ég fyrsta sinni allar konur konungsins samankomnar, sem voru eitthvað um tíu að tölu. Honum á hægri hönd sat Ríka drottning, honum á vinstri hönd hans gamli og tryggi vinur Arðrekur konungur, og þannig koll af kolli eftir virðingarröð. Sátu konur gegnt körlum sínum en stúlkur inni á milli gegnt ókvæntum ungum mönnum. Við borðvænginn drottningar megin sátu næst henni gestkomandi kóngar og prinsar í gíslingu.

Konurnar báru skartgripi líkt og við brúðkaup Attílu og klæddust hvítu, en karlarnir margvíslega litu silki, atlaski og flaueli og til fótanna rauðum stígvélum.

Þúsund kertalog spegluðust í diskum úr skíra gulli og silfri. Borðbúnaður Attílu sjálfs var þó aðeins trédiskur og krús. Hann frábað sér allan munað. Dökk klæði hans voru án alls íburðar og ekki skartaði hann fingurgullum frekar en fyrri daginn.

Borðhaldið hófst með ró og spekt og lifnaði þó heldur yfir því að afloknum fyrsta réttinum þegar Attíla lyfti upp trékrús sinni og tók til máls.

„Ég drekk fjölskyldu minni til! Fjölskylda mín er þjóð Húna! Megi[?] við ávallt vera Guði kær!“

Þá risu allir á fætur og drukku konungi til heilla.

Leikin var tónlist undir borðum en þar sem hver tignarmaðurinn á fætur öðrum stóð upp til að mæla fyrir minni einhvers varð hvað eftir annað að gera hlé á hljóðfæraleiknum.

Að afloknum þriðja réttinum var hljóðfæraleiknum hætt og þá kliðaði salurinn af fjörugum en þó kyrrlátum samræðum.

Eins og gefur að skilja hvíldi augnaráð mitt stöðugt á Móeik, sem átti í samræðum við útlenda prinsa er sátu henni til hvorrar handar.

Síðan tóku þjónarnir að bera borðin afsíðis og á meðan gekk unga fólkið um tvennt og þrennt saman og leikin var lágvær tónlist. Og brátt gaf Attíla til kynna að nú skyldi stiginn dans.

Hann var ávallt sá er hóf dansinn, kaus sér þá mey af handahófi án tillits til virðingarstöðu, og að þessu sinni rétti hann hönd sína Móeik.

Gestirnir fóru að dæmi hans og buðu upp nánast eftir því sem hendi var næst.

Húnverskur dans er ólíkur því sem tíðkast víðast hvar í löndum. Hann hefst á hægum og smáum, tignarlegum sporum og fyrst í stað helst dansparið einungis í hendur, en eftir því sem líður á dansinn nálgast það hvort annað og horfist í augu.

Móeik var frá sér numin af gleði og horfði djúpt í augu konungsins, svo mikið fékk ég séð. Hún var full alvöru og hið sama var hann. Ég hafði aldrei fyrr séð fólk dansa af svo mikilli alvöru. Og það verð ég að segja, að þó að Móeik hefði aldrei hrært hjarta mitt þá hefði hún gert það nú sem hún dansaði við Attílu, líkt og væri hún einhver ójarðnesk vera úr draumheimum.

Karlarnir skiptust á dansfélögum við þann sem næstur stóð og nú hafnaði Móeik í höndum Þjóðmars, hershöfðingja Gota, en Attíla bauð hönd sína Hildku, ljóshærðu konungsdótturinni germönsku sem ég hafði séð hjá Ríku drottningu.

Ég hallaði mér upp að súlu í útjaðri salarins og fylgdist með þeim dansa. Það var hrífandi sjón, því að þau virtust ekki aðeins dansa af líkama heldur sál einnig. Þegar Attíla leið hjá veitti ég því athygli að Hildka horfði á hann stórum bláum augum sínum tindrandi af ánægju, og brosandi endurgalt Attíla tillit hennar.

 

62.

Daginn eftir komst sá orðrómur á kreik að þá um morguninn hefði Attíla gert sendiboða út af örkinni til heimkynna Hildku á bökkum Rínarfljóts til að biðja föður hennar um hönd hennar. Að minnsta kosti hafði sveit nokkurra tignarmanna riðið úr garði, þeirra á meðal Kati, Dórog og Orgóvan, þó að enginn vissi fyrir víst hvert ferð þeirra væri heitið.

Ég leiddi lítt hugann að þessu enda hafði ég í nógu að snúast með að rita bréf til hinna ýmsu prinsa er fóru fyrir Sváfum, Rygjum, Saragúrum, Herúlum og þeim öðrum þjóðum og þjóðflokkum er nú höfðu vetursetu á ströndum Adríahafs, þess efnis að þeir skyldu halda án tafar til lágdala Dónár strax og vetur væri úti og bíða Attílu þar; við myndum halda til Miklagarðs með vori.

Markíanus, sá er nú var tekinn við keisaradómi, var breiðnefjaður, gamall hermaður; hann hafði neitað að greiða skatt og við svo búið hafði staðið allt frá því áður en til orrustunnar á Katalánavöllum kom. Hann hafði sent Attílu orð, svohljóðandi: „Gull gef ég vinum mínum einum, öðrum má hart blika stálið.“

Attíla hafði svarað og enn stuttar í spuna: „Hart skal mæta hörðu.“

Þetta hafði þeim farið á milli fyrir um tveimur árum, rétt um það bil sem við vorum að halda af stað vestur. Markíanus hafði þá mátt bíða, en senn var kominn hans vitjunartími.

„Að ári liðnu,“ sagði Attíla, „snæðum við miðdegisverð í höllu Markíanusar. Og skal hann sjálfur fá að þjóna mér til borðs!“

Nú, eins og ég sagði, þá hafði ég í nógu að snúast þennan dag.

Um kvöldið lét hefðarkonan enn senda eftir mér, og þótt ég væri þreyttur orðinn arkaði ég yfir til þeirra með glöðu geði.

Kati var vissulega á brottu. Móeik virtist mér heldur döpur í bragði og móðir hennar dró sig snemma í hlé, þreytt eftir skemmtunina kvöldinu áður.

Móeik sat þó engu að síður áfram hjá okkur.

Ég fór mér hægt og dró bréfaskriftirnar sem mest á langinn, í þeirri von að fá tækifæri til að tala við Móeik.

Mig langaði til að gorta dálítið af velgengni minni og mínum framtíðarhorfum, segja henni frá því að nú áskotnuðust mér einn til tveir gullpeningar á hverjum degi og að skriftarbræður mínir spáðu mér mikilli upphefð. Og víst var það að í Miklagarði yrði mín jafnvel enn frekar þörf og mikilvægi mitt ótvírætt. Og ég myndi berjast við hlið Attílu! Ég endurtók það æ ofan í æ með sjálfum mér, setti mér fyrir hugskotssjónir að ég tæki svo til orða við Móeik: „Ég mun berjast við hlið Attílu!“ Ekki þyrfti að segja henni tvisvar hvað slíkt þýddi: Gull og grænir skógar — metorð og ríkidæmi; og vist á himnum!

Mér leið vel og ég lék við hvern minn fingur í þeirri von að lyftist brúnin á Móeik; ég gerði ráð fyrir að hún væri svo föl og niðurdregin vegna svefnleysis. Ég sagði henni hve mér hefði þótt hún dansa vel og vera glæsilega búin. Á meðan hélt ég áfram að skrifa hefðarmanninum. Ég gat ekki varist brosi þegar kona hans vildi að ég lýsti því hve mjög hún þjáðist, að ef lausnargjaldið bærist ekki innan tíðar myndi hún veslast upp í bágindum sínum...

„Mín kæra frú,“ sagði ég og gat ekki setið á strák mínum, „ég er ekki frá því að þér hafið bætt á yður holdum síðan þér komuð hingað. Eruð þér virkilega að veslast upp?“

„Ég skil ekki hvernig í ósköpunum á því getur staðið,“ svaraði hún og dæsti, „en það er rétt, ég hef veitt því athygli að fötin eru farin að þrengja dálítið að mér.“

Loks lauk ég bréfinu og lét drjúpa á það vax sem hefðarkonan þrýsti síðan fingurgulli sínu í til innsiglunar. Djídjía tók minni lampann og fylgdi konunni til herbergis. Um stund vorum við ein. Móeik lauk upp augum sínum og horfði á mig einkennilegu augnaráði sem vitnaði um þunglyndi, líku og mætti ímynda sér að kona er krypi á aftökupalli sýndi er hún liti upp síðasta sinni áður en hún beygði höfuð sitt undir sverð böðulsins.

