< Umhverfi og byggð

Mark Lupo: Minnisvarðar

 

Miðborg og strönd

Strandbyggðin og hafnarhverfi gömlu Reykjavíkur

Því margbreytilegri miðborgarbyggð, með góðum möguleikum á búsetu og atvinnu og afþreyingu, inni við og úti við í fallegu umhverfi, því fjölskrúðugra mannlíf - og því heilbrigðara sem fleira er í góðu göngufæri án trafala af völdum umferðar og gnýs. Eða væri gerlegt að aðskilja gegnumumferð frá strandbyggðinni og tengja byggðina gamla miðbænum þannig að úr yrði sem næst ein órofa heild – án óhóflegrar umferðar, án óhóflegs framkvæmdakostnaðar við skipulag? Um alla byggðina væru þá greiðar leiðir og hættulausar fyrir gangandi vegfarendur og gönguleiðir um hverfin hvergi rofnar af þungri bílaumferð.

 

1. Samfelld hugmynd að byggð

Skipulag byggðar frá Granda og Ánanaustum austur á móts við Sólfar Jóns Gunnars við Sæbraut. Á hinn bóginn frá gamla Vesturbæ og gamla Miðbæ norður um höfn, svo og norður fyrir Sæbraut og Kolbeinshaus.

Gert er ráð fyrir verulegri uppbyggingu á svæðinu í kringum væntanlegt ráðstefnu- og tónlistarhús, þar á meðal hótelbyggingum og banka, að listamiðstöð og Listaháskóli rísi svo og verslunarmiðstöð. Fiskmarkaðurinn verði rekinn áfram í svipaðri mynd og jafnframt byggt upp austanvert með höfninni með hliðsjón af hafnsækinni starfsemi, þá að ný landfylling verði mótuð milli Ingólfsgarðs og Sæbrautar, meðal annars viðlegukantur fyrir skemmtiferðaskip og kví fyrir skútur og snekkjur. Vestanvert með höfninni, framundan gamla slippnum, milli Daníels-slipps og Ægisgarðs, er miðað við að höfnin verði aukin og endurbætt með nýjum bryggjum og margvíslegri starfsemi í tengslum við höfnina.

Hugmyndin miðar að talsvert aukinni íbúðabyggð - í Vesturbæ á Slippfélagslóð og sunnan Daníels-slipps, svo og á milli Geirsgötu og Grófarbakka, og á hinn bóginn að rísi ný byggð norður af gamla Skuggahverfi og Stjórnarráðsreit. Þá verði torg myndað fyrir norðan Hafnarhús og annað undir rótum Arnarhóls, svo og eitt minna torg í tengslum við Listaháskóla, listamiðstöð og ráðstefnu- og tónlistarhús.

Eða þrífst íbúðabyggð í nánd við atvinnulíf, líkt og við gömlu höfnina - ekki síður en í grennd við viðskipta- og menningarlíf?
[nánar um samfellda hugmynd]

 

2. Umferðarskipan

Lögð eru drög að byggð þar sem annars vegar eru hús, bryggjur, götur, torg og gróður og fremur hægfara umferð, en jöfn og ekki íþyngjandi, hins vegar hröð umferð neðanjarðar í fyrirferðarlitlum göngum og stokkum fyrir fólksbíla og önnur minni ökutæki á meginleiðum.

Gatnakerfi á yfirborði miðast þá við jafna umferð án teljandi hindrana á gatnamótum. Vægi umferðarljósa minnkar svo að ýmist má sleppa þeim eða búa þau skynjurum sem einungis hömluðu umferð þá sjaldan þörf væri á, eða á hinn bóginn setja hringtorg á gatnamót. Allt flæði umferðarinnar verður því jafnara, hvort sem er ofanjarðar eða neðan, leiðir ávallt greiðar og lausar við umferðarteppur á annatímum.

Enginn væri knúinn til að fara gangaleið eða um stokka, enda ávallt val um tvær leiðir, gegnum byggðina eða undir hana, nema fyrir hin tiltölulega afar fáu ökutæki sem eru yfir stærðarmörkum ganga og stokka.

Eða er gerlegt að skilja svo á milli að umferð íþyngi ekki miðborg og miðborgarbúum?
[nánar um umferðarskipan]

 

 

3. Framkvæmd og kostnaðarmat

Gróft á litið vegur útgröftur úr göngum og uppgröftur úr grunnum húsa og bílakjallara á móti landfyllingu. Flutningsleiðir með jarðefni væru með allra stysta móti og áhrif framkvæmda á almenna borgarumferð þar af leiðandi lítil. Kostnaður við frágang byggingarhæfs lands væri að sama skapi lágur.

Göng og stokkar eru því ódýrari og einfaldari að gerð sem stærðarmörk ökutækja eru lægri. Sé miðað við hámarkshæð og hámarksbreidd ökutækja um 2,3 metra eða þaðan af minna - en allt að 95 af hundraði umferðarinnar fellur innan þeirra marka - þá getur kostnaður legið á bilinu þriðjungur til helmingur af því sem samsvarandi umferðarmannvirki fyrir öll ökutæki myndu kosta.

Eða þarf miðborg að kosta umferðarþunga og nið? Eða á hinn bóginn: Getur aðskilnaðarstefna borgað sig?
[nánar um framkvæmd og kostnaðarmat]

______________________________

Miðborg og strönd:

1. Samfelld hugmynd að byggð

2. Skipan umferðar

3. Framkvæmd og kostnaðarmat

 

© maí 2004

Árni B. Helgason

 

prenta skjal

Rómanza: heim á kvist