Brautir í borg og bæjarleiðir
1. Tvískipting Sundabrautar um
Elliðaárvog
(okt,des 04/mars 05)
Þverun Elliðaárvogs í áföngum og tengdar framkvæmdir
Um árabil hafa verið skiptar skoðanir um legu frumáfanga
Sundabrautar á kaflanum innan úr Sundum yfir Elliðaárvog að
Gufuneshöfða. Valið virðist nú standa fyrst og fremst milli tveggja
meginkosta, innri leiðar um manngerða eyju á miðjum voginum eða ytri
leiðar um hábrú. Báðar leiðir byggjast á fjórbreiðri braut með
verulega miklum umferðarmannvirkjum, stokkum og brúm vegna tengsla
við Sæbraut.
Það er mikill galli við báðar lausnirnar hve umferðin kæmi af
miklum þunga inn á Sæbraut, sérstaklega þegar fram í sækti og umferð
tæki að aukast til muna, gangi umferðarspár eftir. Þá væri arðsemi
fjármagns fremur lítil fyrstu árin á meðan talsvert vantaði á að
akreinarnar fjórar væru vel nýttar. Röskun á umhverfi vegna einnar
slíkrar afar umfangsmikillar tengingar væri líka mjög mikil.

Fjórbreið braut um Elliðaárvog |
Leiðir – að meðtöldum umferðarmannvirkjum í Gufunesi og við
Sæbraut, Holtaveg, Skeiðarvog, Kleppsmýrarveg - eftir því sem
við á |
Áætlaður
stofn-kostnaður í milljörðum króna á verðlagi árs 2002 |
Um hábrú frá Kleppsvík að
Gufuneshöfða |
11,6 |
„Eyjaleið“ – frá Kleppsmýrarvegi
um Gelgjutanga að Gufuneshöfða |
7,3 |
|
Tveir helstu valkostir um
fjórbreiða leið. Heimild: Skýrsla Línuhönnunar: Sundabraut, 1. áfángi. Mat á umhverfisáhrifum.
Það er því spurning hvort ekki væri skynsamlegra að vinna verkið
í áföngum og þá á lengri tíma, og miða þá heldur við tvær tvíbreiðar brautir
yfir voginn með samsvarandi dreifðara umferðarálagi.
Annars vegar væri innri leiðin lögð
og þá að mestu leyti sem einföld tvístefna. Eftir sem áður tæki
hönnun mið af fullra fjögra akreina breidd, vegna hugsanlegrar
breikkunar síðar meir. Leiðin lægi þá um ein tveggja akreina göng
gegnum Gufuneshöfða og á tveggja akreina brúm og fyllingum, í stað
fjögra akreina, yfir voginn að Gelgjutanga – en í stað þess að
stefna upp á land inn á Kleppsmýrarveg, svo sem áætlanir annars gera
ráð fyrir, þá myndi meginbrautin sveigja suður yfir vesturál
Elliðaáa og inn með Háubökkum, hvar hún síðan greindist í fjórbreiða braut á síðasta kaflanum
á móts við Knarrarvog og enda Súðarvogs, að hún loks tengdist
Vesturlandsvegi-Reykjanesbraut með hringtorgi er kæmi að nokkru leyti
í stað núverandi slaufutenginga á gatnamótunum, auk þess sem gerð
væri einföld tenging upp af ströndinni við Kleppsmýrarveg.
Hins vegar væri lögð að mestu leyti
einföld tvístefnuleið um tvíbreiða hábrú yfir mynni Elliðaárvogs, í stað fjórbreiðrar svo
sem annars hefur verið miðað við, frá Kleppsvík (á milli
athafnasvæða Eimskips og Samskipa) yfir að Gufuneshöfða
norðanverðum, handan vogsins.

Birta uppdrátt í fyllri mynd
(860 kb 1600x1150px) - eða
á pdf-formi (1700 kb)
Jafnframt þessum tveimur leiðum yfir voginn væri hugað að þriðja
áfanganum – tengslum milli Holtagarða og Glæsibæjar um göng er lægju
frá Sæbraut inn undir Langholt – Holtagöng, á svipuðum slóðum og
Holtavegur liggur – í beinu framhaldi af stokki er lægi um Laugardal
frá Glæsibæ inn undir Holtaveg á móts við KFUM & K og
Langholtsskóla.