Síðan mælti hún:

„Zeta, hvað er hryggilegra en dauðinn?“

Ég gat engu svarað, aðeins starði á hana. Eða hverju var hægt að svara slíkri spurningu? En hún svaraði henni sjálf, horfði stjörfum augum út í loftið og reri í gráðið sem hún mælti:

„Lífið!“

Ég varð orðlaus.

Augu hennar flutu í tárum. Hvað var hún að reyna að segja? Ég gat með engu móti gert mér það í hugarlund, aðeins beið þess að hún kveddi skýrar að orði. Hvað gekk að henni? En þá kom Djídjía til baka og Móeik stóð upp, og án þess að kveðja yfirgaf hún okkur.

Á leiðinni út spurði ég Djídjíu:

„Hvað gengur að ungfrúnni? Hún er svo óskaplega sorgmædd.“

„Það sama og gengur að mér,“ svaraði Djídjía.

„Og hvað gengur að þér?“

„Hver eins og láti sig það máli skipta?“

Svarið hleypti í mig illu blóði. „Hvað er eiginlega um að vera? Nú ert þú líka farin að tala í gátum! Hvað gengur eiginlega að ungfrúnni?“

Hún yppti einungis öxlum og horfði á mig þungt hugsi; ég gat með engu móti fengið hana til að svara. Ég þrammaði heim á leið fullur angistar. Alla nóttina endurómuðu orð Móeikar innra með mér: „Hvað er hryggilegra en dauðinn?“

Skömmu síðar var hefðarkonan leyst úr ánauðinni. Sjálfur bóndi hennar kom eftir henni. Hann leitaði mig upp í skrifarastofunni og spurði mig hve mikið mundi kosta að fá mig lausan.

„Það veit ég ekki, herra minn,“ svaraði ég og yppti öxlum. „Ég hef ekki spurt að því.“

„Það er nú svo,“ sagði hann, „að reynist lausnargjaldið mér ekki ofviða er ég reiðubúinn að kaupa þig lausan og taka þig með mér; ég get orðið þér úti um stöðu við hirðina. Bréfin þín þóttu hreint frábær, jafnvel á meðal menntamannanna. Þú hefur dregið upp svo hjartnæma mynd af konu minni að jafnvel þeir sem minnst þekktu til komust við. Ég vil kaupa þig lausan!“

Þakka yður fyrir,“ svaraði ég af hofmóðugu lítillæti, „en fremur kýs ég að vera þræll hér en mekatarmaður í yðar landi, herra minn!“

Hann horfði á mig steinhissa. Vafalaust hristir hann höfuðið enn þann dag í dag, hverju sinni sem honum verður hugsað til mín.

 

63.

Það voraði snemma þetta ár.

Í lok febrúar voru grundirnar farnar að grænka og húnversku stúlkurnar tóku að skarta fjólum í hári sínu. Boð bárust frá hersveitum bandalagsþjóðanna um að þær væru lagðar af stað til lágdala Dónár til móts við Attílu.

Liðssafnaðurinn var jafnvel enn meiri nú en verið hafði þegar haldið var til vígstöðvanna í vestri. Stjarna Attílu skein skært á himni. Eftir orrustuna á Katalánavöllum velktist enginn Húni í vafa um að veröldin lá fyrir fótum þeirra.

Okkur barst til eyrna að Markíanus væri nú þegar tekinn að óttast um hag sinn og stillti sem óðast strengi sína á ný. Brátt fengi hann að sjá sitt óvænna, hann mætti krjúpa á kné fyrir Attílu og fá honum kórónu sína. Eða átti hann annarra kosta völ? Eins og nú horfði í heiminum virtist sem aðeins einum konungi væri ætlað að ríkja.

Í skrifarastofunni ræddum við um það fram og til baka hvort sá orðrómur væri á rökum reistur að Attíla hygðist flytja sig um set til Miklagarðs. Þar beið marmarahöll ætluð drottnara veraldarinnar og borg á sjávarströnd er hugnast mundi aðli hinnar voldugu húnversku þjóðar.

Nú var einvörðungu beðið brúðkaups, og strax daginn eftir að því loknu mundi Attíla að líkindum leggja upp og taka hina nýju brúði sína með í för.

Vordag einn var brúðkaupið haldið svo sem ráðgert var. Á hádegi veitti prestur blessun sína, bál voru kveikt á aðaltorginu og hvítum hesti fórnað. Ilm af blómum og reykelsi lagði um alla borg. Nauta- og lambasteikur snerust yfir eldum, vínið flaut, tónlistin dunaði og knapar létu hringla í sporum, og við undirleik lúta kváðu bragsmiðirnir við raust.

Attíla bauð tíu hundruðum gesta til hallar sinnar. Veislusalurinn var skreyttur svo sem vera bar. Þung tjöld þöktu veggi og súlur og í hornum hafði verið komið fyrir grískum og rómverskum marmarahöggmyndum af goðum er fyrrum höfðu skreytt borgir og bæi Rómverska keisaradæmisins. En höggmyndir af gyðjum sáust hér hvergi, þær fundu eigi náð fyrir augum Húnanna, og þótti þeim reyndar ekki annað við hæfi en klæða goðin flíkum og fá þeim húnverska hatta til höfuðprýði. Og fyrir miðjum sal hékk útskorin áma í keðju, það var gjöf páfans í Róm og innihélt hið fornasta vín, Lacrimae Christi — tár Krists.

Ég var að sjálfsögðu ekki í veislunni. En ýmis skemmtiatriði voru handa hinum óbreytta almúga; fyrir utan kappreiðar á heræfingasvæðunum voru fjöllistamenn með ýmislegt til skemmtunar, dansað var á línu og gamanleikarar frá Avzón og alanskir hnífakastarar sýndu listir sínar og grískir trúðar tróðu upp. Á torginu fyrir framan höllina reið Tzérkó á sóflskafti og gerði grín að tignarmönnunum.

Mörg gamanatriði hans voru orðin mér kunn en fyrir allflestu fólkinu voru þau ný af nálinni. Það vakti ekki svo litla kátínu þegar hann reigsaði um eins og Eslás með bumbuna út í loftið eða hermdi eftir Kata með því að snúa upp á yfirvararskeggið á sér.

Þegar rökkur féll á var kveikt á ótal kyndlum og blysum víðsvegar um borgina. Manngrúinn safnaðist saman fyrir framan höll Attílu og krafðist þess að fá að líta konung sinn augum. Þá birtist hann á svölum úti ásamt brúði sinni og ætlaði fagnaðarlátunum seint að linna. Karlar veifuðu höttum sínum og konur klútum. Gleðin skein af andliti hvers manns.

Ég sem get svo auðveldlega verið ósnortinn af alls kyns gleðskap, þegar svo ber undir, stóðst ekki mátið þetta kvöld; ég samsamaði mig múgnum, veifaði kyndli og tók undir fagnaðarópin eins og hver annar Húni.

„Attíla lengi lifi! Veri hann blessaður!“

Í mínum augum var hann ekki neinn höfðingi skrælingjaþjóðar lengur heldur sólskin er vekur til lífs, aflgjafi framtíðar minnar, konungur minn að eilífu!

Þegar Attíla var farinn aftur inn hélt fólkið áfram að fagna en nú í minni hópum. Ég fór til húss Kata þar sem ítalskir söngvarar og kvadískir dansarar skemmtu við undirleik bjöllubumba.

Allt þjónustulið Kata var þarna samankomið, þar á meðal Djídjía. Hún stóð framarlega í hópnum við hlið Jonju, böðuð bjarmanum af blysunum. Mig undraði stórum hve falleg hún var.

Þegar ég sá hana fyrst hafði hún aðeins verið dökkleitt, óþroska barn. Núna var hún ljós yfirlitum, rjóð í vöngum en augun dökk eins og tvö svört fiðrildi. Hárið var þykkt og fallegt og vöxturinn ekki síðri. Tillit mitt varaði á henni. Ég trúði vart mínum augum.

Þá veitti Úzúra mér athygli og hóaði á mig. Ég fór yfir til þeirra með glöðu geði.

Ungur og liðugur Kvadi var rétt í þann mund að byrja að stíga blysdans. Hann hoppaði og vatt leikandi létt upp á líkama sinn jafnframt því sem hann óf blysunum í kringum sig líkt og væru það snákar. En hvort sem það hefur nú verið af þessu sérstaka, hátíðlega tilefni eða ekki þá hafði hann verið heldur óspar á hárfeitina; og engum togum skipti, eldurinn náði að læsa sig í hárið og Húnunum til óblandinnar ánægju fékk dansinn afar snöggan og sérstæðan endi.

„Förum eitthvert annað!“ hrópaði Úzúra. Hann þreif undir arminn á Röbu og arkaði af stað með hana í eftirdragi.

