Brautir í borg og bæjarleiðir
3. Miklabraut og krossgötur
(okt 2004)
Beinlínustraumar í hindrunarlausu flæði
Við Eskihlíð færu þrjár akreinar – ein rein í
innakstursstefnu en tvær í útakstursstefnu – í þríbreiðan lágstokk,
tvískiptan, er væri um 16 metra breiður til endanna og alls um 700 metra
langur, og lægi að Stakkahlíð. Lengst af leiðar væri stokkurinn
víðari, um 20 metrar, með tveimur akreinum fyrir hvora
akstursstefnu. Á þessum kafla
Miklubrautar væri 45 km hámarkshraði á brautinni ofanjarðar.
Beita skrunborða - eða birta uppdrátt
Tvær akreinar, ein í hvora áttina næst miðju
brautar, færu síðan um 9 til 10 metra breiðan lágstokk undir
Kringlumýrarbraut.
Austan Kringlu og göngubrúarinnar sem liggur þar
yfir Miklubraut færu þrjár akreinar – ein
rein í innakstursstefnu en tvær í útakstursstefnu – í þríbreiðan
lágstokk, og síðan sem leið lægi í tvennum tveggja akreina
lággöngum undir Háaleiti og Háleitisbraut, að göngin tengdust svo

Miklubraut að nýju austan Grensásvegar, um miðbik
brautar, þá á samsvarandi hátt í þríbreiðum lágstokki með tveimur
akreinum fyrir útakstur en einni rein fyrir innakstur. Á þessum
kafla kynni hámarkshraði að vera takmarkaður á brautinni ofanjarðar,
líkt og milli Eskihlíðar og Stakkahlíðar, og þá e.t.v. hugað að
aukinni landnýtingu með byggingum meðfram brautinni.

Þá væri einnig lagður lágstokkur um
Kringlumýrarbraut undir Miklubraut, ein akrein fyrir hvora
akstursstefnu, þvert undir Miklubrautarstokkinn, en samanlögð dýpt
beggja stokka væri þá um 6 metrar, eða um 3 metrar fyrir hvorn
stokk, og þó metra grynnra í heildina miðað við að gatnamótin væru
jafnframt hækkuð um einn metra.