Í heildina tekið kynni slíkt þriggja
áfanga verk, tvær að mestu leyti einfaldar tvístefnuleiðir yfir
Elliðaárvog og á hinn bóginn um göng og stokk um Langholt og
Laugardal, að kosta svipað og ein fjórbreið leið um hábrú og nokkru
meira en ein fjórbreið eyjaleið – er tengjast myndu Sæbraut með mjög
umfangsmiklum gatnamótum aðallega á einum stað – en á móti kæmi mun jafnari dreifing
umferðarinnar um Sæbraut og Miklubraut, Sundahverfi og Voga,
Suðurlandsbraut og Grensásveg, jafnframt því að verkið í heild væri
unnið á talsvert lengri tíma eða e.t.v. á um áratug og því eðlilegt
að reikna með vaxtasparnaði.

Tvær einfaldar tvístefnuleiðir. (Myndgrunnur, lítið eitt breyttur, úr
skýrslu Línuhönnunar: Sundabraut, 1. áfángi. Mat á
umhverfisáhrifum)
Gróflega má reikna með að kostnaður
við innri leiðina yfir Elliðaárvog, þ.e.a.s. sem einfaldrar
tvístefnu að mestu leyti, gæti numið um 4 milljörðum króna, þá að
meðtaldri tengingu við Kleppsmýrarveg og við Sæbraut á móts við
Skeiðarvog, ásamt hringtorgi við Vesturlandsveg.
Þá ber að hafa í huga að inni í núverandi 7,3 milljarða króna
áætlun fyrir fjórbreiða innri leið er mjög dýr stórstokkur á mótum
Kleppsmýrarvegar og Sæbrautar með tilheyrandi uppkaupum lands og
niðurrifi húsa, sem allt myndi sparast. Þess í stað væri farin mun
ódýrari leið inn með ströndinni, allt að
Vesturlandsvegi, án þess að hrófla þyrfti við neinum byggingum, að
lokakafli leiðarinnar tengdist síðan sem fjórbreið braut gatnamótum
Reykjanesbrautar-Sæbrautar og Miklubrautar-Vesturlandsvegar með
hinu stóra hringtorgi.

Hringtorgið lægi annars vegar í stokki
undir Miklubraut-Vesturlandsveg, hins vegar á brú. Gert er ráð fyrir
að núverandi slaufa fyrir beygjustrauma sunnan af Reykjanesbraut í
Miklubraut vestur héldist óbreytt, enda trúlega umferðarþyngsta
beygjan, þá t.d. sem sérleið ætluð vöru- og þungaflutningabílum, auk
strætó á annatímum og e.t.v. hluta umframumferðar, en almenn umferð
færi annars öllu jöfnu upp rampann af Reykjanesbr. og um hringtorgið
inn á Miklubraut.
Ætla má að þessi einfalda tvístefnuleið
yfir Elliðaárvog myndi anna allri umferð
fyrstu árin að framkvæmdum loknum, eða að minnsta kosti svo lengi
sem ekki væri komin tenging um Sundabraut alla leið upp á Kjalarnes
og nýbyggð í Gufunesi væri enn skammt á veg komin.
Þegar tímabært þætti umferðarálags
vegna væri síðan ráðist í gerð tvíbreiðrar hábrúar, sem gróft á
litið kynni að kosta um 6,8 milljarða króna, eða um eða innan við 60% af 11,6 milljörðunum sem
annars er talið að fjórbreið hábrúarleið gæti kostað. Er þá miðað
við all nokkuð umfangsminni mislæg gatnamót við Sæbraut og Holtaveg
en annars er reiknað með, enda myndi innri leiðin anna drjúgum
hluta umferðar um Elliðaárvog sem ella færi um þennan kafla Sæbrautar,
allt suður að Vesturlandsvegi, væri hábrú eina leiðin yfir voginn.