„Gerum það!“ tók Ladó undir með honum og greip undir arminn á Jonju.

Djídjía stóð ein eftir handa mér. Hún tók þétt um handlegginn á mér og saman ráfuðum við af stað út í borgarglauminn.

Það var varla nokkurn tímann sem þau áttu kost á því að fara út, vesalingarnir. Þau létu því ekki segja sér það tvisvar, nú sem enginn var heima, að grípa tækifærið og fara út eina kvöldstund.

Við þumlunguðum okkur áfram á meðal bjartra ljósanna og alls þess sem var til skemmtunar, námum staðar hér og þar og fylgdumst með ólgandi fjörinu. Það var hrífandi sjón að sjá hvernig piltarnir fengu stúlkurnar til að vinda upp á líkama sína er þau stigu dansinn.

„Hæ! Hó!“

Söngur barst okkur til eyrna, um leiðangurinn til Ítalíu. Eitt kvæðanna er mér sérstaklega minnisstætt, þar sem segir frá því að á hinum óendanlegu ítölsku sléttum hafi hvergi verið hæð að finna þar sem mætti reisa tjald Attílu.

„Hér skal þó hæð samt vera!“ var sungið í orðastað yfirhershöfðingjans, „Sæki allir húfufylli af mold!“ — og heilt fjall varð til...

Við héldum áfram göngu okkar. Ég varð þess þá allt í einu var að armur Djídjíu skalf í hendi minni.

„Er þér kalt?“ spurði ég hofmannlegur. Vorið var aðeins rétt gengið í garð.

„Nei,“ svaraði hún og leit á mig svo hamingjusöm.

„Hve þú ert falleg, Djídjía!“ sagði ég og einblíndi á hana. „Ég satt best að segja fell í stafi, geri mér grein fyrir því núna!“

Hún roðnaði, brosti og yppti öxlum. „Hverju eins og það skipti hvort ég er falleg?“ hvíslaði hún. „Ekki er mér neitt gagn að því.“

 „Nei, heyrðu mig nú! Ég hef aldrei á ævinni vitað til þess að nokkrum þætti fegurð miður! Eða hefur þú vitað til þess? Skalt ekki vænta minnar samúðar í því sambandi!“

Og sem handleggur hennar hvíldi á mínum veitti ég því athygli að hendur hennar voru ekki síður fallegar.

Við þögðum um hríð.

Ef Móeik væri ekki annars vegar, flaug mér í hug, þá væri þessi stúlka einmitt kjörin handa mér!

En það var aðeins hugdetta. Strax og við vorum komin heim og ég hafði kvatt þau var ég með allan hugann við framtíðarvonirnar er ég ól svo mjög fyrir brjósti — að því skyldi reka að einnig ég hefði ástæðu til að halda hátíð!

Mér varð lítt svefnsamt. Vonir mínar um bjartari framtíð héldu fyrir mér vöku.

Hvers gat ég vænst af Attílu?

Eitt var víst. Hann gæfi mér frelsi. Hverju sinni sem Attíla gekk að eiga nýja brúði leysti hann gjarnan þá úr ánauð sem hann hafði miklar mætur á, til að dagurinn liði þeim aldrei úr minni. Þeir voru þá frjálsir að því að snúa heim til sín ef þeim bauð svo við að horfa, en þeir voru fáir sem það gerðu. Handartakið, sem var frelsinu til vitnis, hafði yfirleitt þau áhrif að leysinginn kaus að dvelja áfram hjá Attílu.

Hvað nú ef mér yrði einungis fengið fagurt sverð í hendur og hattur á hausinn? Nei, að sjálfsögðu yrði ekki látið þar við sitja — ég fengi fallegt tjald og smá skika ásamt hrossum og kúm, auk þjóna. Hann myndi jafnvel orða það við mig að leita mér kvonfangs áður en lagt yrði í herförina. Og þó, varla alveg svo skjótt — en trúlega að förinni lokinni, þegar ég væri orðinn tíu hluta maður og herfanginu yrði deilt út...

Þessar hugsanir ásóttu mig og ég bylti mér á alla kanta í rekkju minni. Þegar ég vaknaði um morguninn hrísluðust um mig blendnar tilfinningar, ég var hamingjusamur og í senn fullur efasemda. Hjarta mitt sló ört eins og í brúði að morgni brúðkaupsdags. Ég klæddi mig og festi gullsporana við þvengskóna, úðaði ilmvatni í hárið og kembdi það.

Léttskýjað var og svali í lofti og fór kólnandi. Enn mátti greina óm af hljómlist sums staðar úr borginni.

Tignarmennina dreif að. Þeir söfnuðust saman á hallarþrepunum undir víðáttumiklu forskyggninu og skröfuðu saman í hálfum hljóðum. Þarna var yfirhershöfðinginn mættur, með bláan floshatt á höfði og sverðið hangandi í slíðrum. Þarna var einnig húsbóndi minn og sneri upp á spannarlangt yfirvararskegg sitt. Þá var Frjálsi Grikki mættur ásamt Barka gamla, og þarna var Órusti og slangur af hinum og þessum fyrirmönnum; Arðrekur kóngur, Börkur, Orgóvan, Dórog, Makki, Káson, Úpor; alls voru þeir um það bil fimmtíu tignarmennirnir sem þarna hnöppuðu sig saman á þrepunum og biðu þess að blásið yrði í horn til merkis um að þeim væri óhætt að ganga í bæinn.

Alls kyns jarmur og baul kvað við í hallargarðinum, frá dýrum sem höfðu verið færð að gjöf í tilefni af brúðkaupinu. Þar gat að líta sjö hvítar kýr með gylltum hornum, sjö hvíta fáka með gylltum hófum, sjö hvít lömb, sjö hvítar geitur, einnig með gylltum hornum, sjö hvít hænsni, sjö hvíta páfugla, sjö hvítar dúfur, sjö hvítar trönur; í stuttu máli sagt, fjöldann allan af hvítum skapnaði þar sem voru sjö af hverri tegund.

Fjórir svefnhöfugir verðir gættu dyranna sem stóðu opnar. Fyrir innan í dimmum ganginum mátti sjá í rauða yfirhöfn foringjans Edékons. Hann hefur að líkindum staðið á verði alla nóttina; og með tilliti til stöðu hans hefur hann að vænta má haft í hyggju að verða fyrstur til að bjóða Attílu góðan dag og óska honum gæfu og gengis.

Frjálsi Grikki gaf sig á tal við mig.

„Jæja, drengur minn, hvað mundir þú setja upp fyrir dag sem þennan?“

„Þótt mér byðust öll veraldargæði er finna má utan landa Húna, léti ég hann ekki falan; nei, ekki þótt mér stæði sjálft Rómaveldi til boða, því að það sem vonir mínar standa til er gjöf sem undir konungi er komin. Og öðlist ég ekki það sem ég vænti mér, þá skal frelsi mitt, allar konungsins gjafir og höfuð mitt að auki vera djöflinum falt fyrir ekkert.“

Frjálsi Grikki hló.

„Ég hef gaman af gátum en þessa get ég ómögulega leyst! Um hvað ertu eiginlega að tala?“

„Sjáðu til, þó að konungur gæfi mér allt sitt gull og sólina og mánann að auki, og þar á ofan fulla sekki af stjörnum himinsins, þá væri mér það allt einskisvirði hjá því sem ég vænti mér af þessum degi.“

Hann hló.

„Enn á ég bágt með að skilja.“

Káson yfirlúðurblásari blandaði sér í hópinn þar sem við stóðum. Hann var svo skrautlega búinn að eftirtektarvert var og augun blóðhlaupin og svefnþrungin. Hann spurði hvort konungurinn væri enn uppi, tók í hendur fáeinna herramannanna og svalg síðan stórum úr vínflösku Kamokka.

„Til hvers kemur þú með lúðurinn?“ spurði Vákur. „Varla leggjum við af stað í dag?“

„Konungur einn það veit,“ svaraði Káson. „Hlýindin eru snemma á ferð þetta árið.“

En hávaði og fyrirgangur yfirgnæfði mál hans. Edékon kom á hlaupum út í átt til okkar á tröppunum, hann var án hjálms síns og var afmyndaður í framan af angist. Hann var svo miður sín að hann átti bágt með að gera sig skiljanlegan við lífverðina.

„Sækið yfirhershöfðingjann!“ ... Rödd hans skalf og hann baðaði út höndum. „Yfirhershöfðingjann! ... Hlaupið til hans! ... Og æðstaprestinn! ... Alla læknana! ...“

Við vorum agndofa.