Á
yfirborði allra gatnamóta væru síðan gerð hringtorg, að gatnamótum
Háaleitisbrautar meðtöldum, ásamt undirgöngum á alla vegu fyrir
gangandi vegfarendur við öll gatnamótin. Hringtorgin væru jafnframt
búin umferðarljósum til að stýra umferðarflæði á háannatímum eða
þegar þörf krefði, t.d. vegna strætisvagna svo og vegna lögreglu-,
slökkvi- og sjúkrabíla.
Ljósin væru annars sjálfstýrð af umferðarskynjurum, og þá þannig að biðtími
aðliggjandi umferðarstrauma hefði áhrif á hringstreymi um torgin –
en einungis þegar umferðarþungi krefðist. Gert er ráð fyrir að þrjár
akreinar liggi að öllum hringtorgum, þar af væri ysta akreinin
yfirleitt frátekin fyrir strætó, eftir því sem hægt væri að koma
við, oft í beinu framhaldi af stoppistöð.
Öryggis vegna er miðað við einnar akreinar
innakstur í lágstokka og lággöng, þó svo að greinist í tvær reinar á
sömu stefnu er inn í lengri stokka eða göng væri komið, þá einnig
öryggis vegna. En tveggja akreina innakstur á sérleið gæti skapað vanda gagnvart stærri
ökutækjum, t.d. í lélegu skyggni og við önnur erfið skilyrði (og
kann þó að vera möguleiki á að finna viðunandi lausn er fæli í sér
tveggja akreina innakstur ef þörf þætti). Á
hinn bóginn ber að hafa í huga að hluti aðvífandi umferðar greinist
í beygjustrauma sem nýta ekki sérleiðarakrein um stokka og göng. Beinlínustraumur á
sérleið væri aftur á móti í hindunarlausu flæði að öllu jöfnu og
reikna má með að hægfara ökumenn hneygðust fremur til að velja
hefðbundna leið á yfirborði.
Þá er einnig miðað við að með tveimur leiðum yfir
Elliðaárvog, í stað einnar, ásamt gerð Holtaganga (sbr. 1. kafla, um
Sundabraut) yrði dreifing umferðar um austurborgina jafnari og álag því minna á Miklubraut en ella myndi verða. Eftir sem áður er
miðað við að ein sérleiðarakrein á hvorri stefnu, auk tveggja akreina
til viðbótar fyrir öll ökutæki á hvorri stefnu brautarinnar, alls
a.m.k. sex akreinar, anni um 8000 bílum á klst, (sbr. 2. kafla, um lágstokka
og lággöng), þar af anni einföld tvístefna á sérleiðum allt að 3600 bílum á klst.
En er sérleið væri orðin mettuð á háannatíma færi öll umframumferð,
jafnt smá sem stór ökutæki, um hringtorgin.
Kostnaður við framkvæmdir
Kostnaður við sérleiðina gæti gróft á litið verið
þessi:
-
Lágstokkur,
fjórbreiður lengst af leiðar en þríbreiður til endanna, alls um 700
metra langur, frá Eskihlíð að Stakkahlíð, og gerð hringtorgs á mótum
Lönguhlíðar og Miklubrautar, ásamt hækkun gatnamóta um ca. 0,3 metra
og gerð undirganga fyrir gangandi vegfarendur: 1300 milljónir.
-
Miklubrautarstokkur við Kringlumýrarbraut, einn
tveggja akreina lágstokkur, um 9 metra breiður, er lægi um 2 metra
undir núverandi yfirborði en gatnamót væru hækkuð um 1m: 150
milljónir.
-
Kringlumýrarstokkur við Miklubraut, einn tveggja
akreina lágstokkur, um 10 metra breiður og um 170 metra langur auk
aðreina, á mest um 5 til 6 metra dýpi frá núv. yfirborði:
400 milljónir.
-
Hringtorg við Miklubraut / Kringlumýrarbraut og
hækkun gatnamóta um 1m ásamt gerð þrennra undirganga fyrir gangandi
vegfarendur, þar af mynduðu ein undirgöngin (undir Kringlumýrarbraut
að Kringlu) jafnframt einstefnuleið fyrir allar stærðir bíla að
vestan, allt unnið í beinum tengslum við gerð stokkana undir
Miklubraut og Kringlumýrarbraut: 200 milljónir.
-
Háaleitisgöng – tvenn lággöng ásamt
stokkum/gangamunnum til beggja enda – fjórbreið leið lengst af
leiðar en þríbreið til endanna, alls um 800 metrar að lengd:
1400 milljónir.
-
Hringtorg við Grensásveg og hækkun gatnamóta um
0,5 til 1m ásamt undirgöngum á alla fjóra vegu fyrir gangandi
vegfarendur, allt unnið í beinum tengslum við gerð gangamunna fyrir
Háaleitisgöng: 200 milljónir.
-
Hringtorg við Háaleitisbraut ásamt undirgöngum
fyrir gangandi vegfarendur á alla fjóra vegu: 200 milljónir.
-
Akreinastýring vegna lágstokka og lágganga –
uppsetning hæðarskynjara og skilta auk hraðaviðvörunarbúnaðar jafnt
á sérleiðum sem við hringtorg: 150 milljónir.
Heildarkostnaður við allar framkvæmdir á
Miklubraut frá Bústaðavegi að Grensásvegi væri samkvæmt þessu um
4 milljarðar króna.
Kostnaður við slys og tjón á Miklubraut
Fjármagn til samgöngubóta á höfuðborgarsvæðinu
er ekki bara takmarkað heldur er einnig takmarkaður arður af því
vegna þess hve það deilist í fáa staði. Með lausnum sem byggðu á
lágstokkum og lággöngum samfara gerð hringtorga þar sem þau ættu við
má lækka kostnað við umferðarmannvirki verulega og þannig nýta það
fé sem er til skiptanna á mun fleiri stöðum en ella.
Undanfarin ár hafa heildartjón tryggingafélaga
í Reykjavík einni numið um 6 til 7 milljörðum króna á ári hverju,
þar af er gróft á litið um einn milljarður vegna Miklubrautar einnar
og gatnamóta. Er þá ótalinn allur samfélagslegur kostnaður svo sem
hjúkrun slasaðra, endurhæfing og greiðslur örorkubóta svo og tjón sem einstaklingar
bera skaða af án bóta frá tryggingafélögunum. Þessi kostnaður
hleypur á hundruðum milljóna króna á ári hverju á Miklubraut einni,
til viðbótar greiðslum
tryggingafélaganna.

Ef fjögra milljarða króna framkvæmdir á
Miklubraut og krossgötum hennar myndu draga úr bótagreiðslum
tryggingafélaganna sem svarar til um 700 milljóna króna á ári, miðað
við 75% fækkun tjóna á þeirri leið, þá lætur nærri að arðurinn gæti
numið um 10% lækkun iðgjalda. Að teknu tilliti til samfélags sparnaðar
þar til viðbótar og
fækkunar tjóna sem einstaklingar bera skaða af bótalaust, kynni arðurinn af framkvæmdunum
að vera nokkuð á annan milljarð króna á
ári hverju, sem myndi svara til þess að framkvæmdir borguðu sig beinlínis upp
á örfáum árum.
Önnur ein tjónahæsta braut landsins, og þar með Reykjavíkur, er Kringlumýrarbraut. Gróft á litið má ætla að um
þriðjungur til fjórðungur allra tjóna í Reykjavík og
flest alvarlegustu slysin verði á þessum brautum tveimur og tengdum
gatnamótum. Það er því ekki ekki síður aðkallandi að gera
margvíslegar áþekkar úrbætur á Kringlumýrarbraut, sérstaklega norðan
Miklubrautar, þá ekki síst séu höfð í huga áhrif af væntanlegri
vegtengingu yfir Elliðaárvog.
Heimildir:
Miklabraut-Kringlumýrarbraut, Frumdrög-áfangaskýrsla.
Reykjavíkurborg/Vegagerðin – Júní 2003. (pdf)
Algengustu tjónin í Reykjavík 2003. Skýrsla Sjóvár-Almennra,
Einar Guðmundsson – Ágúst 2004 (pdf)
|