Meðfram gerð hábrúar eða að smíði
hennar lokinni yrði svo ráðist í gerð Holtaganga – um 600 metra leið
um lágstokk og lággöng, einfalda tvístefnuleið um Laugardal og
Langholt, milli Glæsibæjar og Sæbrautar. Þessi ganga- og stokkaleið
væri hönnuð fyrir ökutæki um og innan við 2,3 m á hæð, en
innan þeirra marka rúmast um 95 af hundraði allra bifreiða. Lofthæð
væri þó hvergi minni en 2,7 m, að teknu tilliti til öryggisbifreiða. Má reikna með að
Holtagöng slíkrar gerðar gætu kostað um 0,7 milljarða króna, eða
rétt um rúman
helming af kostnaði við samsvarandi ganga-stokkaleið fyrir öll
ökutæki – auk þess sem þau væru til mikilla muna viðráðanlegri í
öllu umhverfislegu tilliti. (sjá nánar um lággöng og lágstokka í
kafla 2)

Þannig gæti heildarkostnaður við allar ofangreindar framkvæmdir
numið um 11,5 milljörðum króna, gróft á litið – þá þar af um 4
milljarðar vegna innri leiðar og gatnamóta Sæbrautar og
Kleppsmýrarvegar, 6,8 milljarðar vegna hábrúarleiðar ásamt
gatnamótum Sæbrautar og Holtavegar, og
loks 0,7 milljarðar vegna Holtaganga.
Þetta væri svipuð upphæð og
annars er reiknað með að fjórbreið
hábrúarleið gæti kostað ein og sér, sem er áætlað að gæti numið um
11,6 milljörðum króna og tekið allt að 5 ár að ljúka, að meðtöldum
tíma er færi í undirbúning og hönnun.
Hönnunar- og framkvæmda-tími hvers áfanga
(árabil)
|
Fjárhagsstaða
samanborið við
fjórbreiða hábrú. – Eftirstöðvar og
vaxtasparnaður
(milljarðar kr.)
|
Háubakkaleið
("eyjaleið") –
einföld tvístefna inn úr Elliðaárvogi
(milljarðar kr.)
|
Hábrú – einföld tvístefna er lægi um Kleppsvík yfir að Gufuneshöfða
(milljarðar kr.)
|
Stokkur, göng – einföld tvístefna milli Holtagarða og Glæsibæjar
(milljarðar kr.)
|
2005-2008 |
11,6 |
- 4,0 |
|
|
2009-2013 |
7,6 + 0,8 = 8,4 |
|
- 6,8 |
|
2014-2015 |
1,6 + 0,2 = 1,8 |
|
|
- 0,7 |
Eftirstöðvar: |
1,1 |
|
|
|
Útlagt fjármagn á einum áratug vegna allra framkvæmda væri 11,5 milljarðar króna
en nýttur vaxtasparnaðar gæti legið nærri einum milljarði króna samanborið við
fjórbreiða hábrúarleið er annars væri unnin á fimm árum.
Raunkostnaður á alls tíu árum, útlagt fé að frádregnum vöxtum,
samanborið við fjórbreiða hábrúarleið eina, myndi því vera um 10,5
milljarðar króna, eða til jafnaðar rúmur milljarður á ári.
Að öllum framkvæmdum loknum og
e.t.v. enn einum áratug síðar, eða þegar
þörf krefði, mætti svo huga að breikkun innri leiðarinnar úr tveimur
akreinum í fjórar, og þó e.t.v. fremur huga að þriðju leiðinni, um göng eða
brú, þannig að umferð dreifðist þá um enn fleiri leggi, hverfi og
gatnamót, sem væri hið ákjósanlegasta. Kæmu þá sérstaklega til álita
jarðgöng frá Hallsvegi / Gufunesi að gatnamótum Sæbrautar og
Kringlumýrarbrautar, nema þá þau þættu ákjósanlegri kostur en hábrú,
kostnaðar vegna, og væru því sett framar í forgangsröð en brúin.
Óneitanlega væri samt vel hönnuð hábrú betur til þess fallin að ljá borginni
sterkan svip, svo fátæk sem hún annars er
að virkilega glæsilegum mannvirkjum sem kalla mætti manngerð
kennileiti – svo fáu öðru til að dreifa en Perlunni.