Yfirhershöfðinginn stóð beint fyrir framan hann í einum hópnum en Edékon var svo ringlaður að hann tók ekki eftir honum.

„Hvað hefur gerst?“ spurðu menn hver upp í annan nær orðlausir.

Edékon lét hallast að veggnum eins og drukkinn væri. Tár streymdu úr augum hans og hann barði krepptum hnúum í höfuð sér.

„Við erum búnir að vera!“ hrópaði hann. Blóðið fraus okkur í æðum.

Yfirhershöfðinginn þreif í axlir hans.

„Ég er hér! Hvað í ósköpunum hefur gerst?“

„Hann er dáinn!“ Orðin hrutu honum af vör svo geigvænlegri röddu að engu var líkara en hjarta hans hefði brostið.

Það var sem eldingu hefði lostið niður. Enginn mátti mæla, enginn dirfðist að spyrja hver látinn væri. Svo auðsætt var hvað bjó að baki þessum óhugnanlegu tíðindum að okkur hraus hugur við því.

Loks bærði yfirhershöfðinginn varirnar.

„Drepinn...“ mælti hann martraðarkenndum rómi.

„Ég veit það ekki,“ svaraði Edékon. „Konan æpti upp yfir sig og ég hljóp inn í hendingskasti. Þar lá ... Attíla ... á bakinu ... og ég mælti til hans: „Herra minn...!“ Og ég hristi hann...“

Edékon lét enn hallast upp að veggnum og nú snökti hann.

Við héldum af stað, eins og svefngenglar, án þess að mæla orð af vörum; olnboguðum okkur hver innan um annan gegnum dyrnar og eftir dimmum ganginum og upp stigann upp á hæðina þar sem var svefnherbergi Attílu. Hreyfingar okkar voru svo ósjálfráðar og hljóðlátar að engu var líkara en við værum þátttakendur í hryllingsdraumi. Engar eiginlegar dyr voru á herberginu, aðeins þykk, blá, gólfsíð silkitjöld lokuðu það af.

Tignarmennirnir þyrptust inn og barst ég þangað með þeim. Skjálfandi kraup Hildka á hnjánum í einu dimmu horni herbergisins. Hár hennar var úfið og hún grét. Hún hafði um sig blæju. Attíla lá á bakinu í rúminu sem var stórt um sig og úr valhnotu. Hann hafði ábreiðslu yfir sér að brjósti. Hann var gulur eins og leir og alveg hreyfingarlaus. Mér sýndist ég sjá blóð í kringum munninn sem var hálfopinn.

„Herra!“ hvíslaði Makki skjálfraddaður.

„Herra minn!“ veinaði yfirhershöfðinginn sem hann tók um axlir Attílu og hristi hann.

„Hann er dáinn! Hann er dáinn!“ hvísluðu þeir allt í kringum mig stjarfir af skelfingu.

„Þeir hafa drepið hann! Eitrað fyrir honum!“ hrópaði Barki gamli. Hann þreif í hárið á Hildku eins og hún væri dýr. „Þú drapst hann!“

Konan æpti upp yfir sig og bandaði honum frá sér, fól þá andlit sitt afmyndað af skelfingu í höndum sér. Hún hafði ekki skilið hvað hann mælti en nötraði og skalf undan óhemjulegri röddinni.

Barki hristi einnig konunginn og hrópaði „Attíla!“ eins og sorgmæddur faðir á gamalsaldri, „Attíla!“

Hendur konungs hvíldu á ábreiðunni. Gamli maðurinn tók um þær og lagði þær síðan frá sér aftur, hann kraup á kné og grét sáran.

„Hann er dáinn!“

Allir voru með tárvotar kinnar. Hershöfðinginn sneri sér snöktandi að vegg.

„Ó, minn ágæti herra! Minn ágæti konungur!“

„Það er úti um okkur!“ hrópaði einhver.

Nokkrir krupu á kné, nokkrir létu fallast á rúmið. Allir kveinuðu og stundu sáran.

Ég barðist við tárin og yfirgaf herbergið. Fölleitt, kveinandi fólk var á sveimi í hallargöngunum. Ég lét berast undan þrengslunum inn í horn þaðan sem stiginn upp í hallarturninn lá og fetaði mig loks upp í turninn til að anda að mér fersku lofti.

Allt var enn með kyrrum kjörum í nágrenni hallarinnar en ómur af tónlist barst til eyrna úr borginni. Sólin var að brjótast fram úr skýjum og varpaði ljóma á tjaldspírurnar og koparþök hallarbygginganna.

Knapar riðu á stökki í allar áttir frá höllinni og brátt hljóðnaði tónlistin nær og fjær. Drungaleg kyrrð lagðist yfir.

Skömmu síðar tók fólk að drífa að höllinni — karlar á hestbaki og konur og börn hlaupandi með þeim við fót. Æ fleiri dreif að þangað til höllin var umsetin þéttum múg. Húsbændur og þrælar, karlar og konur mjökuðu sér hvert um annað þvert inn um hallarhliðin; loftið var þrungið háværum kliði mannmergðarinnar.

Mér þótti sem himinn og jörð væru að farast. Andblærinn var kæfandi líkt og stormur væri í aðsigi. Ég hefði helst kosið að geta riðið út úr borginni og lokað augum og eyrum fyrir því sem gerst hafði.

Þegar ég kom niður stöðvuðu verðirnir mig. Þeir höfðu lokað af gangveginn út. Á sama augnabliki kom Ríka drottning á hlaupum, hún æpti og reif í hár sér og stefndi til herbergis Attílu.

„Hann hefur verið drepinn!“ æpti hún hástöfum. „Myrtur!“

Fast á hæla henni fylgdi Alöður prins, með höfuð álútt og hattinn í höndum sér. Hann var náfölur, því sem næst hvítur ámóta og veggirnir.

Síðan komu aðrar konur konungsins og börn.

„Ég fæ ekki afborið að hlýða á þessa hræðilegu kveinstafi!“ mælti ég til Balössu, eins af lífvörðunum. „Hleyptu mér út!“

„Hver gæti hafa myrt hann?“ spurði vörðurinn með tárin í augunum. „Hér er enginn — enginn nema við.“

Nú komu hinir lærðu menn, fræðarar og læknar. Alls staðar kvað við að Attíla hefði verið myrtur og að undirlagi grísku hirðarinnar. Allir voru gripnir ákafri reiði og örvæntingu. Stundarfjórðungi síðar birtust læknarnir á ný og kváðu upp úr með að sár væru hvergi að finna á líkama konungs; hann hefði látið líf sitt með nákvæmlega sama hætti og Búda.

Þetta var tilkynnt með formlegum hætti fyrir utan höllina. Hávær, angurblandinn kliður fór um mannmergðina.

Tignarmennirnir voru nú komnir út undir forskyggnið, hver öðrum angurmóðari. Kati þreif til rýtings síns og skar föt sín í tætlur, brá honum einnig á andlit sitt svo að blóð lagaði af. Hann kveinaði hástöfum, kraup niður og féll síðan um koll.

„Þetta eru endalok alls! Jafnvel Guð er oss glataður!“

Káson hugðist styðja hann á fætur en þá var komið með spjótið út — gullið spjót Attílu, vafið inn í svartan flóka. Það skyldi sett upp á hinn efsta turn hallarinnar.

Káson sneri frá, leysti þó fyrst fallega fílabeinshornið sitt af hálsi sér og barði því af öllu afli utan í súlu svo að það brotnaði í mél.

 

64.

Síðdegis hafði Attílu verið komið fyrir á háum líkpalli á aðaltorginu. Tjaldhiminn úr svörtu silki skreyttu stjörnum úr silfri var yfir pallinum. Hliðar tjaldsins voru dregnar upp til að allir mættu líta hann augum.

Æðstuprestarnir fórnuðu svörtum hesti við hlið líkpallsins og Kama hinn blindi leitaði ráða hjá framliðnum sálum Húna um hvernig staðið skyldi að útför konungsins.

„Búið honum þrefalda kistu,“ var svarið. „Hin fyrsta skal gerð úr gulli, líkt og sólskinið, því að hann var sól Húna. Hin næsta skal gerð úr silfri, líkt og hali halastjörnu, því að hann var halastjarna heimsins. Hina þriðju skal gera úr stáli, því að hann var sterkur sem stál.“

Á meðan líkkisturnar voru búnar til urðu tignarmennirnir að komast að niðurstöðu um hvar skyldi taka Attílu gröf. Þeir vöktu næturlangt og ræddu það mál. Þar sem Húnar voru í eðli sínu þjóð á faraldsfæti gat vel farið svo að arftaki krúnunnar tæki sig upp og settist annars staðar að með fólkið sitt, líkt og býflugur eiga til að sveima frá einum stað til annars. Þá var sá möguleiki fyrir hendi að ræningjar af stofni einhverrra hinna mörgu undirokuðu þjóða afréðu að taka gullkistuna traustataki. Ellegar að einhvern tímann um ókomnar aldir risi upp önnur voldug þjóð sem léti grafa líkið og vanhelgaði það.

