Eignarhald og fjármögnun

Google Translate

Félag um eignarhald og rekstur gæti mögulega haft Spöl að fyrirmynd, það væri þá rekið sem sjálfstætt fyrirtæki, með sjálfstæðan fjárhag, félag er hefði það að markmiði að hámarka arðsemi af eignum með þeim hætti að það stæði skuldlaust að til­teknum tíma liðnum, e.t.v. að 30 árum liðnum frá verklokum.

Helsti eigandi væri vissulega hið opinbera, sveitar­félögin á svæðinu og ríkið, eða ákveðnar stofnanir fyrir þeirra hönd, en auk þeirra, e.t.v. að hálfu, kæmu ýmsir til álita, svo sem lífeyrissjóðir, fjár­festinga­sjóðir og hinir ýmsu langtímafjárfestar, en jafn­framt aðilar, innlendir sem erlendir, með sér­þekkingu á hinum ýmsu sviðum er snertu verkið, umhverfishönnuðir, bifreiðasmiðir og framleið­endur fjarskipta- og rafmagnsbúnaðar.

Á tíu árum, eða um það bil á þeim tíma er tæki að hanna og fullgera verk­ið, greiddu hluthafar árlega inn á hlutafjárloforð sín, sveitarfélögin sem svaraði um 10 þúsund krón­um fyrir hvern íbúa, sem jafngilti um 2,1 milljarði króna á ári eða alls 21 milljörðum króna á 10 árum, og ríkið samsvarandi, væri hlut­deild þess jöfn hlut sveitarfélaganna. Hlutafé hins opinbera væri þá um 42 milljarðar króna, miðað við 50% af heild. Á samsvarandi máta greiddu aðrir hlut­hafar sinn skerf þannig að heildarhlutafé næmi alls um 84 millj­örðum króna, eða sem svaraði til um 22% af 374 milljarða króna stofnkostnaði. Til að alls jafn­ræðis væri gætt myndi aukinn meirihluti vera lagður til grundvallar öllum helstu ákvörðunum.

Í stofnsamningi myndi hið opinbera, sveitarfélögin á svæðinu og ríkið, skuldbinda sig til að veita ákveðið fast framlag til reksturs brautarnetsins – óháð hlutafjárgreiðslum – er væri e.t.v. um 4 millj­arðar króna á fyrsta ári kerfisins í fullum rekstri (nær álíka og nú rennur til Strætó), en færi stig­minnk­andi ár frá ári eftir fyrirfram ákveð­inni reglu þar til að það félli niður e.t.v. að 8 til 10 árum liðnum. Hagnaði eða tapi umfram framlagið væri hluthafa að ráðstafa eða takast á við á eigin ábyrgð.

Á þessum forsendum myndi félagið byggja heildar­fjármögnun verksins. Á verktíma væri fjárþörf um­fram hlutafé annað með eingreiðslu- og skamm­tíma­lánum er eingöngu væru greiddir árlegir vextir af, sem væri hinn eiginlegi fjármagns­kostnaður á verk­tíma, alls e.t.v. um 30 milljarðar króna, er eðlilega væri hluti stofnkostnaðar, en lánin væru síð­an gerð upp við verklok með 290 milljarða króna lántöku til 30 ára. Eigið fé, 84 milljarðar, og 290 milljarða króna lántakan væri þá samanlögð fjár­þörfin til að standa undir 374 milljarða króna heildarstofnkostnaði.

Greiðslubyrði 30 ára láns

Fyrstu rekstrarárin færu um 18 til 19 milljarðar til greiðslu afborgana og vaxta en um 4 milljarðar króna væru þá í afgang á ári hverju af 22½ milljarðs króna afskriftum og vöxtum meðaltekjuársins. Að 15 árum liðnum, í byrjun 16. árs, hefðu skuldir félags­ins lækkað um helming, í 145 milljarða króna, og afborganir og vextir lækkað í tæpa 15 milljarða króna. Afgangur af afskriftum og vöxtum meðal­tekju­ársins væri þá tæpir 8 milljarðar króna, til viðhalds mannvirkja og búnaðar og e.t.v. til arð­greiðslna. Að 30 árum liðnum væri félagið skuld­laust og afskriftir og vextir, 22½ milljarðar króna á ári, nýttust að fullu til viðhalds mannvirkja og endurnýjunar bún­aðar og til greiðslu arðs til eig­enda. Að teknu tilliti til fjölgunar farþega á sama tíma og samsvarandi tekjuaukningar, mætti þó vænta að úr talsvert meira væri að spila.

Þegar hér væri komið, og þó e.t.v. fyrr, myndi vera tekin afstaða til framtíðarrekstrarforms félagsins, en í stofnskrá væri kveðið á um eftir hvaða reglum framtíð félagsins skyldi ákvörðuð.

Jarðbrautarvagnar

{ultimatesocialbuttons}

 

Mynd nr. 1 – titilmynd: Málverk af Luca Pacioli og óþekktum, ungum manni eftir Jacopo de' Barbari – http://www.brighthub.com/office/finance/articles/124443.aspx

Aðrar myndir, en eru tilgreindar, eru höfundar