Sé litið til borga eins og Parísar, sem gróft á litið er svipuð
að flatarmáli innan sinna hringlaga borgarmarka og öll
Stór-Reykjavík innan sinna heldur óreglulegri marka, þá kemur í
ljós að umferð gengur þar ótrúlega skjótt fyrir sig þrátt fyrir að
bílaumferð sé margföld á við það sem hér er og byggðin miklu
þéttari. En ein ástæðan til þess er hve umferðarleggir stofnbrauta
eru dreifðir um alla borg og val um leiðir þar af leiðandi
fjölbreitt. Slíkt hið sama á við New York á sinn talsvert ólíka
hátt. Flýtileiðir um göng og stokka draga einnig verulega úr
umferðarálagi á yfirborði þannig að umhverfinu er síður ógnað en
ella. Þó ólíku sé saman að jafna hvað varðar fólksfjölda þá er
munurinn þó minni en ætla mætti vegna þess hve bifreiðaeign og
notkun einkabifreiða er miklu almennari í Reykjavík en í flestum
borgum heims. Þannig eru um þrefalt færri um hvern einkabíl í
Kaupmannahöfn en í Reykjavík og þar er notkun almenningssamgangna
um sexfalt almennari. Í Stokkhólmi eru almennings-samgöngur um
tífalt almennari en hér og um fjórfalt færri nýta sér einkabíl.
Meðal Reykvíkingur ferðast 6680 km á ári innan sinna borgarmarka á
sama tíma og Kaupmannahafnarbúanum nægir helmingi skemmri vegur
til að komast leiðar sinnar. Stokkhólmsbúanum nægir innan við
fjórðungur hins reykvíska vegar, eða sem svarar til einungis 1440 km
á ári hverju.
Sjá m.a.: Umhverfisvísar stórborga
Norðurlanda, útg. 2004
|
Áhrif á umhverfi og umferð
Mikil samþjöppun umferðar á einum gatnmótum hefur í för með sér
margvíslegan vanda svo sem reynsla t.d. af gatnamótum Miklubrautar
og Kringlumýrarbrautar og víðar hefur sýnt. Þó framúrakstur sé
hættuminni á tvöföldum tvístefnubrautum en á einföldum þá fela þær
tvöföldu, tvær akreinar fyrir hvora akstursstefnu, jafnframt í sér
hvata til hraðaksturs, oft með ófyrirsjáanlegum afleiðingum þegar
akreinum fækkar og svigrúm þrengist. Það gefur líka augaleið að
dreift samgöngunet með mörgum leggjum tvíbreiðra brauta í stað fárra
fjórbreiðra, styttir akstursvegalengdir í mörgum tilvikum þannig að
umferðarálag minnkar í heild og þá að sama skapi jafnt ferðatími sem
ferðakostnaður almennings – og þá slysatíðni einnig skyldi mega
ætla.
Til mótvægis hættu á framúrakstri á einföldum tvístefnubrautum
þarf þó að leggja sérstaka áherslu á hraðaviðvörunarbúnað til að
halda meðalhraða allra ökutækja sem jöfnustum. En stytting
akstursvegalengda ásamt jafnara og minna umferðarálagi á einstökum
brautum og gatnamótum dregur líka úr óþoli ökumanna og þar með hættu
á vanhugsuðum viðbrögðum.
Á það ber einnig að líta að næst
hringtorgum og öðrum gatnamótum væru akreinar yfirleitt fleiri en
ein fyrir hvora akstursstefnu þannig að ekki væri hætta á myndun
flöskuhálsa. Þá væri sjálfsagt og eðlilegt að takmarka umferð stórra
vöruflutningabíla um hábrúarleið, líkt og á sinn hátt það væri
sjálfgefið í Holtagöngum ef sú leið væri takmörkuð við 2,3 m
hámarkshæð fyrir almenna umferð.
Tvískipt leið yfir Elliðaárvog, svo sem hér hefur verið lýst,
myndi valda mun minni umferðaraukn-ingu á Sæbraut milli
Holtagarða og Steinahlíðar en ella myndi verða miðað við núverandi
áætlanir um fjórbreiða innri leið
eina og sér, er tengdist Sæbraut með stokki um Kleppsmýrarveg, eða á
hinn bóginn um fjórbreiða hábrúarleið. Tengingar
tvískiptrar leiðar myndu vera talsvert umfangsminni og vænni
umhverfinu, enda væri umferðin hlutfallslega minni á hvorri leiðanna
fyrir sig en á einni fjórbreiðri leið.