Kama gamli leysti úr þessu vandamáli að höfðu samráði við hið himneska ráð.

„Árhólmar og litlar eyjar eru víða í Tísjuá. Veljið slíkan stað þar sem áin kvíslast og veitið vatninu úr hinum minni farvegi í hinn meiri. Grafið gröfina afar djúpt niður í þurran jarðveginn og víkkið jafnframt farveginn svo að hann verði nú hinn meiri. Þegar konungur verður kominn í gröf sína þá látið vatnið flæða á ný. Er tímar líða mun minningin fölna og leðja hjúpa kistuna — þá mun enginn vita hvar er gröf Attílu.“

Strax næsta morgun voru hundrað þúsund rekur og pálar á lofti. Stíflugarður úr pokum fullum af jarðvegi var settur fyrir einn ál Tísjuár þar sem hún kvíslaðist um litla eyju. Að kvöldi sama dags var gröfin tekin og höfð svo djúp að engin von væri til þess að hún fyndist á ný.

Blómum og laufi var sáldrað yfir farveginn.

Á þriðja degi var lokið gerð hinnar þreföldu kistu. Síðasta sinni var líki konungs lyft upp til að allir fengju séð hann að lokum. Og á meðan fólkið kveinaði yfir líkinu var það lagt í gullkistuna ásamt sverði, boga og spjótinu gullna. Hjálmurinn sem konungur hafði ávallt borið í orrustum var settur á höfuð honum.

Nóttina fyrir jarðarförina bar nokkuð til sem ég átti ekki von á. Hálf sljór og dofinn hélt ég ásamt fleirum vöku yfir líkinu og hlýddi tómlátum huga á bænir fræðaranna. Þá snertir einhver öxl mína. Ég sneri mér við og sá að það var Djídjía.

„Hvað viltu?“

„Komdu!“ segir hún.

Það eina sem mér datt í hug var að hún hefði einhver skilaboð frá Móeik að færa mér. Tregur til eins og dauðyfli lét ég til leiðast. Við mjökuðum okkur gegnum þyrpinguna inn í hallargarðinn. Hann var auður og yfirgefinn. Hún dró mig afsíðis að vegg þar sem mest var skuggsýnið og tekur að mæla til mín dulum rómi.

„Ég bið þig, farðu ekki í jarðarförina.“

Það olli mér hugarkvöl að angan af ilmvatni Móeikar lagði af henni.

„Hvers vegna ekki?“

„Af því ég bið þig. Grátbæni þig! Gerðu það fyrir mig, farðu ekki!“

„En hvers vegna ekki? Segðu mér það!“

„Ég fékk hræðilega martröð í nótt sem leið. Mig dreymdi að Attíla færi ríðandi um skýin. Honum fylgdi dálítill hópur manna. Hestarnir voru blóði drifnir og það voru mennirnir líka... Þú varst meðal þeirra.“

„Það var og! Og farðu fjandans til!“ hreytti ég út úr mér.

Hún kraup niður og lukti handleggjum sínum um fætur mér líkt og bónbjargarmaður.

„Zeta, farðu ekki! Ég bið þig! Ég bið þig einskis annars! Einu sinni stóð ég í þeirri trú að ég mætti biðjast fleira af þér. Þú vildir mér vel og varst mér góður og eitt sinn lét ég rós falla til þín ofan úr glugga. Þú tókst rósina upp og kysstir hana. Mér fannst þá að þessi rós væri hjarta mitt...“

Blóðið steig mér til höfuðs.

„Það varst þá þú sem gafst mér rósina?“

„Ertu mér reiður fyrir það? Var það rangt af mér? Ef svo er þykir mér það leitt. Fyrirgefðu mér! Ég skal aldrei framar leggja stein í götu þína! Ég bið þig, farðu ekki í jarðarförina!“

Mig langaði mest til að gefa henni ærlegt spark, troða hana undir fótum mér; svo mjög þótti mér misboðið! En jafnvel áður en af mér bráði laust mig öllu mildari hugsun sem hélt aftur af mér: Stúlkukindin hafði ekki vitað hvað hún var að gera!

„Vertu róleg,“ sagði ég. „Mig hefur líka dreymt ýmislegt — og það ólíkt skemmtilegra máttu vita.“

Og ég skildi hana þar eftir eina.

Um hádegisbil fór önuglyndur lífvörður um með lista yfir nöfn manna er skyldu halda sig inni í herbergjum sínum þangað til kæmi að útförinni. Þetta voru nöfn um fjörtíu manna rist á grein, þar á meðal var mitt og þriggja skrifara sem bjuggu með mér.

Stundu seinna kom Mangi-Sag til herbergis okkar. Tveir fræðarar enn á námsstigi voru með honum í för, hafði annar fatnað meðferðis, hinn blys.

Heldur myrkur í máli gaf Mangi-Sag okkur fyrirskipanir: „Mínir menn, klæðist þessum kuflum þegar útförin hefst. Þið eigið að ganga fram í röð við hlið hestanna. Zeta, þú verður fremstur. Þegar líkkistan verður tekin af vagninum og látin síga niður á botn Tísjuár skulið þið öll sem kuflum verðið búin kasta ykkur til jarðar í kringum gröfina. Ég mun gefa ykkur merki með horninu mínu. Verið kyrrir þannig þangað til útfararsálmarnir hafa verið sungnir!“

„Skal gert, herra minn!“

Hann fór.

Við skoðuðum klæðin. Þetta voru serkir úr þunnum, svörtum flóka, sumir hælsíðir, aðrir náðu rétt niður að hnjám. Þeir voru víðir en aðeins með opum fyrir augu og hendur.

Stuttu eftir að Mangi-Sag var farinn kom kona í dyrnar, klædd sorgarbúningi; það var Móeik. Hún virti fyrir sér félaga mína þrælana og sagði þeim skipandi röddu að láta okkur ein. Þeir hlýddu.

Mig rak í rogastans við að sjá hana. Hún var eins og marmaralíkneski í sorgarkjól. Svöl heiðríkja ríkti yfir svip hennar en augntillitið var jökulkalt.

„Ég sé að þér hefur nú þegar verið úthlutaður sorgarkufl, Zeta,“ sagði hún þurri, hljóðlátri röddu.

„Já, við fengum þá afhenta núna áðan.“

„Ég er komin til að biðja þig um dálítið. Ég veit að þú vilt gera hvað sem er mín vegna. Þegar að því kemur að fara skaltu búa þig. En dokaðu aðeins við þangað til félagar þínir eru farnir út úr herberginu. Og bíður mín hér.“

Hún lyfti fingri og hvíslaði enn lægri röddu: „Bíður mín hér.“

Ég fylgdi henni að útidyrunum en sagði ekkert. Ég vogaði mér það ekki. Núna höfðu allir í höllinni klæðst svörtu. Svörtu hestarnir voru einnig til reiðu.

Ég fór til baka og velti vöngum. Mér var það hulin ráðgáta hvað Móeik gekk til. Gat verið að Djídjía hefði einnig talað við hana? Hve náföl hún hafði verið! Og hreyfingarnar vélrænar! Flestir voru orðnir rauðir til augnanna eftir það sem á undan hafði gengið, en ekki hún; en djúpbláir baugar gerðu augnaráð hennar villt og drungalegt.

Um fjögurleytið síðdegis hófst lúðrablástur, svo magnþrunginn harmaslagur að jafnvel konungshöllin nötraði. Við færðum okkur í sorgarkuflana og héldum af stað.

Er við nálguðumst útidyrnar hnippti ég í félaga minn þann sem næstur mér var.

„Ég gleymdi mittislindanum. Þið haldið áfram!“

Ég hafði ekki lengi beðið þegar dyrnar opnast og Móeik birtist.

Hún hikaði og horfði á mig. „Ert þetta þú?“

„Já, það er ég. Hvað hyggstu fyrir?“

„Taktu af þér kuflinn og hjálpaðu mér í hann! Vertu fljótur!“

Hún þreif af sér slæðuna og henti henni á gólfið, síðan prjóninn úr hárinu og henti honum út í horn; hár hennar féll nú laust. Hún var núna föl sem hvítamjöll og varir hennar því sem næst bláar.

„Mín kæra yngismær!“ hvísla ég og var órótt.

„Segðu ekkert! Ekki orð!“

„En mín kæra yngismær...“

Ég var þá kominn úr kuflinum og hélt á honum undir hendinni en jökulkalt augnaráð hennar skelfdi mig.

„Hjálpaðu mér í hann!“ hvíslar hún.

„En mín kæra —“

„Elskar þú mig?“

„Ó, Guð minn...“

„Hjálpaðu mér þá í kuflinn! ... Bíddu annars andartak ... Kysstu mig ... Þú átt það skilið ... Ég veit hve þú hefur þjáðst! ... Ég veit það, ég veit hvernig það er...“

Hún beindi til mín fölum vörum sínum. Hvort ég hefði ekki átt að fá notið þessarar stundar til fullnustu! En varir hennar voru kaldar — engu líkara en að ég kyssti ná.

„Spyrðu einskis,“ hvíslaði hún. „Segðu ekki orð!“

Ég spurði því einskis, en sem ég hjálpaði henni í kuflinn fann ég til ógleði. Hrollur fór um mig.

Og hún hvarf líkt og skuggi en ég varð eftir í herberginu.

Ég hlaut að hafa breytt svo sem hún æskti, einfaldlega af því að það var bón hennar. Ég hefði látið mig falla ofan í brunn hefði hún æskt þess. Af því að orð hennar voru mér sem lög.

Engu að síður þótti mér það í meira lagi undarlegt að hún skyldi vilja fara í minn stað í blysförina. Mér fannst það óskiljanlegt.

Fyrir utan var tekið að kveða sorgarsálma. Harmakveinin urðu líkt og hluti af söngnum og ákalli prestanna til guðs síns. Ég hélt kyrru fyrir í herberginu með döprum hugsununum sem á mig leituðu.

Hvers vegna vildi hún fara í minn stað? Víst eiga konur oft til að vera viðkvæmar; gat eitthvað hafa sært Móeik svo djúpt? Hafði henni ef til vill verið úthlutað virðingarsæti við athöfnina er henni þótti sér ekki samboðið? Eða var það ef til vill sprottið af einhvers konar föðurlandsást að hún kaus að sýna tilfinningar sínar til hins látna konungs á þennan hátt?

Rétt sem snöggvast laust mig sú hugsun að ég gæti átt yfir höfði mér dauðadóm fyrir að óhlýðnast skipunum. En orð Móeikar voru mér lög. Ég tók slæðutjásurnar upp af gólfinu og faldi þær í kistlinum mínum. Hið sama gerði ég við hárprjóninn og hugðist skila henni hvorutveggja daginn eftir.

Þegar ég kom út úr höllinni stóð Gyrðir fræðari við hlið kistunnar. Þeir prestarnir voru allir sveipaðir stórum, hvítum guðvef, ötuðum blóði, og höfuð þeirra nauðrökuð og alsett blóðugum sárum. Blindi öldungurinn Kama stóð við höfðalag kistunnar og beindi ásjónu til himins. Gyrðir fræðari sneri sér mót þéttskipaðri mannmergðinni. Steinhljótt og sorgmætt hlýddi fólkið á er hann tók að mæla í orðastað Attílu. Hann tónaði djúpri röddu kveðju konungsins:

 

Aldrei hefur ástsælli konung í heiminn borið en mig. Samt verð ég að segja skilið við þjóð mína trúu og dyggu!

 

Lágur, ekkaþrunginn kliður fór um mannfjöldann. Alls staðar blikaði á tár.

Fræðarinn hélt áfram:

 

Oft ég kannaði valinn,

en aldrei mætti dauðans augliti;

svikull hann tók mig í svefni,

er ég hvíldi við brjóst brúðar minnar.

Blessi þig Guð, Ríka, vertu sæl,

draumur minn í stríði, hjálpræði heima,

apaldur gullepla minna tveggja,

dapra blóm í konungsgarði.

 

Drottningin fórnaði höndum og rak upp nístandi vein. Hún kastaði sér yfir kistuna. Svartklæddir konungssynirnir Eitíla og Alöður krupu niður og grétu sáran.

Fræðarinn hélt áfram:

 

Ég mæli til þín, Eitíla,

blómið mitt kærasta, alla lífdaga.

Aldrei framar brosir þú við mér,

aldrei framar segir þú: Faðir minn.

En þegar vandræði hrjá þig,

þá horf þú til himna; elding blossar.

Því vita skaltu, minn kæri,

faðir þinn er þar, sálin.

 

Fólkið grét og samhryggðist konungsfjölskyldunni. Fræðarinn mælti fram kveðjur Attílu til hvers sona sinna; til Alöðs, til Ernaks, til Ellaks, til Dengiziks; þá til yfirhershöfðingjans og annarra tignarmanna og til konunga er höfðu verið honum hollir, og loks áminnti hann þjóð sína um að lifa í sátt og samlyndi. Skilnaðarkveðjunni lauk með þessum orðum:

 

Blessi þig Guð, fósturjörð,

land Tísjuár, land Maróár,

eilífa land minnar hugprúðu þjóðar.

Nú hverfur nár í jarðarskaut,

en sál mín í nótt stekkur

til himna, til stjarnanna!

 

Íddar gamli tók sér stöðu við hlið kistunnar og hóf að leiða harmatölur fólksins eintóna röddu.

„Ó, glötuð erum við! Sól vor er fallin af himnum. Vor fallega sól fallin úr hæstu hæðum!“

„Sól vor er fallin!“ grét fólkið saman í kór.

„Hví hefur þú yfirgefið oss, Attíla! Hvar annars staðar mundir þú vera elskaður meira en hér? Hvergi er völ á stað betri! Hví hefur þú yfirgefið oss, Attíla?“

Fólkið hafði upp síðustu orð fræðarans eftir honum, það grét sáran og karlarnir létu ekki af að rista sig til blóðs í framan með hnífum sínum, þannig að tár og blóð löguðust saman; því að ekki varð Attíla syrgður með einum saman söltum tárum.

Íddar hélt áfram:

„Ætíð þá er þín konunglega mynd birtist oss, slógu hjörtu vor ört af gleði. Hvert einasta sverð nötraði í slíðrum. Það var sem okkur brynni eldur í æðum. Mæður hófu börn sín á loft og sögðu: Sjá, þar fer Attíla!“

Og hann hélt áfram að leiða harmatölur fólksins.

„Attíla! Attíla! Þú varst gleði vor. Aldrei fyrr vorum við gagntekin slíkri gleði. Nú erum við þrúguð af sorg, slíkri sem við höfum aldrei fyrr fundið til. Nafn þitt vakti stolt með oss, lýsti oss sem skínandi viti fram veginn. Nú er nafn þitt tákn auðmýktar vorrar, veldur oss hinum sárasta trega.“ Rödd hans brast og hann titraði af geðshræringu. „Konungar hafa verið við lýði og haldið nafni sínu hátt, verið frægir og voldugir — en konungar sem þú, Attíla — nei, enga jafnoka áttir þú!“

„En konungar sem þú ... nei, enga jafnoka áttir þú!“ endurtók harmi slegið fólkið þúsundum saman.

„Og konungar munu koma, konungar fara, en aldrei neinn þér líkur!“

„En aldrei neinn þér líkur!“ endurtók mannsöfnuðurinn.

„Nafn þitt lýsti fram veginn líkt og sól á morgni eftir dimma nótt. Hví hvolfir þú yfir oss myrkrinu á ný, Attíla? Hnígandi sólin hverfur með ljóma sínum, þú sviptir oss Húna allri dýrð!“

„Við Húnar erum glataðir!“ hrópaði yfirhershöfðinginn.

Fólkið endurtók orð hans með háværum kveinstöfum og stund leið áður en fræðarinn komst aftur að.

„Hvernig gast þú yfirgefið her þinn, þann öflugasta er hér á jörð hefur stigið? Hvernig má sverð Guðs hafa fallið úr hendi þér? Ó, hví hefur þú svipt þjóð þína handleiðslu föður?“

Fræðarinn bugaðist, mannsöfnuðurinn missti gjörsamlega stjórn á sér. Með andlitin blóði drifin ristu menn nú handleggi sína og brjóst. Yfirhershöfðinginn stakk rýtingi sínum á kaf í vinstri handlegg sér. Konur féllu í yfirlið. Arðrekur gamli kóngur riðaði og féll síðan niður við hlið kistunnar.

Fræðararnir lyftu kistunni upp á líkvagninn og tólf svartir hestar drógu hann af stað í átt til Tísjuár.