Innri leiðin yfir voginn –
Háubakkaleið – myndi tengjast
Vesturlandsvegi-Miklubraut / Reykjanesbraut-Sæbraut á talsvert einfaldari hátt heldur en núverandi hugmynd
gerir ráð fyrir með hinum afar fyrirferðarmikla stokki milli
Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar. Í stað talsverðra uppkaupa lóða og niðurrifs húsa og
stórfelldrar röskunar á öllu umhverfi allt inn í íbúðahverfin við
Njörvasund og Barðavog, sem megintenging á gatnamótum
Kleppsmýrarvegar og Sæbrautar myndi annars hafa í för með sér, væri
alfarið sneytt hjá byggðinni en leiðin þess í stað lögð um fallegt
opið umhverfi með Háubakka í góðu sjónmáli, án þess þó að skerða
smábátahafnarnesið milli ála Elliðaáa sem neinu næmi, að leiðin
síðan tengdist stóru hringtorgi með
greiðum tengslum við megin stofnleiðir til allra átta.
Eftir
sem áður myndi þó jafnframt vera einföld vegtenging á Gelgjutanga
við Kleppsmýrarveg sem myndaði tengsl við Vogahverfi og Sund og
Sundahöfn, ásamt Skeifu og Heimahverfi um Skeiðarvog, án þess þó að
það kallaði á nein umfangsmikil umferðarmannvirki, enda væri umferð
þar talsvert minni heldur en ef innri leiðin væri eina leiðin yfir
voginn. Hringtorg á gatnamótum Sæbrautar við Kleppsmýrarveg og Skeiðarvog, gæti annað
öllum beygjustraumum ef undir torginu lægi jafnframt einfaldur
tvístefnustokkur fyrir beinlínustrauma um Sæbraut.
Á samsvarandi hátt myndi tenging ytri leiðarinnar við Sæbraut og
Holtaveg vera all nokkuð einfaldari í sniðum en miðað við
fjórbreiða hábrú. Umferð þar yrði talsvert minni vegna tvískiptingar
leiðarinnar yfir voginn og nauðsynleg umferðarmannvirki því
vera minni um sig og ekki valda eins mikilli röskun á umhverfinu og
ella.
Ytri leiðin um tvíbreiða hábrú myndi greinast til beggja átta
um Sæbraut, auk þess sem bein og greið leið myndaðist milli
Holtagarða og Glæsibæjar um göng og stokk – Holtagöng – sem myndi
draga verulega úr hættu á gegnumumferð um Holtaveg, Langholtsveg og
Álfheima eða á hinn bóginn um Dalbraut og Reykjaveg yfir í
Múlahverfi og Laugardal og í hin ýmsu hverfi meðfram
Suðurlandsbraut. En frá hringtorgi við Glæsibæ væri greið leið til
beggja átta eftir Suðurlandsbraut svo og í Laugardalinn, jafnt í
garðinn sem á íþróttasvæðið, eða á hinn bóginn beint áfram eftir
Grensásvegi í átt að Miklubraut. Þá ber og að hafa í huga að þessi
leið um Holtagöng milli Glæsibæjar og Holtagarða myndi nýtast
fjölmörgum fleirum en þeim sem ættu erindi yfir Elliðaárvog.
Fjórbreið hábrú... eða fjórbreið eyjaleið? |
Eða:
Tvær einfaldar tvístefnuleiðir...? |
Myndir t.v. úr skýrslu Línuhönnunar: Sundabraut, 1. áfángi. Mat
á umhverfisáhrifum.
Grunnur myndar t.h., lítið
eitt breyttur, úr sömu skýrslu.
Heimildir:
Sundabraut, 1. áfángi. Mat á umhverfisáhrifum.
Reykjavíkurborg/Vegagerðin/Línuhönnun – Febrúar/maí 2004. (pdf)
Umhverfisvísar stórborga Norðurlanda - Nordiske Storbyers
Miljøindikatorer. Reykjavíkurborg o.fl. – September 2004 (pdf)
|