Á undan líkfylgdinni fór Eldingur, uppáhaldshestur Attílu, hulinn svartri blæju í bak og fyrir. Hann var leiddur undir fullum reiðtygjum. Fjórtán konungar allir með kórónur á höfði fylgdu honum eftir fót fyrir fót, þeir einnig búnir svörtu. Síðan komu prestarnir, sumir í hvítu, aðrir í svörtu, um það bil hundrað að tölu. Þeim fylgdi heill her ungra drengja er sungu húnverska útfararsálma við angurværan undirleik hljóðpípna. Hljómurinn nísti mann inn að beini. Hvorki fyrr né síðar hef ég heyrt nokkuð þessu líkt í öðrum löndum.

Fjölskyldan fór gangandi á eftir kistunni, allar drottningar konungs og synir hans, og síðan tignarmenn og höfðingjar, hver og einn berhöfðaður og í rifnum klæðum. Beggja vegna fylgdu lífverðir konungs. Hjálmar þeirra voru huldir svörtum blæjum og einkennisbúningar þeirra héngu utan á þeim rifnir og tættir. Þeir voru óþekkjanlegir á að líta fyrir blóðinu sem lagaði framan úr þeim. Trumbusláttur hófst og hneig undir reglubundnum hætti.

Það var hræðileg sjón að virða fyrir sér alla hersinguna. Þarna voru meðal annarra Gefðar, Saragúrar og Úgúrar; í stuttu máli sagt menn af öllum þjóðum og ættbálkum er ekki höfðu átt um lengri veg að fara en þrjár dagleiðir. Þeir fylgdu ríðandi á eftir í endalausum fylkingum og héldu uppi fánum líkt og þeir væru á leið í stríð. En núna var hver og einn búinn einhverju svörtu og léði það þeim afar þungbúið yfirbragð.

Ég kom auga á hópinn í sorgarkuflunum þar sem hann gekk við hlið lífvarðanna. Mér flaug í hug hvort ekki væri réttast að ég þrengdi mér í gegnum mergðina og leitaði Móeik uppi til að fá að minnsta kosti varnað því að hún færi sér að voða í þessari örtröð. Árangurslaust reyndi ég að koma auga á hana. Þó að þau væru ekki svo ýkja fjarri var ekki nokkur leið að ætla sér að þekkja þau í sundur í svörtum kuflunum. Einhvers staðar á meðal þeirra var hún; ef til vill finn ég hana ef mér tekst að komast til þeirra, hugsaði ég. Enginn var með svo fallegar hendur sem hún; ég hefði þekkt þær á augabragði úr hundruðum.

Ég varð að fara til baka eftir kyndli. Innan stundar yrði orðið almyrkt. Allir báru kyndla. Attíla var jarðaður í náttmyrkri til að legstaður hans mætti týnast sjónum manna um alla eilífð.

Ég sneri því aftur til hallarinnar sem nú stóð auð og yfirgefin. Fyrr um daginn hafði ég séð kyndla í hrauk á stærð við heysátu í hallargarðinum. En nú var ekki einn einasti eftir. Ekki lúkufylli af stráum, hvað þá meir.

Á meðan hafði líkfylgdin þokast svo áleiðis að þegar ég kom til móts við hana var ég staddur á meðal hins óbreytta almúga. Það bar engan árangur þótt ég reyndi að þröngva mér framar. Fólkið fylgdi svo þétt á eftir tignarliðinu að ekki var nokkur leið að komast í gegn.

Um það bil sem við komum út fyrir borgarmörkin glitruðu stafir hnígandi sólar í skýjum. Brátt blasti mógul Tísjuá við okkur. Ég var orðinn svo þreyttur á atganginum í mannþrönginni að ég dró mig í hlé undir gamalli ösp og hugðist bíða á meðan mesti skarinn færi hjá. Síðan afréð ég að fara ekki lengra. Ég bæri ekki annað úr býtum en enn meiri troðning og hark. Úr því sem komið var auðnaðist mér varla að komast í námundan við lífverðina, hvað þá að sjá kistu Attílu lagða í gröf.

Ég klifraði upp í tréð og fylgdist þaðan með líkfylgdinni. Enginn veitti mér athygli og ég fikraði mig enn hærra. Núna blasti eyjan við mér og stífluð árkvíslin. Vatnið flóði yfir bakka hinnar kvíslarinnar og færði aðliggjandi akra og engi á kaf.

Sólin var sest og kveikt var á hverjum kyndlinum á eftir öðrum. Engu var líkara en milljón blys lýstu upp myrkrið en tungl og stjörnur sáust hvergi. Það hefði mátt ætla að allar stjörnur himinsins hefðu hnigið til jarðar til að fá fylgt Attílu til hinstu hvílu.

Nú var líkfylgdin öll á áfangastað. Allir voru farnir framhjá trénu og höfðu safnast saman á árbakkanum. Harmatölurnar bárust til mín úr fjarskanum ásamt holum, niðandi trumbuslættinum. Þá lagðist þögn yfir um hríð. Ef til vill voru fræðararnir að þylja bænir sínar.

Ég klifraði niður úr trénu og slóst í för með náungum sem leiddu á eftir sér hesta handa drottningunum og tignarmönnunum til að ríða á til baka. Um það bil sem við komum að ánni gáfu hornin til kynna að athöfnin væri á enda.

Góða nótt, Attíla! Sof vel!“

Um leið barst okkur hávaði til eyrna úr fjarska, engu líkara en að úrhellisrigning væri að bresta á. Stíflan hafði verið rofin. Vatnið flæddi nú í átt til legstaðarins.

Blysin flugu í bogum hátt á loft og skildu eftir sig ljóshala í myrkrinu áður en þau dóu út. Allir sem einn höfðu kastað þeim í ána. Þögult í bragði hélt fólkið aftur af stað til borgarinnar.

Ég ákvað að bíða og sjá hvort ég kæmi ekki auga á Móeik. Fyrst varð ég þó að snúa aftur að trénu og bíða þar ef ég átti ekki að hrekjast undan mannmergðinni.

Einn af lífvörðunum staldraði við undir trénu og ég heyrði að hann ávarpaði einn félaga sinna. Ég þekkti hann af röddinni, það var Balassa.

„Það ætti alls ekki að hafa verið skilið þannig við hestinn,“ mælti hann.

„En það var alls ekki svo!“ var honum svarað.

„Víst var skilið þannig við hann.“

Ég hafði ekki hugmynd um hvað þeir áttu við með þessu tali. Ég gat aðeins getið mér til að hestur Attílu hefði verið lagður sverði og fengin hvíla í gröfinni með herra sínum.

Víst var slíkt við hæfi. Hver einasti Húni var jarðsettur með þeim hætti — með höfuð til vesturs, fætur til austurs og með hest sinn sér til hliðar á vinstri hönd. Hestarnir áttu sér einnig sál; á miðnætti mundu sálir beggja vakna og rísa upp úr gröfinni. Húninn stigi á bak hesti sínum og riði upp á stjarnhvel himnanna.

En nú hefði ég mátt eiga von á að þjónarnir færu hjá. Ég hvessti augun en sá hvergi þau í svörtu kuflunum. Konungssynirnir gengu hjá hægum skrefum og síðan komu drottningarnar ríðandi á hestum, er leiddir voru af skjaldsveinum.

Tignarmennirnir fóru hjá í flokkum og ég hlaut að veita því athygli hve óvenju hátt þeim lá rómur, þeir voru óþýðir í lund og virtust eiga í deilum.

„Sverðið skal falla Alöði í skaut!“

„Eitíla er hans útvaldi sonur, hann hafði mælt svo fyrir um fyrir dauða sinn!“

„Eitíla er enn á barnsaldri! Varla felum við barni í hendur forystu fyrir húnverskri þjóð!“

„Yfirhershöfðinginn er þó ætíð til ráðuneytis!“

Þeir deildu æ harðar og brátt gerði ég mér ljóst að um annað var varla rætt á meðal hins ótölulega lýðs.

Í langan tíma hélt fólkið áfram að streyma hjá en hvergi kom ég auga á félaga mína. Þeim hlaut að hafa verið ætlað að vera við gröfina allt til síðustu stundar, til að leggja blómsveiga eða laufskrúð yfir kistuna. En þrátt fyrir það hefðu þeir átt að vera komnir.

Ég klifraði niður úr trénu og beið þó enn við það. Tunglið braust fram úr skýjum en það var aðeins sigð af mána. Í daufu skininu lagði annað slagið smá glampa af sverðum og bogum þegar karlar fóru hjá ásamt konum sínum. Barn grét...

Fólkinu fækkaði stöðugt.

Ég hvessti augun sérstaklega á alla þá sem komu gangandi og líktust á einhvern hátt Móeik í fasi.

En allt kom fyrir ekki. Hún var hvergi sjáanleg. Þau hlutu að hafa tekið serkina af sér og látið þá falla í þá sömu gröf og blómin, laufið og blysin, og Móeik síðan slegist í hópinn með drottningunum.

 

65.

Það var um miðnætti að ég kom aftur til borgarinnar. Fólk ráfaði um göturnar og víða mátti sjá knapa á reiðskjótum sínum í hnapp saman með blys. Þeir kjöftuðu saman, margir hástöfum og virtust úfar með þeim.

Ég gekk fram á bragsmiði er léku á lútur og sungu um afrek Attílu; þeir stóðu keikir í fætur á bökum hesta sinna. Allt voru þetta gamlir söngvar og suma kváðu þeir æ ofan í æ, en þetta kvöld hljómuðu þeir öðruvísi í eyrum fólks og kennd þess fyrir söngnum var önnur.

Á ýmsum stöðum var kveikt í bálkestum og þar var hlýtt í hástemmdri þögn á spádóma presta um framtíðina.

Þegar nær höllinni dró fór knöpunum enn fjölgandi og fyrirgangurinn eftir því meiri. Aðeins fáeinir kyndlar köstuðu bjarma á blóði drifin andlitin. Undir venjulegum kringumstæðum hefðu hallarbyggingarnar verið lýstar upp við hvert anddyri og bál logað við brunninn til að lýsa upp torgið.

Núna var dimmt á torginu og hallarbyggingarnar myrkar.

Hvað olli þessu? furðaði ég mig á. Siður var að halda mikið erfi að lokinni jarðarför tignarmanns. Ástkærir vinir hins látna sátu þá með syrgjandi fjölskyldunni umhverfis borð og ræddu hljóðlega saman yfir kvöldverði um dáðir hans. Fyrir enda borðsins var hafður auður stóll og þar einnig borðbúnaður. Sál hins framliðna var ætlað þetta sæti, það var honum einum áskilið.

Ég hafði frekar átt von á því að minning Attílu yrði heiðruð með mun tilkomumeiri veislu. Hvers vegna var engin slík veisla? Lék ef til vill vafi á því hver skyldi halda hana? Ef til vill þjóðin öll? Attíla hafði ekki haft neitt ríkisráð sér til fulltingis, ekkert sem ráðuneyti gat heitið. Sjálfur var hann allt. En af hverju hélt þá ekki fjölskylda hans veisluna? Lá ótti um uppþot meðal múgsins hér að baki?

En ástæðan gat líka einfaldlega verið sú að engum hefði hugkvæmst að halda erfi. Áfallið var svo mikið að allir voru enn agndofa. Hver skyldi taka við hásætinu sem Attíla hafði skilið eftir svo autt? Eða hver bjó yfir afli til að lyfta sverði hans? Um þetta snerust hugsanir fólks, ekki um veislu.

Ég gat varla staðið í fæturna, svo þreyttur var ég orðinn. Ég hélt rakleiðis inn í höllina inn í herbergi mitt. Olíuluktir voru engar í vistarverum okkar. Ég lagði við hlustir. Ekki heyrðist ein hrota, hvað þá meir. Þarna virtist enginn vera. Skriftarbræður mínir hlutu enn að halda sig einhvers staðar úti á meðal þessara uppstökku málrófsmanna.

Ég tók því á mig náðir, lét mér renna í brjóst, en fólk var stöðugt á ferli í hallargöngunum og hafði hátt. Annað slagið gullu við hróp og köll að utan eða þá að söngur lútuleikara barst inn um gluggann. Ég gat ekki með nokkru móti sofnað, klæddi mig því á ný og fór aftur út.

Á torginu hafði gamall lútuleikari er Almad hét tekið sér stöðu uppi á brunnbarminum og söng fyrir stóran hóp syrgjandi fólks.

Þegar ég kom út úr höllinni gekk ég beint í flasið á Makka sem starði á mig eitt andartak, engu líkara en ég væri vofa. Ég starði á móti og skildi hvorki upp né niður.

„Þú!“ stundi hann loks upp úr sér. „Þú hér?“

„Já, ekki ber á öðru,“ svaraði ég og var enn ekki alveg með á nótunum.

Hann rak í vörðurnar og bar í vænginn, deplandi augunum; en rétt í þann mund áttu einhverjir tignarmenn leið hjá og slóst hann með þeim í för.

Þá heyrði ég hrópað ekki ýkja fjarri: „Eitíla er konungur!“

Ég hélt beinustu leið í hesthúsin að hallarbaki og hafði upp á hestinum mínum, steig á bak án þess að söðla hann og reið út á torgið.

Þá var Almad að syngja þetta:

 

Í byrðu þrefalda lögðum,

jörðu niðri, vatni undir.

Örvar hvinu: dyggu þjónar

allir féllu — um kring.

 

Þessar hendingar skutu mér skelk í bringu, ég stirðnaði upp. Mér þótti sem mitt eigið hjarta hætti að slá. Guð minn góður! Hvað hafði gerst?

Enn söng bragsmiðurinn og lýsti um leið söngnum með látbragði hægri handar:

 

Féllu bylgjur Tísjuár

glitrandi á gröf.

Stjörnur hnigu, blys út dóu,

allir féllu, trúu, dyggu.

Hvolfist yfir Húnaþjóð

svartnætti, sorgin dimm.

 

Mér varð litið í kringum mig. Sabólikki var þarna nærstaddur og ég greip um handlegg hans.

„Hvað er hann eiginlega að segja um þjónana?“ spurði ég skjálfandi röddu.

Hann rak í rogastans og virtist vart trúa sínum eigin augum.

„Varst þú ekki með þeim?“

„Nei.“

„Hvernig má það vera?“

„Hlýddi skipunum. En hvað er hann eiginlega að syngja um? Ég skil þetta ekki!“

„Hann syngur um þjónana. Eða er þér ekki kunnugt um að hinn trúi þjónn skal ætíð deyja með húsbónda sínum? Allir sem honum voru kærir voru skotnir. En þú...“

„Áttu við þá sem voru í sorgarkuflunum?“

„Ekkert síður þá.“

Mig sundlaði. Það var eins og mér hefði verið gefið ærlega utanundir.

Ég veit ekki hvenær ég varð viðskila við hestinn. Eða hvað við mig var mælt eða hverjum ég mætti eða rakst á. Ég hef ekki hugmynd um það. Ég skjögraði áfram, lét fallast niður þess á milli og hrópaði hástöfum nafn Móeikar. Þannig bar mig áfram þangað til í birtingu að ég rankaði við mér niður við Tísjuá þar sem konungsgröfin nú var. Ég sat og starði sljór og utan gátta í mógular bylgjur árinnar.

Ég kom aftur til sjálfs mín við það að hönd snertir öxl mína og til mín er mælt blíðri, angurværri röddu:

„Zeta.“

Ég leit upp og sá Djídjíu við hlið mér, föla og sorgmædda.

„Flýðu!“ hvíslaði hún. „Undireins! Það er hræðilegt blóðbað í borginni!“

Það var þá fyrst sem ég gerði mér grein fyrir því að drykklanga stund hafði einhver háreysti borist mér til eyrna úr fjarska, gnýr sem minnti mig á orrustuna á Katalánavöllum.

„Fólkið er klofið í tvær fylkingar!“ hélt hún áfram. „Alls staðar í kringum hallirnar eru Húnarnir að drepa hver annan! Flýðu Zeta! Þú verður að flýja burt úr þessu víti!“

 

Ó, blessuð sértu, engillinn minn! Þú hafðir alla tíð staðið mér svo nærri og haldið yfir mér verndarvæng þínum. Samt veitti ég þér aldrei athygli fyrr en nú. Varst það ekki þú sem lést þér svo annt um mig, varst mér trú og máttir þjást mín vegna — og varst alla tíð ætluð mér? En ég veitti þér aldrei athygli. Hún hafði átt hug minn allan, sú sem nú hvíldi með ör í hjarta á botni Tísjuár, við hlið goðsins er hún á laun hafði helgað ást sína.

 

Eins og svefngengill reis ég á fætur og tók í hönd stúlkunnar.

„Djídjía!“

„Flýðu Zeta! Flýðu!“

„Kemur þú með?“

Hún laut höfði auðsveip.

„Ef þú vilt.“

Ég leit aðeins einu sinni til baka. Borgin stóð í björtu báli. Turninn yfir konungshöllinni glóði í rauðu eldhafinu. Engu var líkara en að sólin væri að rísa í vestri.

 

Og við héldum af stað.

 

 

Formáli

kaflar 1 til 10

kaflar 11 til 20

kaflar 21 til 30

kaflar 31 til 40

kaflar 41 til 50

kaflar 51 til 60

kaflar 61 til 65

 

prenta skjal

Rómanza: heim á kvist